Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 798/1990
Gjaldár 1988
Lög nr. 94/1976 — 17. gr. — 21. gr. Lög nr. 75/1981 — 58. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 4. ml. — 100. gr. 5. mgr. — 106. gr. 2. mgr. Reglugerð nr. 406/1978 — 8. gr. 1. tl.
Fasteign — Íbúðarhúsnæði — Kaupsamningur — Óvenjuleg skipti í fjármálum — Fjármálaskipti, óvenjuleg — Söluverð — Kaupverð — Kaupverð, óeðlilegt — Óeðlilegt kaupverð — Söluverð, óeðlilegt — Óeðlilegt söluverð — Matsverð — Matsverð skattstjóra — Tekjuauki — Skattskyldar tekjur — Tekjuauki vegna óeðlilega lágs kaupverðs — Fasteignamatsverð — Fasteignamat ríkisins — Endurmat fasteignamatsverðs — Fasteignamatsverð, endurmat — Gangverð — Fasteignaviðskipti — Greiðsluskilmálar í fasteignaviðskiptum — Fasteignamatsverð, gildistími — Rannsóknarregla — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Álag — Álag vegna vantalins skattstofns — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Sönnun
Málavextir eru þeir, að kærandi keypti íbúðarhúsnæði að X af móður sinni, A, með kaupsamningi, dags. 21. ágúst 1987. Kaupverðið var 1.030.000 kr. og skyldu 50.000 kr. greiðast á kaupári en eftirstöðvar 980.000 kr. eftir samkomulagi, sbr. fylgiskjal með skattframtali kæranda árið 1988 um kaup og sölu eigna (RSK 3.02).
Með bréfi, dags. 23. nóvember 1988, krafði skattstjóri kæranda skýringa á verðlagningu umræddrar fasteignar og greiðsluskilmálum, áður en beitt yrði 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kæranda áætlaðar tekjur vegna óeðlilegs kaupverðs eignarinnar. Varðandi það atriði vísaði skattstjóri til þess, að fasteignamatsverð eignarinnar, þ.e. húss og lóðar, væri alls 3.462.000 kr. þann 1. desember 1987 en söluverð 1.030.000 kr. Yrði því að telja, að hér væri um afar óeðlilega verðlagningu að ræða ekki síst með tilliti til þess, að útborgun væri 50.000 kr. og að eftirstöðvar ættu að greiðast eftir samkomulagi. Í svarbréfi kæranda, dags. 29. nóvember 1988, gat hann þess, að frá fasteignamati skv. tilkynningu ætti að draga 722.000 kr. og yrði það þá 2.740.000 kr. Þá hefði bílskúr alltaf ranglega verið tilgreindur með eigninni, en hann hefði verið eign kæranda frá upphafi. Það hefði verið tilkynnt Fasteignamati ríkisins og þinglýst í desember 1987. Fasteignamatsverð bílskúrsins pr. 1.12. 1987 var 478.000 kr. Þá kom fram í bréfinu, að húseignin að X hefði verið reist skömmu eftir 1930. Veggir ásamt helmingi gólfs yfir kjallara væru úr steinsteypu, en allt annað úr timbri. Einangrun væri svarðarmold, sem nú væri algerlega horfin. Svo til ekkert viðhald hefði verið frá upphafi og hefði víða borið á raka og vatn flæddi í kjallara í hlákum. Segja mætti, að húsið væri því sem næst fokhelt. Svo hefði um samist, að eftirstöðvar kaupverðs yrðu greiddar eftir samkomulagi, breytilegt eftir árferði hverju sinni.
Með bréfi, dags. 2. desember 1988, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1988 vegna tekjufærslu á 1.710.000 kr. vegna óeðlilegrar verðlagningar X. Kærandi hefði keypt eignina af móður sinni fyrir 1.030.000 kr. en fasteignamatsverð væri 2.740.000 kr., er miðaðist við, að eignin væri staðgreidd við afhendingu. Ekki kæmi fram í upplýsingum kæranda, að um verðtryggingu eða vexti væri að ræða vegna þeirra 95.15% kaupverðsins, sem greiðast skyldu eftir samkomulagi. Eftirstöðvar yrðu þó ekki metnar niður heldur yrðu greiðsluskilmálar látnir mæta ástandi eignarinnar, sem væri lélegt samkvæmt því sem fram kæmi í bréfi kæranda. Þá yrði 25% álagi bætt á þá hækkun skattstofna, sem af þessari breytingu leiddi. Með bréfi, dags. 7. desember 1988, mótmælti kærandi hinni fyrirhuguðu tekjuviðbót með vísan til bréfs síns, dags. 29. nóvember 1988. Benti hann á, að greiðsluskilmálar væru ekki ákveðnir þannig að þeir gætu ekki mætt ástandi eignarinnar. Því væri hægt að greiða upp skuldina með vöxtum og verðbótum hvenær sem er. Þá var álagsbeitingu mótmælt. Kærandi fór fram á, að skipaðir yrðu matsmenn til að ákveða kaupverð, ef af skattlagningu yrði, enda væri fasteignamatsverð oft langt frá því að vera mælikvarði á markaðsverð fasteigna. Með bréfi, dags. 9. desember 1988, framkvæmdi skattstjóri hina boðuðu breytingu og endurákvarðaði áður álögð gjöld kæranda gjaldárið 1988 í samræmi við það. Ekki beitti hann álagi á þá hækkun skattstofna, sem af þessari breytingu leiddi.
Af hálfu kæranda var breyting skattstjóra kærð með bréfi, dags. 3. janúar 1989, og þess krafist, að tekjuaukinn yrði með öllu felldur niður. Verðlagning eignarinnar samkvæmt fasteignamati væri algerlega óraunhæf og ítrekaði kærandi beiðni sína um matsmenn. Þá gat hann þess, að hann hefði látið sérfróðan mann skoða húsið og fullyrti sá, að allt tréverk ásamt þaki þyrfti að endurnýja og myndi það kosta 2 til 3 milljónir króna. Teldi hann húsið tæplega fokhelt. Kvað kærandi ástæðuna fyrir kaupum á húsinu vera þá, að hann hefði í huga að koma því í íbúðarhæft ástand, sem hefði verið fyrri eiganda um megn.
Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 13. janúar 1989, og synjaði henni á svofelldum forsendum:
„Ekki er fallist á rök yðar. Fasteignamatsverð á að samsvara staðgreiðsluverði eignar. Ef eigandi telur eign sína ofmetna er honum í lófa lagið að fá hana endurmetna hvenær sem er, en slík ráðstöfun hlyti þá að vera honum í hag, því álagning fasteignagjalda, eignarskatta og fleiri gjalda miðast við gildandi fasteignamat hverju sinni. Því hljóta skattyfirvöld að telja fasteignamatsverð lágmarksverðmæti eignar hverju sinni. Í yðar tilviki er reiknað með fasteignamatsverði óbreyttu án þess að tekið sé tillit til óvanalegra greiðsluskilmála, en útborgun var kr. 50.000 eða 4.85% kaupverðs eða 1.82% fasteignamats.“
Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 8. febrúar 1989. Með bréfi, dags. 15. febrúar 1989, barst kröfugerð kæranda ásamt gögnum þar á meðal ljósriti af úrskurði Fasteignamats ríkisins, dags. 9. febrúar 1989, varðandi endurmat á fasteignamatsverði nefndrar húseignar pr. 1. desember 1988, þ.e. til lækkunar úr 2.299.000 kr. í 1.503.000 kr. Kröfugerðin er svohljóðandi:
„Fasteignamat húseignarinnar hefur lækkað um kr. 796.000 vegna kæru dags. 1. þ.m. Tölu þessa þarf að lækka í kr. 622.000 miðað við 1. desember 1987 (28%).
Fer vinsamlegast fram á, að skattlagning að upphæð kr. 595.288,00 vegna „óeðlilegs kaupverðs“ verði felld niður.
Samkvæmt úrskurði skattstjóra er verð hússins ákveðið kr. 2.740.000. Væntanlega myndi þessi upphæð lækka um kr. 622.000,00 vegna lækkunar fasteignamatsins og yrði verðið þá kr. 2.118.000.
Get ekki sætt mig við ofangreinda upphæð og myndi ekki kaupa húsið á þessu verði og fer því vinsamlegast fram á, að kaupverðið verði fært niður í kr. 1.030.000,00 eins og það var í upphafi.
Vona, að háttvirt ríkisskattanefnd taki þetta mál fyrir svo fljótt sem verða má, vegna aðgangshörku hins opinbera í innheimtu gjalda kr. 595.288,00, sem eru enn í úrskurði.“
Með bréfi, dags. 31. júlí 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Fram hafa verið lögð gögn um lækkun á fasteignamati hússins að X, sem miðast við 1. desember 1988. Úrskurður skattstjóra varðar gjaldár 1988 þ.e. gildandi fasteignamat 1. desember 1987. Standa forsendur skattstjóra því óhaggaðar og er krafist staðfestingar á úrskurði hans.“
Skattstjóri hefur byggt skattlagningu hins umdeilda tekjuauka hjá kæranda á því, að hann hafi notið þeirra viðskipta að kaupa nefnda húseign af móður sinni á óeðlilega lágu verði og sé mismunur kaupverðsins og þess verðs, sem skattstjóri telur eðlilegt kaupverð, skattskyldur hjá kæranda, sbr. 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Við mat sitt hefur skattstjóri byggt á fasteignamatsverði hins selda, því er gildi tók 1. desember 1987. Ekki var matsverð þetta gildandi á söludegi. Þá hefur kærandi nú lagt fram ljósrit úrskurðar Fasteignamats ríkisins, dags. 9. febrúar 1989, varðandi endurmat fasteignamatsverðs eignarinnar, pr. 1. desember 1988, er felur í sér verulega lækkun matsverðs. Gagnstætt því, sem ríkisskattstjóri heldur fram, þykir endurmat þetta óyggjandi benda til þess, að matsverð það, sem skattstjóri byggði á, hafi verið of hátt svo sem atvikum er háttað. Ennfremur er til þess að líta, að eigi eru nægar upplýsingar fyrir hendi um greiðsluskilmála söluandvirðis hinnar seldu eignar svo sem um vísitölutryggingu og vexti af eftirstöðvum og hefur skattstjóri ekki gengið eftir kaupsamningi, afsali eða öðrum gögnum, er skýrt gætu þann þátt málsins. Að öllu framansögðu virtu þykir eigi það traustur grunnur lagður undir hinn umdeilda tekjuauka, að hann óbreyttur, eða með lægri fjárhæð, verði skattlagður hjá kæranda á grundvelli 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en á því ákvæði hefur skattstjóri byggt skattlagninguna. Þykir því verða að fella tekjuviðbótina niður.