Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts
  • Kæra vegna tafa á afgreiðslu máls
  • Málshraði

Úrskurður nr. 59/2020

Lög nr. 50/1988, 43. gr. 3. mgr., 43. gr. A 2. mgr. (brl. nr. 125/2015, 23. gr.)   Lög nr. 37/1993, 9. gr. 1. mgr. og 4. mgr.   Reglugerð nr. 288/1995, 6. gr.  

Kæra í máli þessu laut að drætti á afgreiðslu máls kæranda hjá ríkisskattstjóra vegna beiðni kæranda, sem var erlent fyrirtæki, um endurgreiðslu virðisaukaskatts, sbr. kæruheimild í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fallist var á með kæranda að óhæfilegur dráttur hefði orðið á afgreiðslu málsins sem brotið hefði í bága við almennar málshraðareglur.

Ár 2020, mánudaginn 4. maí, er tekið fyrir mál nr. 27/2020; kæra A, dags. 18. febrúar 2020, vegna afgreiðslu á beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 18. febrúar 2020, hefur umboðsmaður kæranda gert athugasemdir við tafir á afgreiðslu á beiðnum kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts (RSK 10.29). Kemur fram í kærunni að um sé að ræða sjö beiðnir sem sendar hafi verið ríkisskattstjóra dagana 14. september og 14. nóvember 2018 og 15. mars 2019. Af hálfu ríkisskattstjóra hafi verið óskað eftir nánari upplýsingum og skýringum með bréfi til kæranda, dags. 15. apríl 2019, sem svarað hafi verið 15. maí sama ár. Hinn 14. október 2019 hafi ríkisskattstjóri tilkynnt kæranda um fyrirhugaða synjun á beiðni félagsins um endurgreiðslu virðisaukaskatts og kærandi gert athugasemdir af því tilefni 12. nóvember 2019. Kærandi hafi ítrekað spurst fyrir um stöðu málsins með tölvupóstum og ávallt fengið þau svör að málið sé í vinnslu. Af hálfu kæranda sé þess nú krafist að staðfest verði með úrskurði yfirskattanefndar að afgreiðsla ríkisskattstjóra á umsóknum kæranda hafi dregist óhæfilega og að ríkisskattstjóra verði gert að taka málið til afgreiðslu. Því til stuðnings sé vísað til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja. Ljóst sé af reglugerðarákvæðinu að afgreiðsla málsins hafi dregist um 8-14 mánuði umfram frest og telji kærandi slíkar tafir í andstöðu við 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi kæranda ekki verið tilkynnt um að tafir á afgreiðslu erindisins væru fyrirsjáanlegar, sbr. 3. mgr. 9. gr. umræddra laga. Krafist sé málskostnaðar til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. ákvæði mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Kærunni fylgja gögn málsins, þar með talið afrit af tölvupóstum.

II.

Af hálfu yfirskattanefndar var kæra kæranda send ríkisskattstjóra hinn 20. febrúar 2020, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Með bréfi yfirskattanefndar til ríkisskattstjóra, dags. 7. apríl 2020, var athygli ríkisskattstjóra vakin á því að frestur samkvæmt 3. mgr. 6. gr. sömu laga væri liðinn og því beint til ríkisskattstjóra að hraða eftir föngum gagnaöflun í málinu og leggja fram umsögn. Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. apríl 2020, var því beint til ríkisskattstjóra að leggja fram umsögn í málinu eigi síðar en 22. apríl 2020.

Með bréfi, dags. 17. apríl 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni kemur fram að ríkisskattstjóri hafi á undanförnum mánuðum haft til skoðunar rétt erlendra fyrirtækja til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna áranna 2016, 2017 og 2018 og hafi kærandi verið upplýstur um það í símtölum að um allsherjarskoðun sé að ræða vegna fleiri aðila innan tiltekins atvinnugeira. Samkvæmt 6. gr. brottfallinnar reglugerðar nr. 288/1995 hafi átt að afgreiða beiðnir kæranda dagana 5. október 2018, 5. desember 2018 og 5. apríl 2019. Beiðnirnar hafi upphaflega borist dagana 14. september og 14. nóvember 2018, en reynst rangar og af þeim sökum hafi verið sendar inn nýjar beiðnir þann 15. mars 2019 með leiðréttum fjárhæðum til endurgreiðslu. Með tveimur tölvupóstum umboðsmanns kæranda 27. mars 2019 hafi verið tilkynnt um mistök við gerð beiðna vegna áranna 2017 og 2018 og leiðrétt eintök verið send. Leiðréttingar þessar hafi verið til þess fallnar að tefja yfirferð ríkisskattstjóra sem tekið hefði nokkurn tíma, m.a. vegna framangreindra ástæðna. Með vísan til framangreinds hefði ekki verið unnt að afgreiða beiðnir kæranda til samræmis við 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 288/1995 fyrr en í fyrsta lagi þann 5. apríl 2019 þar sem réttar beiðnir hafi ekki borist fyrr en 15. mars sama ár. Vegna framangreindra annmarka á innsendum beiðnum kæranda sem og óvissu um réttmæti slíkra endurgreiðslna til erlendra fyrirtækja hafi kæranda ekki verið send fyrirspurn vegna málsins fyrr en 15. apríl 2019 og hafi málið frá þeim tíma verið í vinnslu. Ríkisskattstjóri hafi boðað kæranda synjun beiðna um endurgreiðslu virðisaukaskatts þann 14. október 2019 og andmæli borist 12. nóvember sama ár. Hafi ríkisskattstjóri haft andmælin til skoðunar og hyggist ljúka afgreiðslu málsins innan skamms.

III.

Kæra kæranda í máli þessu, dags. 18. febrúar 2020, varðar meintar tafir á meðferð ríkisskattstjóra á máli kæranda vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 3. mgr. 43. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, og reglugerðar nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja, sbr. nú reglugerð nr. 1243/2019, um sama efni. Ákvæði þessi mæla fyrir um endurgreiðslu þess virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja sem þau hafa greitt hér á landi vegna kaupa á vörum eða þjónustu til atvinnustarfsemi sinnar, svo sem nánar greinir. Er ljóst að kæran byggir á kæruheimild í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. A laga nr. 50/1988, sbr. 23. gr. laga nr. 125/2015, sem breyttu hinum fyrrnefndu lögum, má skjóta ákvörðun ríkisskattstjóra um sérstaka endurgreiðslu á virðisaukaskatti samkvæmt XIII. kafla laganna og ákvæðum til bráðabirgða í þeim til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Verður því að telja að kæranda sé heimilt að kæra drátt á afgreiðslu málsins til yfirskattanefndar á grundvelli fyrrnefnds ákvæðis stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda ber almennt að beina kæru á grundvelli þess ákvæðis til þess stjórnvalds sem stjórnvaldsákvörðun í málinu verður kærð til. Þessa kæruheimild stjórnsýslulaga verður þó að skýra svo að hún eigi einungis við í þeim tilvikum þegar mál hefur ekki verið til lykta leitt af lægra stjórnvaldi, sbr. m.a. athugasemdir með 9. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 37/1993, en þar er tekið fram að um sé að ræða undantekningu frá reglu 2. mgr. 26. gr. laganna um að ákvarðanir, sem ekki binda endi á mál, verði ekki kærðar fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Þegar lægra stjórnvald hefur tekið ákvörðun í máli og þannig lokið meðferð þess fer því um kærumeðferð hjá æðra stjórnvaldi eftir almennum reglum.

Eins og reifað er í umsögn ríkisskattstjóra í málinu munu beiðnir um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kæranda, sem um ræðir í málinu, hafa borist ríkisskattstjóra dagana 14. september og 14. nóvember 2018 og tóku til endurgreiðslutímabila á árunum 2016, 2017 og 2018. Í umsögninni kemur þó fram að leiðréttinga hafi verið þörf á innsendum beiðnum og hafi leiðréttar umsóknir borist ríkisskattstjóra þann 15. mars 2019. Í 2. mgr. 6. gr. fyrrnefndrar reglugerðar nr. 288/1995 kemur fram að umsóknir sem berist innan skilafrests og með réttum fylgigögnum skuli afgreiddar einum mánuði og fimm dögum eftir lok endurgreiðslutímabils. Endurgreiðslubeiðnir sem berist eftir lok skilafrests skuli afgreiddar með beiðnum næsta endurgreiðslutímabils. Ágreiningslaust virðist að ríkisskattstjóra hafi borið að ljúka afgreiðslu málsins innan eins mánaðar og fimm daga frests samkvæmt 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 288/1995 frá því leiðréttar endurgreiðslubeiðnir bárust honum þann 15. mars 2019, sbr. umsögn embættisins þar sem þó er tekið fram að ekki hafi verið unnt að afgreiða beiðnir þessar fyrr en í fyrsta lagi þann 5. apríl 2019 þar sem leiðréttar beiðnir hafi ekki borist fyrr en 15. mars 2019. Fyrir liggur að með bréfi til kæranda, dags. 15. apríl 2019, óskaði ríkisskattstjóri með vísan til 38. gr. laga nr. 50/1988 eftir frekari upplýsingum og skýringum frá kæranda vegna málsins og munu þær hafa borist með bréfi kæranda, dags. 8. maí 2019. Með bréfi, dags. 14. október 2019, greindi ríkisskattstjóri kæranda frá því að fyrirhugað væri að hafna beiðni hans um endurgreiðslu virðisaukaskatts og var kæranda með bréfinu veittur 20 daga frestur frá dagsetningu þess að telja til að koma á framfæri andmælum vegna fyrirhugaðrar synjunar. Af hálfu kæranda var hinni boðuðu synjun mótmælt með bréfi umboðsmanns félagsins, dags. 12. nóvember 2019. Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að andmælin séu nú til athugunar hjá embættinu og að þess sé vænst að afgreiðslu málsins ljúki innan skamms.

Af hálfu ríkisskattstjóra er ekki komið fram hvenær „skilafrestur“ í skilningi 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 288/1995 hafi runnið út í tilviki kæranda. Eins og fyrr greinir virðist þó ágreiningslaust í málinu að embættinu hafi borið að ljúka afgreiðslu málsins innan eins mánaðar og fimm daga frests samkvæmt reglugerðarákvæði þessu talið frá þeim tíma er leiðréttar endurgreiðslubeiðnir kæranda bárust ríkisskattstjóra 15. mars 2019. Ljóst er að sá frestur var löngu útrunninn þegar ríkisskattstjóri greindi kæranda frá því í bréfi, dags. 14. október 2019, að fyrirhugað væri að synja beiðni félagsins. Þá er til þess að líta að engin lagaskylda hvíldi á ríkisskattstjóra til að boða kæranda afgreiðslu erindisins með þessum hætti, enda var ekki um að ræða ákvörðun eða endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1988 heldur afgreiðslu á umsókn félagsins um endurgreiðslu virðisaukaskatts, sbr. 3. mgr. 43. gr. sömu laga og ákvæði reglugerðar nr. 288/1995 sem voru í gildi þegar umsóknir kæranda bárust ríkisskattstjóra, sbr. nú reglugerð nr. 1243/2019. Var þessi málsmeðferð ríkisskattstjóra því til þess fallin að draga málið á langinn, hvað sem öðru líður. Að framangreindu athuguðu verður að fallast á með kæranda að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu máls félagsins. Ekki hafa aðrar skýringar komið fram af hálfu ríkisskattstjóra á þessum drætti en að mál kæranda sé liður í almennri athugun embættisins á endurgreiðslum virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja. Í ljósi þess sem að framan greinir þykja þær skýringar ekki geta réttlætt slíkan drátt sem um ræðir. Þá liggur fyrir að kæranda var ekki tilkynnt um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu málsins á neinu stigi að því er séð verður. Má í þessu sambandi vísa til sjónarmiða í áliti umboðsmanns Alþingis frá 2. desember 1999 í máli nr. 1924/1996. Er því beint til ríkisskattstjóra að taka beiðni kæranda til afgreiðslu án frekari tafa.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli fyrrgreinds lagaákvæðis. Umkrafinn kostnaður vegna kæru til yfirskattanefndar nemur samkvæmt framlögðum gögnum 62.250 kr. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar frá 21. nóvember 2014 um ákvörðun málskostnaðar, þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 62.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á með kæranda að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra sem brotið hafi í bága við almennar málshraðareglur. Er því beint til ríkisskattstjóra að taka mál kæranda til afgreiðslu án frekari tafa. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 62.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja