Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 827/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 73/1980 — 37. gr.  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn — Aðstöðugjaldsgreinargerð — Umboðssala — Umboðsstarfsemi — Póstverslun — Vörunotkun — Vörubirgðir — Framtalsháttur — Ársreikningur — Rekstrarkostnaður — Kröfugerð ríkisskattstjóra

I.

Kærandi stundaði m.a. póstverslun. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 1987 nam vörunotkun í þessum þætti starfsemi kæranda 50.579.305 kr. Ekki reiknaði kærandi þennan þátt með í aðstöðugjaldsstofni samkvæmt greinargerð um hann, er fylgdi skattframtalinu.

Með bréfi, dags. 25. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að aðstöðugjaldsstofn hefði verið hækkaður um 50.579.305 kr. með því að vörunotkun póstverslunar tilheyrði honum, sbr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessari hækkun stofnsins mótmælt í kæru, dags. 22. ágúst 1988. Vörunotkun póstverslunarinnar bæri ekki að taka með í aðstöðugjaldsstofni, þar sem póstverslun sem þessi væri rekin á þann hátt, að söluaðili, í þessu tilviki A, gæfi út vörulista, sem dreift væri til viðskiptavina, er síðan gerðu pöntun beint og hver fyrir sig í eigin nafni, en greiddu um leið staðfestingargjald inn á pöntun sína. Kærandi fylgdist síðan með því, er sendingin kæmi til landsins, og annaðist meðhöndlun hennar og tollafgreiðslu. Til þess að liðka fyrir viðskiptum legði hann út fyrir tolli, flutningsgjaldi og bankagreiðslu, er kaupandi endurgreiddi síðan, þegar hann vitjaði pöntunarinnar. Hefði viðskiptamannabókhald verið sett upp vegna þessa svo sem fram kæmi í skýringum með ársreikningi. Með kæruúrskurði, dags. 3. mars 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Tók skattstjóri fram, að af ársreikningi kæranda yrði ekki annað séð en að vörunotkun póstverslunar væri aðstöðugjaldsskyldur rekstrarkostnaður, sbr. 37. gr. laga nr. 73/1980. Benti skattstjóri á, að ósóttar pantanir í árslok væru taldar með birgðum í ársreikningi.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. mars 1989. Krefst hann þess, að hækkun skattstjóra á aðstöðugjaldsstofni verði hnekkt og að aðstöðugjaldsgreinargerð gjaldárið 1988 verði óbreytt lögð til grundvallar álagningu þess gjalds. Röksemdir eru svohljóðandi:

„Umbjóðandi minn rekur póstverslun, þ.e. er umboðsmaður A vörulistans. Sala fer fram beint til neytandans, þannig að hann gerir pöntun eftir vörulista sem hann fær í hendur og gengur hinn erlendi söluaðili frá afgreiðslu hverrar pöntunar beint í hendur kaupanda. Umbjóðandi minn sem hefur milligöngu um sendingu pöntunar gerir það strax og kaupandi hefur greitt staðfestingargjald. Eins og fram hefur komið í fyrri bréfum fylgist umbjóðandi minn með gangi pantana, og til að liðka fyrir viðskiptum, leggur hann út fyrir tolli, flutningsgjaldi og bankagreiðslu og sér síðan um innheimtu sölugjalds af hverri pöntun þegar hún er sótt. A gerir reikning fyrir hverja pöntun fyrir sig. Hver pöntun er tollafgreidd sérstaklega.

Umbjóðandi minn hefur ákveðna þóknun af hverri pöntun sem umboðssölulaun. Því hlýtur aðeins sá kostnaður sem samfara er rekstri póstverslunarinnar að vera aðstöðugjaldsskyldur.

Pantanir geta orðið allt að 20.000 á ári hverju. Til að halda utan um þær er nauðsynlegt að færa nákvæmt viðskiptabókhald, og eins og fram kemur í ársreikningi umbjóðanda míns, eru tilfærðar þær fjárhæðir sem viðskiptavinir póstverslunarinnar hafa greitt inn á pantanir sínar, svo og eru einnig tilfærðar þær fjárhæðir sem umbjóðandi minn á hjá viðskiptavinum sínum í þeim tilvikum sem pantanir hafa ekki verið sóttar. Þeirri túlkun skattstofu er mótmælt að þessar fjárhæðir séu taldar með birgðum, hér er um viðskiptakröfur að ræða.“

III.

Með bréfi, dags. 24. september 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að því virtu sem upplýst er um starfsemi kæranda er fallist á kröfu hans.“

IV.

Að virtum framkomnum skýringum má á það fallast með kæranda, að umræddur þáttur í starfsemi hans, þ.e.a.s. póstverslunin, sé umboðssala. Eigi hefur kærandi þó hagað reikningsskilum sínum í samræmi við það. Í því sambandi er til þess að líta, að hann eignfærir ósóttar pantanir í árslok í efnahagsreikningi sínum. Þrátt fyrir þetta þykir með tilliti til eðlis þessa þáttar í starfsemi hans og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra bera að fella hinn umdeilda lið undan aðstöðugjaldsálagningu. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja