Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 628/1990

Gjaldár 1988–89

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I og II   Reglugerð nr. 76/1988 — 2. gr. 2. mgr.  

Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Byggingarstig — Byggingarsamvinnufélag — Upphaf byggingar — Úttekt byggingar — Lögskýring — Kröfugerð kæranda — Kæruheimild — Jafnræðisreglur — Vaxtaafsláttur

Málavextir eru þeir, að í kæru til skattstjóra, móttekinni 15. ágúst 1988, krafðist kærandi húsnæðisbóta vegna byggingar íbúðarhúsnæðis að A, Reykjavík, á vegum byggingarsamvinnufélagsins X. Kæran hafði að geyma yfirlit yfir greiðslur kæranda til byggingarsamvinnufélagsins vegna framkvæmda þessara og hófust greiðslur árið 1982. Þá kom fram, að húsgrunnar voru ekki tilbúnir fyrr en í apríl 1984, og íbúðirnar tilbúnar undir tréverk í september 1985. Þá liggur fyrir í málinu umsókn kæranda um húsnæðisbætur gjaldárið 1988. Með kæruúrskurði, dags. 14. febrúar 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda um húsnæðisbætur með vísan til þess, að við athugun á eldri framtölum hefði komið í ljós, að byggingarframkvæmdir við A, Reykjavík, hefðu hafist fyrir árið 1984. Tók skattstjóri fram, að þeir einir ættu rétt á húsnæðisbótum, sem byggt hefðu eða keypt sitt fyrsta íbúðarhúsnæði á árunum 1984–1987, sbr. bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 49/1987 eins og því ákvæði var breytt með 14. gr. laga nr. 92/1987. Þessum kæruúrskurði skattstjóra var af hálfu kæranda ekki skotið til ríkisskattanefndar.

Með umsókn, dags. 23. maí 1989, sótti kærandi um húsnæðisbætur gjaldárið 1989 vegna íbúðarhúsnæðis að A, Reykjavík. Taldi kærandi í umsókn þessari upphafsdag eignarhaldstíma síns september 1985. Kom fram að þá hefði hún keypt hluta sambýlismanns síns í íbúðinni en átt áður sjálf aðeins hluta þess. Lóðagjöld hefðu verið greidd haustið 1982. Með bréfi, dags. 26. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að umsókninni hefði verið synjað, þar sem kærandi uppfyllti ekki lagaskilyrði fyrir bótum þessum með því að bygging íbúðar hefði hafist árið 1983, sbr. bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 49/1987, sbr. 14. gr. laga nr. 92/1987.

Af hálfu kæranda var synjun skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 17. ágúst 1989. Gerði kærandi grein fyrir öflun íbúðarhúsnæðisins, framgangi byggingarinnar og síðan kaupum á eignarhluta sambýlismanns síns í íbúðinni.

Með kæruúrskurði, dags. 28. september 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda um húsnæðisbætur með svofelldum rökum:

„Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 92/1987, um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, áttu þeir rétt á húsnæðisbótum álagningarárið 1988 sem keyptu eða hófu byggingu íbúðarhúsnæðis í fyrsta sinn á árinu 1984–1987 og uppfylltu að öðru leyti skilyrði C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Í kærubréfi er m.a. upplýst að þér gerðust aðili að Bsf. X á árinu 1982 og að sökklar að íbúð yðar voru tilbúnir í desember 1983.“

Synjun skattstjóra í kæruúrskurði, dags. 28. september 1989, hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, mótt. sama dag, og krefst kærandi húsnæðisbóta gjaldárin 1988 og 1989. Gerir kærandi grein fyrir aðdraganda að íbúðareign sinni, m.a. aðild sinni að byggingarsamvinnufélaginu X haustið 1982. Sökklum hafi verið lokið í desember 1983 að A en í apríl 1984 að B. Um sama byggingarhóp hafi verið að ræða og félagsmenn dregið um staðina.

Með bréfi, dags. 27. apríl 1990, krefst ríkisskattstjóri þess, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kæran varðar húsnæðisbætur til handa kæranda bæði gjaldárið 1988 og 1989. Eins og fram hefur komið kærði kærandi ekki kæruúrskurð skattstjóra, dags. 14. febrúar 1989, varðandi gjaldárið 1988 til ríkisskattanefndar. Hins vegar ítrekaði kærandi kröfu sína um húsnæðisbætur með nýrri umsókn, dags. 23. maí 1989. Eftir öllum atvikum og eins og sakarefni er háttað og mál þetta liggur fyrir þykir mega taka til úrlausnar í úrskurði þessum húsnæðisbætur kæranda fyrrnefnd gjaldár bæði. Réttur kæranda til húsnæðisbóta yrði að byggjast á bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 49/1987 eins og því ákvæði var breytt með 14. gr. laga nr. 92/1987. Úrlausn málsins veltur á því, hvenær kærandi telst hafa eignast umrætt íbúðarhúsnæði að A, Reykjavík, í skilningi nefnds bráðabirgðaákvæðis. Í þessu sambandi er þess að geta að fjármálaráðherra hefur sett reglugerð skv. C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 92/1987, m.a. um það hvað teljist fyrsta íbúðarhúsnæði manns samkvæmt lagaákvæði þessu. Er það reglugerð nr. 76/1988, um húsnæðisbætur, sbr. breytingu á þeirri reglugerð með reglugerð nr. 118/1988. Engin hliðstæð reglugerð hefur verið sett varðandi túlkun á nefndu bráðabirgðaákvæði. Þegar litið er til þess, sem upplýst er í málinu um framkvæmdir við undirstöður A, og með hliðsjón af 2. mgr. 2. gr. fyrrnefndrar reglugerðar nr. 76/1988 þykir synjun skattstjóra eigi reist á nægilega traustum grunni. Að svo vöxnu þykir rétt að fallast á kröfu kæranda. Vaxtaafsláttur gjaldárið 1988 fellur niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja