Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána
  • Fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 64/2020

Lög nr. 111/2016, 5. gr. 1. mgr. (brl. nr. 63/2017, 3. gr.)   Lög nr. 37/1993, 7. gr.  

Ríkisskattstjóri hafnaði umsókn kæranda um nýtingu og ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis þar sem umsóknin barst ríkisskattstjóra að liðnum lögboðnum tólf mánaða fresti frá undirritun kaupsamnings. Fallist var á með kæranda, sem ekki talaði íslensku, að ríkisskattstjóri hefði ekki gætt leiðbeiningarskyldu sinnar sem skyldi gagnvart honum, þegar kærandi leitaði til embættisins, en tilefni hefði verið til þess að ríkisskattstjóri gengi úr skugga um að kæranda væri m.a. ljóst skilyrði um frest til að standa skil á umsókn. Kom fram í því sambandi að í enskri útgáfu vefs ríkisskattstjóra væri ekki greint frá umsóknarfresti. Var krafa kæranda tekin til greina.

Ár 2020, miðvikudaginn 6. maí, er tekið fyrir mál nr. 162/2019; kæra A, dags. 1. nóvember 2019, vegna úttektar séreignarsparnaðar. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 1. nóvember 2019, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra frá 3. október 2019 um að hafna umsókn kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð, sbr. lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, með áorðnum breytingum. Ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á því að umsókn kæranda hefði borist að liðnum lögmæltum fresti til að sækja um úrræði þetta. Ríkisskattstjóri tók fram að umsókn kæranda varðaði öflun íbúðarhúsnæðis að G sem kærandi hefði verið skráður eigandi að frá 21. júní 2018 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016 skyldi sækja um úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum eigi síðar en tólf mánuðum frá undirritun kaupsamnings og gilti hið sama um umsókn um ráðstöfun iðgjalda inn á lán. Þar sem kaupsamningur vegna kaupa kæranda á íbúðarhúsnæði að G hefði verið undirritaður 21. júní 2018 hefði umsóknarfrestur um útgreiðslu séreignarsparnaðar eða ráðstöfun sparnaðarins inn á lán samkvæmt ofangreindu runnið út 21. júní 2019. Umsókn kæranda hefði borist 25. júní 2019 og teldist hún því of seint fram komin og væri henni því synjað.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að synjun ríkisskattstjóra verði hnekkt. Er vísað til þess að ákvörðun ríkisskattstjóra takmarki réttindi kæranda. Kærandi sé búsettur hér á landi en tali ekki íslensku. Kærandi hafi aðeins verið fjórum dögum of seinn að sækja um ráðstöfun séreignarsparnaðar. Engar upplýsingar komi fram um tímamörk umsókna um nýtingu séreignarsparnaðar í þeim leiðbeiningum sem birtar séu á ensku á heimasíðu ríkisskattstjóra. Þá hafi starfsmenn ríkisskattstjóra sem kærandi hafi haft samband við í tengslum við umsókn hans ekki upplýst hann um tímamörk til að skila umsókninni. Kærandi og eiginkona hans hafi af fjárhagsástæðum ekki sótt um strax eftir kaup íbúðarhúsnæðisins, en þau hafi viljað hámarka fjárhæð séreignarsparnaðar sem þau gætu nýtt. Hafi kærandi í þessu skyni greitt aukalega í séreignarsjóð. Kærandi hafi einnig misst vinnu sína í mars 2019 og því þurft að einbeita sér að því að finna nýja vinnu.

II.

Með bréfi, dags. 7. janúar 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að ákvörðun embættisins verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Í umsögn ríkisskattstjóra er rakið að með hinum kærða úrskurði hafi umsókn kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar vegna fyrstu kaupa, sbr. lög nr. 111/2016, verið synjað á þeim grundvelli að umsóknarfrestur væri liðinn þegar umsóknin barst. Í 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016 segi að aðili skuli sækja um úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum eigi síðar en tólf mánuðum frá undirritun kaupsamnings. Sama gildi um ráðstöfun iðgjalda inn á lán. Í athugasemdum frumvarps til laga nr. 63/2017, sem breytt hafi lögum nr. 111/2016, sbr. þskj. nr. 1059 á 146. löggjafarþingi, komi fram að tólf mánuðir þyki hæfilegur tími til að ganga frá umsókn.

Kaupsamningur vegna kaupa kæranda á íbúðarhúsnæði að G hafi verið undirritaður 21. júní 2018. Í samræmi við ofangreint hafi umsóknarfrestur um útgreiðslu séreignarsparnaðar eða ráðstöfun hans inn á lán runnið út 21. júní 2019. Kærandi hafi skilað umsókn 25. júní 2019 inn á vefsvæðinu skattur.is, en þá hafi tólf mánaða umsóknarfresturinn verið liðinn.

Hægt sé að nálgast upplýsingar um umsóknarferlið og umsóknarfrestinn í gegnum heimasíðu ríkisskattstjóra, bæði á enskum og íslenskum hluta heimasíðunnar. Á enska hluta heimasíðunnar sé tekið fram að upplýsingarnar séu aðeins aðgengilegar á íslensku. Þar sem umsóknarformið sé með rafrænum hætti og upplýsingar og aðstoð við umsókn sé veitt af starfsmönnum ríkisskattstjóra á ensku í síma, með tölvupósti eða netspjalli og á starfsstöðvum verði ekki séð að ástæður þær sem raktar séu í rökstuðningi fyrir kröfu kæranda geti talist hafa komið í veg fyrir að umsókn um nýtingu séreignarsparnaðar væri skilað innan umsóknarfrestsins.

Með bréfi, dags. 28. janúar 2010, hefur kærandi gert athugasemdir við umsögn ríkisskattstjóra og ítrekað kröfur sínar. Tekur kærandi fram að hann hafi leitað aðstoðar ríkisskattstjóra í tengslum við umsókn sína í tvígang. Hafi starfsmenn ríkisskattstjóra verið honum hjálplegir en ekki minnst á að umsóknin væri bundin tímamörkum og hafi þeim jafnvel ekki verið ljóst sjálfum að um slík tímamörk væri að ræða, svo sem hann rekur nánar. Gerir kærandi athugasemdir við kunnáttu starfsmanna ríkisskattstjóra sem sinni leiðbeiningarhlutverki á vegum embættisins.

III.

Um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar, sbr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, vegna kaupa á fyrstu íbúð gilda lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Samkvæmt 2. gr. laganna er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt að nýta viðbótariðgjald, sem greitt er á samfelldu tíu ára tímabili, eftir gildistöku laganna að tilteknu hámarki á ári, sbr. 4. gr. þeirra, með því að a) verja uppsöfnuðu iðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð og/eða b) ráðstafa iðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð. Þá er rétthafa heimilt að nýta iðgjald sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess eftir því sem nánar er kveðið á um í 3. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 er skilyrði fyrir úttekt á séreignarsparnaði að rétthafi hafi ekki áður átt íbúð og að hann afli sér íbúðarhúsnæðis annaðhvort einn eða í félagi við annan einstakling. Þá skal rétthafi eiga að minnsta kosti 30% eignarhlut í þeirri íbúð sem aflað er. Í 1. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 63/2017, kemur fram að umsókn rétthafa um nýtingu séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð samkvæmt 2. gr. skuli beint rafrænt til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður. Sækja skuli um úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum eigi síðar en tólf mánuðum frá undirritun kaupsamnings. Sama gildi um ráðstöfun iðgjalda inn á lán.

Ekki er ágreiningur um það í málinu að kaupsamningur vegna kaupa kæranda á 50% hlut í íbúðarhúsnæðinu að G hafi verið undirritaður 21. júní 2018. Umsókn kæranda um nýtingu og ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna kaupanna á grundvelli laga nr. 111/2016 barst ríkisskattstjóra 25. júní 2019. Er því ljóst að umsókn kæranda barst ríkisskattstjóra að liðnum lögboðnum tólf mánaða fresti samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 63/2017.

Kærandi hefur borið fyrir sig að ríkisskattstjóri hafi vanrækt að veita honum viðhlítandi leiðbeiningar um frest til að skila inn umsókn. Hefur kærandi í þessu sambandi bent á að hann tali ekki íslensku en ekki sé leiðbeint um umsóknarfrest í upplýsingum um úrræði á grundvelli laga nr. 111/2016 sem birtar séu á ensku á heimasíðu ríkisskattstjóra. Þá hafi starfsmenn ríkisskattstjóra ekki vakið athygli kæranda á umsóknarfresti þegar hann hafi leitað aðstoðar hjá embættinu í tengslum við umsóknarferlið.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal ríkisskattstjóri setja framkvæmdar- og starfsreglur vegna lögmæltra verkefna sinna ásamt leiðbeiningum og verklagsreglum. Ríkisskattstjóri skal enn fremur birta reglur og ákvarðanir sem hann metur að hafi þýðingu fyrir skattaðila og eftir atvikum gefa út og hafa til sölu. Á vef ríkisskattstjóra er að finna ítarlegar upplýsingar um rétt fyrstu íbúðarkaupenda til að nýta og ráðstafa séreignarsparnaði sínum, sbr. lög nr. 111/2016, og um umsóknarferli, þar með talið lögbundinn umsóknarfrest. Á enskri útgáfu vefs ríkisskattstjóra er stutt yfirlit um réttindi fyrstu íbúðarkaupenda. Meðal annars er þar ekki greint frá umsóknarfresti, svo sem kærandi hefur bent á. Texti hinnar ensku útgáfu ber með sér að vera samantekt helstu reglna sem snerta umrætt úrræði og er vísað til þess að nánari upplýsingar sé að finna á íslenskum hluta vefsvæðisins (Additional information). Mátti kæranda því vera ljóst að hin enska útgáfa fæli ekki í sér tæmandi upplýsingar um þau atriði sem hér gátu haft þýðingu. Á hitt er að líta að úr því ríkisskattstjóri telur ástæðu til að leiðbeina á upplýsingavef sínum um umrætt úrræði á öðru tungumáli en íslensku má ætlast til þess að þar sé vikið að fresti til að sækja um úrræðið, enda er ljóst að ríkisskattstjóri telur þar um að ræða grundvallarþátt þess að umsókn verði tekin til efnislegrar athugunar.

Um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda er fjallað í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Í umsögn ríkisskattstjóra er vísað til þess að starfsmenn embættisins hafi veitt einstaklingsbundnar leiðbeiningar í gegnum síma, með tölvupósti og netspjalli og jafnframt aðstoðað þá sem komið hafi á starfsstöðvar embættisins. Kærandi kveðst og hafa leitað til ríkisskattstjóra eftir leiðbeiningum varðandi nýtingu séreignarsparnaðar en ekki verið upplýstur sérstaklega um umsóknarfrest. Af hálfu ríkisskattstjóra er því ekki haldið fram að venja sé að vekja athygli á umsóknarfresti í samskiptum við aðila í sömu stöðu og kærandi. Verður því að ætla að þetta atriði hafi ekki borið á góma í viðræðum kæranda við starfsmann ríkisskattstjóra. Viðurkennt er í stjórnsýsluframkvæmd að stjórnvaldi er ekki einasta skylt á grundvelli leiðbeiningarskyldu sinnar að svara beinum fyrirspurnum aðila um hlutaðeigandi málefni, heldur beri stjórnvaldinu einnig að hafa frumkvæði að því að leiðbeina aðila megi því vera ljóst að slíks sé þörf. Af hálfu kæranda er komið fram að hann hafi leitað til ríkisskattstjóra í því skyni að fullvissa sig um réttan skilning á hlutaðeigandi reglum og tryggja að umsókn væri rétt út fyllt. Verður ráðið að kærandi hafi ekki talið sig fá fullnægjandi leiðbeiningar um öll atriði sem hér skiptu máli á enskum hluta vefs ríkisskattstjóra. Eins og fyrirspurnum kæranda var farið samkvæmt þessu og í ljósi þess sem að framan greinir um upplýsingar á vef ríkisskattstjóra þykir hafa verið tilefni til að ríkisskattstjóri gengi úr skugga um að kæranda væri m.a. ljóst margnefnt skilyrði um frest til að standa skil á umsókn. Eins og málið liggur fyrir verður að byggja á því að það hafi ríkisskattstjóri ekki gert.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að ríkisskattstjóri hafi gætt leiðbeiningarskyldu sinnar sem skyldi, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að framansögðu athuguðu og framkomnum skýringum kæranda að öðru leyti þykir kærandi hafa leitt að því rök að afsakanlegar ástæður hafi legið að baki síðbúinni umsókn hans þannig að rétt hefði verið að ríkisskattstjóri tæki umsóknina til efnislegrar meðferðar. Því er krafa kæranda tekin til greina. Er ríkisskattstjóra falið að annast um þær breytingar sem kunna að leiða af þeirri niðurstöðu.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina. Ríkisskattstjóra er falið að annast um breytingar sem leiða af niðurstöðu úrskurðar þessa.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja