Úrskurður yfirskattanefndar

  • Húsaleigutekjur
  • Rekstrarkostnaður

Úrskurður nr. 110/2020

Gjaldár 2018 og 2019

Lög nr. 90/2003, 7. gr. B-liður og C-liður 2. tölul., 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.  

Í máli þessu var deilt um frádrátt frá húsaleigutekjum kæranda, en tekjurnar voru vegna afnota X ehf. af hluta íbúðarhúsnæðis kæranda, þ.e. bílskúr. Í úrskurði yfirskattanefndar var fallist á að kærandi gæti átt rétt á frádrætti á móti leigutekjunum, enda var talið verða að ganga út frá því að ekki hefði verið um að ræða nein persónuleg not kæranda af hinu leigða húsnæði. Var fallist á frádrátt kostnaðar vegna hita, rafmagns og bankatryggingar að hluta, þ.e. í réttu hlutfalli við stærð hins leigða húsnæðis af heildarstærð þess. Kröfu kæranda um frádrátt kostnaðar vegna innkeyrslu og bílastæðis var hafnað þar sem sá kostnaður gæti ekki talist varða sérstaklega þann hluta húsnæðisins sem nýttur var vegna starfsemi X ehf. Var frádráttur á móti leigutekjum hækkaður frá því sem ríkisskattstjóri hafði ákveðið, en að öðru leyti var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2020, miðvikudaginn 2. september, er tekið fyrir mál nr. 46/2020; kæra A, dags. 3. mars 2020, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2018 og 2019. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 16. mars 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 3. mars 2020, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2018 og 2019. Með úrskurði þessum féllst ríkisskattstjóri á endurupptöku máls kæranda vegna umræddra ára, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 28. janúar 2020, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2018 og 2019. Með hinum síðarnefnda úrskurði færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna sem tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtölum hennar árin 2018 og 2019, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, húsaleigutekjur frá X ehf. að fjárhæð 1.800.000 kr. fyrra árið og 1.553.292 kr. það síðara vegna útleigu á húsnæði að F. Í framhaldi af beiðni kæranda í bréfi, dags. 5. febrúar 2020, um endurupptöku málsins féllst ríkisskattstjóri með hinum kærða úrskurði, dags. 3. mars 2020, á að ákvarða kæranda frádrátt kostnaðar á móti greindum leigutekjum að fjárhæð 569.555 kr. fyrra árið og 189.399 kr. það síðara, sbr. ákvæði 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003.

Af hálfu kæranda er þess krafist að frádráttur frá húsaleigutekjum verði ákvarðaður 1.800.000 kr. rekstrarárið 2017 og 1.418.394 kr. rekstrarárið 2018.

II.

Helstu málavextir eru þeir að með tölvupósti til ríkisskattstjóra 24. október 2018 fór kærandi fram á leiðréttingu á innsendum greiðslumiða fyrir leigu eða afnot (RSK 2.02) vegna ársins 2017. Kom fram í tölvupósti þessum að greidd leiga vegna íbúðarhúsnæðis að F væri oftalin í greiðslumiða, svo sem nánar greindi, m.a. þar sem hluti leigunnar, þ.e. vegna bílskúrs, hefði verið greiddur af X ehf. en ekki af kæranda.

Með bréfi, dags. 15. nóvember 2019, lagði ríkisskattstjóri fyrir kæranda að láta í té tiltekin gögn og skýringar varðandi leigugreiðslur X ehf. á árunum 2017 og 2018. Óskaði ríkisskattstjóri eftir því að kærandi upplýsti um hvort X ehf. væri að leigja bílskúr við F af kæranda eða leigusala fasteignarinnar, R. Jafnframt var þess óskað að lagður yrði fram leigusamningur milli X ehf. og leigusalans, væri slíkum samningi til að dreifa. Ekki verður séð að önnur viðbrögð hafi orðið af hálfu kæranda við bréfi þessu en þau að með tölvupósti 21. desember 2019 greindi umboðsmaður kæranda frá því að kærandi væri leigutaki og deildi bílskúr með X ehf., þ.e. kærandi væri ekki að framleigja skúrinn en X ehf. greiddu engu að síður fyrir afnot hans.

Með bréfi, dags. 7. janúar 2020, boðaði ríkisskattstjóri endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2018 og 2019 þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda til tekna sem tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtölum hennar umrædd ár, sbr. ákvæði B-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, húsaleigutekjur frá X ehf. að fjárhæð 1.800.000 kr. fyrra árið og 1.553.292 kr. það síðara. Í bréfi ríkisskattstjóra kom fram að samkvæmt upplýsingum frá leigusala fasteignarinnar að F væri leigusamningur um eignina milli kæranda og leigusalans, en ekki við X ehf. Ekki væri þannig sérstökum leigusamningi til að dreifa um bílskúr. Umræddar leigutekjur væru til komnar vegna afnota X ehf. af bílskúr sem tilheyrði íbúðarhúsnæði kæranda vegna aðstöðu fyrir starfsemi félagsins. Í ljósi þess yrði að líta svo á að sá hluti leigugreiðslna kæranda vegna F, sem greiddur hefði verið af X ehf. árin 2017 og 2018, hefði verið leigutekjur í hendi kæranda. Þá væri um atvinnurekstrartekjur kæranda að ræða þar sem fasteignin hefði verið leigð undir atvinnurekstur X ehf. Atvinnurekstrartekjur væru skattskyldar tekjur samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 og því væri fyrirhugað að færa kæranda greiðslur þessar til skattskyldra tekna í skattframtölum hennar árin 2018 og 2019. Í niðurlagi bréfsins leiðbeindi ríkisskattstjóri kæranda um heimild til frádráttar rekstrarkostnaðar frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi samkvæmt 31. gr. laga nr. 90/2003. Var kæranda veittur 15 daga frestur frá póstlagningu bréfsins til að koma að andmælum vegna fyrirhugaðra breytinga ríkisskattstjóra.

Af hálfu kæranda urðu engin viðbrögð við boðunarbréfi ríkisskattstjóra og með úrskurði um endurákvörðun, dags. 28. janúar 2020, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd.

Næst gerðist það í málinu að með tölvupósti til ríkisskattstjóra 5. febrúar 2020 fór umboðsmaður kæranda fram á endurupptöku málsins. Kom fram í tölvupóstinum að X ehf. og kærandi hefðu verið í góðri trú um að þau væru að deila leigu vegna greinds húsnæðis að F, enda hefðu greiðslur félagsins til kæranda verið millifærðar um hver mánaðarmót og kærandi síðan séð um að millifæra leiguna til leigusalans. Þar sem ríkisskattstjóri hefði nú fært leigugreiðslur X ehf. til tekna af atvinnurekstri í skattframtölum kæranda væri kæranda heimilt samkvæmt 31. gr. laga nr. 90/2003 að færa greidda leigu vegna framleigu húsnæðisins til X ehf. til frádráttar frá úrskurðuðum leigutekjum í rekstrarskýrslu (RSK 4.11). Væri þess því krafist að greidd leiga að fjárhæð 1.800.000 kr. rekstrarárið 2017 og að fjárhæð 1.553.292 kr. rekstrarárið 2018 kæmi til frádráttar úrskurðuðum leigutekjum umrædd ár.

Með bréfi til kæranda, dags. 13. febrúar 2020, greindi ríkisskattstjóri kæranda frá því að erindi umboðsmanns hennar yrði tekið til meðferðar sem beiðni um endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfi ríkisskattstjóra var óskað eftir frekari skýringum og gögnum vegna kröfu kæranda um kostnað til frádráttar leigutekjum, sbr. 31. gr. laga nr. 90/2003. Vísaði ríkisskattstjóri til ákvæðisins og tók fram að á grundvelli þess væri einungis hægt að fallast á aukalegan kostnað sem félli til við að afla tekna. Í tilviki kæranda kæmi þannig til dæmis til greina að hlutfalla leigugreiðslurnar í takt við hlutfall bílskúrsins af heildarstærð húsnæðisins. Þá kæmi til greina, eftir atvikum, að „færa inn ýmsan rekstrarkostnað“ sem félli til á leigutímabilinu og þá í sömu hlutföllum og leigugreiðslur. Í ljósi þessa væri farið fram á frekari skýringar og gögn til stuðnings ósk kæranda um frádrátt rekstrarkostnaðar.

Með tölvupósti 21. febrúar 2020 lét kærandi í té gögn til stuðnings kröfu um frádrátt rekstrarkostnaðar. Kom fram í tölvupósti kæranda að um væri að ræða gögn um meðaltal leiguverðs íbúðarhúsnæðis í sama hverfi samkvæmt útreikningum Þjóðskrár og Hagsjá Landsbankans vegna atvinnuhúsnæðis. Þá væri í meðfylgjandi skjali og teikningu gerð grein fyrir notkun X ehf. á húsnæðinu að F. Kom fram að niðurstaðan væri sú að á árinu 2017 og fyrstu fjóra mánuði ársins 2018 væri hlutur X ehf. í húsaleigu 46% ásamt kostnaði vegna hita, rafmagns og bankatryggingar. Síðustu átta mánuði ársins 2018 væri hlutur félagsins í húsaleigu 29,3% ásamt kostnaði vegna hita, rafmagns og bankatryggingar. Hlutfallsleg leiga og kostnaður vegna ársins 2017 næmi því 1.961.983 kr. og vegna ársins 2018 1.418.394 kr. eða samtals 3.380.377 kr. vegna beggja áranna. Mótteknar leigugreiðslur frá X ehf. næmu samanlagt lægri fjárhæð eða 3.353.292 kr. vegna beggja ára.

Með úrskurði, dags. 3. mars 2020, féllst ríkisskattstjóri á endurupptöku málsins og ákvarðaði kæranda frádrátt rekstrarkostnaðar í skattframtölum hennar árin 2018 og 2019 að fjárhæð að fjárhæð 569.555 kr. fyrra árið og 189.399 kr. það síðara, sbr. ákvæði 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Að öðru leyti hafnaði ríkisskattstjóri kröfum kæranda. Í úrskurðinum rakti ríkisskattstjóri gang málsins og fram komnar skýringar kæranda. Tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt upplýsingum kæranda og gögnum málsins væru umræddar leigutekjur frá X ehf. til komnar vegna viðveru félagsins í bílskúr við F. Í ljósi þess yrði ekki fallist á að gjaldfæra kostnað vegna íbúðarhluta húsnæðisins eða tilbúinn kostnað kæranda vegna bílastæðis í innkeyrslu við fasteignina. Hins vegar væri fallist á að gjaldfæra beinan kostnaðarauka kæranda sem rekja mætti til viðveru X ehf. í fasteigninni, þ.e. þann hluta leiguverðsins sem sannanlega sneri að bílskúrnum við F. Samkvæmt útreikningum kæranda hefði leiga vegna bílskúrsins numið 44.064 kr. á mánuði eða 13,4% af heildarleigu 330.000 kr. Tilgreindur rekstrarkostnaður næmi 304.377 kr. árið 2017 og 304.599 kr. árið 2018. Þá kæmi fram í leigusamningi kæranda og leigusala að frá og með 1. maí 2018 væri bílskúrinn undanskilinn hinni leigðu fasteign og leiguverð um leið lækkað um 30.000 kr. á mánuði. Samkvæmt framansögðu yrði fallist á gjaldfærslu kostnaðar að fjárhæð 528.768 kr. (44.064 kr. x 12) rekstrarárið 2017 og að fjárhæð 176.256 kr. (44.064 kr. x 4) rekstrarárið 2018. Ennfremur væri fallist á gjaldfærslu 13,4% kostnaðar af rekstri fasteignarinnar umrædd ár eða 40.787 kr. fyrra árið og 13.143 kr. það síðara. Stofn kæranda til tekjuskatts og útsvars myndi lækka til samræmis úr 9.234.156 kr. í 8.664.601 kr. gjaldárið 2018 og úr 10.039.339 kr. í 9.849.940 kr. gjaldárið 2019.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 16. mars 2020. Í kærunni er áréttað að í kjölfar ákvörðunar ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 28. janúar 2020, varðandi meðferð leigutekna vegna F sé kærandi í stöðu atvinnurekanda og njóti réttinda og skyldna samkvæmt því. Eigi kærandi því fullan rétt til að draga frá tekjum sínum tilsvarandi gjöld vegna útleigu húsnæðisins til X ehf. Það sé því krafa kæranda að sá hluti hússins sem nýtist ekki kæranda sem íbúðarhúsnæði vegna notkunar X ehf. á húsnæðinu verði talinn vera hið leigða húsnæði til félagsins. Í bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 21. febrúar 2020, hafi verið lagt mat á skiptingu leigutekna miðað við opinber gögn um leiguverð, en bréfinu hafi fylgt útreikningur á skiptingu húsnæðisins. Hlutfall X ehf. í nýtingu þess sé samkvæmt því 46,0% frá janúar 2017 til apríl 2018 og 29,3% frá maí 2018 til desember sama ár. Sem rekstraraðili sé kærandi í fullum rétti til að leigja X ehf. húsnæðið að F í þeim mæli og á því verði sem samkomulag hafi náðst um milli hennar og félagsins. Því sé mótmælt að ríkisskattstjóri úrskurði án rökstuðnings um að einungis bílskúrshluti, án anddyris eða inngangs, skuli teljast hið leigða húsnæði. Sá hluti húsnæðisins sem leigður hafi verið X ehf. sé í fyrsta lagi fullbúið verkstæði með gryfju og vinnuborði, þriggja fasa rafmagni og sérinngangi, samtals 42,9 fermetrar. Í öðru lagi sé um að ræða skrifstofuaðstöðu á 2. hæð, samtals 12,5 fermetra, ásamt sameiginlegu rými vegna aðkomu og WC. Í þriðja lagi sé um að ræða innkeyrslu að bílskúr og bílastæði, samtals 101,3 fermetra. Samkvæmt framansögðu sé þess krafist að frádráttur frá leigutekjum verði ákvarðaður 1.800.000 kr. rekstrarárið 2017 og 1.418.394 kr. rekstrarárið 2018.

IV.

Með bréfi, dags. 7. apríl 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 25. apríl 2020, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Í bréfinu er ítrekað að með upphaflegri ákvörðun sinni í málinu hafi ríkisskattstjóri komið kæranda í stöðu atvinnurekanda, þrátt fyrir að hún hafi aldrei haft með höndum neinn atvinnurekstur. Í þessu nýja hlutverki sínu hljóti kærandi að vera viðurkenndur viðsemjandi lögaðila á markaði þar sem verð og kjör fari eftir aðstæðum hverju sinni. Eru áður fram komin sjónarmið kæranda ítrekuð.

V.

Fram er komið að kærandi og B tóku á leigu íbúðarhúsnæði að F með leigusamningi, dags. 27. apríl 2016, sem liggur fyrir í máli þessu. Samkvæmt samningnum, sem var tímabundinn og gilti til 30. apríl 2018, var öll húseignin leigð kæranda og B ásamt bílskúr og tilheyrandi lóðarréttindum. Umsamin mánaðarleg leiga nam 330.000 kr. frá og með 1. maí 2016. Eftir að leigusamningur þessi rann út gerðu kærandi og eigendur F með sér annan leigusamning, dags. 10. apríl 2018, sem einnig var tímabundinn og gilti til 30. apríl 2019. Sá samningur tók þó einungis til íbúðarhúss og lóðar fasteignarinnar þar sem tekið var fram að leigusalar héldu eftir tengibyggingu og bílskúr. Nam mánaðarleg leiga samkvæmt samningnum 300.000 kr. frá og með 1. maí 2018.

Af hálfu kæranda er komið fram að einkahlutafélag, þ.e. X ehf., hafi haft afnot af hluta íbúðarhúsnæðisins að F á leigutímabili þess á árunum 2017 og 2018. Vegna þeirra afnota hafi félagið staðið straum af leigugreiðslum vegna húsnæðisins að hluta, þ.e. 1.800.000 kr. á árinu 2017 og 1.553.292 kr. á árinu 2018, en fram kom af hálfu kæranda við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra að hún hefði haft milligöngu um greiðslu húsaleigunnar í heild til leigusala. Eins og ríkisskattstjóri hefur bent á var X ehf. ekki aðili að fyrrgreindum leigusamningum um fasteignina að F. Verður þannig frekast ráðið að um framleigu hluta húsnæðisins til X ehf. hafi verið að ræða með samþykki leigusala, sbr. ákvæði þar að lútandi í fyrrgreindum leigusamningum, án þess þó að gerður hafi verið skriflegur samningur við X ehf. um þá ráðstöfun. Ekki er ágreiningur um það í málinu að kæranda hafi borið að telja sér umræddar greiðslur X ehf. til tekna í skattframtölum sínum árin 2018 og 2019, svo sem ríkisskattstjóri byggði á. Þá er ekki deilt um að um tekjur kæranda af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi í merkingu B-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sé að ræða. Lýtur krafa kæranda að því að henni verði ákvarðaður frekari frádráttur frá greiðslum X ehf. en ríkisskattstjóri hefur fallist á með hinum kærða úrskurði, dags. 3. mars 2020, í framhaldi af beiðni kæranda um endurupptöku málsins hjá embættinu.

Samkvæmt gögnum málsins er skráður tilgangur X ehf. leiga á vélum og búnaði og innflutningur á vinnuvélum. Um afnot félagsins af fasteigninni að F er komið fram af hálfu kæranda að um hafi verið að ræða afnot af fullbúnu verkstæði í bílskúr, skrifstofuaðstöðu á 2. hæð „ásamt sameiginlegu rými vegna aðkomu og WC“, eins og segir í kæru, og innkeyrslu að bílskúr og bílastæði. Er byggt á því í kærunni að við mat á frádrætti kostnaðar á móti leigutekjum beri að miða við hlutdeild þess rýmis, sem X ehf. hafði til afnota samkvæmt framansögðu, af heildareigninni, þ.e. 46% á árinu 2017 og fyrstu fjóra mánuði ársins 2018 og 29,3% á tímabilinu maí-desember 2018. Að því er snertir kostnað umrædd ár kemur fram í gögnum sem fylgdu kærunni að um sé að ræða kostnað vegna hita og rafmagns 284.160 kr. fyrra árið og 288.599 kr. það síðara og kostnað vegna bankatryggingar 20.217 kr. fyrra árið og 16.000 kr. það síðara. Krafa kæranda um frádrátt að fjárhæð 1.800.000 kr. rekstrarárið 2017 og 1.418.394 kr. rekstrarárið 2018 miðast við 46% af samtölu leigutekna og fyrrgreinds kostnaðar vegna tímabilsins janúar 2017 til apríl 2018 og 29,3% af samtölu leigutekna og kostnaðar vegna tímabilsins apríl til desember 2018, sbr. yfirlit sem fylgir kæru til yfirskattanefndar.

Samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er heimilað að draga rekstrarkostnað frá þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, „það er þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við ... og það sem varið er til tryggingar og viðhalds á eignum þeim sem arð bera í rekstrinum“. Það ber undir skattaðila að sýna fram á að skilyrðum frádráttar samkvæmt ákvæðinu sé fullnægt, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar Íslands frá 30. janúar 1997 í málinu nr. 3/1997 (H 1997:385) og 20. febrúar 1997 í málinu nr. 163/1996 (H 1997:759). Almennur kostnaður vegna persónulegra þarfa, þ.m.t. kostnaður við rekstur heimilis, er ekki frádráttarbær.

Litið hefur verið svo á í skatt- og úrskurðaframkvæmd að sé hluti íbúðarhúsnæðis nýttur sem rekstraraðstaða vegna atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi sé heimilt að færa til frádráttar rekstrartekjum kostnað sem beinlínis leiðir af rekstraraðstöðunni, enda sé jafnframt ekki um að ræða persónuleg not af þeim hluta húsnæðisins. Við þessar aðstæður verður að gera ríkar kröfur um sundurliðun og aðgreiningu þess kostnaðar sem leiðir beinlínis af rekstraraðstöðu og þess kostnaðar sem tilheyrir eigendum og eftir atvikum leigjendum húsnæðisins persónulega og tengist ekki tekjuöflun í rekstrinum. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að bílskúrinn við F hafi eingöngu verið notaður í þágu starfsemi X ehf. á greindum tíma ásamt skrifstofuaðstöðu á 2. hæð húsnæðisins. Hafa þær skýringar út af fyrir sig ekki verið vefengdar af hálfu ríkisskattstjóra og fyrir liggur að af hans hálfu fór engin vettvangsskoðun fram á húsnæðinu, sbr. heimildir ríkisskattstjóra samkvæmt 94. gr. laga nr. 90/2003. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt þessu verður að ganga út frá því að ekki hafi verið um að ræða nein persónuleg not kæranda af skúrnum, enda hefur öðru ekki verið haldið fram af hálfu ríkisskattstjóra. Með hliðsjón af þessu og eins og aðstöðu vegna rekstrar X ehf. er háttað samkvæmt því sem ráðið verður af gögnum málsins er fallist á að kærandi geti átt rétt á frádrætti kostnaðar á móti leigutekjunum, enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir slíkum kostnaði, sbr. ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003.

Eins og hér að framan er rakið eru umkrafðar frádráttarfjárhæðir í kæru þannig fengnar að frádráttur er m.a. reiknaður sem hlutfall af rekstrartekjum kæranda rekstrarárin 2017 og 2018. Sú tilhögun fær ekki staðist, enda byggist hún ekki að neinu leyti á raunverulegum kostnaði. Að öðru leyti er frádráttur reiknaður sem hlutfall af heildarkostnaði, þ.e. kostnaði vegna hita, rafmagns og bankatryggingar, í samræmi við hlutfall húsnæðisins, sem X ehf. höfðu til afnota, af heildarstærð þess samkvæmt skráningu í fasteignaskrá. Kemur þar fram að stærð bílskúrs sé 36,7 m² og skrifstofuaðstöðu 12,5 m² af heildarstærð alls húsnæðisins 237,8 m². Miðað við þessar upplýsingar, sem ekki hafa út af fyrir sig verið vefengdar, reiknast það rými, sem eingöngu telst hafa verið notað í þágu starfsemi X ehf., 20,7% af heildarstærð húsnæðisins. Ekki verður fallist á með kæranda að í þessu sambandi beri jafnframt að taka tillit til sameiginlegs rýmis í íbúðarhluta húsnæðisins, enda verður að ganga út frá því að það hafi fyrst og fremst verið til persónulegra nota. Sama er að segja um innkeyrslu og bílastæði sem ekki geta talist varða sérstaklega þann hluta húsnæðisins sem nýttur var vegna starfsemi félagsins. Eins og fram er komið hefur ríkisskattstjóri fallist á að ákvarða kæranda frádrátt miðað við hlutfall leigu fyrir bílskúrshluta af heildarleigu húsnæðisins sem samkvæmt útreikningum kæranda nam 13,4% eða 528.768 kr. á árinu 2017 og 176.256 kr. fyrstu fjóra mánuði ársins 2018. Þá féllst ríkisskattstjóri á frádrátt kostnaðar vegna rafmagns, hita og bankatryggingar í sama hlutfalli. Með vísan til framanritaðs þykir mega fallast á að ákvarða frádráttarbæran hluta kostnaðar í samræmi við fyrrgreinda skiptingu, þ.e. miðað við 20,7% notkunarhlutfall X ehf. Er því fallist á frádrátt kostnaðar að fjárhæð 882.726 kr. rekstrarárið 2017 og 292.439 kr. rekstrarárið 2018 sem hækkar þannig um 313.171 kr. fyrra árið og um 103.040 kr. síðara árið frá því sem ríkisskattstjóri ákvað. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Frádráttur á móti leigutekjum hækkar um 313.171 kr. gjaldárið 2018 og um 103.040 kr. gjaldárið 2019. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja