Úrskurður yfirskattanefndar

  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 65/2020

Gjaldár 2018

Lög nr. 45/1987, 15. gr.   Lög nr. 37/1993, 13. gr.   Reglugerð nr. 245/1963, 93. gr. 2. mgr.  

Ríkisskattstjóri lækkaði skattskyldar atvinnuleysisbætur og frádrátt lífeyrissjóðsiðgjalda í skattframtali kæranda árið 2018 og lækkaði jafnframt áður ákvarðaða staðgreiðslu vegna kæranda árið 2017. Leiddu þessar breytingar til hækkunar gjalda til greiðslu frá því sem leiddi af frumálagningu opinberra gjalda kæranda umrætt gjaldár. Yfirskattanefnd taldi að ríkisskattstjóra hefði ekki verið unnt að framkvæma fyrrgreinda breytingu á staðgreiðslu vegna kæranda án þess að gefa kæranda áður kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum af því tilefni. Var því beint til ríkisskattstjóra að færa uppgjör staðgreiðslu kæranda í fyrra horf.

Ár 2020, miðvikudaginn 6. maí, er tekið fyrir mál nr. 177/2019; kæra A, dags. 3. desember 2019, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2018. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 3. desember 2019, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 28. nóvember 2019, vegna álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2018. Með hinni kærðu ákvörðun lækkaði ríkisskattstjóri skattskyldar atvinnuleysisbætur í reit 163 í skattframtali kæranda árið 2018 um 163.509 kr., auk þess sem frádráttarbært iðgjald í lífeyrissjóð var lækkað um 6.541 kr. Ríkisskattstjóri tók fram að breytingar þessar væru í samræmi við leiðréttan launamiða og skilagrein staðgreiðslu opinberra gjalda sem Vinnumálastofnun hefði látið ríkisskattstjóra í té. Samkvæmt sömu gögnum væri staðgreiðsla opinberra gjalda 108.241 kr. lægri en komið hefði til frádráttar við frumálagningu og væri staðgreiðsla opinberra gjalda leiðrétt til samræmis við það. Þá tók ríkisskattstjóri fram að fyrirvari væri gerður um frekari endurskoðun. Um breytingarheimild vegna ákvörðunar sinnar vísaði ríkisskattstjóri til 2. mgr. 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, sem sett væri samkvæmt heimild í 121. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Samkvæmt skattbreytingarseðli með ákvörðun ríkisskattstjóra nam lækkun útsvars að meðtalinni breytingu á álagi/verðbótum samtals 24.245 kr. (22.792 + 1.453) og hækkun skattafsláttar til greiðslu útsvars 35.318 kr. Lækkun álagðra gjalda nam því alls 59.563 kr. Til hækkunar kom lækkun staðgreiðslu að meðtalinni breytingu á álagi/verðbótum um samtals 108.241 kr. Hækkun gjalda til greiðslu nam því samtals 51.384 kr.

Í kæru til yfirskattanefndar er því borið við að skuld kæranda í opinberum gjöldum að fjárhæð 51.384 kr. standist engan veginn. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi endurgreitt Vinnumálastofnun 102.800 kr. vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta, sbr. gögn með kærunni. Annars vegar hafi kærandi verið krafinn um 54.073 kr. í endurgreiðslu atvinnuleysisbóta þegar hann hafi farið í atvinnuleit til Slóvakíu og láðst að tilkynna það. Hins vegar hafi kæranda láðst að tilkynna um leigutekjur og verið gert að endurgreiða Vinnumálastofnun 48.727 kr. Samkvæmt þessu fái kærandi ekki skilið hvernig fjárhæðin 163.509 kr. sé fundin, en hugsanlega sé fyrri krafan tví- eða þrítekin. Hvort heldur miðað sé við 102.800 kr. eða 163.509 kr. hljóti kærandi að hafa ofgreitt skatta en ekki vangreitt. Miðað við fjárhæðina 102.800 kr. reiknist kæranda svo til að hann ætti að eiga inni skatta að fjárhæð u.þ.b. 47.535 kr. (102.800 x 46,24%) en ekki skulda 51.384 kr. eins og úrskurður ríkisskattstjóra kveði á um.

II.

Með bréfi, dags. 14. janúar 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun embættisins verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 29. janúar 2020, hefur kærandi ítrekað kröfur sínar. Ákvörðun ríkisskattstjóra samsvari því að lagður sé á kæranda 66,20% tekjuskattur. Fái kærandi ekki skilið hvernig gjöld til greiðslu hækki um 51.384 kr. þegar launaliður skattframtals lækki um 163.508 kr. Geri ríkisskattstjóri enga tilraun til þess að skýra útreikning sinn í umsögninni og sé rökstuðningi embættisins því ábótavant. Kærandi hafi endurgreitt Vinnumálastofnun 102.800 kr. samkvæmt úrskurðum stofnunarinnar og geri kærandi ráð fyrir því að munurinn á þessum fjárhæðum (60.708 kr.) hafi verið endurgreiðsla ríkisskattstjóra á staðgreiðsluskatti til Vinnumálastofnunar vegna offramtalinna launa. Krefst kærandi þess í bréfinu að greiðsla hans að fjárhæð 51.384 kr., sem kærandi hafi greitt til að forðast útskýrða vaxtareikninga og mögulegar kröfur um lögtak, verði endurgreidd.

III.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun ríkisskattstjóra, sem hann tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 28. nóvember 2019, vegna álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2018. Með ákvörðun sinni lækkaði ríkisskattstjóri skattskyldar atvinnuleysisbætur í reit 163 í skattframtali kæranda árið 2018 um 163.509 kr., eða úr 1.380.696 kr. í 1.217.187 kr., og frádráttarbært iðgjald í lífeyrissjóð um 6.541 kr. Tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda lækkaði því um 156.968 kr. Þessar breytingar leiddu til þess að álögð opinber gjöld kæranda lækkuðu um 59.563 kr. að meðtalinni breytingu á álagi samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003. Samhliða þessu tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda um lækkun á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna kæranda staðgreiðsluárið 2017 um 110.947 kr. að meðtöldu álagi samkvæmt nefndri lagagrein. Breytingar ríkisskattstjóra leiddu því til hækkunar á skuldastöðu kæranda vegna álagðra opinberra gjalda um 51.384 kr. frá því sem kom fram við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2018. Af hálfu ríkisskattstjóra kom fram að breytingar þessar væru gerðar á grundvelli leiðrétts launamiða og skilagreinar staðgreiðslu opinberra gjalda sem Vinnumálastofnun hefði látið ríkisskattstjóra í té.

Í kæru til yfirskattanefndar er mótmælt niðurstöðu ríkisskattstjóra um vangreidd opinber gjöld kæranda gjaldárið 2018. Telur kærandi ekki fá standast að skattar til greiðslu hækki þegar tekjur í skattframtali hans séu lækkaðar. Ráðið verður af kærunni að kærandi geri út af fyrir sig ekki athugasemdir við ákvörðun ríkisskattstjóra um lækkun tekna í skattframtali hans og lækkun álagningar af þeim sökum. Verður kæran því skilin þannig að hún lúti fyrst og fremst að breytingu á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna kæranda sem ríkisskattstjóri tilkynnti honum með bréfi sínu.

Í bréfi ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 28. nóvember 2019, kemur ekkert fram um lagagrundvöll hinnar kærðu ákvörðunar um leiðréttingu á staðgreiðslu vegna kæranda að öðru leyti en því að vísað er um breytingarheimild til 2. mgr. 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, sem sett væri samkvæmt heimild í 121. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í greindu ákvæði kemur fram að [ríkis]skattstjóri skuli leiðrétta skattframtal af sjálfsdáðum eða við kæru, þótt hún komi eigi fram fyrr en kærufrestur er liðinn, komi í ljós innan tveggja ára frá því, að skattskrá var framlögð, að þær heimildir, sem [ríkis]skattstjóri hefur farið eftir við leiðréttingu skattframtals, sbr. 89. gr. reglugerðarinnar, eru rangar. Tilvísuð 89. gr. kveður á um heimildir [ríkis]skattstjóra til leiðréttingar á einstökum liðum skattframtals við almenna álagningu opinberra gjalda, eftir atvikum með áætlun skattstofna, svo sem nánar greinir. Eru þetta að efni til hliðstæð ákvæði og nú er að finna í 95. gr. og 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt þessu mælir umrætt ákvæði 2. mgr. 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963 fyrir um skyldu ríkisskattstjóra til að leiðrétta breytingar sem hann hefur gert við álagningarvinnu á skattframtali aðila á grundvelli rangra upplýsinga. Kærandi taldi fram til skatts fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2018 og var skattframtal hans lagt óbreytt til grundvallar álagningunni. Að þessu athuguðu verður ekki séð að umrædd breytingarheimild í reglugerð nr. 245/1963 geti hafa átt við í tilviki kæranda.

Samkvæmt framansögðu má ljóst vera að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra var áfátt, enda gerði ríkisskattstjóri enga grein fyrir efnislegum lagagrundvelli hennar. Um forsendur ákvörðunarinnar kom það eitt fram af hálfu ríkisskattstjóra að launagreiðandi kæranda, þ.e. Vinnumálastofnun, hefði lagt fram nýjar greinargerðir staðgreiðslu. Staðgreiðsla samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, felur í sér að launagreiðandi heldur eftir tilteknum hluta af ákvarðaðri fjárhæð launa í skilningi laganna sem honum ber síðan að skila í ríkissjóð, sbr. 2. mgr. 15. gr. laganna. Miðað við það sem fram kemur í kæru er kæranda hvorki ljóst hvernig atvikaðist um meinta ofreiknaða staðgreiðslu né hvernig launagreiðandi hans (Vinnumálastofnun) hefur ráðstafað þeim fjármunum sem ætla verður að hafi verið dregin af launum (atvinnuleysisbótum) kæranda en töldust vera of hátt ákvörðuð staðgreiðsla samkvæmt niðurstöðu ríkisskattstjóra. Ekkert verður heldur ráðið af gögnum málsins um þetta.

Hvað sem líður forsendum þeirrar breytingar á staðgreiðslu vegna kæranda sem í málinu greinir verður ekki talið að ríkisskattstjóra hafi verið unnt að framkvæma hana án þess að gefa kæranda kost á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kveðið er á um að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Er hér til þess að líta að um er að ræða lækkun á áður ákvarðaðri staðgreiðslu vegna kæranda sem hafði verið tilkynnt honum og lögð til grundvallar við ákvörðun greiðslustöðu hans við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2018, sbr. ákvæði 34. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum.

Sérstaklega skal tekið fram að málsmeðferð ríkisskattstjóra er enn í sama fari og samkvæmt máli því sem greinir í úrskurði yfirskattanefndar nr. 359/2000, en úrskurður þessi er birtur á vefsíðu yfirskattanefndar (www.yskn.is). Verður að átelja þetta.

Samkvæmt framansögðu þykir ekki hjá því komist að ómerkja hina kærðu breytingu ríkisskattstjóra á staðgreiðslu vegna kæranda. Er því beint til ríkisskattstjóra að færa uppgjör staðgreiðslu vegna kæranda tekjuárið 2017 í fyrra horf.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða breyting ríkisskattstjóra vegna staðgreiðslu kæranda staðgreiðsluárið 2017 er felld úr gildi. Ríkisskattstjóra er falið að annast gjaldabreytingar sem leiða af niðurstöðu úrskurðar þessa.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja