Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 755/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 60. gr. 2. mgr. — 92. gr. 1. mgr.  

Launatekjur — Launauppgjöf — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda launagreiðanda — Tekjutímabil — Greiðslutími launa — Kjarasamningur — Sönnun — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Greiðsluár — Kröfustofnunarregla

Málavextir eru þeir, að kærandi fékk sérstaka greiðslu að fjárhæð 23.288 kr. frá vinnuveitanda sínum, bankanum X. Var greiðsla þessi vegna aukaálags vegna beinlínutengingar við Reiknistofu bankanna, er fór fram 15. október 1987. Kærandi fékk greiðslu þessa með febrúarlaunum 1988, og var hún af hálfu bankans tilgreind í launauppgjöf fyrir tekjuárið 1988. Taldi kærandi fram í samræmi við það.

Í kæru til skattstjóra, dags. 25. ágúst 1989, sbr. bréf, dags. 30. október 1989, fór umboðsmaður kæranda fram á, að umrædd álagsgreiðsla yrði talin til tekjuársins 1987 og tekjur á framtali árið 1989 lækkaðar að sama skapi. Fylgdi staðfesting X, dags. 30. október 1989, þar sem fram kom, að greiðslan væri vegna aukins vinnuálags á undirbúningstíma fyrir beinlínutenginguna og fyrstu daga þar á eftir. Vinnan hefði öll verið unnin á árinu 1987, en vegna ákvæða í kjarasamningi hefði greiðslan fyrir þessa vinnu ekki verið innt af höndum fyrr en með febrúarlaunum 1988. Með kæruúrskurði, dags. 23. nóvember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að um hefði verið að ræða greiðslu vegna viðvarandi álags eftir upptöku beinlínutengingar en ekki vegna vinnuálags á undirbúningstíma og á fyrstu dögum eftir upptöku beinlínuvinnslu.

Með kæru, dags. 19. desember 1989, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Með bréfi, dags. 14. mars 1990, hefur hann gert grein fyrir kröfum sínum og rökstuðningi. Krafan er sú, að nefnd fjárhæð verði felld úr tekjuhlið framtals árið 1989 og færð til tekna í framtali árið 1988 með þeim rökum, að vinna sú, sem staðið hafi á bak við álagsgreiðsluna, hafi verið unnin á árinu 1987 og því tilheyri greiðslan ótvírætt því ári. Færir umboðsmaðurinn nánari rök fyrir þessu og gerir athugasemdir við forsendur skattstjóra, sem hann telur rangar.

Með bréfi, dags. 31. júlí 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Í 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981 segir að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna á því ári þegar þær verða til, þ.e. myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum. Samkvæmt því sem upplýst er í máli þessu er á það fallist að krafa kæranda til hinnar sérstöku samningsbundnu álagsgreiðslu hafi stofnast 15. október 1987 er bankinn hóf beinlínuafgreiðslu. Með hliðsjón af framansögðu er fallist á kröfu kæranda.“

Kröfugerð kæranda er í samræmi við staðfestingu X um hið umdeilda atriði, sem liggur fyrir í málinu. Að því virtu og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra þykir bera að taka kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja