Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 833/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. — 106. gr. 1. mgr.   Lög nr. 45/1987 — 5. gr.   Lög nr. 46/1987 — 2. gr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Skattframtal, vefenging — Skattframtal tortryggilegt — Skattframtal, höfnun — Framfærslueyrir — Vantaldar skuldir — Skuldir vantaldar — Framfærsluaðstoð — Launatekjur — Laun í staðgreiðslu — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Niðurfellingarhlutfall

I.

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattframtal kæranda árið 1988, sem ekki er dagsett, hafði borist skattstjóra þann 18. júlí 1988 samkvæmt áritun hans á framtalið um móttöku þess. Í kæru, dags. 8. ágúst 1988, vísaði umboðsmaður kæranda til hins innsenda skattframtals.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 9. febrúar 1989. Synjaði hann því að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu í stað hinna áætluðu skattstofna. Eru forsendur skattstjóra svohljóðandi:

„Þegar tekið hefur verið tillit til tekna og gjalda ársins 1987, skv. skattframtali, svo og breytinga á eignum og skuldum kemur í ljós að lífeyrir kæranda er neikvæður um a.m.k. kr. 285.978, þ.e. kærandi hefur haft minna en ekki neitt sér til framfæris á árinu 1987.

Í ofangreindum útreikningi á lífeyrir hefur ekki verið tekið tillit til kostnaðar kæranda vegna húsnæðis, reksturs bifreiða, afborgunum af lánum eða eigin framfærslu.

Ljóst má vera af ofangreindum ágöllum að skattframtal kæranda er í þeim mæli tortryggilegt og virðist svo ótraust heimild um tekjur og gjöld ársins 1987 og stöðu eigna og skulda í lok þess árs, að framtalið verður ekki lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda. Innsendu skattframtali kæranda er því hafnað.“

II.

Með kæru ódagsettri en móttekinni 8. mars 1989 hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og fer hann fram á, að innsent skattframtal árið 1988 verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988. Í kærunni greinir umboðsmaðurinn frá því að samkvæmt upplýsingum kæranda hafi skuldir í framtali verði vantaldar um 415.000 kr. og eru skuldir þessar taldar upp. Þá er þess getið, að kærandi hafi búið í foreldrahúsum og notið fjárhagslegrar aðstoðar foreldra. Kærandi hafi keypt á árinu 1986 söluturn við X og selt hann 1987 vegna fjárhagserfiðleika.

III.

Með bréfi, dags. 31. júlí 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki fram komið nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

IV.

Skattstjóri byggði höfnun framtalsins á því, að framfærslueyrir kæranda væri neikvæður um 285.978 kr. og því fengi framtalið eigi staðist. Í þessu sambandi ber kærandi fyrir sig í kæru til ríkisskattanefndar, að skuldir hafi verið vantaldar um 415.000 kr. svo og að fengin hafi verið fjárhagsaðstoð frá foreldrum. Engin nánari grein er gerð fyrir þessu og engin gögn lögð fram hvorki um fjárhagsaðstoð þessa né vantaldar skuldir. Auk þess bera tilgreindar skuldafjárhæðir þess merki að vera áætlaðar. Þykja því eigi fram komin þau gögn og skýringar af kæranda hálfu að unnt sé að byggja álagningu á framtali hans. Áætlaðir stofnar til tekjuskatts og útsvars 1.000.000 kr. þykja eigi um skör fram. Að því virtu sem fram kemur í skattframtalinu og framtalsgögnum um laun kæranda, sbr. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, þykir eftir öllum atvikum rétt að skipta hinum áætluðu stofnum til tekjuskatts og útsvars til helminga með tilliti til ákvæða 2. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, þannig að niðurfellingarhlutfall verður 0,50.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja