Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 829/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 54. gr. — 106. gr. 2. mgr.  

Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Fjárfestingarsjóðsreikningur — Innborgun á fjárfestingarsjóðsreikning — Bundinn reikningur — Innborgunarfrestur — Binditími — Álag — Álag vegna vantalins skattstofns

I.

Málavextir eru þeir, að þann 3. febrúar 1989, lækkaði skattstjóri frádrátt vegna tillags í fjárfestingarsjóð 30% úr 3.980.000 kr. í 3.000.000 kr. eða um 980.000 kr. og hækkaði tekjuskattsstofn um sömu fjárhæð að viðbættu álagi, 25% samkvæmt ákvæðum 106. gr. laga nr. 75/1981, 245.000 kr. eða um alls 1.225.000 kr. Var breytingin gerð að undangengnu fyrirspurnar- og boðunarbréfi, dags. 12. janúar 1989, sem ekki var svarað af hálfu kæranda. Skattstjóri byggði breytingu sína á því, að samkvæmt tilkynningu frá Sparisjóði X hefði innlegg kæranda á fjárfestingarsjóðsreikning numið 1.500.000 kr. eða 490.000 kr. lægri fjárhæð, en lögskilið væri miðað við óbreyttan frádrátt, sbr. ákvæði 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var endurákvörðun skattstjóra kærð til hans með kæru, dags. 20. febrúar 1989. Kæru fylgdi ljósrit af reikningsyfirliti fjárfestingarsjóðsreiknings fyrir tímabilið 31. maí til 31. desember 1988. Þess var óskað í kæru, að tilfært fjárfestingarsjóðstillag á skattframtali yrði leyft að fullu til frádráttar með svofelldri greinargerð:

„Málavextir eru þeir að félagið færði til frádráttar tekjum tillag í fjárfestingarsjóð að fjárhæð 3.980.000 kr. og átti því að leggja 1.990.000 kr. inn á fjárfestingarsjóðsreikning. Lokauppgjör félagsins fyrir árið 1987 fór fram um þær mundir sem frestur til innborgunar var að líða og telur framkvæmdastjóri félagsins að misskilningur hafi orðið milli hans og sparisjóðsstjóra varðandi millifærslu milli reikninga í Sparisjóði X. Afleiðing þess misskilnings hafi orðið sú að 490.000 kr. af innlegginu kom ekki inn fyrr en 9. júní, en félagið átti allan tímann innistæðu á öðrum reikningi í sparisjóðnum til þess að fullnægja þessari innborgun á tilskildum tíma.“

Með kæruúrskurði, dags. 22. febrúar 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeirri forsendu, að innlegg kæranda hefði þann 31. maí 1988 numið 1.500.000 kr., sem takmarkaði hámarksfrádrátt vegna fjárfestingarsjóðstillags við 3.000.000 kr.

II.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. mars 1989. Aðalkrafan er, að fjárfestingarsjóðstillag samkvæmt óbreyttu skattframtali verði leyft að fullu til frádráttar. Varakrafan er, að viðurlög verði felld niður. Í rökstuðningi fyrir kæru er vísað til fyrri greinargerðar í kæru til skattstjóra. Þá er greint svo frá, að hluti fjárfestingarsjóðsinnleggs hafi ekki verið lagður inn fyrr en 9. júní 1988, sbr. yfirlit sem fylgdi kæru til skattstjóra, sem að mati framkvæmdastjóra félagsins hafi stafað af misskilningi milli hans og sparisjóðsstjóra en félagið hafi á þessum tíma átt verulegar bankainnstæður. Rökstuðningur fyrir varakröfu er sá, að ekki hafi verið um vísvitandi vanrækslu að ræða á nokkurn hátt og hafi fullt tillag staðið inni á fjárfestingarsjóðsreikningi í þann tíma, sem tilskilinn sé í lögum.

III.

Með bréfi, dags. 24. september 1990, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Eigi er um það deilt, að kærandi hafi eigi gætt þeirra tímamarka, sem um getur í 3. ml. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 10. gr. laga nr. 8/1984, um breyting á þeim lögum. Þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra um þetta kæruatriði, enda þykja framkomnar skýringar kæranda eigi fá breytt þessari niðurstöðu. Eftir atvikum þykir mega fallast á varakröfu og falla frá beitingu álags.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja