Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 820/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 10. gr. — 11. gr. — 14. gr. — 16. gr. — 22. gr. — 28. gr. 1. tl.  

Jarðarsala — Sala bújarðar — Bújörð — Fasteign — Söluhagnaður — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður fyrnanlegrar fasteignar — Skattfrelsi — Skattfrelsi söluhagnaðar — Skattfrelsi söluhagnaðar íbúðarhúsnæðis — Útreikningur söluhagnaðar — Söluhagnaður, útreikningur — Söluhagnaður, skattfrjáls — Arfur — Arfleifandi — Erfingi — Eignaauki — Eignaauki vegna arftöku — Eignaauki, skattfrjáls — Skattfrjáls eignaauki — Erfðafjárskattur — Skattskyldar tekjur — Eignartími — Eignartími íbúðarhúsnæðis — Eignartími arfleifanda og arftaka á íbúðarhúsnæði lagður saman — Kaupsamningur — Álagningarmeðferð skattstjóra — Athugasemd ríkisskattanefndar við álagningu skattstjóra — Leiðrétting — Leiðrétting skattframtals — Leiðrétting ríkisskattanefndar á skattframtali — Leiðréttingarheimild ríkisskattanefndar — Leiðréttingarheimild ríkisskattanefndar til hækkunar — Leiðrétting ríkisskattanefndar — Rannsóknarregla

Málavextir eru þeir, að með skattframtali kæranda árið 1989 fylgdi eyðublað um kaup og sölu eigna, þar sem gerð var grein fyrir sölu jarðarinnar A, en kærandi átti 1/5 þessarar jarðeignar. Í gagni þessu var söluhagnaður í heild reiknaður 4.265.272 kr. Í reit 7.1 í framtali færði kærandi 426.527 kr. af umræddum söluhagnaði. Við frumálagningu gjaldárið 1989 færði skattstjóri fjárhæð þessa í reit 59 í framtalinu.

Með kæru, dags. 23. ágúst 1989, fór umboðsmaður kæranda fram á leiðréttingu á fyrra framtali, þar sem hann taldi, að ekki hefði verið um söluhagnað að ræða heldur arf eftir foreldra, er kærandi hefði fengið ásamt fjórum systkinum sínum og erfðafjárskattur greiddur af á sínum tíma. Með tilliti til ákvæða 22. gr. laga nr. 75/1981 um samanlagðan eignartíma arfleifanda og arftaka og 1. tl. 28. gr. sömu laga ætti ekki að koma til skattlagningar. Kæru fylgdi leiðrétt framtal árið 1989, þar sem söluhagnaðarfjárhæð var felld úr tekjuhlið, en þess getið í greinargerð um eignabreytingar, að söluverð jarðarinnar að hlut kæranda hefði verið 1.460.000 kr. en kostnaður við sölu 284.000 kr.

Með kæruúrskurði, dags. 1. nóvember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á svofelldum forsendum:

„Í lögum nr. 97/1988 um breytingu á lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt er hvergi fjallað um þau ákvæði eldri laganna sem fjalla um hagnað af sölu eigna auk þess sem ekki er að finna lagagrein nr. 22 í nýrri lögunum. Tilvitnun til þeirra laga virðist því byggð á misskilningi.

Ákvæði 22. gr. laga nr. 75/1981 um að við ákvörðun eignartíma skuli miða við sameiginlegan eignartíma arfleifanda og arftaka eiga aðeins við í þeim tilvikum sem eignartími skiptir máli varðandi skattskyldu söluhagnaðar, þ.e. við sölu íbúðarhúsnæðis og lands bújarða og ófyrnanlegra náttúruauðæfa á bújörðum ef seljandi hefur haft búrekstur á hinni seldu eign að aðalstarfi í a.m.k. fimm ár á síðastliðnum átta árum á undan söludegi. Sala kæranda á A fellur ekki undir þær skilgreiningar.

Samkvæmt ákvæðum 1. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981 telst ekki til tekna eignaauki vegna arftöku, fyrirframgreiðslu arfs og dánargjafa, enda hafi erfðafjárskattur verið greiddur. Samkvæmt framtalsgögnum kæranda fékk hann ekki eignaauka vegna arfs á árinu 1988 og eiga áðurgreind ákvæði 28. gr. skattalaganna því ekki við í hans tilviki gjaldárið 1989.“

Með kæru, dags. 25. nóvember 1989, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst niðurfellingar á skattlagningu söluhagnaðarins með þeim lagarökum að um hafi verið að ræða arftöku, en eignaauki vegna hennar teljist ekki til tekna, sbr. 1. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981.

Með bréfi, dags. 21. maí 1990, krefst ríkisskattstjóri staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

Það lagaákvæði, sem kærandi ber fyrir sig, þ.e. 1. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, átti við, þegar kærandi hlaut umrædda eign í arf. Ágreiningsefnið varðar hinsvegar sölu eignarhlutdeildar kæranda í eign þessari með kaupsamningi, dags. 19. ágúst 1988, en ekki arftökuna sem slíka. Söluhagnað vegna sölu þessarar ber að færa kæranda til skattskyldra tekna nema hann sé felldur undan skattlagningu samkvæmt beinum ákvæðum laga. Ekki verður séð af málsgögnum, að meðal mannvirkja hinnar seldu jarðar hafi verið íbúðarhúsnæði þannig að ákvæði skattalaga um skattleysi söluhagnaðar vegna eignartíma slíkrar eignar, þar á meðal um samanlagðan eignartíma arfleifanda og arftaka, komi hér til álita. Skattstjóri hefur hvorki gert athugasemdir við uppgjör söluhagnaðar af hálfu kæranda né við fjárhæð þá, sem kærandi tekjufærði sem hlutdeild sína í þeim hagnaði, þótt tilefni hefði verið til athugunar á þessu. Með því að skattlögð söluhagnaðarfjárhæð sýnist síst of há miðað við fyrirliggjandi gögn verður látið við hana sitja.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja