Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 811/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 32/1978 — IV. kafli   Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 1. tl. — 72. gr.   Lög nr. 10/1988 — 13. gr. — 22. gr.  

Hlutafélag — Lögaðili — Hlutafélagaskrá — Tilkynning til hlutafélagaskrár — Lok skattskyldu — Lok skattskyldu hlutafélags — Félagsslit — Skilanefnd — Tilkynning til hlutafélagaskrár um félagsslit — Afskráning úr hlutafélagaskrá — Tekjuskattsútreikningur — Skattstigi — Skattstigi lögaðila — Gildistaka skattalaga — Afturvirkni skattalaga — HRD 1935:36 — Innheimta opinberra gjalda — Skilanefndarmaður — Ábyrgð skilanefndarmanns á skattgreiðslum félags — Ábyrgð á skattgreiðslum — Greiðsluábyrgð — Dómur — HRD 1992:1314

I.

Kærður er úrskurður skattstjóra, dags. 30. október 1989, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1988 á X hf. Er sá úrskurður svohljóðandi:

„Efni kæru:

Gerð er sú krafa að álagður tekjuskattur verði tekinn til endurákvörðunar, þannig að fjárhæð tekjuskatts verði 45% af skattstofni í stað 48%. Kærandi byggir kröfu sína á því að félaginu hafi verið slitið þann 24. febrúar 1988 og við reikningsuppgjör hafi verið stuðst við þann skattstiga sem þá hafi verið í gildi varðandi tekjur á árinu 1987, eða 45% af skattstofni. Verði félaginu hinsvegar gert að greiða 48% í tekjuskatt af skattgjaldstekjum, samkvæmt lagaákvæðum sem tóku gildi eftir að félaginu var slitið, sé um að ræða afturvirkni skattalaga sem ekki fái staðist.

Úrskurður skattstjóra:

Með lögum nr. 10 frá 4. mars 1988 um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum 1988 er […] tekjuskattur lögaðila lögboðinn 48% af tekjuskattsstofni, skv. IV. kafla 13. greinar. Í 3. mgr. 22. greinar VI. kafla segir að ákvæði IV. kafla laganna skuli koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1988 vegna tekna á árinu 1987 og eigna í lok þess árs.

Litið er svo á að skattstjóra beri að haga álagningu samkvæmt gildandi skattstiga gjaldársins þegar álagningin fer fram.

Með vísan til ofanritaðs er kærunni synjað.“

II.

Í kæru sinni til ríkisskattanefndar, dags. 28. nóvember 1989, ítrekar umboðsmaður kæranda þá kröfu sína, sem fram kom í kærunni til ríkisskattanefndar, og tekur jafnframt fram eftirfarandi:

„Til frekari upplýsinga bendum við á að viðkomandi félag var strikað út af hlutafélagaskrá 1988 skv. upplýsingum hlutafélagaskrár þar sem að öllum formsatriðum hafði verið fullnægt af hendi skilanefndar varðandi slit félagsins.“

III.

Með bréfi, dags. 13. júní 1990, gerir ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda þá kröfu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans.

Úrskurður fógetaréttar Reykjavíkur frá 13. febrúar 1991.

Í úrskurði fógetaréttar Reykjavíkur frá 13. febrúar 1991 í lögtaksmálinu nr. 5/1990 reyndi á ábyrgð A, sem var einn af skilanefndarmönnum X hf., á vangoldnum sköttum hlutafélagsins gjaldárið 1988. Sóknaraðili, Gjaldheimtan í Reykjavík, byggði kröfu sína um ábyrgð A á 4. mgr. 114. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. A mótmælti því, að umrætt ákvæði ætti við þegar af þeirri ástæðu, að skattar X hf. hefðu að fullu verið greiddir, þegar hlutafélaginu var slitið. Þá taldi hann að persónuleg ábyrgð skilanefndarmanna miðaðist við skaðabótaskylda athöfn eða athafnaleysi varðandi skattalegt uppgjör þess félags, sem slitið sé, en engu slíku hafi verið til að dreifa varðandi slit X hf. Hélt A því fram, að ákvæði laga nr. 10, 4. mars 1988, gætu ekki komið til álita í málinu, þar sem lögin hefðu verið samþykkt eftir að X hf. hafði verið slitið. Taldi hann gildistökuákvæði 3. mgr. 22. gr. laganna ekki fá staðist varðandi umrædda hækkun á tekjuskattsprósentu lögaðila og vísaði til 27. gr. stjórnarskrárinnar og laga nr. 64/1943. Þá benti hann á, að samkvæmt 7. mgr. 110. gr. laga nr. 75/1981, væri ekki loku skotið fyrir, að skattstofur legðu á skatta samkvæmt umsókn, svo að unnt væri að ganga frá opinberum gjöldum á hvaða tíma sem væri. Þá bar A fyrir sig fyrningu lögtaksréttar.

Sóknaraðili byggði á því, að rétt og löglega hefði verið staðið að álagningu á X hf. Skattlagning væri eðli málsins samkvæmt afturvirk stjórnvaldsathöfn og vitnaði í því sambandi til H 1980:1732. Þá vék sóknaraðili að ákvæðum um framtalsfresti og álagningarlok og áleit ekki standast, að skattaðilar ákvæðu skatta sína sjálfir, þótt þeir gerðu það samkvæmt lögum, og raunar væri ekki unnt að greiða skatta endanlega fyrr en eftir álagningu skattstjóra.

Niðurstaða fógeta var sú að lögtaksréttur væri ekki fyrndur. Hann taldi, að A bæri með þátttöku sinni í skilanefnd X hf. ábyrgð samkvæmt 4. mgr. 114. gr. laga nr. 75/1981 á greiðslu hinna umdeildu opinberru gjalda hlutafélagsins, þar sem skilanefndin hefði tekið þá ákvörðun að bíða ekki eftir álagningu heldur greiða í samræmi við þágildandi reglur, sem fullkomin óvissa hefði verið um, að stæðu óbreyttar, er álagning vegna tekjuársins 1987 færi fram, óhjákvæmilega með atbeina réttra stjórnvalda. Fógeti féllst ekki á, að ákvæði 3. mgr. 22. gr. 6. kafla laga nr. 10/1988 fengju ekki staðist að því er málið varðaði. Samkvæmt þessu leyfði fógeti framgang lögtaksgerðarinnar.

Dómur Hæstaréttar frá 8. september 1992

A áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og krafðist þess að úrskurði fógeta yrði hrundið. Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu 8. september 1992 (H 1992:1314). Hæstiréttur vék að framtalsfresti lögaðila samkvæmt 3. mgr. 93. gr. laga nr. 75/1981 og tók fram að hátt í þrír mánuðir hefðu verið eftir af skilafresti á skattframtali lögaðila 10. mars 1988, þegar lög nr. 10/1988 hefðu gengið í gildi, en þau hefðu kveðið á um, að tekjuskattur lögaðila skyldi vera 48% af tekjuskattsstofni í stað 45% áður. Lögin hefðu verið sett á stjórnskipulegan hátt og birt sama dag og þau voru sett. Ekki væru efni til að fallast á það með sóknaraðila, að lögin væru afturvirk með þeim hætti, að í bága færi við 27. gr. stjórnarskrárinnar eða lög nr. 64/1943. Hæstiréttur gat þess, að samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981 skyldi skattstjóri leggja tekjuskatt og eignarskatt á skattaðila eftir framtali hans, og samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laganna skyldi álagningu skatta lokið eigi síðar en 30. júní ár hvert. Skilanefnd X hf. hefði í störfum sínum verið háð þessum ákvæðum og væri þess ekki umkomin að sjá um útreikning á sköttum félagsins, sem væri endanlegur gagnvart Gjaldheimtunni. Skilanefndinni hefði borið að haga slitum félagsins í samræmi við þetta og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja rétt skil á sköttum félagsins samkvæmt álagningu skattyfirvalda 1988. Jafnframt hefði verið óheimilt að slíta félaginu, fyrr en allir skattar þess hefðu verið greiddir, sbr. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 75/1981. Vanræksla skilanefndar í þessu efni hefði valdið því samkvæmt lagaákvæði þessu, að skilanefndarmenn hefðu borið ábyrgð á skattgreiðslunum.

Vegna málsástæðu A um viðtöku Gjaldheimtunnar á skattgreiðslu frá skilanefndinni hinn 23. febrúar 1988 án nokkurs fyrirvara um frekari skattkröfur síðar tók Hæstiréttur fram, að fram að álagningarlokum skatta 1988 hefðu skilanefndarmenn ekki getað treyst því, að útreikningur á sköttum X hf., sem þeir stóðu fyrir, yrði í samræmi við álagningu skattyfirvalda og ekki haft gilda ástæðu til að ætla, að greiðslan væri endanleg. Ætti því þessi málsástæða ekki við rök að styðjast.

Samkvæmt framansögðu var það niðurstaða Hæstaréttar, að skattlagningin hefði verið lögmæt og skilanefndarmenn X hf. væru ábyrgir fyrir greiðslu álagðra skatta eins og á stóð.

Að því er varðar fyrningu lögtaksréttar þá var það niðurstaða réttarins að lögtaksrétturinn væri ekki fyrndur, enda hefðu ekki verið liðin full tvö ár frá síðasta gjalddaga skuldarinnar 1. desember 1988 þar til lögtakskrafan var tekin fyrir í fógetarétti 19. nóvember 1990.

Sjá nánar H 1992:1314.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja