Úrskurður yfirskattanefndar
- Bifreiðagjald
- Úrvinnslugjald
- Undanþága frá gjaldskyldu
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 18/2020
Bifreiðagjald 2011-2017
Lög nr. 39/1988, 4. gr. d-liður (brl. nr. 37/2000, 4. gr.), 7. gr. Lög nr. 162/2002, 5. gr.
Í janúar 2013 tilkynnti kærandi, sem var félagasamtök, lögreglu um stuld skráningarmerkja af bifreið félagsins á árinu 2012. Á árinu 2014 sneri kærandi sér til ríkisskattstjóra með beiðni um niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni og pantaði í kjölfarið skráningarmerki á bifreiðina hjá Samgöngustofu í árslok 2014. Í úrskurði yfirskattanefndar í málinu kom fram að skilja yrði málatilbúnað kæranda svo að númeraplatan hefði verið pöntuð í því skyni að leggja hana inn hjá skráningaraðila, enda hefði stuldur skráningarmerkja á sínum tíma orðið til þess að kærandi hafi ekki búið að skráningarmerkjum til þess að leggja inn. Var því talið mega byggja á því að skráningarmerkin hefðu verið afhent skráningaraðila til varðveislu í upphafi árs 2015. Var fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds vegna gjaldtímabila árin 2015 og 2016, en talið að kærandi hefði ekki sýnt fram á að skilyrði fyrir undanþágu frá bifreiðagjaldi vegna innlagnar skráningarmerkja væru uppfyllt vegna fyrri tímabila. Þá var kröfu kæranda um niðurfellingu úrvinnslugjalds af bifreiðinni hafnað vegna skorts á lagaheimild.
Ár 2020, miðvikudaginn 12. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 146/2019; kæra A, dags. 23. ágúst 2019, vegna ákvörðunar bifreiðagjalds og úrvinnslugjalds árin 2011–2017. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 23. ágúst 2019, er ákvörðun ríkisskattstjóra frá 31. maí 2019 að synja beiðni kæranda um endurskoðun eða niðurfellingu bifreiðagjalds og úrvinnslugjalds árin 2011, 2012, 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017 vegna bifreiðarinnar X. Af hálfu kæranda þess krafist að álagt bifreiðagjald og úrvinnslugjald verði fellt niður.
II.
Kærandi í máli þessu er almennt félag sem hefur að tilgangi ýmsa íþróttastarfsemi. Samkvæmt upplýsingum úr ökutækjaskrá festi félagið þann 11. júní 2010 kaup á bifreiðinni X, sem er af tegundinni M, árgerð 2000, af B sem mun vera meðal forsvarsmanna kæranda. Sama dag var skráð úttekt skráningarmerkja bifreiðarinnar sem höfðu verið í geymslu hjá Samgöngustofu frá 29. desember 2009. Þann 31. mars 2011 var bifreiðin skráð úr umferð að nýju (skráningarmerki lögð inn). Þann 14. júní 2011 var bifreiðin tekin í umferð að nýju (úttekt skráningarmerkja). Skráningarmerki voru loks lögð inn 26. maí 2016. Bifreiðin fékk síðast skoðun 29. júlí 2011.
Hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra á sér alllangan aðdraganda sem nauðsynlegt er að gera grein fyrir í meginatriðum.
Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 30. júní 2014, fór B fram á það fyrir hönd kæranda að álögð bifreiðagjöld vegna bifreiðarinnar X yrðu leiðrétt. Í bréfinu kom fram að númerum hafi verið stolið af bifreiðinni, en félagið myndi panta númer í vikunni. Bifreiðin hefði ekki verið í notkun frá upphafi árs 2012 til 25. júní 2014. Bréfinu fylgdi útprentun úr dagbók lögreglu 31. janúar 2013 þar sem var bókað að B hefði komið á lögreglustöð og tilkynnt að báðum númeraplötum af bifreiðinni X hefði verið stolið í janúar eða febrúar 2012. Þetta hefði verið tilkynnt Umferðarstofu fyrir nokkrum mánuðum.
Ríkisskattstjóri synjaði erindi kæranda 3. júlí 2014 á þeim grundvelli að ekki væri heimilt að fella niður bifreiðagjald nema skráningarnúmer hefðu verið lögð inn eða sýnt væri fram á að bifreið væri ónýt og sannanlega ekki í notkun á gjaldtímabilinu. Um þetta vísaði ríkisskattstjóri til d-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Við athugun kæmi í ljós að engar innlagnir skráningarnúmera væru skráðar í ökutækjaskrá. Við mat á því hvort bifreið væri ónýt eða sannanlega ekki í notkun styddist ríkisskattstjóri við verklagsreglur fjármálaráðuneytisins frá 1. ágúst 1995. Gerði ríkisskattstjóri nánari grein fyrir þeim reglum. Þrátt fyrir að innsend gögn bæru með sér að ökutækið hefði sennilega ekki verið í notkun væri ekki hægt að fallast á erindi félagsins. Samkvæmt þeim væri forsenda niðurfellingar bifreiðagjalds ekki aðeins að bifreið væri ekki í notkun heldur einnig að hún væri ónýt og afskráð. Þar sem bifreið kæranda væri augljóslega ekki ónýt væri erindi félagsins um niðurfellingu bifreiðagjalds synjað. Ekki gat ríkisskattstjóri um kæruheimild vegna þessarar afgreiðslu sinnar.
Af hálfu kæranda var beiðni um niðurfellingu bifreiðagjalda ítrekuð með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 4. mars 2015. Var sem fyrr vísað til þess að skráningarnúmerum hefði verið stolið af bifreiðinni í upphafi árs 2012. Einnig kom fram að kærandi hefði pantað nýtt skráningarnúmer. Kærandi hefði fengið þær leiðbeiningar að einungis þyrfti eitt númer. Þá var tekið fram í erindinu að ekki þyrfti að afskrá bílinn, en „þá væri það komið í þann verklagsferilinn að bíllinn væri tjónaður og ekki í ökuhæfu ástandi það væri á sviði vátryggingarfélags að afskrá bílinn“. Með bréfi, dags. 16. apríl 2015, synjaði ríkisskattstjóri erindi kæranda á hliðstæðum grundvelli og samkvæmt fyrri ákvörðun.
Kærandi fór hið þriðja sinni fram á niðurfellingu bifreiðagjalda með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 6. maí 2015. Erindinu fylgdi yfirlit frá Samgöngustofu varðandi stöðu skráningarmerkja bifreiðarinnar X. Við eftirgrennslan ríkisskattstjóra af þessu tilefni kom fram samkvæmt tölvubréfi Samgöngustofu 27. maí 2015 að „ein plata með bílnúmerinu X var pöntuð hjá Samgöngustofu 30.12.2014 og hefur verið í geymslu ný-framleidd síðan 02.01.2015“. Ríkisskattstjóri synjaði beiðni kæranda með vísan til fyrri úrlausna um hliðstæð erindi kæranda, svo og tók ríkisskattstjóri fram að þótt búið væri að panta nýja númeraplötu á ökutækið sem biði afhendingar hjá Samgöngustofu raskaði það ekki þeirri staðreynd að ökutækið væri enn skráð í umferð og hefði verið síðan 14. júní 2011.
Þann 12. apríl 2016 fór kærandi enn á ný fram á niðurfellingu bifreiðagjalda vegna X. Af hálfu kæranda var því lýst yfir að bifreiðin hefði ekki verið í umferð. Hún hefði verið biluð allan þennan tíma og númer legið inni hjá Samgöngustofu. Meðfylgjandi erindinu voru yfirlýsingar frá þremur tryggingarfélögum sem báru með sér að bifreiðin hefði ekki verið í tryggingu hjá þeim eftir 13. september 2010. Erindi þessu synjaði ríkisskattstjóri 24. maí 2016 með vísan til þess að þar kæmi ekkert nýtt fram sem gæfi tilefni til að fallast á erindið.
Fimmta erindi kæranda, sama efnis og hin fyrri, var lagt fyrir ríkisskattstjóra 14. september 2016. Auk áður fram kominna gagna fylgdi því útprentun frá Samgöngustofu um geymslu skráningarmerkja bifreiðarinnar svo og svofelld yfirlýsing Samgöngustofu, dags. 30. september 2016: „Vegna misskilnings starfsmanns var rukkað 1000 kr. fyrir innlögn á X. Engin númeraplata X var lögð inn af því þau voru fyrir hendi. Einungis var pöntuð plata X sem er hjá Samgöngustofu.“ Kærandi sneri sér einnig til tollstjóra 15. september 2016 með erindi sama efnis. Því fylgdi m.a. yfirlýsing Samgöngustofu, dags. 30. september 2016, sem fylgir kæru til yfirskattanefndar. Erindið framsendi tollstjóri til ríkisskattstjóra á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með bréfi til Samgöngustofu, dags. 28. september 2016, fór ríkisskattstjóri fram á skýringar vegna umræddra tveggja yfirlýsinga á bréfsefni stofnunarinnar. Þar sem yfirlýsingarnar bæru með sér að vera dagsettar fram í tímann ásamt því að texti þeirra væri ekki samhljóða væri óskað eftir að Samgöngustofa skýrði frá því hvort skráningarmerki bifreiðarinnar X hefðu verið sett í umferð 14. júní 2011 eður ei. Í svarbréfi Samgöngustofu, dags. 11. október 2016, kom fram að fyrirsvarmaður kæranda hefði ítrekað leitað til stofnunarinnar á árinu 2015 með beiðni um niðurfellingu bifreiðagjalda og vanrækslugjalds. Samgöngustofa hefði vísað þessum erindum kæranda frá á þeim forsendum að afgreiðsla þeirra væri ekki á valdsviði stofnunarinnar. Þá hefði stofnunin ekki fallist á að mistök hefðu verið gerð af hennar hálfu við skráningu bifreiðar kæranda í umferð 14. júní 2011. Þann 26. maí 2016 hefði B óskað eftir því að númer ökutækisins yrðu lögð inn, en til þess að það væri hægt hefði hann pantað eina nýja plötu til þess að leggja inn, en hann hefði sagt númeraplöturnar vera týndar. Þannig hefði ökutækið X verið skráð úr umferð nefndan dag. Síðan hefði B ítrekað óskað eftir aðstoð Samgöngustofu við málið. Þá sagði í bréfinu: „Þær tvær yfirlýsingar á bréfsefni Samgöngustofu sem eru tilefni fyrirspurnar ríkisskattstjóra voru gerðar í því skyni að sýna liðlegheit þar sem B kvaðst aldrei hafa óskað eftir því að kaupa nýja númeraplötu. Þau atriði sem varða það tímabil sem númeraplöturnar voru í geymslu, eru á misskilningi byggð. Er þess óskað að litið verði framhjá umræddum yfirlýsingum Samgöngustofu dags. 20. september 2016.“
Með bréfi til kæranda, dags. 13. október 2016, gerði ríkisskattstjóri félaginu grein fyrir bréfaskiptum við Samgöngustofu vegna málsins. Jafnframt var skorað á kæranda að leggja fram gögn því til stuðnings að skráningarmerki bifreiðarinnar hefðu ekki verið tekin út þann 14. júní 2011. Fyrirspurnarbréfi þessu var ekki svarað af hálfu kæranda og með bréfi, dags. 1. nóvember 2016, hafnaði ríkisskattstjóri erindi kæranda. Í bréfinu var m.a. bent á að bifreiðin X hefði verið færð til skoðunar 30. júní og 29. júlí 2011 og yrði að gera ráð fyrir að hún hefði þá verið búin skráningarmerkjum. Þá lægi fyrir að eigandi hefði keypt skráningarmerki á bifreiðina þann 30. desember 2014. Yrði því vart séð að framlagðar tvær yfirlýsingar Samgöngustofu sýndu að villur hefði verið í skráningu úttektarmerkja þann 14. júní 2011 í opinberri ökutækjaskrá.
Næst gerðist það að kærandi fór fram á það við ríkisskattstjóra 13. júní 2018 að félaginu yrðu greiddar bætur vegna afnotamissis af bifreiðinni X, samtals að fjárhæð 67.500.000 kr. Af hálfu ríkisskattstjóra var þessu erindi kæranda vísað frá með bréfi, dags. 3. júlí 2018.
Með tölvubréfum til tollstjóra 12. febrúar 2019 og til ríkisskattstjóra 27. febrúar 2019 lagði kærandi fram að nýju erindi um leiðréttingu á bifreiðagjöldum vegna bifreiðarinnar X. Til stuðnings erindinu var vísað til meðfylgjandi gagna. Var þar um að ræða sömu gögn og áður höfðu verið lögð fram með hliðstæðum erindum kæranda, þó að viðbættri tilkynningu innheimtumanns ríkissjóðs, dags. 22. janúar 2019, vegna ógreiddra bifreiðagjalda félagsins og útprentun tölvubréfs frá sýslumanninum á Vestfjörðum 8. september 2016 þar sem skýrt var frá því að vanrækslugjald vegna bifreiðarinnar X hefði verið fellt niður.
III.
Með hinni kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra frá 31. maí 2019 synjaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda frá 12. og 27. febrúar 2019 um niðurfellingu bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar X. Í ákvörðun ríkisskattstjóra kom fram að erindi kæranda væri tekið til meðferðar á grundvelli 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, „sbr. lagatilvísun í lögum nr. 39/1988 um bifreiðagjald og öðrum lögum“, svo sem þar segir. Erindi kæranda hefði borist tollstjóra 12. febrúar 2019 og ríkisskattstjóra 27. sama mánaðar. Til innheimtu hjá kæranda væri bifreiðagjald vegna síðari hluta ársins 2011 til 26. maí 2016 og úrvinnslugjald vegna síðari hluta ársins 2011 til ársloka 2017. Beiðni kæranda um endurupptöku skattálagningar hefði komið fram eftir að sex tekjuár voru liðin frá álagningu vegna áranna 2011, 2012 og 2013 og uppfyllti erindið því ekki skilyrði til endurupptöku samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 hvað þau ár snerti. Ekki yrði séð af skýringu og gögnum að fyrir hendi væru sérstakar aðstæður til að víkja frá umræddum tímamörkum. Til úrlausnar væri því erindi vegna álagningar bifreiðagjalds og úrvinnslugjalds á árunum 2014, 2015, 2016 og 2017.
Gögn til stuðnings erindi kæranda væru yfirlýsing, dags. 30. september 2016, á bréfsefni Samgöngustofu, tilkynning innheimtumanns ríkissjóðs, dags. 22. janúar 2019, vegna ógreiddra bifreiðagjalda kæranda og útprentun tölvubréfs frá sýslumanninum á Vestfjörðum, dags. 8. september 2016, þess efnis að vanrækslugjald vegna bifreiðarinnar X væri fellt niður. Vegna þessara gagna tók ríkisskattstjóri fram að framlögð yfirlýsing á bréfsefni Samgöngustofu staðfesti ekki að skráningarmerki bifreiðarinnar X hefðu verið afhent skráningaraðila til varðveislu á tímabilinu frá 1. janúar 2014 til 26. maí 2016. Yfirlit innheimtumanns skipti engu máli við úrlausn málsins. Niðurfelling sýslumannsins á Vestfjörðum á vanrækslugjaldi vegna aðalskoðunar jafngilti því ekki að skráningarmerki bifreiðarinnar X hefðu verið afhent skráningaraðila til varðveislu á fyrrnefndu tímabili. Fyrir lægi að bifreiðin X hefði ekki verið afskráð ónýt. Engin gögn hefðu verið lögð fram sem sýndu að bifreiðin hefði sannanlega ekki verið í notkun á nefndu tímabili. Engin undanþága væri frá álagningu úrvinnslugjalds á ökutæki þó svo að skráningarnúmer þess hefðu verið afhent skráningaraðila til varðveislu.
Í niðurlagi ákvörðunar sinnar dró ríkisskattstjóri saman að beiðni um niðurfellingu bifreiðagjalds og úrvinnslugjalds bifreiðarinnar X á tímabilinu 1. júlí 2011 til 31. desember 2013 væri of seint fram komin og væri því synjað. Beiðni um endurskoðun eða niðurfellingu bifreiðagjalds og úrvinnslugjalds fyrir tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2017 uppfyllti hvorki skilyrði fyrir undanþágu frá bifreiðagjaldi samkvæmt d-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, né úrvinnslugjaldi samkvæmt 5. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald. Erindinu væri því synjað.
IV.
Í kæru til yfirskattanefndar er vísað til framlagðra gagna því til stuðnings að bifreiðin X sé ekki á númerum og hafi ekki verið á númerum frá árinu 2011. Kærunni fylgja m.a. eftirtalin gögn:
1) Yfirlýsing, dags. 30. september 2016, á bréfsefni Samgöngustofu með textanum: „Vegna misskilnings starfsmanns var rukkað 1000 kr. fyrir innlögn á X. Engin númeraplata X var lögð inn af því þau voru í geymslu fyrir, frá 14.06.2011 og eru ennþá inni hjá Samgöngustofu. Einungis var pöntuð plata X sem er hjá Samgöngustofu.“
2) Tilkynning innheimtumanns ríkissjóðs til kæranda, dags. 22. janúar 2019, vegna ógreiddra bifreiðagjalda kæranda.
3) Yfirlit Samgöngustofu, dags. 1. september 2016, um plötugeymslu vegna skráningarnúmers X þar sem m.a. kemur fram að skráningarnúmer hafi verið sett í geymslu 31. mars 2011 og tekin úr geymslu 14. júní 2011, sett í geymslu 2. janúar 2015, sett að nýju í geymslu 26. maí 2016 og tekin úr geymslu 26. maí 2016 og að lokum sett í geymslu 30. maí 2016.
4) Útprentun tölvubréfs 8. september 2016 frá Sýslumanninum á Vestfjörðum þar sem skýrt er frá því að vanrækslugjald vegna bifreiðarinnar X sé fellt niður, svo og útprentun tölvubréfs 2. september 2016 frá sama embætti með textanum: „Er hann ekki með „unnið“ mál með þessar upplýsingar undir höndum.“
V.
Með bréfi, dags. 6. september 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda umsögn um kæruna:
„Í tilefni af kæru ofangreinds aðila til yfirskattanefndar, gerir ríkisskattstjóri kröfur og athugasemdir fyrir hönd gjaldkrefjanda.
Kærð er ákvörðun um erindi vegna bifreiðagjalds, dags. 31. maí 2019. Þar sem engin breyting átti sér stað vegna ákvörðunar um erindi vegna bifreiðagjalda myndaðist ekki kærufrestur til yfirskattanefndar.
Að framangreindu virtu er þess krafist að kæru verði vísað frá yfirskattanefnd.“
VI.
Kæra til yfirskattanefndar tekur til ákvörðunar ríkisskattstjóra vegna erindis kæranda, dags. 12. og 27. febrúar 2019, er varðaði ákvörðun bifreiðagjalds og úrvinnslugjalds vegna bifreiðarinnar X ótiltekin greiðslutímabil. Lutu erindi kæranda að niðurfellingu bifreiðagjalds á þeim forsendum að bifreiðin væri ekki í umferð, enda bæði án skráningarmerkja og ótryggð. Áður hafði kærandi a.m.k. fimm sinnum lagt fyrir ríkisskattstjóra erindi sama efnis. Erindi þessi öll tók ríkisskattstjóri til meðferðar á þeim grundvelli að um væri að ræða mál er vörðuðu liðin greiðslutímabil og bæri að veita úrlausn á grundvelli 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Ekki gerði ríkisskattstjóri þó grein fyrir þessu fyrr en við afgreiðslu sína á fimmta erindi kæranda, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 1. nóvember 2016. Hins vegar leiðbeindi ríkisskattstjóri ekki um kæruheimild til yfirskattanefndar í neinu tilviki. Þess er að geta að af hálfu kæranda var ekki tilgreint með skýrum hætti um greiðslutímabil sem málaleitan félagsins tók til, en ríkisskattstjóri leit svo á að erindin lytu að bifreiðagjaldi frá 14. júní 2011. Að athuguðum endurteknum beiðnum kæranda og þegar þess er gætt að ríkisskattstjóri ákvarðaði bifreiðagjald fyrir hvert nýtt greiðslutímabil á því fimm ára bili sem málið tekur til, allt þar til innlögn skráningarmerkja var færð í ökutækjaskrá 26. maí 2016, verður þó að telja að rétt hefði verið af ríkisskattstjóra að taka bifreiðagjald a.m.k. vegna yfirstandandi greiðslutímabils til úrlausnar sem kæru samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1988, þar á meðal hið fyrsta erindi kæranda sem barst ríkisskattstjóra 1. júlí 2014 og því augljóslega innan kærufrests samkvæmt greindu lagaákvæði vegna síðara greiðslutímabils ársins 2014. Eins og fram er komið leiðbeindi ríkisskattstjóri kæranda ekki um kæruheimild til yfirskattanefndar vegna synjana sinna. Að þessu virtu þykir rétt að taka málið til efnismeðferðar. Frávísunarkröfu ríkisskattstjóra er því hafnað.
Krafa kæranda í máli þessu um niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni X er reist á ákvæði d-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt því ákvæði eru bifreiðir undanþegnar bifreiðagjaldi þegar skráningarmerki hafa verið afhent skráningaraðila til varðveislu og miðast undanþágan við dagsetningu innlagnar skráningarmerkja. Jafnframt skal ríkisskattstjóri fella niður bifreiðagjald af ónýtum bifreiðum sem sannanlega hafa ekki verið í notkun á gjaldtímabilinu. Þess er að geta að umrædd ákvæði voru tekin upp í lög um bifreiðagjald með 4. gr. laga nr. 37/2000 sem öðluðust gildi 1. júlí 2000, sbr. 10. gr. þeirra. Fram til þess tíma voru efnislega hliðstæð ákvæði í d-lið 5. gr. reglugerðar nr. 359/1998, um bifreiðagjald, með síðari breytingum, en reglugerðin féll úr gildi við gildistöku laga nr. 37/2000.
Eins og fram er komið voru skráningarmerki bifreiðarinnar X skráð í geymslu hjá skráningaraðila frá 31. mars 2011 til 14. júní 2011, en þann dag var úttekt þeirra færð í ökutækjaskrá. Þrátt fyrir ætlan ríkisskattstjóra um annað verður ekki séð að kærandi hafi dregið úttekt merkjanna 14. júní 2011 í efa. Er og augljóst að bifreiðin var búin skráningarmerkjum eftir þann tíma, enda var hún þrívegis færð til skoðunar í júní og júlí 2011 (aðalskoðun 14. júní, endurskoðun 30. júní og endurskoðun án athugasemda 29. júlí). Af hálfu kæranda er hins vegar byggt á því að báðum skráningarmerkjum bifreiðarinnar hafi verið stolið af henni í janúar eða febrúar 2012 og að frá þeim tíma hafi bifreiðin ekki verið í notkun. Því hefur ekki verið haldið fram af hálfu kæranda í málinu að bifreiðin sé ónýt.
Stuldur skráningarmerkjanna var tilkynntur til lögreglu 31. janúar 2013. Um mitt ár 2014 sneri kærandi sér síðan fyrst til ríkisskattstjóra með beiðni um niðurfellingu bifreiðagjalds. Í árslok 2014 pantaði kærandi hjá Samgöngustofu eitt skráningarmerki á bifreiðina. Samkvæmt tölvupósti stofnunarinnar frá 27. maí 2015 var númeraplatan í geymslu frá því hún var framleidd 2. janúar 2015. Ekkert hefur komið fram um að á því hafi orðið breyting fram að þeim tíma að skráningarmerki voru skráð í geymslu (innlögð) 16. maí 2016. Yfirlit Samgöngustofu um plötugeymslu, sem fylgdi erindi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 14. september 2016, bendir raunar til þess að númeraplatan sem pöntuð var í árslok 2014 hafi aldrei verið afhent kæranda þótt skráningarmerki séu ekki skráð inniliggjandi fyrr en 26. maí 2016 samkvæmt ökutækjaskrá. Verður að skilja málatilbúnað kæranda í heild þannig að umrædd númeraplata hafi verið pöntuð í því skyni að leggja hana inn hjá skráningaraðila, enda hafi stuldur skráningarmerkjanna á sínum tíma orðið til þess að kærandi hafi ekki búið að skráningarmerkjum til þess að leggja inn. Ganga verður út frá því að kærandi hafi fengið leiðbeiningar um þessa tilhögun hjá Samgöngustofu (áður Umferðarstofu), en samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins voru fyrirsvarsmenn kæranda í samskiptum við stofnunina um úrlausn málsins. Samkvæmt framansögðu þykir mega byggja á því að skráningarmerki bifreiðarinnar X hafi verið afhent skráningaraðila til varðveislu í upphafi árs 2015.
Samkvæmt ákvæði d-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, er það fortakslaust skilyrði fyrir niðurfellingu bifreiðagjalds vegna innlagnar skráningarmerkja að skráningarmerki séu afhent skráningaraðila til varðveislu. Verður umrætt undanþáguákvæði ekki skýrt rýmra en felst í beinu orðalagi þess. Með vísan til þess sem fram er komið um ráðstafanir vegna skráningarmerkja bifreiðarinnar X um áramótin 2014/2015 er fallist á kröfu kæranda hvað snertir bifreiðagjald vegna tímabilanna 2015.01, 2015.02 og 2016.01. Á hinn bóginn verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að nefnt skilyrði fyrir undanþágu frá gjaldskyldu samkvæmt greindu ákvæði hafi verið uppfyllt vegna fyrri tímabila, þ.e. frá tímabilinu 2012.01 sem verður að teljast fyrsta tímabilið sem krafa kæranda tekur til. Með vísan til þess og þar sem lagaheimild er ekki fyrir hendi til þess að fella niður bifreiðagjald á þeim grundvelli einum saman að bifreið hafi ekki verið í notkun um tiltekið tímabil verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu hvað snertir gjaldtímabil á árunum 2012, 2013 og 2014.
Að því leyti sem krafa kæranda tekur til niðurfellingar úrvinnslugjalds samkvæmt lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, skal tekið fram að slík krafa getur ekki náð fram að ganga, enda er engin heimild til þess samkvæmt lögum þessum að fella niður eða lækka úrvinnslugjald á ökutæki vegna þeirra aðstæðna sem greint er frá í kæru, sbr. 5. gr. laga nr. 162/2002.
Ríkisskattstjóri annast um gjaldabreytingar sem leiða af framangreindri niðurstöðu, sbr. 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 8. gr. laga nr. 123/2014, um breyting á þeim lögum, og 1. gr. reglugerðar nr. 1146/2014, um gjaldabreytingar á grundvelli laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á niðurfellingu bifreiðagjalds vegna gjaldtímabilanna 2015.01, 2015.02 og 2016.01. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.