Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 826/1990
Gjaldár 1987
Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. 1. tl. — 38. gr. — 41. gr. — 96. gr. — 99. gr. 1. mgr. 4. ml.
Rekstrarkostnaður — Risnukostnaður — Risna — Ferðakostnaður — Gjaldfærsla kostnaðarverðs eigna og eignasamstæðna á kaupári án tillits til endingartíma — Fyrning — Fyrnanleg eign — Fyrnanlegt lausafé — Lausafé — Viðhaldskostnaður — Viðhaldskostnaður áhalda — Áhaldakostnaður — Fyrningarhlutfall — Rannsóknarregla — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Málsmeðferð áfátt — Eignasamstæða — Gjaldfærsla kostnaðarverðs einstakra eigna og eignasamstæðna á kaupári, hámarksfjárhæð — Bókhaldsfylgiskjöl
I.
Kæruefnin eru sem hér segir:
1. Ferðakostnaður og risna. Í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 1986 gjaldfærði kærandi 383.016 kr. undir heitinu „ferðakostnaður“. Af gögnum og meðferð málsins verður ráðið, að í lið þessum hafi falist risnukostnaður. Að undangengnum bréfaskriftum lækkaði skattstjóri þennan lið um 151.222 kr. eða úr 383.016 kr. í 231.794 kr. og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1987 m.a. af þessum sökum þann 25. nóvember 1988. Hvorki í endurákvörðun þessari né kæruúrskurði skattstjóra, dags. 12. janúar 1989, kemur fram á hverju lækkun þessi var byggð almennt og í einstökum atriðum. Í bréfi skattstjóra, dags. 27. október 1988, til umboðsmanns kæranda segir hins vegar svo um þetta atriði: „Varðandi mótmæli yðar við lækkun á gjaldfærslu ferðakostnaðar og risnu skal eftirfarandi tekið fram: Skattstjóri felldi einungis niður atriði þar sem fylgiskjöl voru ófullnægjandi og öll áfengiskaup en annað ekki. Fyrri breytingin er vart umdeilanleg en um hina síðari skal játað að kunnugt er að áfengisveitingar eru tíðkanleg venja í risnu fyrirtækja en í þessu sérstaka tilviki þóttu þær úr hófi keyra. Vísað er til liðar 2 hér næst á eftir, að mismunur sem þar um ræðir 25.606 kr. geti skoðast sem tilslökun skattstjóra varðandi þennan umdeilda gjaldalið.“ Í niðurlaginu er skattstjóri að vísa til þess, að hann hafi heimilað gjaldfærslu of hárrar fjárhæðar skv. 41. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Af hálfu umboðsmanns kæranda er þess krafist, að gjaldaliður þessi verði látinn óhaggaður standa, sbr. kæru til ríkisskattanefndar, dags. 8. janúar 1989. Þar og í kæru til skattstjóra, dags. 6. janúar 1989, svo og í bréfi til hans, dags. 17. október 1988, koma fram að nokkru almenn sjónarmið kæranda um nauðsyn risnu, þar á meðal áfengis, í rekstri fyrirtækja. Þá kemur og fram, að hlutfall þessa kostnaðar af heildarveltu nemi um 1,9%.
2. Viðhald og gjaldfærsla áhalda. Í rekstrarreikningi sínum árið 1986 gjaldfærði kærandi 720.134 kr. sem viðhald og gjaldfærslu áhalda. Skattstjóri lækkaði þennan gjaldalið um 377.942 kr. Hvorki kemur fram í endurákvörðun skattstjóra, dags. 25. nóvember 1988, né kæruúrskurði hans, dags. 12. janúar 1989, hvernig fjárhæð þessi er fundin. Í bréfi skattstjóra, dags. 6. október 1988, til umboðsmanns kæranda er nokkur grein gerð fyrir fjárhæðinni. Kemur þar fram, að annars vegar hefur skattstjóra fellt nokkra liði niður, þar sem ekki geti talist um rekstrarkostnað að ræða, en hins vegar eignfært áhöld, þar sem gjaldfærsla hafi ekki verið heimil skv. 41. gr. laga nr. 75/1981. Að því er varðar fyrra atriðið þá felldi skattstjóri niður liði samtals að fjárhæð 93.240 kr. Um var að ræða sláttuorf 15.755 kr., uppþvottavél 34.120 kr., kaffistell 17.025 kr. og borðbúnað 26.340 kr. Varðandi síðara atriðið þá gerði skattstjóri lista yfir tiltekna reikninga samtals að fjárhæð 443.148 kr. Ljósrit af lista þessum liggur fyrir í málinu. Ekki kemur fram á lista þessum nema að litlu leyti, hvaða áhöld var um að ræða. Ákvörðun skattstjóra viðvíkjandi þessu var á þá lund, sbr. bréf hans, dags. 6. október 1988, að hann heimilaði gjaldfærslu skv. 41. gr. laga nr. 75/1981 að fjárhæð 108.206 kr. og dró frá samtölu reikninga skv. listanum 443.148 kr. Eftirstöðvarnar 334.943 kr. taldi skattstjóri að eignfæra bæri og fyrndi um 15% eða 50.241 kr. Nettófjárhæð hækkunar nam 284.702 kr. Þá kemur fram hjá skattstjóra, sbr. kæruúrskurð hans, dags. 12. janúar 1989, að hann hafi byggt á rangri fjárhæð varðandi 41. gr. laga nr. 75/1981, þ.e. 108.206 kr. er gilt hafi gjaldárið 1988. Rétt fjárhæð sé 82.600 kr. Mismunurinn 25.606 kr. geti skoðast sem tilslökun varðandi niðurfellingu gjaldfærðra áfengiskaupa, sbr. 1. tl.
II.
Af hálfu kæranda er þess krafist í málinu, að breytingu skattstjóra verði hnekkt og umræddur gjaldaliður látinn óhreyfður standa. Telur hann niðurfellda liði 93.240 kr. alla teljast rekstrarkostnaður skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981. Að því er varðar eignfærða liði þá telur kærandi, að meðferð skattstjóra byggist á misskilningi á 41. gr. laga nr. 75/1981. Segir svo í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 8. janúar 1989, um þetta:
„Skattstjóri hefur annars vegar fellt niður hluta af gjaldfærðum áhöldum og hins vegar lækkað það sem eftir er í kr. 108.206, sú upphæð segir hann reyndar að sé til komin vegna mistaka, meining hans hafi verið að lækka gjaldfærslu áhalda í kr. 82.600.
Varðandi niðurfellingu skattstjóra á gjaldf. áhöldum, kr. 93.240, sbr. sundurliðun í bréfi skattstjóra dags. 06.10.88, þá mótmælir umbj.m. þessari niðurfellingu þar sem öll þessi áhöld voru notuð við rekstur hans á árinu.
Varðandi lækkun á gjaldfærslu annarra áhalda þá virðist skattstjóri vera þeirrar skoðunar að einungis sé heimilt að færa til gjalda eina eign eða eignasamstæðu skv. ákvæðum 41. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, og hámark slíkrar gjaldfærslu á árinu 1986 sé kr. 82.600, enda hefur skattstjóri ekki mótmælt þessari gjaldfærslu á öðrum forsendum. Umbj.m. mótmælir þessum skilningi og telur að hin mismunandi áhöld og tæki sem hann færði til gjalda í rekstrarreikningi sínum falli öll innan marka nefndrar lagagreinar og lækkun skattstjóra á gjaldfærslu áhalda sé því ekki á rökum reist.“
III.
Með bréfi, dags. 24. september 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
IV.
Um 1. tl. Þrátt fyrir umfangsmiklar bréfaskriftir og langan aðdraganda að endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1987, er fór fram 25. nóvember 1988 m.a. vegna kæruefnis þess, sem hér um ræðir, þá er af skattstjórans hálfu algerlega vanupplýst og vanreifað á hverju hann byggir niðurstöðu sína um hina umdeildu lækkun að því er varðar einstaka liði. Í bréfum skattstjóra, endurákvörðun hans og kæruúrskurði er einstakra liða að engu getið. Er hin kærða breyting skattstjóra því í þeim mæli vanupplýst og órökstudd, að ómerkja ber hana með öllu.
Um 2. tl. Fjárhæðir einstakra reikninga á lista þeim, er skattstjóri gerði og fyrir liggur í málinu, eru innan þeirra marka, sem 41. gr. laga nr. 75/1981 setur, að einum reikningi undanskildum. Ekki kemur fram á lista þessum nema að litlu leyti, hvað reikningar þessir varða, og hvergi reifar skattstjóri það í gögnum málsins. Þá kemur ekki fram, hvernig skattstjóri leiðir niðurstöðu sína varðandi einstaka liði og almennt af 41. gr. laga nr. 75/1981. Með vísan til þessa, skýringa kæranda og þess, sem fram kemur í kæru, þykir bera að fella breytingar skattstjóra varðandi gjaldalið þennan alveg niður.