Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattsekt
- Skattrannsókn
- Refsiábyrgð fyrirsvarsmanna lögaðila
Úrskurður nr. 43/2020
Lög nr. 50/1988, 40. gr. 1. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.) Lög nr. 45/1987, 30. gr. 2. mgr. (brl. nr. 42/1995, 2. gr.)
Í máli þessu var til umfjöllunar sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur A, skráðum fyrirsvarsmanni X ehf., vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu og virðisaukaskatts félagsins. A kvaðst ekki hafa komið að fjármálum X ehf. á rannsóknartímabilinu vegna veikinda og óvinnufærni. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að þar sem vanskil gjalda stöfuðu nær eingöngu frá síðustu starfsmánuðum X ehf. þætti hafa þýðingu um ábyrgð A hvernig daglegum ákvörðunum um fjármál félagsins hefði verið hagað á þeim tíma. Var bent á að skattrannsóknarstjóri hefði ekki nema með takmörkuðum hætti leitast við að upplýsa um þátt annarra en A í fjármálastjórn X ehf. þrátt fyrir að framburður A við skýrslutökur benti til þess að dagleg fjármálastjórn kynni að hafa verið í höndum annarra en hans. Var sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins hafnað.
Ár 2020, miðvikudaginn 25. mars, er tekið fyrir mál nr. 10/2020; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með bréfi, dags. 15. janúar 2020, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2016 og 2017.
Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:
„A, sem stjórnarmanni og prókúruhafa X ehf., nú afskráð, er gefið að sök eftirfarandi:
1. Vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna.
A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf., nú afskráð, vegna greiðslutímabilanna desember rekstrarárið 2017 og janúar og febrúar rekstrarárið 2018. Nemur vangoldin afdregin staðgreiðsla vegna umræddra tímabila samtals 2.113.299 kr. auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar að teknu tilliti til afdreginnar staðgreiðslu af launum hans. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:
Rekstrarár |
Greiðslutímabil |
Vangoldin skilaskyld staðgreiðsla |
Afdregin staðgreiðsla af launum fyrirsvarsmanns |
Vangoldin skilaskyld staðgreiðsla kr. |
2017 |
desember |
1.341.875 |
106.674 |
1.235.201 |
Samtals kr. |
|
1.341.875 |
106.674 |
1.235.201 |
2017 |
janúar |
780.613 |
105.686 |
674.927 |
2017 |
febrúar |
448.811 |
|
448.811 |
Stgr. vangr. laun |
|
-245.640 |
|
-245.640 |
Samtals kr. |
|
983.784 |
105.686 |
878.098 |
Samtals alls kr. |
2.325.659 |
212.360 |
2.113.299 |
Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að þetta hafi A gert á saknæman hátt, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.
Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1.-3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr. og 1. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.
Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum.
2. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur.
A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti, sem innheimtur var í rekstri X ehf., nú afskráð, vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember rekstrarárið 2017. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna framangreinds uppgjörstímabils nemur samtals 5.527.693 kr. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:
Rekstrarár |
Uppgjörstímabil |
Vangoldinn virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs kr. |
2017 |
nóvember - desember |
5.527.693 |
Samtals alls kr. |
|
5.527.693 |
Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að framangreindu hafi A komið til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.
Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.
Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“
Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 15. janúar 2020, sem fylgdi kröfugerðinni.
II.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. janúar 2020, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.
III.
Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. janúar 2020, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem hann hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf., nú afskráð, vanrækt að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins tiltekin greiðslutímabil árið 2017 og vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti félagsins þau uppgjörstímabil árið 2017 sem greinir í bréfinu. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.
Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 29. ágúst 2019 rannsókn á skattskilum X ehf. er beindist að skilum félagsins á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti vegna rekstraráranna 2017 og 2018. Skráður tilgangur X ehf. á þessu tímabili var dekkjaskipti, viðgerðir, innflutningur, smásala, heildsala og almenn umsýsla ökutækja. Samkvæmt gögnum málsins var bú X ehf. tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2018 og lauk skiptum á sama ári. Var félagið afskráð í kjölfarið. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins þann 5. september 2019. Skýrsla var einnig tekin af B vegna málsins. Með bréfi, dags. 30. september 2019, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda og tilnefndum verjanda hans skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. sama dag, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar. Athugasemdir bárust frá tilnefndum verjanda gjaldanda með bréfi, dags. 14. október 2019. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 1. nóvember 2019, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að framkomin andmæli þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.
Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 1. nóvember 2019, kemur fram að rannsókn embættisins á staðgreiðsluskilum X ehf. hafi falist í því að bera fjárhæðir afdreginnar staðgreiðslu samkvæmt staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum félagsins saman við greiðslur þess til innheimtumanns ríkissjóðs. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að fyrirsvarsmaður X ehf. hafi ekki staðið skil innan lögboðins frests á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins greiðslutímabilin desember 2017 og janúar og febrúar 2018 samtals að fjárhæð 2.325.659 kr. Fram kemur að staðgreiðsla af vangreiddum launum hafi numið 245.640 kr. Þá hafi vangreidd afdregin staðgreiðsla af launum fyrirsvarsmanns félagsins, A, numið samtals 212.360 kr. þau tímabil sem hér um ræðir.
Rannsókn á virðisaukaskattsskilum X ehf. var samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins fólgin í því að bera fjárhæð innheimts virðisaukaskatts samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum félagsins saman við greiðslur þess til innheimtumanns og er rakin sú niðurstaða rannsóknarinnar að fyrrum fyrirsvarsmaður félagsins hafi ekki staðið skil á virðisaukaskatti vegna félagsins innan lögboðins frests uppgjörstímabilið nóvember-desember 2017 að fjárhæð 5.527.693 kr. Þá hafi verið greiddar 1.839.112 kr. inn á höfuðstóls virðisaukaskatts vegna greinds uppgjörstímabils.
Gjaldandi staðfesti við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 5. september 2019 að hann hefði verið eigandi X ehf. og skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Kvaðst gjaldandi aðspurður hafa annast daglegan rekstur félagsins þar til hann hefði tapað heilsu en þá hefði B tekið við. Kvaðst gjaldandi ekki muna hvenær það hefði verið. Aðspurður hver hefði stýrt daglegum rekstri og fjármálum félagsins á tímabilinu frá nóvember 2017 til febrúar 2018 sagði gjaldandi að nefndur B og móðir sín, C, hefðu séð um það. Kvaðst gjaldandi hafa veikst töluvert fyrir þann tíma en búið væri að greina hann með sjö sjúkdóma. Sagði gjaldandi að móðir hans hefði verið í hlutastarfi hjá félaginu sem bókari og verið í því að aðstoða B. Hefði B sett fram kröfu um það þegar hann hefði verið ráðinn aftur til félagsins að hann fengi frjálsar hendur til að stýra félaginu eins og hann vildi og að það hefði náðst samkomulag um það. Sagði gjaldandi að þetta kæmi fram í tölvupóstsamskiptum þeirra á milli sem gjaldandi kvaðst ætla að finna. Við skýrslutökuna voru bornar undir gjaldanda fyrirliggjandi staðgreiðsluskilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur X ehf. vegna þeirra greiðslu- og uppgjörstímabila sem rannsóknin tók til og sagðist gjaldandi gera ráð fyrir því að gögnin væru vegna X ehf. Kvað gjaldandi skilagreinar og skýrslur þessar hafa verið byggðar á bókhaldsgögnum félagsins og sagðist gera ráð fyrir því að gögnin gæfu rétta mynd af rekstri félagsins. Gjaldanda var kynnt að samkvæmt gögnum málsins hefði staðgreiðsla opinberra gjalda að fjárhæð 2.571.299 kr. vegna launamanna X ehf. tiltekin greiðslutímabil árið 2017 ekki verið greidd á lögmæltum tíma og að virðisaukaskattur að fjárhæð 5.527.693 kr. tiltekið uppgjörstímabil árið 2017 hefði ekki verið greiddur á lögmæltum tíma. Gerði gjaldandi ekki athugasemdir við fjárhæðirnar. Gjaldandi greindi frá því að sökum fjárskorts hefði afdreginni staðgreiðslu og innheimtum virðisaukaskatti ekki verið skilað á lögmæltum tíma. Sagðist gjaldandi ekki vita í hvað afdregin staðgreiðsla og innheimtur virðisaukaskattur hefðu farið. Aðspurður hvort útgefnir sölureikningar hefðu verið greiddir að fullu sagðist gjaldandi ekki vita það þar sem hann hefði ekki verið á staðnum. Mögulega hefði eitthvað verið útistandandi en hann vissi það ekki. Undir lok skýrslutökunnar greindi gjaldandi frá því að aðgengi að verkstæði félagsins hefði versnað til muna við gatnaframkvæmdir sem ráðist hefði verið í um veturinn áður en félagið hefði farið í þrot og því hefðu viðskiptin dalað. Sagði gjaldandi að þarna hefði hann verið orðinn veikur og ekki haft getu til að gera neitt í þessu.
Við skýrslutöku af B hinn 13. september 2019 sagðist B hafa verið ráðinn til X ehf. í ágúst 2017 sem rekstrarstjóri. Kvaðst B hafa stýrt daglegum rekstri félagsins á rannsóknartímanum en voðalega lítið komið að fjármálunum. Í þessu sambandi sagðist B hafa verið með aðgang að bankareikningum félagsins en hann hefði aðeins greitt reikninga þegar hann hefði verið beðinn um það. Aðspurður hver hefði séð um fjármál félagsins sagði B að C hefði séð um að greiða reikninga. Það eina sem hann hefði gert hefði verið að taka á móti reikningunum og senda þá til hennar til bókunar og greiðslu. Sagði B að gjaldandi og C hefðu tekið ákvarðanir um greiðslur félagsins, mest þó C, en hún hefði séð um greiðslur til skattsins. Þegar B var spurður að því hvort gjaldandi hefði verið í peningamálunum á þessum tíma sagði B að gjaldandi hefði lítið verið viðriðinn það. Kvaðst B ekki vita hvort gjaldandi og C hefðu rætt um þessa hluti meðan á þessu stóð. Gat B ekki svarað því hvort skattskilagögn X ehf. gæfu rétta mynd af rekstri félagsins.
Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, er með samsvarandi hætti lýst refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum borið að halda eftir. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.
Gjaldandi, A, var eigandi X ehf. og við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins staðfesti gjaldandi að hafa verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. allan þann tíma sem málið varðar. Sem skráðum fyrirsvarsmanni X ehf. bar gjaldanda að afla sér vitneskju um rekstur félagsins, þar á meðal um það hvort það stæði í skilum með greiðslu staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts, svo og að annast um að starfsemi félagsins væri jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Sé misbrestur á því að fyrirsvarsmaður fyrirtækis sinni ábyrgðarskyldu sinni kann sú vanræksla að baka honum refsiábyrgð, enda sé honum kunnugt um refsiverð brot í tengslum við rekstur fyrirtækisins eða hann hefur að öðru leyti sýnt af sér saknæman eftirlitsskort.
Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sagðist gjaldandi ekki hafa komið að fjármálum X ehf. á rannsóknartímanum, enda hefði hann glímt við veikindi á þessum tíma og verið frá vinnu. Kom fram af hálfu gjaldanda að B hefði stýrt rekstri félagsins á þessum tíma og að móðir gjaldanda hefði verið B til aðstoðar, m.a. að því er varðar fjármál félagsins. Við skýrslutöku af B sagðist B aðeins hafa séð um daglegan rekstur en hann hefði ekki komið að fjármálunum. Sagði B að móðir gjaldanda hefði séð um fjármálin og að greiða reikninga.
Í málum þar sem reynt hefur á refsiábyrgð fyrirsvarsmanna lögaðila vegna vangoldinnar staðgreiðslu opinberra gjalda eða virðisaukaskatts lögaðilans hefur verið talið hafa verulega þýðingu að upplýst sé um hvernig verkaskiptingu hafi verið háttað meðal hlutaðeigandi fyrirsvarsmanna, þar á meðal hver hafi haft það hlutverk að standa skil á sköttum og gjöldum í ríkissjóð, sbr. til hliðsjónar m.a. dóma Hæstaréttar Íslands frá 19. janúar 2012 í máli nr. 413/2011 og frá 27. október 2016 í máli nr. 321/2015.
Þrátt fyrir að gjaldandi hafi verið skráður fyrirsvarsmaður X ehf. og því borið ríka ábyrgð á starfsemi félagsins, sbr. að framan, ber að líta til þess að vanskil staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts stafa nær eingöngu frá síðustu starfsmánuðum félagsins. Þykir því hafa þýðingu um ábyrgð gjaldanda hvernig daglegum ákvörðunum um fjármál félagsins var hagað á þeim tíma. Samkvæmt því sem fram er komið af hálfu gjaldanda glímdi hann við alvarleg veikindi á þessum tíma og sagðist gjaldandi ekki hafa komið að fjármálum félagsins. Um veikindi gjaldanda liggur fyrir í gögnum málsins læknisvottorð sem staðfestir óvinnufærni gjaldanda, sbr. fylgiskjal 18.5-18.6 með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Ekki er fjallað sérstaklega um þessar viðbárur gjaldanda eða þýðingu gagna þessara í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins eða greinargerð embættisins til yfirskattanefndar. Þá hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins ekki nema með takmörkuðum hætti leitast við að upplýsa um þátt annarra en gjaldanda í fjármálastjórn X ehf. á rannsóknartímabilinu þrátt fyrir að framburður gjaldanda við skýrslutökur hjá embættinu bendi til þess að dagleg fjármálastjórn kunni að hafa verið í höndum annarra en hans. Til að mynda var C ekki kvödd til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins til að varpa nánara ljósi á málið, þrátt fyrir ærið tilefni.
Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að viðhlítandi grundvöllur að sektarákvörðun liggi fyrir í máli þessu. Kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda vegna meintra brota á skattalögum er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Gjaldanda, A, verður ekki gerð sekt í máli þessu.