Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 775/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 54. gr. — 106. gr. 2. mgr.  

Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Fjárfestingarsjóðsreikningur — Innborgun á fjárfestingarsjóðsreikning — Bundinn reikningur — Innborgunarfrestur — Binditími — Vaxtadagur — Sönnun — Álag — Álag vegna vantalins skattstofns — RIS 1989.101 — Fordæmisgildi stjórnvaldsákvörðunar

Málavextir eru þeir, að kærandi tilfærði til frádráttar tekjum 30% tillag í fjárfestingarsjóð 7.303.985 kr. í skattframtali sínu árið 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 var byggt á frádráttarlið þessum. Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 3. janúar 1989, og svarbréfi kæranda, dags. 17. janúar 1989, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1988 þann 16. janúar 1990 vegna niðurfellingar nefnds frádráttarliðs með því að það skilyrði 1. mgr. 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að skattaðili legði a.m.k. 50% tillagsins inn á bundinn reikning fyrir 1. júní næst á eftir lokum þess almanaksárs, er tillagið varðaði, hefði ekki verið uppfyllt af hálfu kæranda. Þá bætti skattstjóri 25% álagi á þá hækkun skattstofna, sem af þessari breytingu leiddi.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessi breyting skattstjóra kærð til hans með kæru, dags. 13. febrúar 1990. Var þar ítrekað, sem áður hafði fram komið af hálfu kæranda, að kærandi hefði farið fram á það við viðkomandi innlánsstofnun hinn 30. maí 1988, að stofnaður væri fjárfestingarsjóðsreikningur og millifært á hann. Vegna mistaka innlánsstofnunarinnar hefði reikningurinn ekki verið stofnaður fyrr en 2. júní 1988 en færsla á hann „valideruð“ miðað við 30. maí 1988. Kærunni fylgdu gögn og yfirlýsing innlánsstofnunarinnar hér að lútandi. Með kæruúrskurði, dags. 12. mars 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Forsendur skattstjóra eru svohljóðandi:

„Frádráttur vegna tillags í fjárfestingarsjóð er bundinn því skilyrði skv. 54. gr. l. nr. 75/1981, sbr. l. nr. 8/1984, að skattaðili leggi a.m.k. 50% fjárfestingarsjóðstillagsins inn á bundinn reikning í innlendum banka eða sparisjóði fyrir 1. júní næst á eftir lokum þess almanaksárs sem tillagið varðar, eða eigi síðar en fimm mánuðum eftir lok reikningsárs. Innborganir skulu bundnar í sex mánuði, talið frá og með fyrsta degi næsta mánaðar eftir innborgunarmánuð, og skal þeim ráðstafað innan sex ára frá því tímamarki. Innstæður á hinum bundnu reikningum skulu vera verðtryggðar samkvæmt lánskjaravísitölu.

Í fyrrnefndri 54. gr. l. nr. 75/1981 eru skýr ákvæði varðandi tímamörk innleggs á hluta tillagsins á bundinn bankareikning. Frá þeim tímamörkum verður ekki vikið enda þótt um mistök banka kunni að vera að ræða.“

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. apríl 1990, og þess krafist aðallega, að umrætt tillag í fjárfestingarsjóð verði látið óhreyft standa til frádráttar. Ljóst sé af framlögðum gögnum, að kærandi hafi lagt inn á bundinn reikning 30. maí 1988 í samræmi við ákvæði 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Viðskiptabankinn hafi framkvæmt umbeðna millifærslu 2. júní 1988 en með vaxtadegi 30. maí 1988, þ.e.a.s. þann dag, sem innleggsbeiðni var gerð. Til vara er þess krafist, að 25% álag verði niður fellt, enda sé deiluefnið mismunandi túlkun á innleggsdegi á bundinn reikning og því óeðlilegt að beita álagi.

Með bréfi, dags. 31. júlí 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af framkomnum gögnum og með vísan til 54. gr. laga nr. 75/1981 sbr. og úrskurð ríkisskattanefndar nr. 101 frá 22. febrúar 1989, er fallist á kröfu kæranda.“

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja