Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 654/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. og C-liður 9. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. og 2. mgr. — 116. gr.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.  

Skattskyldar tekjur — Ökutækjaskýrsla — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Frádráttarheimild — Flutningspeningar — Beinn kostnaður — Akstur milli heimilis og vinnustaðar — Akstur í eigin þágu — Kílómetragjald — Kjarasamningur — Flutningur starfsfólks til og frá vinnu — Flutningsskylda atvinnurekanda á starfsfólki — Lagaheimild

Kærandi, sem er starfsmaður X hf., með starfsstöð að B, krafðist þess í kæru til skattstjóra, dags. 22. ágúst 1989, að honum yrði heimilaður frádráttur kostnaðar á móti tekjufærðum ökutækjastyrk frá félaginu. Skattstjóri hafði fellt niður frádrátt 41.626 kr. í reit 32 jafnháan ökutækjastyrk. Af hálfu kæranda hafði verið lögð fram ökutækjaskýrsla RSK 3.04. Með kæruúrskurði, dags. 10. nóvember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Vísaði skattstjóri til þess, að ökutækjastyrkir teldust til skattskyldra tekna skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og um frádrátt vegna kostnaðar vegna öflunar þessara tekna færi eftir ákvæðum 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. sömu laga, þar sem svo væri mælt fyrir, að frádrátturinn skyldi vera í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Samkvæmt greinargerð launagreiðanda væri ökutækjastyrkur einungis greiddur vegna aksturs kæranda milli heimilis og vinnustaðar. Sá akstur teldist allur vera í eigin þágu launþega, sbr. matsreglur ríkisskattstjóra, birtar í 5. tbl. Lögbirtingablaðs, útg. 18. janúar 1989.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. nóvember 1989. Þess er krafist aðallega, að umrædd greiðsla til kæranda teljist starfstengd greiðsla, hliðstæð flutningspeningum, sbr. 1. tl. A-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, en frádráttarbær skv. 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. sömu laga. Til vara að greiðslan teljist falla undir 9. tl. C-liðs 7. gr. nefndra laga og kostnaður vegna teknanna, sem í öllum tilfellum yrði hærri, yrði frádráttarbær skv. síðustu mgr. 30. gr. laganna. Fram kemur, að X hf. beri skv. kjarasamningum við starfsmenn að leggja þeim til ókeypis flutning að og frá vinnustað. Meginhluta þeirra samningsskyldu sé fullnægt með reglubundnum og óreglulegum rútuferðum milli A og B, er gagnast geta öllum starfsmönnum, sem þar búi eða á leiðinni milli A og B, hvort heldur sem er norðan eða sunnan A-fjalls. Ekki sé um tekjuauka að ræða heldur aðferð til þess að jafna aðstöðuna gagnvart starfsfólki, sem starfar á A. Flutningskostnaður sé nálægt því að vera þriðjungur kílómetragjalds skv. taxta ríkisins. Kærandi búi utan rútuleiða félagsins. Svo hafi samist, að hann komi sér sjálfur að og frá vinnustað gegn greiðslu þess kostnaðar, sem félagið ella hefði af því að flytja hann, þ.e. þriðjungs kílómetragjald.

Með bréfi, dags. 22. maí 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærandi hefur gert grein fyrir bifreiðakostnaði á þar til gerðu eyðublaði RSK 3.04. Hins vegar er með öllu vanreifað af hendi kæranda, hvernig afnotum vinnuveitanda af bifreið hans er háttað í starfi hans við fyrirtækið. Af málatilbúnaði kæranda í kæru til ríkisskattanefndar og upplýsingum fyrirtækisins verður eigi annað ráðið en á því sé einvörðungu byggt, að umrædd greiðsla sé vegna aksturs til og frá vinnu. Til frádráttar á móti slíkri greiðslu skortir lagaheimild. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja