Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frádráttur kostnaðar við nýsköpunarverkefni
  • Tímaviðmiðun rekstrarútgjalda

Úrskurður nr. 31/2020

Gjaldár 2014

Lög nr. 90/2003, 29. gr. 2. mgr. (brl. nr. 110/2011, 3. gr.), 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 59. gr. 2. mgr.   Lög nr. 152/2009, 10. gr. (brl. nr. 165/2010, 52. gr.)  

Deilt var um frádrátt útlagðs kostnaðar við rannsóknar- eða þróunarverkefni í skattskilum einkahlutafélags, sbr. lög nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Var nánar tiltekið ágreiningur um aðkeypta rannsóknar- og þróunarvinnu frá X og Z, en ríkisskattstjóri taldi að kæranda væri einungis heimilt að færa til gjalda í skattskilum vegna ársins 2013 greiðslur til X og Z sem fram fóru á því ári, en ekki greiðslur sem fram fóru á árunum 2012 og 2014. Yfirskattanefnd benti á að reikningar frá X og Z vegna vinnu við þróunarverkefni kæranda væru dagsettir á árinu 2013 og að ekkert væri fram komið í málinu sem þætti gefa tilefni til að draga í efa að þjónusta þessara aðila hefði verið innt af hendi á árinu 2013, eins og kærandi byggði á. Var ekki fallist á með ríkisskattstjóra að fara bæri eftir greiðslureglu um færslu fjárhæða til stofns skattfrádráttar samkvæmt 10. gr. laga nr. 152/2009, enda yrði að telja að það hefði orðið að koma skýrt fram í lögum ef víkja ætti frá meginreglum skatt- og reikningsskila um tímaviðmiðun rekstrarútgjalda. Voru breytingar ríkisskattstjóra því felldar niður.

Ár 2020, miðvikudaginn 26. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 167/2019; kæra A ehf., dags. 12. nóvember 2019, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2014. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 12. nóvember 2019, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. maí 2019, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2014. Með úrskurðinum féllst ríkisskattstjóri á að leggja innsend skattframtöl kæranda árin 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017 til grundvallar álagningu opinberra gjalda hlutaðeigandi gjaldár en með tilteknum breytingum. Leiddu breytingar ríkisskattstjóra til þess að frádráttur útlagðs kostnaðar vegna rannsóknar- eða þróunarverkefnis í skattframtali kæranda árið 2014, sbr. 10. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, lækkaði um 44.394.939 kr. frá því sem kærandi tilfærði eða úr 55.547.014 kr. í 11.152.075 kr. Af hálfu kæranda er þess krafist að umræddur liður í skattframtali félagsins árið 2014 verði ákvarðaður 55.547.014 kr.

II.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda, sem er einkahlutafélag, var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árin 2014, 2015, 2016 og 2017 og sætti kærandi áætlun skattstofna við almenna álagningu opinberra gjalda þessi ár. Hinn 29. október 2018 afhenti kærandi ríkisskattstjóra leiðrétt skattframtal árið 2013 og skattframtöl áranna 2014, 2015, 2016 og 2017. Af hálfu ríkisskattstjóra var litið svo á að kærandi færi með þessu fram á að embættið nýtti sér heimild 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, til að leiðrétta álagningu opinberra gjalda félagsins gjaldárið 2013 og að byggja álagningu opinberra gjalda gjaldárin 2014, 2015, 2016 og 2017 á innsendum skattframtölum í stað áætlaðra skattstofna.

Með bréfi, dags. 23. janúar 2019, óskaði ríkisskattstjóri eftir frekari gögnum og skýringum vegna skattframtals kæranda árið 2014, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt greinargerð um skattfrádrátt (RSK 4.21), vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar samkvæmt lögum nr. 152/2009, sem fylgt hefði skattframtali kæranda árið 2014, hefði félagið keypt erlenda þjónustu frá X, Y og Z fyrir samtals 55.047.014 kr. Óskaði ríkisskattstjóri eftir því að kærandi legði fram afrit reikninga þessara aðila, ásamt hreyfingarlista, svo og staðfestingu á því að reikningarnir hefðu verið greiddir. Kærandi afhenti ríkisskattstjóra umbeðin gögn 30. janúar 2019.

Með bréfi, dags. 27. mars 2019, óskaði ríkisskattstjóri eftir frekari upplýsingum og skýringum vegna málsins. Ríkisskattstjóri tók fram að kærandi hefði hlotið staðfestingu Rannís vegna rannsóknar- og þróunarverkefna á tekjuárinu 2013 en ekki á tekjuárunum 2012 og 2014. Meðal framlagðra gagna væru fimm sölureikningar frá X að fjárhæð samtals 56.555,28 evrur, dagsettir á árinu 2013, og sölureikningur frá Z að fjárhæð 387.160 USD, dags. 11. desember 2013. Greiðslur kæranda til X næmu samtals 8.878.294 kr. (52.750 evrum), en þar af hefðu verið greiddar 7.866.950 kr. á árinu 2012. Greiðslur til Z næmu samtals 44.865.525 kr. (387.500 USD). Þar af hefðu 9.082.170 kr. verið greiddar á árinu 2013 en 35.783.355 kr. á árinu 2014. Óskaði ríkisskattstjóri m.a. eftir skýringum og rökstuðningi kæranda fyrir því að kærandi ætti rétt á skattfrádrætti samkvæmt lögum nr. 152/2009 og reglugerð nr. 758/2011 á gjaldárinu 2014 (rekstrarárinu 2013) vegna útgjalda áranna 2012 og 2014.

Í svarbréfi kæranda 1. apríl 2019 kom fram að þróunarverkefni félagsins hafði allt verið unnið á árinu 2013. Undirbúningur, tilboð og fjármögnun hefði hafist á árinu 2012, enda hefði verkefnið verið af þeirri stærðargráðu að það hefði tekið nokkurn tíma að skipuleggja það, velja verktaka, fá verðtilboð og tryggja fjármögnun. Greiðslur til X á árinu 2012 hefðu verið fyrirframgreiðsla vegna vinnu við verkefnið, en X hefði ekki viljað hefja vinnuna fyrr en allt fjármagnið hafði verið tryggt. Því hefðu greiðslur hafist árið 2012 en þróunarvinnan ekki fyrr en árið 2013. Reikningar hefðu verið gefnir út eftir því sem vinnan hafði átt sér stað. Vinna Z hefði hafist í janúar 2013 og hefði verið greitt inn á verkið, en reikningur til kæranda væri dagsettur 11. desember 2013. Vinnan hefði hafist í janúar 2013 og væru hluta greiðslur inn á verkefnið. Kærandi tók fram að verkefnið hefði verið unnið með undirverktökum/samstarfsaðilum og að undirverktökum hefði verið greidd vinnan að fullu. Teldi kærandi það ekki skilyrði samkvæmt lögum nr. 152/2009 að verktökum hefði verið greitt að fullu. Það hefði þó verið gert í þessu tilviki. Að mati kæranda ætti félagið rétt á skattfrádrætti samkvæmt lögum nr. 152/2009, enda hefði verkefnið allt verið unnið á árinu 2013 og samþykkt af Rannís.

Með úrskurði, dags. 21. maí 2019, féllst ríkisskattstjóri á að byggja álagningu opinberra gjalda kæranda á innsendum skattframtölum félagsins árin 2014, 2015, 2016 og 2017, svo og yrði fallist á erindi kæranda vegna gjaldársins 2013, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, en þó að gerðum tilteknum breytingum á skattframtölunum. Fólust þær breytingar í því að ríkisskattstjóri lækkaði gjaldfærðan rekstrarkostnað í skattframtali kæranda árið 2014 um 8.107.866 kr. vegna greiðslna til X og um 36.287.073 kr. vegna greiðslna til Z eða samtals um 44.394.939 kr. Einnig lækkaði ríkisskattstjóri eignfærð rekstrargjöld í skattframtalinu um sömu fjárhæð. Þá lækkaði ríkisskattstjóri styrkhæfan kostnað í greinargerð um skattfrádrátt um 44.394.939 kr. (8.107.866 kr. + 36.287.073 kr.). Varð styrkhæfur kostnaður 11.152.075 kr. samkvæmt úrskurðinum og skattfrádráttur í reit 0988 í skattframtali kæranda árið 2014 varð 2.230.415 kr. Til stuðnings þessum breytingum sínum vísaði ríkisskattstjóri til þess að kærandi hefði hlotið staðfestingu Rannís samkvæmt 5. gr. laga nr. 152/2009 fyrir tekjuárið 2013 (gjaldárið 2014). Styrkhæfur kostnaður kæranda væri því einungis sá kostnaður sem hefði fallið til á árinu 2013. Kostnaður sem hefði fallið til á árunum 2012 og 2014 væri ekki styrkhæfur. Að mati ríkisskattstjóra hefði kærandi ekki sýnt fram á að kostnaður sem greiddur hefði verið á árunum 2012 og 2014 ætti að koma til gjaldfærslu rekstrarárið 2013. Í samræmi við meginreglu um lotun gjalda og tekna bæri kæranda að færa til gjalda rekstrarárið 2012 þann kostnað sem félagið hefði greitt X á því ári og með sama hætti að færa til gjalda rekstrarárið 2014 þann kostnað sem félagið hefði greitt Z á því ári.

III.

Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 1. júlí 2019, fór kærandi fram á endurupptöku úrskurðar hans, dags. 21. maí 2019. Taldi kærandi að úrskurður ríkisskattstjóra væri byggður á ófullnægjandi upplýsingum þar sem ákveðin atriði hefðu átt að koma betur fram í málinu af hálfu kæranda. Ítrekaði kærandi að þróunarverkefni félagsins hefði einungis verið unnið á árinu 2013 og reikningsfært það ár. Undirbúningur hefði hafist á árinu á undan með viðræðum við X um notkun á tæknilausnum þeirra og hvernig staðið yrði að greiðslum til þeirra vegna hugverka. Niðurstaðan hefði verið að X héldi hugverkarétti á tækni sinni en kærandi héldi eignarrétti yfir öllum niðurstöðum verkefnisins. Hefði X krafist fullrar fyrirframgreiðslu fyrir vinnu sinni og því hefði mestur hluti þeirrar vinnu verið greiddur árið 2012 þótt eiginleg vinna hefði ekki hafist fyrr en árið 2013. Aðrir aðilar hefðu verið verktakar sem hefðu ekki komið með hugverk sín í verkefnið. Verkþáttur Z hefði allur verið unninn á árinu 2013 og væri reikningur frá þeim dagsettur 11. desember 2013 sem hefði að hluta til verið greiddur árið 2013 en að megninu til árið 2014, enda hefði hann verið nokkuð hár.

Ennfremur vísaði kærandi til leiðbeininga Rannís um að ávallt væri miðað við bókfærðan kostnað viðkomandi reikningsárs og leiðbeininga ríkisskattstjóra um að kostnað eigi að gjaldfæra á því ári sem lagt sé í kostnaðinn og skipti ekki máli hvort hann sé greiddur eða ógreiddur í lok árs.

Kærandi gerði jafnframt grein fyrir ferli verkefnis félagsins og kom m.a. fram að eftir „að verkefninu lauk eða 2017“ hefðu verið gerðar tilraunir með tækni sem væri án hugverkaréttinda og ódýrari en sú tækni sem notuð hefði verið.

Með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 24. september 2019, var beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðarins hafnað. Taldi ríkisskattstjóri að þær viðbótarupplýsingar sem fram komu í bréfi kæranda væru ekki þess eðlis að lagaskilyrði væru fyrir hendi til endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfum kæranda hefði því margoft verið haldið fram að verkefnið hefði einungis verið unnið á árinu 2013. Í endurupptökubeiðni kæranda væri því einnig haldið fram. Hins vegar kæmi einnig orðrétt fram: „Eftir að verkefninu lauk eða 2017 hafa verið gerðar tilraunir ...“ Í umsókn félagsins til Rannís kæmi fram að tímabil verkefnisins væri 1. janúar 2013 til 31. desember 2014 og væri jafnframt í umsókninni að sjá sundurgreiningu á verkefninu niður á árin 2013 og 2014. Þótti ríkisskattstjóra þetta benda sterklega til þess að vinna við verkefnið hefði staðið yfir í lengri tíma en einungis á árinu 2013.

IV.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. nóvember 2019, kemur fram að málið varði styrkhæfan kostnað til skattfrádráttar vegna rannsóknar- og þróunarverkefna. Af hálfu kæranda er þess krafist að breytingum ríkisskattstjóra á skattframtölum kæranda verði hnekkt og að miðað verði við bókfærðan kostnað samkvæmt fyrirliggjandi sölureikningum á viðkomandi reikningsári sem leiði til þess að styrkhæfur kostnaður verði ákvarðaður 55.547.014 kr. í stað 11.152.075 kr. samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra.

Kærandi mótmælir þeirri niðurstöðu ríkisskattstjóra að miða skuli styrkhæfan kostnað við greiðsludag útgjalda en ekki bókfærðan kostnað á viðkomandi reikningsári. Samkvæmt reglum og leiðbeiningum Rannís sé ávallt miðað við bókfærðan kostnað viðkomandi rekstrarárs. Einnig komi fram í leiðbeiningum ríkisskattstjóra að kostnað skuli gjaldfæra á því ári sem lagt sé í kostnaðinn og skipti þá ekki máli hvort hann er greiddur eða ógreiddur í lok árs. Ríkisskattstjóri fari hvorki eftir leiðbeiningum Rannís um rannsóknar og þróunarverkefni né eftir eigin leiðbeiningum í úrskurði sínum í máli kæranda. Aðferð ríkisskattstjóra brjóti í bága við allar reikningsskilareglur.

Rannsóknar- og þróunarverkefni geti spannað yfir mörg ár og yfir áratug. Það tákni hins vegar ekki að sótt sé um styrk vegna allra áranna, enda geti staðið svo á að nær öll vinnan sé unnin á sama ári, eins og í tilviki kæranda, og sé vinnan þá reikningsfærð og bókfærð það ár. Til standi að vinna að sama verkefni á árinu 2020, en ekki verði sótt um skattfrádrátt nema kostnaður við verkefnið verði það mikill að það taki því að leggja vinnu í umsókn.

V.

Með bréfi, dags. 26. nóvember 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 16. desember 2019, hefur kærandi ítrekað þær kröfur sem fram koma í kæru til yfirskattanefndar. Þá er þess krafist að ríkisskattstjóra verði gert að greiða dráttarvexti frá 28. október 2018 til greiðsludags fyrir utan hluta endurgreiðslu sem ríkisskattstjóri hafi þegar greitt vegna verkefnisins árið 2019.

Kærandi áréttar að þróunarverkefni taki oft langan tíma og iðulega verði hlé á verkefninu. Sá hluti verkefnis kæranda sem um ræði hafi verið unninn og bókfærður á árinu 2013. Ekkert hafi komið fram af hálfu ríkisskattstjóra sem sanni hið gagnstæða. Verkefnið hafi verið í áætlunum kæranda og viðhaldið allt til nóvember 2019 en þá hefði verkefnið verið fært yfir til B ehf. og séu áætlanir um að ljúka verkefninu með markaðshæfri frumgerð árið 2020. Ekki hafi verið sótt um skattfrádrátt fyrir árin 2012 og 2014, enda hefði ekki verið unnt að sýna fram á það með gögnum að varið yrði að minnsta kosti 1.000.000 kr. til rannsóknar og þróunar á þessum árum.

VI.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sbr. 42. gr. laga nr. 165/2010, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, er markmið hinna fyrrnefndu laga að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja með því að veita þeim rétt til skattfrádráttar vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni. Gilda lög nr. 152/2009 um fyrirtæki sem eru eigendur rannsóknar- eða þróunarverkefna sem staðfest hafa verið af Rannsóknarmiðstöð Íslands (Rannís) samkvæmt 5. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra. Fram kemur í 5. gr. laganna að Rannís ákvarðar hvort verkefni hlýtur staðfestingu samkvæmt lögunum og eru skilyrði slíkrar staðfestingar m.a. að verkefni teljist rannsóknar- eða þróunarverkefni samkvæmt lögunum. Þá kemur fram í 9. gr. laganna að staðfesting Rannís samkvæmt 5. gr. skuli miðast við umsóknarár og gildir fyrir það almanaksár. Umsókn um framlengingu staðfestingar skuli lögð fram árlega eigi síðar en 1. apríl. Rannís skuli taka umsókn um framlengingu til afgreiðslu innan tveggja mánaða frá móttöku hennar. Fallist Rannís á framlengingu gildi staðfestingin fyrir það ár.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 152/2009 á nýsköpunarfyrirtæki sem er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefnum sem hlotið hafa staðfestingu Rannís samkvæmt 5. gr. laganna rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur 20 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna, enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þó að tilteknu hámarki. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að skilyrði frádráttar sé að kostnaði vegna hvers rannsóknar- og þróunarverkefnis sé haldið aðgreindum frá öðrum útgjöldum nýsköpunarfyrirtækis og að gögn séu aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess, sbr. X. kafla laga nr. 90/2003. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laganna skal árlega gera grein fyrir kostnaði vegna rannsókna og þróunar í skattframtali á þann hátt sem ríkisskattstjóri ákveður. Skal kostnaðargreinargerð vera árituð af endurskoðanda, skoðunarmanni eða viðurkenndum bókara. Í niðurlagsákvæði greinarinnar kemur fram að ráðherra skuli setja í reglugerð nánari reglur um skiptingu og meðferð óbeins kostnaðar, þ.m.t. um fyrningu, fjármagnskostnað og launakostnað, sem til fellur vegna rannsóknar- og þróunarverkefna í þessu sambandi. Hefur það verið gert með setningu reglugerðar nr. 758/2011, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um staðfestingu Rannís á rannsóknar- og þróunarverkefni á grundvelli laga nr. 152/2009 og mun hafa hlotið slíka staðfestingu vegna ársins 2013. Í sérstakri greinargerð um skattfrádrátt (RSK 4.21), er fylgdi skattframtali kæranda árið 2014, var tilfærð aðkeypt rannsóknar- og þróunarvinna frá X að fjárhæð 9.212.172 kr., frá Y að fjárhæð 839.670 kr. og frá Z að fjárhæð 45.495.172 kr. Nam kostnaður til útreiknings skattfrádráttar því alls 55.547.014 kr. Við meðferð máls kæranda hjá ríkisskattstjóra lagði kærandi fram sölureikninga frá umræddum aðilum svo og gögn um greiðslur þeirra. Er hér um að ræða reikning frá Y, dags. 1. janúar 2013, að fjárhæð 6.500 USD kr., fimm reikningar frá X, dags. 10. janúar 2013, 1. júlí 2013, 31. ágúst 2013, 30. september 2013 og 31. (sic) nóvember 2013, samtals að fjárhæð 56.555,28 evrur, og reikning frá Z, dags. 11. desember 2013, að fjárhæð 387.160 USD. Ekki er deilt um að umreiknað í íslenskrar krónur og að teknu tilliti til gengismunar hafi kostnaður kæranda samkvæmt þessum reikningum numið samtals 55.547.014 kr. Samkvæmt fram lögðum gögnum og skýringum kæranda fóru greiðslur ekki nema að hluta fram á árinu 2013, þ.e. alls 11.152.075 kr., en 44.394.939 kr. voru greiddar ýmist á árinu 2012 eða árinu 2014.

Eins og fram er komið lækkaði ríkisskattstjóri tilfærðan kostnað kæranda vegna þróunarverkefnis í skattskilum félagsins gjaldárið 2014 úr 55.047.014 kr. í 11.152.075 kr., sbr. hinn kærða úrskurð. Byggði ríkisskattstjóri á því að ekki kæmi til álita sem styrkhæfur kostnaður samkvæmt 10. gr. laga nr. 152/2009 annar kostnaður en sá sem fallið hefði til á því ári sem staðfesting Rannís samkvæmt 5. gr. laganna tæki til, enda væri um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað, sbr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Kærandi hefði hlotið staðfestingu Rannís samkvæmt 5. gr. laga nr. 152/2009 fyrir tekjuárið 2013. Styrkhæfur kostnaður kæranda væri því aðeins sá kostnaður sem hefði fallið til á árinu 2013 en hvorki útgjöld sem til hefðu fallið á árinu 2012 né á árinu 2014. Tók ríkisskattstjóri fram að í samræmi við meginreglu um lotun gjalda og tekna bæri að færa til gjalda á tekjuárinu 2012 þann kostnað sem kærandi hefði greitt X á árinu 2012 og með sama hætti bæri að færa til gjalda á tekjuárinu 2014 þann kostnað sem kærandi hefði greitt Z á árinu 2014.

Af hálfu kæranda er komið fram að greiðslur til X á árinu 2012 hafi verið fyrirframgreiðslur að kröfu þess fyrirtækis vegna vinnu þess sem fram hafi farið á árinu 2013 við þróunarverkefni kæranda. Verkþáttur Z vegna verkefnisins hafi einnig verið unnin á árinu 2013 en greiðslur að miklu leyti verið inntar af hendi á árinu 2014 sökum fjárhæðar reiknings. Þar sem vinnan hafi öll farið fram árið 2013 hafi kostnaðurinn réttilega verið talinn tilheyra því ári.

Tilvísun 1. mgr. 10. gr. laga nr. 152/2009 til ákvæða tekjuskattslaga um frádráttarbæran rekstrarkostnað verður að skilja þannig að m.a. sé vísað til reglna er gilda um tímaviðmiðun rekstrarútgjalda. Um það atriði eru ákvæði bæði í fyrri málslið 2. mgr. 29. gr. og 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Kemur fram að til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar teljist þau gjöld sem „eiga á árinu“ að ganga til öflunar, tryggingar eða viðhalds tekna. Regla þessi um tímaviðmiðun rekstrarútgjalda er í samræmi við meginreglu laga nr. 90/2003 um tímaviðmiðun fyrir tekjufærslum, sbr. 2. mgr. 59. gr. laganna, sem er svohljóðandi: „Tekjur skal að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.“ Meginregla þessi, kröfustofnunarreglan, var upphaflega lögfest með 2. mgr. 7. gr. laga nr. 6/1935, um tekjuskatt og eignarskatt, og hefur æ síðan verið í lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Um nýmæli þetta sagði svo í athugasemdum með 8. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 6/1935, en grein þessi varð 7. gr. laganna: „Að lokum er bætt við greinina því nýmæli, að tekjur skuli jafnan telja til tekna á því ári er þær verða til, þ.e. þegar vegna þeirra hefur myndast krafa á hendur öðrum, þótt ógreitt sé. Er það í samræmi við framtalsvenju manna almennt, en auðveldara er til samanburðar og yfirlits fyrir skattanefndir, að sem flestir fylgi sömu framtalsreglu að þessu leyti.“ Kröfustofnunarregla tekjuskattslaga svarar til þeirrar grunnforsendu reikningsskila sem mælt er fyrir um í 4. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, en þar kemur fram að fjárhæðir sem færðar eru í efnahagsreikning eða rekstrarreikning skuli vera reiknaðar á rekstrargrunni. Í því felst að tekjur og gjöld, sem varða reikningsárið, skal færa í ársreikning án tillits til þess hvenær greiðsla fer fram.

Eins og rakið hefur verið eru reikningar frá X og Z vegna vinnu við þróunarverkefni kæranda dagsettir á árinu 2013. Kærandi hefur gert grein fyrir ástæðum þess að greiðslur fóru ekki fram á því sama ári. Ekki verður talið að neitt hafi komið fram í málinu sem þykir gefa tilefni til að draga í efa staðhæfingu kæranda um að þjónusta þessara aðila hafi verið innt af hendi á árinu 2013. Verður raunar naumast talið að ríkisskattstjóri hafi vefengt það, heldur virðist ríkisskattstjóri byggja á því að fara beri eftir greiðslureglu um færslu fjárhæða til stofns skattfrádráttar samkvæmt 10. gr. laga nr. 152/2009. Á það viðhorf ríkisskattstjóra er ekki fallist, enda verður að telja að það hefði orðið að koma skýrt fram í lögum ef hér ætti að víkja frá fyrrnefndum meginreglum í skattskilum og reikningsskilum.

Samkvæmt framanrituðu var kæranda rétt að færa umrædd útgjöld í ársreikning sinn og skattframtal fyrir rekstrarárið 2013, enda telst hafa verið stofnað til útgjaldanna á því ári. Tekið skal fram að í síðari málslið 2. mgr. 29. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 3. gr. laga nr. 110/2011, er kveðið á um að óheimilt sé í sjálfstæðum afmörkuðum verkefnum, sem taka til tveggja eða fleiri tekjuára, að draga frá eða mynda tap með rekstrarkostnaði fyrr en verkefnin byrja að afla tekna eða fyrir liggur með skýrum hætti að ekkert verði af tekjuöfluninni. Í samræmi við þetta ákvæði færði kærandi gjaldfærðan þróunarkostnað jafnframt til tekna (til frádráttar gjöldum) í skattframtalinu.

Ekkert hefur komið fram sem gefur tilefni til að ætla að hin umþrættu útgjöld kæranda séu ekki frádráttarbær samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003 eða að útgjöldin uppfylli ekki að öðru leyti skilyrði laga nr. 152/2009 og reglugerðar nr. 758/2011, en engu slíku hefur raunar verið haldið fram af hálfu ríkisskattstjóra. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til þess sem hér að framan hefur verið rakið er fallist á kröfu kæranda um að hnekkja breytingum ríkisskattstjóra hvað snertir meðferð umrædds kostnaðar í skattframtölum kæranda árin 2013, 2014 og 2015. Gjaldfærður rekstrarkostnaður í reit 2173 í skattframtali kæranda árið 2014 hækkar því um 44.394.939 kr. svo og hækkar fjárhæð eignfærðra rekstrargjalda í reit 3180 í skattframtalinu um sömu fjárhæð. Einnig hækkar styrkhæfur kostnaður í greinargerð um skattfrádrátt um 44.394.939 kr. frá því sem ríkisskattstjóri ákvarðaði.

Víkur þá að kröfu kæranda um ákvörðun dráttarvaxta á skattfjárhæð sem endurgreiða ber kæranda vegna niðurstöðu úrskurðar þessa. Af þessu tilefni skal tekið fram að um innheimtu opinberra gjalda, þ.m.t. vexti af vangreiddu og ofgreiddu skattfé, er fjallað í lögum nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda, sbr. áður 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lög nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Valdsvið yfirskattanefndar tekur ekki til meðferðar ágreiningsefna varðandi innheimtu opinberra skatta og gjalda, sbr. m.a. 5. gr. laga nr. 150/2019, þar sem kveðið er á um kæruheimild til fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna ákvarðana innheimtumanns ríkissjóðs samkvæmt lögunum. Kröfu um ákvörðun dráttarvaxta ber því í tilviki kæranda að beina til ríkisskattstjóra sem er innheimtumaður ríkissjóðs í umdæmi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt framansögðu er eigi á valdsviði yfirskattanefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kæranda varðandi dráttarvexti og er þeim hluta kærunnar af þeim sökum vísað frá.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinar kærðu breytingar ríkisskattstjóra á skattframtölum kæranda árin 2013, 2014 og 2015, þar á meðal á greinargerð um skattfrádrátt með skattframtali árið 2014, falla niður. Kröfu kæranda um ákvörðun dráttarvaxta er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja