Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 774/1990

Gjaldár 1986 og 1987

Lög nr. 73/1980 — 37. gr. 1. mgr.   Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 91. gr. 1. mgr.  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn — Aðstöðugjaldsgreinargerð — Lögmaður — Rekstrarkostnaður — Réttargjöld — Útlagður kostnaður — Kostnaður, útlagður — Endurgreiðsla útlagðs kostnaður — Innheimtustarfsemi — Framtalsháttur — Ársreikningur

Málavextir eru þeir, að í rekstrareikningum sínum fyrir árin 1985 og 1986 dró kærandi, sem er starfandi lögmaður, réttargjöld frá rekstrartekjum sínum tekjumegin en gjaldfærði ekki gjöld þessi. Nam fjárhæð réttargjaldanna 995.819 kr. rekstrarárið 1985 og 1.393.604 kr. rekstrarárið 1986. Ekki voru liðir þessir meðtaldir af hálfu kæranda í útreikningi stofna til aðstöðugjalds gjaldárin 1986 og 1987 í greinargerðum þar um, er fylgdu framtölum hans umrædd ár.

Skattstjóri taldi, að umrædd réttargjöld bæri að taka með í aðstöðugjaldsstofn hjá kæranda samkvæmt 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. endurákvörðun hans, dags. 1. mars 1988 og kæruúrskurð, dags. 16. janúar 1989. Í hinum kærða úrskurði segir svo um þetta:

„Ekki er fallist á það sjónarmið kæranda, að ýmis útlagður kostnaður, þar með talin réttargjöld, fyrir viðskiptamenn vegna málareksturs sé ekki rekstrarkostnaður hans. Til þessa kostnaðar er stofnað af kæranda sjálfum væntanlega án nokkurs samráðs í hvert skipti við viðskiptamenn og kostnaðurinn, þ.e. upphæð hans og tegund, er a.m.k. að nokkru leyti á valdi kæranda. Þessi kostnaður er því eðlilegur hluti af starfsemi kæranda og er þar með aðstöðugjaldsskyldur. Framsetning ársreikninga kæranda bendir ótvírætt til þess að umræddur kostnaður sé ekki innheimtur sérstaklega sem útlagður kostnaður.“

Af hálfu kæranda er þess krafist, sbr. kæru til ríkisskattanefndar, dags. 14. febrúar 1989, að fyrrgreindri ákvörðun skattstjóra að reikna kæranda aðstöðugjald af réttargjöldum verði hnekkt. Í kærunni svo og bréfum kæranda til skattstjóra, sbr. bréf, dags. 27. nóvember 1987 og 2. maí 1988, er að finna greinargerð og skýringar kæranda á margnefndum réttargjöldum. Kemur þar m.a. fram, að um sé að ræða útlagðan kostnað til ýmissa opinberra aðila til þess að tryggja skjólstæðingum fullnustu skulda hjá skuldurum. Komi hér til greiðslur til stefnuvotta, þingfestingargjöld, fógetakostnaður, endurritskostnaður, þinglýsingarkostnaður, uppboðskostnaður, auglýsingakostnaður fógeta, vottagjöld, afturköllunargjöld, tryggingagreiðslur við gjaldþrotaskiptabeiðnir, bifreiðakostnaður fógeta við fjárnám og annað tengt innheimtu skulda. Kærandi reifar, að útlögð réttargjöld lögmanna séu fyrst og fremst gjöld, sem falli á þá skuldara, sem þeir séu að innheimta hjá. Takist hins vegar ekki að innheimta skuld og útlagðan kostnað hjá skuldara, krefji lögmenn kröfueiganda um þennan útlagða kostnað, þannig að ljóst megi vera, að alls ekki sé um gjöld lögmanna að ræða og þeim beri ekki að gjaldfæra þessi gjöld hjá sér. Gjöldin séu innheimt án nokkurrar álagningar og ekki tilgreind sérstaklega, þegar krafa er greidd.

Með bréfi, dags. 17. ágúst 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Þrátt fyrir að framsetning ársreikninga kæranda sé eins og raun ber vitni gjaldárin 1986 og 1987, þykir mega fallast á að svonefnd „réttargjöld“ sé í eðli sínu útlagður kostnaður. Þykir því mega fallast á það með kæranda að umræddur kostnaður myndi ekki aðstöðugjaldsstofn hjá honum.“

Að virtum skýringum kæranda á umræddum réttargjöldum og með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, og kröfugerðar ríkisskattstjóra í málinu er á það fallist, að kostnaður þessi teljist eigi til aðstöðugjaldsstofns hjá kæranda, en engin deila stendur um fjárhæðir í þessu sambandi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja