Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 786/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 100/1988 — 1. gr. — 2. gr. — 3. gr. — 4. gr.  

Sérstakur eignarskattur — Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði — Skrifstofuhúsnæði — Skrifstofuhald — Skattskylda — Verkfræðingur — Verkfræðistofa — Verkfræðiþjónusta — Fasteign — Notkun húsnæðis — Fasteignamatsverð — Lögskýring — Lagaheimild — Sköttunarheimild — RIS 1983.159 — RIS 1983.534 — Fordæmisgildi stjórnvaldsákvörðunar

Málavextir eru þeir, að við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 lagði skattstjóri á kæranda sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði 548.770 kr. Var stofn til hins sérstaka skatts miðaður við fasteignamatsverð húsnæðis kæranda að X eða 36.585.000 kr.

Álagning hins sérstaka skatts var kærð með bréfi, dags. 15. ágúst 1989, og segir þar m.a.:

„Málavextir eru þeir að húseign félagsins að X var nýtt undir vinnuaðstöðu fyrir verkfræðistofuna A h/f.

Samkvæmt úrskurði ríkisskattanefndar nr. 534/1983 (sjá einnig úrskurð nr. 159/1983) telst húsnæði sem nýtt er undir starfsemi verkfræðinga ekki mynda stofn til sérstaks skatts á skrifstofuhúsnæði. Því er það ósk mín að þessi skattur verði felldur niður vegna álagningar 1989.“

Skattstjóri synjaði kærunni með úrskurði uppkveðnum 8. janúar 1990 og segir þar:

„Úrskurður sá, er kærandi vísar í (þ.e. nr. 534/1983) fjallar um það, hvort umræddur eignarskattur falli á húsnæði, sem nýtt er undir teiknistofu vegna innanhússarkitektastarfa.

Niðurstaða úrskurðarins er sú, að gjaldskylda skattsins falli ekki á húsnæði, sem nýtt er undir slíka starfsemi.

Ekki er fallist á það sjónarmið kæranda, að sá úrskurður, er hann vísar í, skapi fordæmi hvað varðar álagningu sérstaks skatts á húsnæði, sem nýtt er fyrir verkfræðistofur. Í ljósi þess, sem að ofan greinir, er kröfu kæranda hafnað.“

Umboðsmaður kæranda skaut máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 26. janúar 1990, og kemur þar m.a. fram:

„Málavextir eru þeir að húseign félagsins að X var nýtt undir vinnuaðstöðu fyrir verkfræðistofuna A h/f. Samkvæmt úrskurði ríkisskattanefndar nr. 159/1983 (sjá einnig úrskurð nr. 534/1983) telst húsnæði sem nýtt er undir starfsemi verkfræðinga ekki til skrifstofuhúsnæðis í skilningi laganna. Tilvitnaður úrskurður ríkisskattanefndar nr. 159/1983 virðist taka af öll tvímæli í þessu efni en þar var ágreiningurinn einmitt um það hvort almenn verkfræðistörf og tæknistörf, sem unnin eru innandyra skyldu flokkuð sem skrifstofustörf.

Með vísan til framanritaðs er farið fram á að álagður sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði 1989 verði felldur niður.“

Af hálfu ríkisskattstjóra var með bréfi, dags. 11. maí 1990, gerð sú krafa að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eigi þykir hafa verið sýnt fram á af hálfu skattstjóra og ríkisskattstjóra að notkun hins umrædda húsnæðis falli undir skrifstofuhald í skilningi laga nr. 100/1988, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Er því krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja