Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 796/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 96. gr. — 116. gr.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.  

Skattskyldar tekjur — Ökutækjaskýrsla — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Endurmat — Frádráttarheimild — Akstur milli heimilis og vinnustaðar — Akstur í eigin þágu — Akstursdagbók — Andmælareglan — Málsmeðferð áfátt

Kærandi, sem er starfsmaður X hf., fékk greiddan ökutækjastyrk frá félaginu að fjárhæð 46.472 kr., sem hann tekjufærði í reit 22 í skattframtali sínu árið 1989. Til frádráttar ökutækjastyrknum færði hann kostnað á móti honum 20.808 kr. í reit 32 í framtalinu. Skattframtalinu fylgdi skýrsla um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1988 RSK 3.04 svo og vottorð vinnuveitanda um ástæður fyrir greiðslu styrksins.

Kærandi krafðist þess í kæru til skattstjóra, dags. 22. ágúst 1989, að honum yrði heimilaður frádráttur kostnaðar á móti tekjufærðum ökutækjastyrk frá félaginu að fullu. Með kæruúrskurði, dags. 8. desember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda og felldi jafnframt niður tilfærðan frádrátt 20.808 kr. Vísaði skattstjóri til þess, að ökutækjastyrkir teldust til skattskyldra tekna skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og um frádrátt vegna kostnaðar vegna öflunar þessara tekna færi eftir ákvæðum 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. sömu laga, þar sem svo væri mælt fyrir, að frádrátturinn skyldi vera í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Samkvæmt greinargerð launagreiðanda væri ökutækjastyrkur einungis greiddur vegna aksturs kæranda milli heimilis og vinnustaðar. Sá akstur teldist allur vera í eigin þágu launþega, sbr. matsreglur ríkisskattstjóra, birtar í 5. tbl. Lögbirtingablaðs, útg. 18. janúar 1989.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar. Fylgdu akstursskýrslur kærunni og krefst kærandi þess að tillit verði tekið til skýrslnanna.

Með bréfi, dags. 10. ágúst 1990, fellst ríkisskattstjóri á kröfu kæranda með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum.

Krafa kæranda lýtur að því, að honum verði heimiluð til frádráttar fjárhæð bifreiðakostnaðar í samræmi við innsendar akstursskýrslur. Er það sú hin sama fjárhæð og greind er í ökutækjaskýrslu og kærandi færði upphaflega í framtal sitt, þ.e. 20.808 kr. Þessa fjárhæð heimilaði skattstjóri til frádráttar við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989. Eigi stóðst það réttarfarslega að fella þessa fjárhæð niður í hinum kærða úrskurði. Að því virtu svo og gögnum málsins og kröfugerð ríkisskattstjóra er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja