Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 696/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 5. tl. — 4. gr. 5., 6. og 7. tl.   Lög nr. 49/1986 — 2. gr. b. liður   Lög nr. 100/1988 — 2. gr.  

Skattskylda — Félag — Skattskylda félags — Sjálfstæður skattaðili — Lögaðili — Skattfrjáls lögaðili — Lögaðili, skattfrjáls — Atvinnurekstur — Almenningsheill — Skattfrelsi — Búnaðarsamband — Búnaðarfélag — Tilraunabú — HRD 1989:298 — Eignarskattur — Sérstakur eignarskattur (Þjóðarbókhlöðuskattur) — Eignarskattsauki — Sérstakur eignarskattur — Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði — Dómur

Kærð er álagning eignarskatts, sérstaks eignarskatts svo og sérstaks skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði gjaldárið 1989. Er gerð sú aðalkrafa, að skattar þessir verði felldir niður, þar sem kærandi, sem er búnaðarsamband, sé undanþeginn skyldu til greiðslu þeirra en til vara „að skattstofnum verði skipt á einstök búnaðarfélög“.

I.

Hinn kærði úrskurður skattstjóra er dagsettur þann 9. janúar 1990 og er sá hluti hans, sem áfrýjað er, svohljóðandi:

„Með dómi Hæstaréttar Íslands 2/3 s.l. var dæmt, að þér væruð skattskyldur aðili. Þér hefðuð atvinnurekstur með höndum og 2. og 4. gr. ofangr. laga leysti yður ekki undan skattskyldu.

Í rekstrarreikningi ársins 1988 koma fram rekstrartekjur rúml. kr. 61. millj. svo og hefðbundin rekstrargjöld í atvinnurekstri svo sem fyrningar. Í efnahagsreikningi koma fram eignir eins og fasteign, vélar, bústofn, bankainnistæður o.fl. alls tæpl. kr. 94. millj. Telja verður, að ofangreind umsvif séu atvinnurekstur og að þér getið ekki notið undanþágugreinar 6. tl. 4. gr. ofangr. laga.

Þá þykir ekki sýnt nægilega fram á, að þér verjið hagnaði yðar einungis til almenningsheilla og að það sé einasta markmið skv. samþykktum yðar og eigi því 5. tl. í 4. gr. ekki við í yðar tilviki. Ekki hefur verið sýnt fram á að 7. tl. í sömu grein eigi við, engin ábending um sérlög. Teljist þér því skattskyldur lögaðili skv. 5. tl. 2. gr. ofangr. laga og er aðalkröfu hafnað.

Tilvísun í 1. tl. 6. gr. rg. nr. 245/1963 og varakrafa um að skipta skattstofnum upp á búnaðarfélög strandar á sama atriði. Skattfrelsi búnaðarfélags miðast við það, að ekki sé rekin atvinna. Þar sem þér teljist stunda atvinnurekstur skv. ofangr. dómi myndu búnaðarfélögin teljast gera það líka, ef starfsemi yðar væri skipt upp á þau. Varakröfu er því einnig hafnað og ákvarðast eignarskattar og sérst. skattar af skrifstofuhúsn. óbreyttir.“

II.

Í kæru sinni til ríkisskattanefndar, dags. 6. febrúar 1990, styður umboðsmaður kæranda kröfur sínar með svofelldum rökum:

„Um rökstuðning vísast til skattkæru dags. 17. ágúst 1989 og viðbótarkæru dags. 28. nóvember 1989 með varakröfu.

Ekki er fallist á rök skattstjóra í úrskurði hans. Í því sambandi skulu ítrekuð nokkur atriði.

Að áliti umbjóðanda okkar fjallaði dómur hæstaréttar aðeins um það hvort hann væri undanþegin tekju- og eignarskatti skv. 5. tl. 4. gr. skattalaga. Umbjóðandi okkar stundar ekki atvinnurekstur í skattaréttarlegum skilningi. Búnaðarsamböndin eru fyrst og fremst útibú Búnaðarfélags Íslands (BÍ) og Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (RALA) og rekin fyrir starfsfé þaðan sem ekki er unnt að líta á sem rekstrartekjur. Um Tilraunabúið að A er það að segja að það er rekið skv. sérstökum samningi milli umbjóðenda okkar og ríkisins. Það er eina tilraunabú landsins sem ekki er rekið af RALA.

Sé litið til tengsla umbjóðanda okkar við BÍ og RALA er augljóst að starfsemin er nánast eingöngu fólgin í því að gegna hlutverki þessara aðila „á svæði“ BSSL.

Hjá kynbótastöðinni er verið að skipta kostnaði og ekki unnt að líta á starfsemi hennar sem atvinnurekstur.“

III.

Með bréfi, dags. 27. apríl 1990, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja