Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 780/1990
Gjaldár 1988
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 4. tl. — 28. gr. 1. tl.
Arfur — Dánarbú — Búskipti — Erfðafjárskýrsla — Erfðafjárskattur — Erfingi — Arfleifandi — Eignaauki — Eignaauki vegna arftöku — Eignaauki, skattfrjáls — Skattfrjáls eignaauki — Skattfrelsi — Skattskyldar tekjur — Skattfrjálsar tekjur — Gjöf — Skattskyld gjöf — Gjöf, skattskyld — Peningagjöf — Afhending verðmæta til nákominna ættingja — Lán, óafturkræft — Óafturkræft lán — Framfærsluskylda — Framfærslukvöð — Kvöð — Endurupptaka búskipta — Arfsafsal
Málavextir eru þeir, að í greinargerð um eignabreytingar í skattframtali sínu árið 1988 gat kærandi kaupa sinna á húseigninni X, og að móðir hennar, A, hefði stutt hana fjárhagslega við þau kaup. Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 16. janúar 1989, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1988 þann 27. apríl 1989 vegna tekjufærslu peningagjafar móður kæranda að fjárhæð 1.100.000 kr. er teldist skattskyldar tekjur skv. 4. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessari tekjufærslu mótmælt í kæru, dags. 25. maí 1989, og því haldið fram, að ekki hefði verið um gjöf að ræða frá móður kæranda heldur lán. Móðir kæranda hefði vegna hás aldurs ekki getað haldið heimili ein síns liðs og því selt íbúð sína og flust til kæranda. Jafnframt hefði hún lánað kæranda hluta af söluandvirði íbúðarinnar, svo að kærandi gæti keypt hagkvæmari fasteign, þar sem þær gætu búið saman. Með kæruúrskurði, dags. 11. september 1989, synjaði skattstjóri kærunni. Tók hann fram, að hvorki kærandi né móðir hennar hefðu getið umrædds láns í skattframtölum sínum. Móðir kæranda hefði andast 29. ágúst 1988. Skv. upplýsingum skiptaráðandans í Reykjavík hefði engin grein verið gerð fyrir skuld kæranda við móður sína í framlagðri erfðafjárskýrslu, dags. 30. nóvember 1988.
Með kæru, dags. 9. október 1989, skaut umboðsmaður kæranda kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og boðaði, að rökstuðningur yrði lagður fram síðar. Í bréfi, dags. 31. október 1989, var því haldið fram af hálfu umboðsmannsins, að um hefði verið að ræða óafturkræft lán frá móður til dóttur með þeirri kvöð, að dóttirin, kærandi í máli þessu, sæi um framfærslu móður sinnar það sem hún ætti ólifað, hvað og kærandi hefði gert. Með bréfi, dags. 6. júlí 1990, sendi umboðsmaður kæranda viðbótarerfðafjárskýrslu, dags. 15. júní 1990, vegna dánarbús móður kæranda, A, vegna vantalinnar eignar og skuldar búsins við upphafleg skipti. Í bréfinu segir svo um þetta: „Hér með sendist yður viðbótarerfðafjárskýrsla vegna dánarbús A, d. 1988 síðast til heimilis að X ásamt ljósriti kvittunar um greiðslu erfðafjárskatts. B var dóttir A og erfingi hennar ásamt fjórum systkinum sínum. Við skipti ofannefnds dánarbús árið 1988 urðu þau mistök að í erfðafjárskýrslu var vantalin ein eign búsins, þ.e. skuld B, kr. 1.900.000 og einnig var vantalin skuld búsins kr. 400.000 vegna útlagðs kostnaðar B vegna framfærslu móður sinnar (3 ár). Mistökin hafa verið leiðrétt sbr. meðfylgjandi erfðafjárskýrslu.“ Þann 6. júlí 1990 féllst skiptaráðandinn í Reykjavík á leiðréttingu þessa og var erfðafjárskattur greiddur þann sama dag af þeim viðbótararfi, sem fram kom í erfðafjárskýrslu þessari og allur féll í hlut kæranda í máli þessu.
Með bréfi, dags. 10. ágúst 1990, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu:
„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kæranda.“
Samkvæmt framkomnum gögnum um skipti á dánarbúi móður kæranda er sú fjárhæð af söluandvirði íbúðar móður kæranda, sem skattstjóri tekjufærði hjá kæranda sem skattskylda gjöf, hluti fjárverðmæta, sem ekki teljast kæranda til tekna, sbr. 1. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er krafa kæranda því tekin til greina.