Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bindandi álit
  • Blandaðir fjármálagerningar
  • Rekstrarkostnaður
  • Vaxtagjöld

Úrskurður nr. 40/2020

Lög nr. 90/2003, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 49. gr.   Lög nr. 100/2016, 115. gr., 116. gr., 117. gr.   Reglugerð nr. 483/1994, 5. gr.  

Kærandi, sem var vátryggingafélag, hugðist gefa út svonefnd víkjandi skuldabréf til 30 ára. Samkvæmt skilmálum skuldabréfanna var félaginu heimilt að fresta greiðslu vaxta af þeim auk þess sem endurgreiðsla höfuðstóls, vaxta og verðbóta á lokagjalddaga var háð samþykki Fjármálaeftirlitsins. Í máli þessu vegna bindandi álits var ekki fallist á með ríkisskattstjóra að umræddir fjármálagerningar hefðu slík einkenni eiginfjárframlags að þeir yrðu ekki taldir til skuldar í skilningi skattalaga þannig að vaxtagjöld af þeim væru ekki frádráttarbær frá tekjum kæranda. Var í því sambandi m.a. bent á að af útgáfulýsingu skuldabréfanna yrði ekki ráðið að skilyrtar vaxtagreiðslur féllu niður við frestun greiðslu þeirra og að ekkert í útgáfulýsingunni gæfi til kynna að mögulegt væri að fresta greiðslu vaxta lengur en til lokagjalddaga. Var krafa kæranda tekin til greina.

Ár 2020, miðvikudaginn 25. mars, er tekið fyrir mál nr. 151/2019; kæra A ehf., dags. 10. september 2019, vegna bindandi álits ríkisskattstjóra. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 10. september 2019, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar bindandi áliti ríkisskattstjóra sem embættið lét uppi hinn 19. júní 2019 samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, sbr. kæruheimild í 5. gr. þeirra laga. Af hálfu kæranda er þess krafist að niðurstöðu bindandi álits ríkisskattstjóra verði breytt á þann veg að fallist verði á að áfallnir vextir samkvæmt verðbréfum sem kærandi hyggst gefa út teljist frádráttarbærir frá tekjum kæranda. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 4. febrúar 2019, fór kærandi fram á að ríkisskattstjóri léti uppi bindandi álit á grundvelli laga nr. 91/1998. Í beiðninni kom fram að kærandi hygðist gefa út víkjandi skuldabréf sem myndu tilheyra „eiginfjárþætti 2 (e. Tier 2, skammstafað T2)“. Var vísað til þess að beiðninni fylgdu drög að útgáfulýsingu bréfanna. Í útgáfulýsingunni kæmi nánar tiltekið fram að um væri að ræða verðtryggð skuldabréf sem gefin væru út í íslenskum krónum til 30 ára með einum gjalddaga í lokin. Vextir af bréfunum reiknuðust frá fyrsta vaxtadegi þeirra og skyldu greiðast tvisvar á ári. Fjöldi gjalddaga höfuðstóls væri einn, en endurgreiðsla bréfanna á lokagjalddaga þeirra skyldi vera háð samþykki Fjármálaeftirlitsins (nú Seðlabanka Íslands). Vextir væru fastir ársvextir og ákvörðuðust í útboði, en skyldu hækka um 1% að liðnum 10 árum frá útgáfudegi bréfanna. Útgefanda væri hvenær sem er heimilt að fresta greiðslu vaxta samkvæmt bréfunum, en frestaðar vaxtagreiðslur bæru hvorki vexti né væru þær verðtryggðar. Þá væri útgefanda heimilt hvenær sem væri að inna af hendi vaxtagreiðslu, í hluta eða í heild, sem frestað hefði verið. Allar vaxtagreiðslur sem frestað hefði verið gjaldféllu og bæri að greiða 1) um leið og ákvörðun hefði verið tekin eða úrskurður eða dómur fallið um töku útgefanda til gjaldþrotaskipta eða slit á útgefanda, 2) um leið og ákvörðun hefði verið tekin um útgreiðslu arðs, lækkun hlutafjár eða kaup eigin hluta, eða 3) um leið og heimild til innágreiðslu eða uppgreiðslu samkvæmt bréfunum væri nýtt. Skylda útgefanda til greiðslu frestaðrar vaxtagreiðslu skyldi, þrátt fyrir framangreint, þó ekki vera til staðar á þeim tímapunkti ef útgefandi uppfyllti ekki skilyrði laga um gjaldþol eða myndi ekki uppfylla þau í kjölfar greiðslu frestaðrar vaxtagreiðslu, eða útgefanda væri skylt að fresta áfram greiðslu vaxta bréfanna til að skuld samkvæmt þeim uppfyllti skilyrði laga til að mynda grunn að útreikningi gjaldþols útgefanda. Þá var tekið fram að verðbætur myndu leggjast á höfuðstól og greiðast með síðustu vaxtagreiðslu í síðasta lagi á lokagjalddaga. Útgefandi bréfanna myndi með milligöngu Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hf. greiða af þessum bréfum vexti á vaxtagjalddögum og höfuðstól auk verðbóta á lokagjalddaga til þeirra reikningsstofnana þar sem skráðir eigendur bréfanna væru með VS-reikning. Þá væru kröfur skuldabréfaeigenda samkvæmt skuldabréfunum jafnréttháar innbyrðis og skyldu á hverjum tíma vera jafnréttháar öðrum ótryggðum víkjandi skuldbindingum útgefanda, þ.e. öðrum en kröfum er nytu forgangs (í röð kröfuhafa) samkvæmt lögum. Yrði útgefanda hvenær sem væri og að fengnu leyfi Fjármálaeftirlitsins heimilt að greiða upp höfuðstól og vexti skuldabréfanna í heild sinni, en ekki að hluta, fyrir gjalddaga þeirra, myndi skuldabréf þessi ekki grunn að kjarnagjaldþoli útgefenda að mati dómstóla, Fjármálaeftirlitsins eða annarra opinberra eftirlitsaðila, en með gjaldþoli væri átt við gjaldþol vátryggingafélags eins og það væri skilgreint og reiknað út á grundvelli laga og reglugerða á hverjum tíma. Þá væri útgefanda heimilt, án sérstaks gjalds og að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins, að greiða upp höfuðstól og vexti skuldabréfanna í heild sinni en ekki hluta, fyrir gjalddaga þeirra að 10 árum liðnum frá útgáfudegi.

Í beiðninni kom fram að óskað væri bindandi álits ríkisskattstjóra á því hvort vextir samkvæmt umræddum bréfum teldust frádráttarbærir við útreikning kæranda á hagnaði til skatts. Nánar tiltekið væri álitaefni málsins hvort hin útgefnu bréf teldust skuldabréf og greiðslur af þeim þar með til frádráttarbærra vaxtagjalda eða hvort bréfin teldust til eigin fjár og greiðslur af þeim þar með til arðgreiðslna. Í þessu sambandi voru skilmálar bréfanna nánar reifaðir í beiðninni. Þá kom fram að ríkisskattstjóri hefði áður fjallað um svipaða gerninga í bindandi álitum sínum, sbr. álit nr. 2/2001 og 3/2007. Væri vísað til þeirra álita og umfjöllunar í þeim um skilsmun vaxta og arðs, en með álitum þessum hefði ríkisskattstjóri fallist á að álitsbeiðendum væri heimilt að gjaldfæra í skattskilum áfallna vexti af þeim verðbréfum sem þar væri um að ræða. Liti kærandi svo á að umrædd álit væru fordæmisgefandi í málinu, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 169/2000, og að ríkisskattstjóra bæri því að svara spurningu kæranda játandi.

Álitsbeiðninni fylgdu í afriti drög að útgáfulýsingu vegna verðbréfa þeirra sem beiðnin laut að og ljósrit úr fræðiriti á sviði kröfuréttar.    

III.

Hinn 19. júní 2019 lét ríkisskattstjóri upp álit á grundvelli laga nr. 91/1998. Í álitinu reifaði ríkisskattstjóri fyrirhugaðar ráðstafanir kæranda eins og þeim væri lýst í álitsbeiðni. Þá tiltók ríkisskattstjóri það álitaefni sem lagt væri fyrir embættið og rakti helstu röksemdir kæranda. Var fallist á að skilyrði væru uppfyllt fyrir útgáfu bindandi álits, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998.

Ríkisskattstjóri tók fram að álitaefni málsins lyti að því að ákvarða hvort umrædda fjármálagerninga, sem kærandi hygðist gefa út, bæri að telja til skuldar eða eigin fjár í skattalegu tilliti. Í því sambandi væri almennt horft til þess hvort til staðar væri skylda til endurgreiðslu láns og jafnframt hvort til staðar væru helstu almennu auðkenni láns, þ.e. að á skuldara hvíldi almenn og óskilyrt skylda til að greiða höfuðstól lánsins til baka. Þá væri litið til þess hvort höfuðstóll bæri vexti eða hvort slíkt væri háð afkomu skuldara eða ákvörðun stjórnvalds. Kvaðst ríkisskattstjóri telja ljóst að þeir fjármálagerningar, sem kærandi hygðist stofna til, uppfylltu ekki þau skilyrði sem gerð væru til lána sem viðurkennd væru sem grundvöllur frádráttarbærra vaxta í skattskilum. Skipti máli við gjaldfærslu vaxta í skattskilum að sýnt væri fram á annars vegar að ótvíræð krafa væri til greiðslu þeirra og hins vegar að staða skuldar í reikningsskilum væri ótvíræð. Leiða mætti rök að því að á sömu álitaefni kynni að reyna í skattalegu tilliti varðandi færslu til tekna, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, þegar lánveitandi ætti hlut að máli.

Samkvæmt því sem fram kæmi í álitsbeiðni kæranda væri útgefanda hvenær sem væri heimilt að fresta vaxtagreiðslu. Bæru frestaðar vaxtagreiðslur enga vexti og væru þær ekki verðtryggðar. Allar vaxtagreiðslur bæri að greiða í tilgreindum tilvikum sem ýmist vörðuðu endalok álitsbeiðanda eða hefðu áhrif á eiginfjárliði. Væri þar í fyrsta lagi um að ræða þegar ákvörðun hefði verið tekin eða úrskurður eða dómur fallið um töku útgefanda til gjaldþrotaskipta eða slit á útgefanda. Í öðru lagi að ákveðið hefði verið að útgefandi greiddi arð, lækkaði hlutafé í útgefanda eða keypti eigin hluti, og í þriðja lagi þegar heimild til innágreiðslu eða uppgreiðslu samkvæmt skuldabréfinu væri nýtt. Skylda útgefanda til greiðslu frestaðra vaxta skyldi, þrátt fyrir framangreint, ekki vera til staðar á þeim tímapunkti ef útgefandi uppfyllti ekki ákvæði laga um gjaldþol eða myndi ekki uppfylla þau ákvæði í kjölfar frestaðrar vaxtagreiðslu, eða útgefanda væri skylt að fresta áfram greiðslu vaxta samkvæmt bréfunum til að skuld samkvæmt þeim uppfyllti skilyrði laga til að mynda grunn að útreikningi gjaldþols útgefanda. Þá væri kveðið á um það í útgáfulýsingunni að kröfuhafar skuldabréfanna fengju greiddar frestaðar vaxtagreiðslur, þó fyrst við formleg slit á útgefanda í sömu kröfuröð og aðrar kröfur á grundvelli bréfanna, enda væri að öðru leyti innistæða fyrir slíkri útborgun í þrotabúi útgefanda þegar að útborgun úr þrotabúi kæmi.

Var rakið í álitinu að almennt hefði lánveitandi í hendi sér vanefndaúrræði kæmi til þess að skuldari ákvæði einhliða að fresta greiðslu vaxta. Þá væri greiðsla vaxta almennt ekki háð vilja skuldara eða því að leita þyrfti samþykkis þriðja aðila. Væri það almennt skilyrði skuldabréfa að endurgreiðsla þess á lokagjalddaga væri skilyrðislaus og ekki háð samþykki þriðja aðila. Var það niðurstaða ríkisskattstjóra að þeir fjármálagerningar sem álitsbeiðnin varðaði yrðu fremur að teljast til eiginfjárframlags en til skuldar í skattalegu tilliti. Benti ríkisskattstjóri á í þessu sambandi að útgefandi gæti frestað greiðslu vaxta, en frestaða vexti gæti þurft að greiða í vissum tilvikum, svo sem ef tekin hefði verið ákvörðun um útgreiðslu arðs. Þá bæru frestaðar vaxtagreiðslur enga vexti og væru ekki verðtryggðar. Að því leyti ættu fjármálagerningarnir meiri samleið með eiginfjárframlagi en skuld. Komst ríkisskattstjóri að þeirri niðurstöðu að vextir af fyrirhuguðum fjármálagerningum teldust ekki til frádráttarbærra vaxta í skattalegu tilliti.

Vegna tilvísunar álitsbeiðanda til bindandi álita ríkisskattstjóra nr. 2/2001 og 3/2007 tók ríkisskattstjóri fram að mál þessi væru ekki fyllilega sambærileg máli kæranda. Í fyrra málinu hefði verið um að ræða lán sem borið hefði fasta ársvexti sem greiða skyldi tvisvar á ári. Vextir skyldu þó aldrei vera hærri en sem næmi óráðstöfuðu eigin fé félagsins samkvæmt ársreikningi næstliðins árs. Félagið hefði því ekki einhliða getað ákveðið að fresta greiðslu vaxta. Í seinna málinu hefði útgefanda verið heimilt að fresta vaxtagreiðslu hvenær sem væri en vextir teldust þá vera í vanskilum og bæri ætíð að greiða þá á seinni stigum en útgefandi hefði að nokkru leyti frelsi til að ákveða það tímamark, þó aldrei lengri tíma en fimm ár. Heimild útgefanda til að fresta greiðslu vaxta hefði því verið mun þrengri í því máli en í máli álitsbeiðanda.

IV.

Í kafla I hér að framan er gerð grein fyrir kröfugerð kæranda samkvæmt kæru til yfirskattanefndar, dags. 10. september 2019. Í kærunni er, að því er málavexti varðar, vísað til álitsbeiðni kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 4. febrúar 2019. Er tekið fram að víkjandi skuldir vátryggingafélags teljist reikningshaldslega til skulda félagsins en ekki til eigin fjár. Skattalögin mæli fyrir um að skattalegt uppgjör skuli byggt á ársreikningi nema sérstök frávik séu gerð frá því í lögum. Þá feli ákvæði tekjuskattslaga það í sér að vaxtatekjur nái til allra tekna af peningalegum eignum en arðstekjur séu bundnar við hlutareign í félögum. Hvergi í ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 49. gr. og 90. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 5. gr. reglugerðar nr. 483/1994, sé gerður fyrirvari um að vextir af víkjandi lánum teljist ekki til frádráttarbærra vaxtagjalda. Þá hafi ríkisskattstjóri látið í té afstöðu til sams konar álitaefna í bindandi álitum sínum nr. 2/01 og 3/07 og fallist á frádráttarbærni vaxta af víkjandi lánum. Hið kærða álit í máli kæranda feli því í sér brot á jafnræðisreglu. Ennfremur er áréttað að samkvæmt drögum að útboðslýsingu fyrnist kröfur samkvæmt skuldabréfunum samkvæmt ákvæðum laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda.

Af hálfu kæranda er nánar vikið að forsendum hins kærða bindandi álits. Er tekið fram að ríkisskattstjóri geri ráð fyrir því í álitinu að sá kostur sé fyrir hendi að greiðslurnar geti talist rekstrarkostnaður. Síðan slái ríkisskattstjóri því föstu að ekki komi til álita að líta á greiðslurnar sem arð. Í framhaldi af þessari niðurstöðu ríkisskattstjóra sé augljóst að álykta verði að greiðslurnar séu ýmist vextir eða annar rekstrarkostnaður. Þá hafi ríkisskattstjóri talið að fyrsta skilyrði þess að fjármálagerningur teljist til skuldar sé „að á skuldara hvíli almenn og óskilyrt skylda til að greiða höfuðstólinn til baka“. Þessu til viðbótar nefni ríkisskattstjóri það skilyrði að höfuðstóllinn beri vexti og hið þriðja að slíkt sé óháð afkomu skuldara. Séu þetta sömu skilyrði og ríkisskattstjóri nefni í bindandi áliti sínu nr. 13/18. Að auki bæti ríkisskattstjóri við fjórða skilyrðinu sem sé það að greiðsla vaxta sé ekki háð stjórnvaldsákvörðunum.

Í kærunni er því næst vikið að úrskurði yfirskattanefndar nr. 95/2019, þar sem hafnað hafi verið kröfum álitsbeiðanda í bindandi áliti ríkisskattstjóra nr. 13/18. Í niðurstöðu yfirskattanefndar hafi því verið haldið fram „að um langan aldur hafi það verið rótfastur skilningur í íslenskum rétti að það sé hugtakseinkenni skuldabréfs að um sé að ræða einhliða, skilyrðislausa skyldu til þess að greiða peninga“. Í þessu sambandi vísar umboðsmaður kæranda til skilgreiningar á hugtakinu krafa í fræðiritum, en ekkert sé þar minnst á „skilyrðislausa skyldu“. Önnur skilyrði sem yfirskattanefnd hafi ekki talið uppfyllt í málinu séu hins vegar uppfyllt í máli kæranda samkvæmt fyrirliggjandi útboðslýsingu. Þá geti frestun greiðslu vaxta ekki náð fram yfir lokagjalddaga. Séu atvik því frábrugðin atvikum í nefndum úrskurði yfirskattanefndar. Vegna tilvísunar ríkisskattstjóra til ákvæðis 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 er því svo mótmælt í kærunni að tímafærsla tekna eða gjalda sé látin ráða úrslitum um eðli þeirra. Sé ákvæði 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 aðeins til að hjálpa til við að ákveða hvenær tekjur eigi að færa til tekna, þ.e. þegar myndast hafi krafa vegna þeirra á hendur einhverjum. Að því er varði kröfu ríkisskattstjóra um að staða skuldar í reikningsskilum sé ótvíræð vísar kærandi til minnisblaðs endurskoðunarstofu, sem fylgi kærunni, um meðhöndlun víkjandi skuldabréfa samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Sé það álit endurskoðunarstofunnar að meðhöndla beri skuldabréf þau sem um ræði í málinu að öllu leyti sem fjárskuldir og að færa beri öll vaxtagjöld af þeim í rekstrarreikning. Þá sé áréttað að samþykki Fjármálaeftirlitsins sé hvorki á valdi útgefanda né handhafa skuldabréfanna að veita.

Vegna athugasemdar ríkisskattstjóra um að atvik í máli kæranda annars vegar og atvik viðvíkjandi bindandi álitum ríkisskattstjóra nr. 2/2001 og 3/2007 hins vegar séu ekki sambærileg er tekið fram í kærunni að fyrra málið hafi það sameiginlegt með máli kæranda að í þeim báðum sé um að ræða fasta ársvexti sem greiða skuli tvisvar á ári, í reikningshaldi beggja séu lánin færð sem skuld og heimilt að endurgreiða bæði lánin að liðnum 10 árum. Seinna málið ætti það sameiginlegt með máli kæranda að í báðum tilvikum væri um að ræða víkjandi lán með fasta vexti þar sem fresta mætti vaxtagreiðslum. Í hvorugum þessara mála hafi bréfin hins vegar haft gjalddaga öndvert við það sem gildi um skuldabréf kæranda.

Þá er rakið að ríkisskattstjóri hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að líta á greiðslurnar sem arð af eiginfjárframlagi. Telji ríkisskattstjóri heldur ekki að fjármálagerningarnir verði taldir til skuldar í skilningi tekjuskattslaga. Sé erfitt að sjá hvernig sú niðurstaða fái staðist. Ennfremur verði gjöldin að vera „ótvíræð“ sem sé nýtt skilyrði í rekstrarkostnaðarhugtaki skattalaga. Vegna hugleiðinga ríkisskattstjóra um greiðslu frestaðra vaxta vilji kærandi benda á að fari félag í þrot falli allar skuldbindingar þess í gjalddaga, þ.m.t. frestaðir vextir. Geti þetta auðvitað átt sér stað innan lokagjalddaga, en skylda til greiðslu frestaðra vaxta sé ótvíræð á lokagjalddaga. Telur kærandi rökstuðning ríkisskattstjóra í hinu kærða bindandi áliti mótsagnakenndan og á reiki.

Með bréfi, dags. 26. september 2019, hefur umboðsmaður kæranda lagt fram gögn til stuðnings kröfu um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þar sem fram kemur að kostnaður kæranda nemi 1.236.900 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna 28,5 tíma vinnu umboðsmanns kæranda við málið.

V.

Með bréfi, dags. 25. október 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að ríkisskattstjóri fallist ekki á þá fullyrðingu kæranda að í bindandi áliti embættisins hafi því verið slegið föstu að álitaefnið snúist í grunninn um það hvort um sé að ræða skuld eða eiginfjárframlag og þar af leiðandi hvort um sé að ræða frádráttarbæra vexti eða arðgreiðslur. Hafi ríkisskattstjóri eingöngu vísað til þess að álitsbeiðni kæranda stæði til þess. Þó ekki verði litið á greiðslurnar sem arðgreiðslur leiði það ekki sjálfkrafa til þess að greiðslur samkvæmt bréfunum teljist frádráttarbærir vextir. Skorti fjármálagerning í einhverjum meginatriðum þá eiginleika sem almennt einkenni skuldabréf kunni það óhjákvæmilega að hafa afleiðingar í skattalegu tilliti. Eins og fram komi í drögum að útboðslýsingu bréfanna sé útgefanda heimilt hvenær sem er að fresta greiðslu vaxta samkvæmt bréfunum, en frestaðar vaxtagreiðslur gjaldfalli að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, t.d. vegna gjaldþrotaskipta eða slita útgefanda. Skylda útgefanda til greiðslu frestaðrar vaxtagreiðslu sé þó ekki til staðar ef útgefandi uppfyllir á ákveðnum tímapunkti ekki skilyrði um gjaldþol, eins og nánar sé lýst í skilmálunum. Ætti skilgreining á gjaldþoli samkvæmt útboðslýsingunni, sem tekin er orðrétt upp í umsögninni, mun meira sameiginlegt með takmörkunum sem séu á heimildum til arðgreiðslna en krafna til vaxtagreiðslna af skuldabréfi. Þá megi nefna að frestaðar vaxtagreiðslur beri ekki vexti og séu ekki verðtryggðar. Frestaða vexti geti þó þurft að greiða í vissum tilvikum, svo sem ef ákvörðun er tekin um útgreiðslu arðs, lækkun hlutafjár eða kaup á eigin hlutum. Að því leyti eigi fyrirhugaðir fjármálagerningarnir meiri samleið með eiginfjárframlagi en skuld.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 28. október 2019, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um umsögnina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

VI.

Kæra í máli þessu varðar bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, sem embættið lét uppi 19. júní 2019 í tilefni af beiðni kæranda, dags. 4. febrúar 2019. Í beiðni þessari kom fram að kærandi, sem er vátryggingafyrirtæki, hygðist gefa út fjármálagerninga, þ.e. svonefnd víkjandi skuldabréf, og myndi útgáfan tilheyra eiginfjárþætti 2 í eiginfjárgrunni kæranda. Í álitsbeiðninni var vísað til meðfylgjandi draga að skilmálum fjármálagerninganna, en þeir er lýst nánar í kafla II hér að framan. Í álitsbeiðni kæranda kom fram að hið lögfræðilega álitaefni varðandi umrædda fjármálagerninga væri hvort áfallnir vextir af þeim teldust frádráttarbærir við uppgjör kæranda á hagnaði til skatts. Niðurstaða ríkisskattstjóra í hinu kærða bindandi áliti var að svo væri ekki og byggði sú niðurstaða á því að fjármálagerningarnir uppfylltu ekki skilyrði sem gera yrði til lána sem viðurkennd væru sem grundvöllur frádráttarbærra vaxta í skattskilum, þ.e. að um væri að ræða almenna og óskilyrta skuldbindingu til greiðslu höfuðstóls láns og eftir atvikum vaxta.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess aðallega krafist að niðurstöðu ríkisskattstjóra í hinu kærða bindandi áliti verði hnekkt og að fallist verði á að áfallnir vextir af fjármálagerningum sem kærandi hyggst gefa út séu frádráttarbærir frá skatti. Í því sambandi er lögð áhersla á það í kærunni að ríkisskattstjóri hafi í eldri bindandi álitum sínum, þ.e. bindandi álitum nr. 2/01 og 3/07, fallist á að vextir af hliðstæðum fjármálagerningum væru frádráttarbærir frá skatti. Kærandi tekur fram að atvik í máli því sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar nr. 95/2019 séu ekki sambærileg atvikum í máli kæranda.

Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er heimilt að draga rekstrarkostnað frá tekjum af atvinnurekstri, þ.e. þann kostnað sem á árinu gengur til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við, þar á meðal vexti af skuldum, afföll og gengistöp, sbr. og 1. mgr. 49. gr. laganna þar sem kveðið er á um frádráttarbærni vaxtagjalda af skuldum, föstum og lausum. Til samræmis við þetta er ákvæði um frádrátt vaxtagjalda í 5. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að frá tekjum af atvinnurekstri megi draga vaxtagjöld og annan fjármagnskostnað af skuldum sem tengjast atvinnurekstri. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að eigi sé heimilt að draga frá samkvæmt 1. mgr. vexti af því fé sem maður hefur sjálfur lagt í atvinnurekstur sinn. Félög og stofnanir megi ekki draga frá vexti af hlutafé, stofnfé eða tryggingafé.

Í XVI. kafla laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, er fjallað um gjaldþolskröfu vátryggingafélaga, en í 96. gr. laganna kemur fram að vátryggingafélag skuli eiga hæfa gjaldþolsliði til að mæta gjaldþolskröfu. Þá er í 97. gr. laganna tíundað hvernig gjaldþolskrafa skuli reiknuð út. Kemur þar fram að gjaldþolskrafa skuli vera mælikvarði yfir alla mælanlega áhættu vátryggingafélags. Í XVII. kafla laganna eru ákvæði um lágmarksfjármagn vátryggingafélaga. Í 111. gr. laganna kemur fram að kjarnagjaldþolsliðir vátryggingafélags skuli að lágmarki nema því lágmarksfjármagni sem kveðið sé á um í 112. gr. laganna, en í því lagaákvæði er nánar tilgreint í sjö liðum hvert lágmarksfjármagn vátryggingafélags skuli vera. Samkvæmt greindum lögum nr. 100/2016 hefur Fjármálaeftirlitið (nú Seðlabanki Íslands, sbr. lög nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands) víðtækt eftirlit með starfsemi vátryggingafélaga, svo sem með flokkun gjaldþolsliða samkvæmt 92. gr., sbr. 93. gr. laganna, auk þess sem vátryggingafélög hafa ríkri tilkynningarskyldu að gegna gagnvart Fjármálaeftirlitinu. Í þessu sambandi má nefna, svo dæmi séu tekin, að útreikningur gjaldþolskröfu er tilkynningaskyldur til Fjármálaeftirlitsins, sbr. 98. gr. laganna, sem og ákvarðanir um lágmarksfjármagn félagsins, sbr. 2. mgr. 111. gr. laganna, auk þess sem gera þarf Fjármálaeftirlitinu viðvart ef hætta er talin á að gjaldþolskröfu eða kröfu um lágmarksfjármagn verði ekki fullnægt, sbr. 115. gr. laganna. Þessu til viðbótar má geta þess að Fjármálaeftirlitið getur takmarkað eða bannað ráðstöfun vátryggingafélags á fjármunum og eignum þess uppfylli það ekki skilyrði XIV. kafla um vátryggingaskuld, sbr. 116. gr. laganna. Getur sinnuleysi vátryggingafélags gagnvart tilmælum Fjármálaeftirlitsins, um ráðstafanir til að meta á fullnægjandi hátt vátryggingaskuld sína eða tryggja örugga ávöxtun fjármuna sem ætlað sé að mæta henni leitt til afturköllunar starfsleyfis félagsins geri félagið ekki nauðsynlegar úrbætur innan veitts frests, sbr. 122. gr. laganna. Þá er í 117. gr. laganna fjallað um ráðstafanir ef vátryggingafélag fullnægir ekki gjaldþolskröfu.

Í skattalegu tilliti verður að gera glöggan greinarmun á eiginfjárframlögum annars vegar og lánveitingum hins vegar þar sem ólíkar reglur gilda um meðferð vaxta/arðs af slíkum ráðstöfunum í skattskilum, sbr. m.a. fyrrgreind ákvæði laga nr. 90/2003 varðandi frádráttarbærni vaxtagjalda af skuldum og úrskurð yfirskattanefndar nr. 281/2003 þar sem deilt var um skattalega meðferð kostnaðar af öflun eigin fjár. Eins og getið er í bindandi áliti ríkisskattstjóra nýtur ekki sérstakra skilgreininga í skattalögum sem komið geta að gagni þegar draga þarf mörk skulda og eiginfjárframlaga í einstökum tilvikum. Getur því verið vandasamt að leggja mat á það hvoru megin hryggjar fjárfesting fellur að þessu leyti, ekki síst þegar um er að ræða afurðir á fjármálamarkaði af þeim toga sem um ræðir í málinu og hafa einkenni bæði skuldar og eiginfjárframlags og bera að ýmsu leyti svipmót hvors um sig. Í þessum efnum getur ekki ráðið úrslitum hvað viðkomandi fjármálaafurð er kölluð heldur er það heildarmat á efni og einkennum hennar sem máli skiptir. Þá verður að fallast á með ríkisskattstjóra að þýðingu hafi við mat af þessum toga hvernig háttað sé skuldbindingu útgefanda fjármálagernings til endurgreiðslu fjár, eftir atvikum höfuðstóls eða vaxta. Er þá haft í huga að um langan aldur hefur verið rótfastur skilningur í íslenskum rétti að það sé hugtakseinkenni skuldabréfs að um sé að ræða einhliða og skilyrðislausa skyldu til greiðslu peninga. Eins og fyrr greinir heimila skattalög einungis frádrátt vaxtagjalda af „skuldum“, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga nr. 90/2003 og 5. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Þá hefur þýðingu að því er varðar skilsmun skulda og eiginfjárframlaga í einstökum tilvikum að handhafi fjármálagerningsins geti almennt gripið til úrræða vegna vanefnda útgefanda fjármálagerningsins þegar um skuld er að ræða.

Svo sem rakið er hér að framan er þeim fjármálagerningum sem um er deilt skilmerkilega lýst í gögnum málsins, þar með talið í drögum að útgáfulýsingu vegna útgáfu bréfanna, sem fylgdu álitsbeiðni kæranda, og í minnisblaði endurskoðunarstofu, dags. 29. ágúst 2019, sem fylgdi kæru kæranda til yfirskattanefndar. Í minnisblaðinu kemur fram að þeir fjármálagerningar sem kærandi hyggist gefa út myndu falla undir gildissvið alþjóðlegs reikningsskilastaðals IAS 32. Sé það skilningur endurskoðunarstofunnar að skilmálar hinna umdeildu bréfa kveði á um skyldu kæranda til að greiða höfuðstól ásamt verðbótum og vöxtum á lokagjalddaga; að frestun á greiðslu vaxta geti aldrei orðið lengri en til lokagjalddaga, þ.e. að kæranda sé skylt að greiða í síðasta lagi á lokagjalddaga allar vaxtagreiðslur sem félagið kunni að hafa frestað og ekki greitt fram til lokagjalddaga á grundvelli þar að lútandi heimildar í skilmálum bréfanna; að greiðsla á lokagjalddaga sé aðeins háð samþykki Fjármálaeftirlitsins og að kærandi hafi enga samningsbundna heimild til að fresta greiðslunni á lokagjalddaga. Þá er ­því loks haldið fram í minnisblaðinu að þótt greiðsla höfuðstóls, verðbóta og vaxta á lokagjalddaga sé háð samþykki Fjármálaeftirlitsins breyti það ekki því að kæranda beri að meðhöndla skuldabréfin að öllu leyti sem fjárskuldir þar sem samþykki þetta sé hvorki á valdi útgefanda né handhafa bréfanna að veita.

Í hinu kærða bindandi áliti er ekki vikið sérstaklega að endurgreiðslukröfu höfuðstóls verðbréfanna að öðru leyti en því að tekið er fram að það sé almennt einkenni skuldabréfa að endurgreiðsla á lokagjalddaga sé skilyrðislaus og ekki háð samþykki þriðja aðila. Virðist meginþungi niðurstöðu ríkisskattstjóra, um að hafna því að líta á verðbréfin sem skuldabréf og synja þar með frádráttarbærni vaxta af bréfunum, hvíla á því að útgefanda sé heimilt að fresta vaxtagreiðslum, en í álitinu vísaði ríkisskattstjóri m.a. til þess að almennt hefði lánveitandi í hendi sér vanefndaúrræði kæmi til þess að skuldari ákvæði einhliða að fresta greiðslu vaxta og væri greiðsla vaxta almennt ekki háð vilja skuldara eða samþykki þriðja aðila.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið er endurgreiðsla höfuðstóls, vaxta og verðbóta á lokagjalddaga háð samþykki Fjármálaeftirlitsins. Verður að ætla að það fyrirkomulag helgist af þeim þrönga stakki sem rekstri vátryggingafélaga er sniðinn samkvæmt lögum nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, svo sem gerð er grein fyrir í meginatriðum hér að framan. Þá verður ekki ráðið af útgáfulýsingunni að handhafi verðbréfanna semji sig frá hefðbundnum vanefndaúrræðum kröfuréttarins við kaup á þeim, komi til þess að greiðsla á lokagjalddaga hljóti ekki náð fyrir augum opinberra eftirlitsaðila, eða að útgefandi hafi nokkra samningsbundna heimild til að fresta greiðslunni á lokagjalddaga. Liggur því ekki annað fyrir en að útgáfulýsing hinna umdeildu bréfa kveði á um skyldu útgefanda til að greiða höfuðstól á lokagjalddaga, svo sem kærandi heldur fram.

Hvað snertir frestun vaxtagreiðslna sérstaklega er rakið í áliti ríkisskattstjóra að frestaðar vaxtagreiðslur beri að greiða í tilteknum tilvikum, þ.e. þegar tekin hafi verið ákvörðun eða úrskurður eða dómur fallið um töku útgefanda til gjaldþrotaskipta eða slit á útgefanda, um leið og ákvörðun hafi verið tekin um útgreiðslu arðs, lækkun hlutafjár eða kaup eigin hluta, og um leið og heimild til innágreiðslu eða uppgreiðslu samkvæmt bréfunum sé nýtt. Skylda útgefanda til greiðslu frestaðrar vaxtagreiðslu á þeim tímapunkti sé þó háð því að útgefandi uppfylli skilyrði laga um gjaldþol og muni jafnframt gera það í kjölfar greiðslu. Af útgáfulýsingunni verður ekki ráðið að þessar skilyrtu vaxtagreiðslur falli niður við frestun greiðslu þeirra, heldur verður að ganga út frá því að greiðsluskylda frestist þar til skilyrði laga um gjaldþol séu uppfyllt á ný, sbr. orðalagið „á þeim tímapunkti“. Þessu til stuðnings eru jafnframt ákvæði útgáfulýsingarinnar um að kröfuhafar fái frestaðar vaxtagreiðslur greiddar við slit útgefanda í sömu kröfuhafaröð og aðrar kröfur á grundvelli verðbréfanna. Ennfremur er ekkert í útgáfulýsingunni sem gefur til kynna að mögulegt sé að fresta greiðslu vaxta lengur en til lokagjalddaga og verður að álykta að miðað við fyrirliggjandi skilmála verði útgefanda skylt að greiða í síðasta lagi á lokagjalddaga allar vaxtagreiðslur sem kunni að hafa verið frestað og ekki greiddar fram til lokagjalddaga, sem og virðist vera skilningur kæranda, sbr. framlagt minnisblað sem fylgdi kæru kæranda til yfirskattanefndar.

Samkvæmt framansögðu verður ekki tekið undir það með ríkisskattstjóra að umspurðir fjármálagerningar teljist frekar til eiginfjárframlags en til skuldar í skattalegu tilliti. Eins og málið liggur fyrir er því fallist á frádráttarbærni vaxta af umræddum verðbréfum í skattskilum kæranda, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Er krafa kæranda tekin til greina eins og fram kemur í úrskurðarorði.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli fyrrgreinds lagaákvæðis. Umkrafinn kostnaður vegna kæru til yfirskattanefndar nemur samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningum 1.236.900 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna 28,5 klukkustunda vinnu umboðsmanns kæranda við málið. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar frá 21. nóvember 2014 um ákvörðun málskostnaðar, þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 645.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Bindandi áliti ríkisskattstjóra er breytt þannig að fallist er á að kæranda sé heimilt að gjaldfæra vexti af þeim fjármálagerningum sem kærandi hyggst gefa út samkvæmt álitsbeiðni. Málskostnaður kæranda til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 645.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja