Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána
  • Fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis
  • Skattframkvæmd

Úrskurður nr. 105/2020

Lög nr. 111/2016, 2. gr. 2. mgr., 5. gr. 1. mgr. (brl. nr. 63/2017, 3. gr.)   Lög nr. 90/2003, 101. gr. 3. mgr.  

Kærandi í máli þessu, sem hafði erft eignarhluta í íbúð á yngri árum, sótti ekki um nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa íbúðarhúsnæðis á árinu 2017 þar sem kærandi taldi ljóst að slíkri umsókn yrði hafnað vegna þeirrar túlkunar ríkisskattstjóra að í slíkum tilvikum teldist ekki vera um fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis að ræða. Í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar nr. 91/2019, þar sem greindri túlkun ríkisskattstjóra var hafnað, sótti kærandi um nýtingu séreignarsparnaðar. Ríkisskattstjóri hafnaði umsókninni á þeim grundvelli að hún hefði borist að liðnum lögboðnum tólf mánaða fresti frá undirritun kaupsamnings. Yfirskattanefnd benti á að hvað sem liði ástæðu hinnar síðbúnu umsóknar hefði hún borist ríkisskattstjóra innan ársfrests samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003. Kom fram að telja yrði nefnt ákvæði tekjuskattslaga gilda almennt um störf ríkisskattstjóra. Var hinni kærðu synjun ríkisskattstjóra hnekkt og umsókn kæranda send ríkisskattstjóra til meðferðar að nýju.

Ár 2020, mánudaginn 31. ágúst, er tekið fyrir mál nr. 68/2020; kæra A, dags. 29. apríl 2020, vegna úttektar séreignarsparnaðar. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með kæru, dags. 29. apríl 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra frá 29. janúar 2020 um að hafna umsókn kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð, sbr. lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, með áorðnum breytingum. Var ákvörðun ríkisskattstjóra byggð á því að umsókn kæranda hefði borist að liðnum umsóknarfresti samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016. Fram kom af hálfu ríkisskattstjóra að umsóknin varðaði öflun íbúðarhúsnæðis að S sem kærandi hefði verið skráður eigandi að frá 21. september 2017 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016 skyldi sækja um úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum eigi síðar en tólf mánuðum frá undirritun kaupsamnings og gilti hið sama um umsókn um ráðstöfun iðgjalda inn á lán. Þar sem kaupsamningur vegna kaupa kæranda á íbúðarhúsnæði að S hefði verið undirritaður 21. september 2017 hefði umsóknarfrestur um útgreiðslu séreignarsparnaðar eða ráðstöfun sparnaðarins inn á lán samkvæmt ofangreindu runnið út 21. september 2018. Umsókn kæranda hefði borist 30. ágúst 2019 og teldist hún því of seint fram komin og væri henni því synjað. Benti ríkisskattstjóri kæranda á að þrátt fyrir að tilgreindur umsóknarfrestur laga nr. 111/2016 væri útrunninn væri kæranda heimilt að sækja um útgreiðslu og/eða ráðstöfun séreignarsparnaðar, sbr. lög nr. 40/2014, um ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, í gegnum www.leidretting.is.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að synjun ríkisskattstjóra verði hnekkt. Kærandi tekur fram að óumdeilt sé að umsókn hennar hafi verið send að loknum lögboðnum umsóknarfresti. Á það sé að líta að þegar kærandi hafi þinglýst kaupsamningi vegna kaupa á íbúðinni að S hafi henni verið synjað um helmingslækkun þinglýsingargjalda þar sem kærandi hefði áður verið þinglýst eigandi að litlum eignarhluta í íbúð sem hún hefði erft ásamt fleirum. Hefði því ekki verið um fyrstu íbúðarkaup að ræða. Kæranda hafi verið ljóst að ríkisskattstjóri túlkaði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 á þann veg að hefði umsækjandi um nýtingu séreignarlífeyrissparnaðar áður átt hlut í íbúðarhúsnæði vegna arftöku teldist ekki vera um fyrstu íbúðarkaup að ræða og væri umsækjanda þá ekki heimilt að nýta sér úrræði laganna. Af þessari ástæðu hafi kærandi ekki sótt um úrræðið. Þessari framkvæmd hefði síðan verið breytt með úrskurði yfirskattanefndar nr. 91/2019 og hafi kærandi í strax í kjölfarið sótt um nýtingu úrræðisins. Megi líta svo á að frestir þeir sem lögin setji fyrir umsókn um úrræðið hafi ekki byrjað að líða í tilviki kæranda fyrr en 4. júní 2019 er umræddur úrskurður féll og að umsókn kæranda sé því ekki of seint fram komin.

II.

Með bréfi, dags. 16. júní 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Ríkisskattstjóri tekur fram að umsókn kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar vegna fyrstu kaupa hafi verið synjað á þeim grundvelli að umsóknarfrestur hefði verið liðinn þegar umsókn hennar barst. Í 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016 segi að aðili skuli sækja um úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum eigi síðar en tólf mánuðum frá undirritun kaupsamnings. Sama gildi um ráðstöfun iðgjalda inn á lán. Kærandi hafi undirritað kaupsamning vegna kaupa á S þann 21. september 2017. Umsóknarfrestur um útgreiðslu séreignarsparnaðar eða ráðstöfun hans inn á lán hafi því runnið út 21. september 2018. Óumdeilt sé að umsókn kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar vegna fyrstu kaupa hafi fyrst borist 30. ágúst 2019.

Í kæru komi fram að kærandi hafi ekki sótt um nýtingu séreignarsparnaðar vegna fyrstu kaupa þar sem hún hefði erft fasteign og því ekki talið sig uppfylla skilyrði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016. Rétt sé að umsóknum um nýtingu séreignasparnaðar vegna fyrstu eignar hafi verið synjað í þeim tilvikum þar sem umsækjandi hafi áður verið skráður eigandi fasteignar og hafi þar ekki verið gerður greinarmunur á því hvort sá eignarhlutur væri til kominn fyrir kaup eða arf. Sú framkvæmd hafi breyst með úrskurði yfirskattanefndar nr. 91/2019 þar sem ákvæði 2. mgr. 2. gr. laganna hafi verið túlkað með þeim hætti að fasteign sem fengin hafi verið í arf útiloki ekki nýtingu úrræðisins. Í framhaldi af því hafi allar umsóknir sem synjað hafi verið á fyrrnefndum grundvelli verið enduruppteknar og umsækjendum heimilað að nýta séreignasparnaðinn vegna fyrstu kaupa til samræmis við túlkun yfirskattanefndar. Þrátt fyrir þetta sé ríkisskattstjóra ekki mögulegt að endurupptaka eða afgreiða umsóknir sem ekki hafi borist. Þá sé 12 mánaða umsóknarfrestur um nýtingu séreignarsparnaðar vegna fyrstu kaupa í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016 skýr. Óumdeilt sé að umsókn kæranda hafi borist rúmu ári eftir að umsóknarfrestur rann út og sé engin heimild til að víkja frá þeim fresti í lögum nr. 111/2016.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. júní 2020, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og henni gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar, sbr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, vegna kaupa á fyrstu íbúð gilda lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Samkvæmt 2. gr. laganna er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt að nýta viðbótariðgjald, sem greitt er á samfelldu tíu ára tímabili, eftir gildistöku laganna að tilteknu hámarki á ári, sbr. 4. gr. þeirra, með því að a) verja uppsöfnuðu iðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð og/eða b) ráðstafa iðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð. Þá er rétthafa heimilt að nýta iðgjald sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess eftir því sem nánar er kveðið á um í 3. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 er skilyrði fyrir úttekt á séreignarsparnaði að rétthafi hafi ekki áður átt íbúð og að hann afli sér íbúðarhúsnæðis annaðhvort einn eða í félagi við annan einstakling. Þá skal rétthafi eiga að minnsta kosti 30% eignarhlut í þeirri íbúð sem aflað er. Í 1. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 63/2017, kemur fram að umsókn rétthafa um nýtingu séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð samkvæmt 2. gr. skuli beint rafrænt til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður. Sækja skuli um úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum eigi síðar en tólf mánuðum frá undirritun kaupsamnings. Sama gildi um ráðstöfun iðgjalda inn á lán.

Ekki er ágreiningur um það í málinu að kaupsamningur vegna kaupa kæranda á íbúðarhúsnæðinu við S hafi verið undirritaður 21. september 2017 og að umsókn kæranda um nýtingu og ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna kaupa húsnæðisins á grundvelli laga nr. 111/2016 hafi borist ríkisskattstjóra að liðnum lögboðnum tólf mánaða fresti samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 63/2017, en eins og fram er komið barst umsóknin þann 30. ágúst 2019. Af hálfu kæranda er komið fram að hún hafi ekki sótt um ráðstöfun séreignarsparnaðar þar sem henni hefði verið kunnugt um þá framkvæmd ríkisskattstjóra að synja umsóknum um slíka ráðstöfun vegna fyrstu íbúðarkaupa í þeim tilvikum er umsækjendur höfðu áður átt hlut í íbúð sem þeir hefðu eignast við arftöku. Fyrir liggur að ríkisskattstjóri taldi ekki vera um fyrstu íbúðarkaup að ræða í slíkum tilvikum, svo sem staðfest er í umsögn embættisins, dags. 16. júní 2020, og að því væri ekki uppfyllt skilyrði fyrir ráðstöfun lífeyrissparnaðar samkvæmt lögum nr. 111/2016.

Í umsögn ríkisskattstjóra vegna kæru kæranda greinir frá breytingu á stjórnsýsluframkvæmd embættisins vegna niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar nr. 91/2019 og því að ríkisskattstjóri hafi í kjölfar þess úrskurðar tekið til nýrrar meðferðar erindi umsækjenda sem verið hefðu í sömu stöðu og íbúðareigandi sem átti aðild að því kærumáli. Ætla verður að ákvarðanir ríkisskattstjóra um endurupptöku mála í þessum tilvikum hafi byggst á ákvæði 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. til hliðsjónar 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sjónarmið í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2370/1998, en telja verður að nefnt ákvæði tekjuskattslaga gildi almennt um störf ríkisskattstjóra. Með 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 er kveðið á um leiðréttingu álagningar á skattaðila ef yfirskattanefnd eða dómstólar hafa í hliðstæðu máli hnekkt skattframkvæmd sem skattskil eða ákvörðun skattyfirvalda var byggð á. Í lagagreininni segir m.a. að beiðni um endurupptöku skuli borin fram innan árs frá því að skattaðila var eða mátti vera kunnugt um tilefni hennar. Ákvæði þetta var tekið upp í lög með 17. gr. laga nr. 149/2000, m.a. í tilefni af fyrrgreindu áliti umboðsmanns Alþingis. Ljóst er að við framkvæmd leiðréttinga eftir ákvæðinu á ekki að hafa þýðingu hvort sá aðili sem í hlut á hafi borið sig eftir rétti sínum áður en honum varð kunnugt um breytingu á stjórnsýsluframkvæmd. Er sérstaklega tekið fram um þetta í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 149/2000 með því orðalagi að samkvæmt tillögugreininni sé „ekki gert að skilyrði fyrir leiðréttingu af hálfu ríkisskattstjóra að skattaðili hafi mótmælt skilningi skattyfirvalda á skattframkvæmd, t.d. gert kröfu á skattframtölum sínum um frádrátt vegna útgjalda sem þau hafa talið ófrádráttarbær“. Ráðið verður af því sem fram kemur í umsögn ríkisskattstjóra að hann hafi ekki gætt að þessu við framkvæmd leiðréttinga sinna í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar nr. 91/2019, heldur einskorðað þær við tilvik þar sem beiðni um ráðstöfun hafði komið fram og verið synjað á umræddum grundvelli.

Eins og fram er komið er því haldið fram af hálfu kæranda að hún hafi ekki sótt um ráðstöfun séreignarsparnaðar síns samkvæmt lögum nr. 111/2016 innan tímafrests sem þar er mælt fyrir um sökum þess að henni hafi verið kunnugt um stjórnsýsluframkvæmd ríkisskattstjóra á því sviði sem um ræðir. Ekki er tilefni til að vefengja þessa skýringu kæranda. Hvað sem líður ástæðu hinnar síðbúnu umsóknar liggur fyrir að hún barst innan ársfrests sem kveðið er á um í 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til þess sem hér að framan er rakið verður ekki talið að hin kærða synjun ríkisskattstjóra sé réttmæt. Synjun ríkisskattstjóra er því hnekkt. Að svo vöxnu er umsókn kæranda send ríkisskattstjóra til meðferðar að nýju.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða synjun ríkisskattstjóra er felld úr gildi og umsókn kæranda send ríkisskattstjóra til meðferðar.

 

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja