Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 846/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 67/1971 — 19. gr. — 39. gr. b. liður   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 2. tl. — 10. gr. 2. mgr.   Reglugerð nr. 170/1987  

Almannatryggingar — Tryggingastofnun ríkisins — Styrkur — Bílakaupastyrkur — Styrkur, óendurkræfur — Óendurkræfur styrkur — Stofnverð — Skattskyldar tekjur — Skattfrjálsar tekjur — Örorka — Fatlaðir, bifreiðakaup — Málefni fatlaðra — Kvöð — Sölukvöð

Málavextir eru þeir, að skattstjóri gerði m.a. þá breytingu á skattframtali kærenda 1989 að færa til tekna 100.000 kr. sem var bílakaupastyrkur frá Tryggingastofnun ríkisins. Breyting þessi var kærð til skattstjóra en hann synjaði kærunni með úrskurði uppkveðnum 25. september 1989. Sagði m.a. í úrskurðinum, að með vísan til 2. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 svo og leiðbeiningar ríkisskattstjóra um útfyllingu skattframtals 1989 yrði ekki annað séð en bílastyrkur frá Tryggingastofnun ríkisins væri skattskyldur. Þá kæmi ekki fram í kæru, að kvöð fylgdi umræddri styrkveitingu.

Umboðsmaður kærenda skaut máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 24. október 1989, en mótteknu hjá ríkisskattanefnd þann 29. október 1989. Segir þar m.a.:

„Kærður er úrskurður Skattstjórans vegna skattlagningar bílakaupastyrks Tryggingastofnunar ríkisins til umbjóðanda míns.

Umbjóðandi minn er öryrki og hefur fengið styrk Tryggingastofnunar ríkisins til bílakaupa og vísast þar til reglugerðar 170/1987 um þau efni.

Samkvæmt meðfylgjandi gögnum; veðbókarvottorði og vísan til afrits af bréfi ríkisskattstjóra til Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, tel ég að þeim skilyrðum sem í því bréfi eru nefnd hafi verið uppfyllt og því sé þessi styrkur ekki skattskyldur.

Gerð er sú krafa að skattlagning þessa styrks verði felld niður og skattframtal umbjóðanda míns verði tekið til skattlagningar eins og það var sent inn til skattstofu.“

Af hálfu ríkisskattstjóra var með bréfi, dags. 2. ágúst 1990, lögð fram svohljóðandi kröfugerð í málinu:

„Eftir atvikum þykir rétt að fallast á efnismeðferð kærunnar og er að virtum atvikum öllum og með hliðsjón af framkomnum skýringum fallist á kröfu kæranda.“

Fallist er á kröfu kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja