Úrskurður yfirskattanefndar

  • Duldar arðgreiðslur

Úrskurður nr. 48/2020

Gjaldár 2017

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 11. gr. 2. mgr.   Lög nr. 138/1994, 73. gr.  

Kærandi í máli þessu var fyrirsvarsmaður X ehf. og eigandi alls hlutafjár í félaginu. Laut ágreiningur málsins að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til tekna sem laun í skattskilum hennar árið 2017 fjármuni sem tilgreindir voru sem sjóðseign í reikningsskilum X ehf., en kærandi hélt því fram að greindir fjármunir hefðu verið varðveittir í bankahólfi. Yfirskattanefnd féllst á að efnislega bæri að virða greiðslurnar sem tekjur af hlutareign í X ehf. og benti m.a. á að engin áreiðanleg gögn, svo sem sjóðbók úr bókhaldi félagsins, hefðu komið fram til stuðnings staðhæfingu kæranda um varðveislu fjármunanna í sjóði félagsins. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2020, miðvikudaginn 1. apríl, er tekið fyrir mál nr. 184/2019; kæra A, dags. 16. desember 2019, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2017. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 16. desember 2019, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 5. nóvember 2019, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2016, 2017 og 2018. Kæruefni málsins er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til til skattskyldra tekna 2.700.000 kr. í skattframtali árið 2017 vegna meintra óheimilla úthlutana af fjármunum X ehf. á árinu 2016, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og skattleggja hjá kæranda sem laun samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. nefndra laga.

Af hálfu kæranda er þess krafist að sú ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda umrædda fjárhæð til tekna verði felld niður, enda hafi ekki verið um úttekt kæranda á fjármunum X ehf. að ræða.

II.

Helstu málavextir eru þeir að kærandi er eigandi alls hlutafjár í X ehf. Var hún jafnframt framkvæmdastjóri félagsins og eini prókúruhafi þess á árunum 2015, 2016 og 2017 auk þess sem hún var eini starfsmaður félagsins. Var skráður tilgangur X ehf. rekstur og útleiga fasteigna, verðbréfaviðskipti, inn- og útflutningur, kaup og sala eigna og annar skyldur rekstur.

Ríkisskattstjóri tók til skoðunar réttmæti skattframtala X ehf. og kæranda gjaldárin 2016, 2017 og 2018. Með bréfi til X ehf., dags. 25. september 2018, óskaði ríkisskattstjóri eftir hreyfingalistum úr bókhaldi félagsins er sýndu hreyfingar á einstökum rekstrar- og efnahagsliðum félagsins fyrir rekstrarárin 2016 og 2017. Svar barst ríkisskattstjóra með tölvupósti, dags. 10. október 2018, og fylgdu bréfinu umbeðin gögn. Með fyrirspurnarbréfi, dags. 12. desember 2018, lagði ríkisskattstjóri fyrir félagið að leggja fram gögn og gefa skýringar á tilteknum færslum í bókhaldi félagsins árin 2015, 2016 og 2017. Meðal annars fór ríkisskattstjóri fram á sundurliðun á handbæru fé félagsins í árslok 2017. Í svarbréfi, dags. 17. janúar 2019, kom fram í sundurliðun af hálfu félagsins að félagið hefði átt sjóð að fjárhæð 2.700.000 kr. Samtals hefði handbært fé félagins numið 2.278.919 kr. Með bréfi til X ehf., dags. 6. febrúar 2019, óskaði ríkisskattstjóri eftir því að lagður yrði fram hreyfingalisti yfir sjóð félagsins 2.700.000 kr. en ekki yrði ráðið af ársreikningum félagsins hvernig notkun sjóðsins hefði verið háttað. Einnig var óskað eftir skýringum á tilgangi og notkun sjóðsins. Af hálfu félagsins var upplýst með bréfi, dags. 19. febrúar 2019, að um væri að ræða varasjóð sem varðveittur væri í bankahólfi og hefði hann ekki verið hreyfður. Tilgangur sjóðsins væri að mæta ófyrirséðum áföllum.

Í kjölfar fyrirspurna til X ehf. var fyrirspurnum beint til kæranda með bréfi, 15. maí 2019. Vísaði ríkisskattstjóri til niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar nr. 168/2018 sem tekin var að hluta til orðrétt upp í bréfinu. Taldi ríkisskattstjóri að væri tekið mið af niðurstöðu nefndarinnar í framangreindu máli yrði ekki betur séð en að þá fjármuni sem varðveittir hefðu verið í vörslu kæranda, en eignfærðir sem sjóður í bókhaldi X ehf., félags í eigu kæranda, yrði að telja fé sem hefði verið kæranda til ráðstöfunar og því gæti hafa verið um að ræða skattskylda óheimila úttekt, sbr. 1. og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Áður en frekari afstaða yrði tekin til réttmætis skattskila kæranda væri óskað eftir að kærandi veitti upplýsingar, fyrir hönd einkahlutafélagsins, um þróun sjóðsins síðastliðin ár, en sjá mætti að félagið hefði eignfært sem handbært fé 2.786.772 kr. í lok árs 2016. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum hefðu innstæður á bankareikningum félagsins numið 103.499 kr. í lok árs 2016. Félagið hefði eignfært handbært fé í lok árs 2015 að fjárhæð 7.842 kr. en samkvæmt upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum hefðu innstæður á bankareikningnum félagsins numið 210.585 kr. í lok árs 2015. Þyrfti að koma fram í hverju handbært fé félagins hefði verið fólgið í lok árs 2016 og hver hækkun á sjóði hefði verið á árunum 2016 og 2017. Þá óskaðist upplýst hverju sætti að umræddir fjármunir hefðu ekki verið varðveittir á bankareikningum X ehf.

Með tölvupósti, dags. 3. júní 2019, mótmælti kærandi því að 11. gr. laga nr. 90/2003 ætti við um sjóð X ehf. Tók kærandi fram að sjóðurinn væri til staðar og væri hann varðveittur í bankahólfi. Sjóðurinn væri ekkert aðgengilegri kæranda en væri hann á bankareikningi. Væri sjóðurinn varðveittur með þessum hætti vegna vantrausts á bönkum og lágra innlánsvaxta. Hafnaði kærandi því að úrskurður yfirskattanefndar nr. 168/2018 ætti við eða að hægt væri að fullyrða að seðlar og mynt sem viðskiptavinir félagsins (erlendir ferðamenn o.fl.) greiddu félaginu fyrir veitta þjónustu gætu talist vera komnir í vörslu kæranda, sem eiganda félagsins, og féð þannig talist ólögmæt úthlutun úr félaginu. Væri sjóðfyrirkomulag algengt t.d. hjá verslunum og gististöðum. Með tölvupósti, dags. 19. júlí 2019, ítrekaði ríkisskattstjóri ósk um upplýsingar um þróun sjóðs félagsins. Með tölvupósti, dags. 2. ágúst 2019, sendi kærandi ríkisskattstjóra umbeðið yfirlit og kom fram á því að á árinu 2016 hefði myndast sjóður sem numið hefði í árslok 2.700.000 kr. Hefði sjóður félagins verið að sömu fjárhæð í árlok 2017.

Með bréfi, dags. 26. ágúst 2019, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárin 2016, 2017 og 2018, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda til tekna vanframtalin bifreiðahlunnindi í skattframtölum hennar umrædd ár að fjárhæð 539.609 kr. í skattframtali árið 2016, 2.041.790 kr. í skattframtali árið 2017 og 1.619.935 kr. í skattframtali árið 2018. Þá væri fyrirhugað að færa henni til tekna sem skattskyld laun 2.700.000 kr. í skattframtali árið 2017 meinta óheimilaða úttekt úr X ehf. Ennfremur boðaði ríkisskattstjóri beitingu 25% álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 á þá hækkun skattstofna kæranda umrædd gjaldár sem leiða myndi af framangreindum breytingum.

Af hálfu kæranda var boðaðri tekjufærslu vegna reiðufjáreignar X ehf. mótmælt með bréfi, dags. 12. september 2019. Kom fram í bréfinu að umræddur sjóður væri til og hefði honum ekki verið úthlutað úr félaginu. Því ætti 11. gr. laga nr. 90/2003 ekki við. Bréfinu fylgdi yfirlýsing frá endurskoðanda, dags. 11. september 2019, sem staðfesti tilvist sjóðsins og að hann hefði verið til staðar í bankahólfi félagsins þann sama dag. Kom fram í yfirlýsingu endurskoðandans að félagið stundaði gististarfsemi og að viðskiptavinir félagsins greiddu stöku sinnum í reiðufé.

Með úrskurði, dags. 5. nóvember 2019, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum á skattframtölum kæranda árin 2016, 2017 og 2018 í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda til samræmis að viðbættu 25% álagi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

III.

Forsendur hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra voru annars vegar þær, sbr. boðunarbréf, dags. 26. ágúst 2019, og hinn kærða úrskurð, dags. 5. nóvember 2019, að kærandi hefði á árinu 2015, 2016 og 2017 haft endurgjaldslaus og ótakmörkuð umráð bifreiðarinnar P í eigu X ehf. frá 25. ágúst 2015 til 31. desember 2017. Vísaði ríkisskattstjóri til ákvæða 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og varðandi fjárhæð bifreiðahlunninda til skattmatsreglna embættisins sem gilt hefðu á árunum 2015, 2016 og 2017, sbr. reglur nr. 1173/2014, 1202/2015 og 1260/2016, sem birtar hefðu verið í B-deild Stjórnartíðinda. Að því er snertir tekjufærslu vegna óheimilla úthlutana til kæranda úr X ehf. rakti ríkisskattstjóri að fram hefði komið af hálfu félagsins og kæranda að eignaliðurinn „sjóður“ að fjárhæð 2.700.000 kr. í lok áranna 2016 og 2017 hefði verið varasjóður í formi reiðufjár sem varðveittur hefði verið í bankahólfi félagsins. Kærandi hefði verið eigandi alls hlutafjár í X ehf. á umræddum árum og yrði að ganga út frá því að hún hefði þannig ráðið yfir félaginu að öllu leyti. Upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 þætti taka til afhendingar fjármuna til vörslu hjá kæranda þannig að telja yrði þær sem tekjur af hlutareign hennar í félaginu (dulinn arð). Ekki yrði annað séð en að kærandi hefði ein haft umrædda fjármuni til umráða, enda hefði ekki verið sýnt fram á að utanaðkomandi aðili hefði haft eftirlit með ráðstöfun fjármunanna og þar með verið með ótakmarkaðan ráðstöfunarrétt yfir fjármununum. Að framangreindu virtu yrði að líta á afhendingu fjármunanna til kæranda, hvað sem liði varðveislu þeirra í raun, sem tekjur kæranda af hlutareign hennar í einkahlutafélaginu, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, þrátt fyrir að þær hefðu verið tilgreindar sem reiðufjáreign í umráðum hluthafa (sjóður) í bókum félagsins. Þætti enginn munur vera á slíkri afhendingu fjármuna og þeirri sem fælist í að afhenda fjármuni á grundvelli t.a.m. arðsúthlutana hvað varðaði ráðstöfunarrétt fjármunanna í hendi kæranda. Enn fremur þætti enginn munur vera á þessari afhendingu fjármuna og þegar lánveiting ætti sér stað, en hafa yrði í huga í því sambandi að slík lánveiting teldist óheimil, sbr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og væru slíkar óheimilaðar lánveitingar skattlagðar hjá lántaka ýmist sem laun eða gjöf, sbr. 3. mgr. 1. tölul. og 2. mgr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Yrði því ekki annað séð en að framangreind úthlutun fjármuna frá X ehf. hefði ekki farið fram sem heimiluð úthlutun fjármuna félagsins, sbr. 73. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og bæri því að haga skattlagningu samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. Þar sem kærandi hefði verið starfsmaður félagsins á árinu 2016 þætti verða að fara með afhendingu fjármunanna sem laun í skattframtali hennar árið 2017, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 2. mgr. 11. gr. sömu laga. Ríkisskattstjóri hefði því í hyggju að færa kæranda til tekna sem laun hina óheimiluðu úttekt úr X ehf. að fjárhæð 2.700.000 kr. í skattframtali árið 2017. Í hinum kærða úrskurði tók ríkisskattstjóri afstöðu til fram kominna andmæla kæranda í tölvupósti, dags. 12. september 2019, en taldi þau ekki gefa tilefni til að falla frá boðaðri tekjufærslu. Taldi ríkisskattstjóri ekki hafa komið fram haldbærar skýringar á því hvers vegna umræddir fjármunir hefðu ekki verið lagðir inn á bankareikning félagsins á þeim tíma sem hér um ræðir. Fjármunir hefðu runnið til kæranda á árinu 2016. Í lok 2017 hefðu þeir enn verið í vörslu kæranda en sjá mætti að félagið hefði verið eigandi að sjö bankareikningum í lok árs 2016 og sama fjölda í lok árs 2017. Væri ekki ljóst hvaða rekstrarlega þörf hefði verið á varðveislu fjármuna kæranda í jafnlangan tíma og raun bæri vitni, en félagið hefði þar með orðið af vaxtatekjum. Væri ekki tilefni til að líta svo á að framangreind afhending fjármuna til kæranda hefði önnur einkenni en þegar í hlut ættu arðsúthlutanir eða lánveitingar. Þætti afhending bera öll einkenni þess að hafa verið dulinn arður sem skattleggja bæri á grundvelli 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, og þá sem laun, sbr. 2. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga. Loks bætti ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við vantalda skattstofna kæranda, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

IV.

Í kæru til yfirskattanefndar er krafist niðurfellingar á þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til tekna 2.700.000 kr. í skattframtali árið 2017. Kemur fram í kærunni að á undanförnum árum hafi tekist að safna varasjóði fyrir X ehf. Hafi verið gerð grein fyrir sjóðnum með handbæru fé í ársreikningi félagsins og skattframtölum þess. Er því mótmælt að mögulegt sé að leggja 11. gr. laga nr. 90/2003 til grundvallar breytingu á skattframtali kæranda þar sem engin úthlutun hafi farið fram hjá X ehf. til hluthafa félagsins eða starfsmanna þess. Ársreikningur félagsins beri með sér að fjármunir hafi verið til staðar í félaginu og hafi það ekki verið dregið í efa af skattyfirvöldum fram til þessa. Varsla fjármuna í formi peninga sé jafn lögleg og gild og varsla fjármuna á bankareikningum og sé hverjum og einum í sjálfsvald sett hvaða geymsluaðferð hann kjósi að nota. Rekstur X ehf. byggist á útleigu húsnæðis til ferðamanna og sé sú þjónusta á stundum greidd með peningum. Þeir peningar séu til staðar svo sem vottorð endurskoðanda beri með sér. Sé það sérkennileg lögfræði að halda því fram að „yfirráð kæranda“ yfir félaginu réttlæti ákvörðun um hina kærðu breytingu. Með slíkri ályktun megi eins færa prókúruhafa eða framkvæmdastjóra í einkahlutafélagi sjóð í formi peninga til tekna. Úttekt úr sjóðum hlutafélags verði ekki framkvæmd nema með færslu í bókhaldi félagsins og séu frávik frá því m.a. varin með refsilögum. Ársreikningar X ehf. beri með sér að umræddur sjóður hafi verið til staðar í árslok 2016 og 2017. Er bent á að sá sjóður sem til umfjöllunar hafi verið í úrskurði yfirskattanefndar nr. 168/2018 hafi komið fram í „endurgerðum ársreikningum“. Verði þetta skilið svo að sjóðurinn hafi ekki verið hluti af upphaflegum ársreikningum sem borist hafi skattyfirvöldum. Ekki hafi verið um slíkt að ræða í tilviki X ehf. og hafi úrskurðurinn því ekki fordæmisgildi í máli kæranda. Þá hafi staðfesting endurskoðanda á tilvist sjóðsins ekki legið fyrir í umræddu máli.

V.

Með bréfi, dags. 22. janúar 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 23. janúar 2020, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

VI.

Kæruefni máls þessa er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til tekna 2.700.000 kr. í skattframtali árið 2017 sem launatekjur samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Byggði ríkisskattstjóri á því að um væri að ræða greiðslur frá X ehf. sem bæri að virða sem tekjur af hlutareign kæranda í félaginu (duldar arðgreiðslur), sbr. upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, og skattleggja eftir þeim reglum sem fram koma í 2. mgr. sömu lagagreinar.

Í umfjöllun hins kærða úrskurðar eru rakin ákvæði um skattskyldu arðs af hlutum og hlutabréfum í 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 11. gr. laganna er tekið fram að úthlutun verðmæta samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar til hluthafa eða hlutareiganda sem jafnframt er starfsmaður félags, eða tengds félags, teljist vera laun samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna ef hún er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög. Ef úthlutun til annarra en starfsmanna er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög skal skattleggja úthlutunina sem tekjur samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laganna. Samkvæmt 73. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, er óheimilt að úthluta af fjármunum einkahlutafélags til hluthafa nema það fari fram eftir reglum um úthlutun arðs, sem endurgreiðsla vegna lækkunar hlutafjár eða varasjóðs eða vegna félagsslita. Í lögunum eru sérstakar reglur um þessi efni, sbr. VII., XII. og XIII. kafla þeirra, sbr. sambærilega kafla í lögum nr. 2/1995, um hlutafélög.

Eins og hér að framan hefur verið rakið var kærandi eigandi alls hlutafjár í X ehf. á þeim tíma sem málið varðar og réði hún alfarið fyrir einkahlutafélaginu. Gat því komið til þess að upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 tækju til greiðslna einkahlutafélagsins í þágu kæranda þannig að telja yrði þær sem tekjur af hlutareign hennar í félaginu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 13. febrúar 1997 í máli nr. 88/1996 (H 1997:602).

Breyting ríkisskattstjóra sem hér er deilt um laut að því að færa kæranda til tekna 2.700.000 kr. í skattframtali árið 2017 vegna fjárhæðar sem tilgreind var með handbæru fé í reikningsskilum X ehf. fyrir rekstrarárið 2016. Með bréfi, dags. 12. desember 2018, lagði ríkisskattstjóri fyrir X ehf. að leggja fram sundurliðun á handbæru fé sem numið hefði 2.278.929 kr. í árslok 2017 samkvæmt skattframtali félagsins árið 2018. Í svarbréfi, dags. 17. janúar 2019, kom fram í sundurliðun af hálfu félagsins að félagið hefði átt sjóð að fjárhæð 2.700.000 kr. Með bréfi til X ehf., dags. 6. febrúar 2019, óskaði ríkisskattstjóri eftir því að lagður yrði fram hreyfingalisti yfir sjóð félagsins og skýringar á tilgangi og notkun sjóðsins. Af hálfu félagsins var upplýst með bréfi, dags. 19. febrúar 2019, að um væri að ræða varasjóð sem varðveittur væri í bankahólfi og hefði hann ekki verið hreyfður. Tilgangur sjóðsins væri að mæta ófyrirséðum áföllum. Í kjölfar fyrirspurna til X ehf. óskaði ríkisskattstjóri með bréfi, dags. 15. maí 2019, eftir upplýsingum frá kæranda um þróun umrædds sjóðs með hliðsjón af handbæru fé í árslok 2015 og 2016 og innstæðum á bankareikningum félagsins á sama tíma. Þyrfti að koma fram í hverju handbært fé félagins hefði verið fólgið í lok árs 2016 og hver hækkun á sjóði hefði verið á árunum 2016 og 2017. Þá óskaðist upplýst hverju sætti að umræddir fjármunir hefðu ekki verið varðveittir á bankareikningum X ehf. Upplýsti kærandi í tölvupósti 3. júní 2019 að sjóðurinn væri til staðar og varðveittur í bankahólfi vegna vantrausts á bönkum og lágra innlánsvaxta. Í kjölfar ítrekunar ríkisskattstjóra með tölvupósti 19. júlí 2019 sendi kærandi ríkisskattstjóra umbeðið yfirlit með tölvupósti 2. ágúst 2019, en samkvæmt því myndaðist sjóður hjá félaginu á árinu 2016 sem nam í árslok 2.700.000 kr. Hefði sjóður félagins numið sömu fjárhæð í árlok 2017.

Samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra var við ákvörðun tekjuviðbótar miðað við hækkun sjóðs á árinu 2016, þ.e. þá fjárhæð sem samkvæmt skýringum kæranda og X ehf. myndaðist á árinu 2016 og geymd var í bankahólfi. Taldi ríkisskattstjóri að greindir fjármunir, sem tilgreindir voru sem sjóðseign í reikningsskilum X ehf., hefðu runnið til kæranda. Af hálfu kæranda er hins vegar byggt á því að greindir fjármunir hafi verið í sjóði félagsins í lok árs 2016 og hafi þeir verið varðveittir í bankahólfi. Geti slík varsla fjármuna geti ekki falið í sér úthlutun í skilningi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003.

Í úrskurðaframkvæmd hefur verið byggt á því að hafi hluthafi einkahlutafélags í vörslu sinni fjármuni, sem samkvæmt bókum félagsins teljast liggja í sjóði þess, kunni að vera tilefni til ályktunar um slíka afhendingu verðmæta til hluthafans sem um ræðir í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, sbr. t.d. úrskurði yfirskattanefndar nr. 168/2018 og 30/2020. Í tilviki kæranda er til þess að líta að ekki verður séð að færð hafi verið sjóðbók í bókhaldi X ehf., sbr. 1. tölul. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, enda hefur slíkt gagn ekki verið lagt fram af hálfu félagsins eða kærenda. Hafa engin áreiðanleg gögn komið fram í málinu til stuðnings staðhæfingu kæranda um varðveislu fjármuna X ehf. í sjóði félagsins á því tímabili sem um ræðir og getur framlögð staðfesting endurskoðanda, dags. 11. september 2019, á fjármunum í bankahólfi félagsins þann dag engu breytt í þessu sambandi. Að framangreindu virtu verður að taka undir með ríkisskattstjóra að efnislega beri að virða greiðslur þessar sem tekjur kæranda af hlutareign hennar í einkahlutafélagi þessu, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, þrátt fyrir að þeir hafi verið tilgreindar sem sjóðseign í bókum félagsins. Þá má ljóst vera að umræddar greiðslur frá X ehf. fóru ekki fram sem lögmæt úthlutun á fjármunum félagsins, sbr. 73. gr. laga nr. 138/1994. Ber því að haga skattlagningu teknanna eftir fyrirmælum 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003.

Með vísan til framanritaðs verður að hafna kröfu kæranda um að hinni kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja