Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 857/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 73/1980 — 36. gr. 1. mgr. — 37. gr.   Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 2. mgr. — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. og B-liður — 15. gr. — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 38. gr. — 106. gr. 2. mgr.   Lög nr. 46/1987 — 4. gr. 3. mgr.  

Bifreiðaviðskipti — Bifreið — Einkabifreið — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Bílasala — Söluhagnaður — Lausafé — Söluhagnaður lausafjár — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Skattfrelsi — Skattfrelsi söluhagnaðar — Skattfrelsi söluhagnaðar lausafjár — Söluhagnaður, skattfrjáls — Atvinnurekstrartekjur — Fyrning — Almenn fyrning — Fyrning, almenn — Fyrningarhlutfall — Fyrnanleg eign — Atvinnurekstrareign — Fyrnanlegt lausafé — Álag — Álag vegna vantalins skattstofns — Álag á áætlaða skattstofna — Áætlun — Áætlun skattstofna — Rekstrarskuldir — Skuldir utan rekstrar — Launatekjur, yfirfærðar — Vantaldar tekjur — Skattskyldar tekjur — Skattframtal, ófullnægjandi — Rekstrarkostnaður — Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsskylda — Aðstöðugjaldsstofn — Ársreikningur — Framtalsháttur — Sameignarfélag — Samrekstur — Lögaðili — Sjálfstæður skattaðili — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Reiknað endurgjald — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Vinnuframlag við eigin atvinnurekstur — Yfirfærðar launatekjur — Frávísun — Frávísun vegna vanreifunar — Vanreifun

Málavextir eru þeir, að kærandi rak Bílasöluna X í félagi við bróður sinn, A. Liggur ársreikningur vegna þess rekstrar árið 1987 fyrir í málinu. Þá stundaði kærandi viðskipti með bifreiðar í eigin nafni og fylgdi skattframtali hans árið 1988 yfirlit yfir bifreiðakaup og sölu árið 1987 að hluta til, þ.e. kaup þriggja bifreiða og sala tveggja. Með bréfi, dags. 24. nóvember 1988, barst loks yfirlit yfir bifreiðaviðskiptin í heild. Samkvæmt því yfirliti keypti hann 19 bifreiðar á árinu 1987 og seldi 16. Gat hann bifreiðaeignar í árslok í yfirliti þessu. Var þar um að ræða 3 bifreiðar samtals 2.065.000 kr. Þá var í yfirlitinu getið bifreiðar af gerðinni MMC Pajero árg. 1985 (bifreiðin B) 890.000 kr. er væri eign Bílasölunnar X. Skuldir kæranda í árslok 1987 vegna bifreiðaviðskipta voru í yfirliti þessu tilgreindar 2.535.436 kr. Ekki færði kærandi niðurstöðutölur þessara bifreiðaviðskipta á skattframtal sitt árið 1988 og hreinar tekjur eða hagnaður af bifreiðaviðskiptunum voru ekki gerðar upp og tekjufærðar af hans hálfu. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 var byggt á skattframtali kæranda óbreyttu.

Með bréfi, dags. 26. september 1988, krafði skattstjóri kæranda ýmissa skýringa varðandi skattframtal hans árið 1988 og boðaði breytingar á því. Það, sem ágreiningur er um og fram kom í bréfi þessu, var eignfærsla bifreiðarinnar B, er talin var meðal eigna Bílasölunnar X, svo og söluhagnaður bifreiðanna C, D og E. Að því er varðar fyrra atriðið þá tók skattstjóri fram, að samkvæmt fylgiskjali með skattframtali þá væri bifreið þessi eign kæranda og því einkabifreið, er að hluta væri notuð við rekstur. Því væri fyrirhugað að færa hana af efnahagsreikningi X og til eignar í eignahlið skattframtals kæranda á kaupverði 890.000 kr. Jafnframt yrði fyrning bifreiðarinnar felld niður. Benti skattstjóri jafnframt á, að fyrning væri offærð, væri um fyrnanlega eign að ræða, þ.e. 20% í stað 10%. Viðvíkjandi síðara atriðinu þá boðaði skattstjóri tekjufærslu söluhagnaðar 80.000 kr. vegna þessara þriggja bifreiða.

Umboðsmaður kæranda svaraði með bréfi, dags. 13. október 1988. Tók hann fram, að bifreiðin B væri eign Bílasölunnar X, en hefði fyrir mistök verið færð á lista yfir einkaviðskipti kæranda. Bílasölunni væri nauðsyn á bifreið vegna mikilla snúninga í kringum viðskiptin. Rekstrarkostnaður bifreiðarinnar væri gjaldfærður á rekstrarreikningi og skuld við seljanda færð í efnahagsreikning. Þá ætti kærandi bifreiðina F til einkanota. Þá mótmælti umboðsmaður kæranda skattlagningu söluhagnaðar á þeim forsendum, að því er best verður séð, að kærandi nyti skattfrelsisákvæða 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 7. nóvember 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að áætla honum tekjur af bifreiðaviðskiptum 800.000 kr. og aðstöðugjaldsstofn vegna þessara viðskipta 8.000.000 kr., en í ljós hefði komið, að á yfirliti um bifreiðaviðskipti kæranda árið 1987 væri aðeins mjög lítið brot af þeim bifreiðafjölda, sem hann hefði keypt og selt á árinu 1987. Ef kærandi gerði tæmandi grein fyrir öllum bifreiðaviðskiptum sínum árið 1987 innan svarfrests yrðu breytingar miðaðar við þær upplýsingar. Lagt yrði 25% álag á vantaldar eða áætlaðar tekjur skv. heimild í 106. gr. laga nr. 75/1981.

Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 24. nóvember 1988, fylgdi yfirlit yfir kaup og sölu bifreiðar árið 1987, sbr. að framan. Þá gerði umboðsmaðurinn grein fyrir tapi 42.185 kr. á sölu á tilgreindri bifreið. Ítrekaði hann sjónarmið varðandi bifreið færða í ársreikning Bílasölunnar X. Þá var þess krafist, að tekjuafgangur, sem skapaðist vegna breytinga á ársreikningi Bílasölunnar X yrði færður sem hækkun á reiknuðu endurgjaldi kæranda og samrekstrarmanns hans og kæmi þar með ekki til skattlagningar, sbr. viðmiðunarmörk reiknaðs endurgjalds. Með bréfi, dags. 9. desember 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1988 og framkvæmdi hinar umdeildu breytingar auk þeirra, sem ekki stendur neinn ágreiningur um. Hreinar tekjur kæranda af starfsemi Bílasölunnar X hækkuðu úr 227 kr. í 53.548 kr. Bifreiðin B var færð af efnahagsreikningi X í eignahlið skattframtals kæranda og gjaldfærð fyrning hennar felld niður. Þá færði skattstjóri kæranda til tekna í reit 76 söluhagnað 159.320 kr. vegna seldra bifreiða. Af fjárhæð þessari reiknaðist 49.320 kr. skv. framlögðu yfirliti kæranda, 10.000 kr. vegna bifreiðar E og 100.000 kr. áætlaður söluhagnaður v/ Lada-bifreiðar, sem ekki væri tilgreind á yfirliti. Skattstjóri bætti 25% álagi skv. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 á þennan lið. Eignfærðar voru í E-2 í framtali bifreiðar að fjárhæð 2.065.000 kr. og til skuldar fært v/bifreiðaviðskipta í skuldahlið framtals 2.535.436 kr. Þá lagði skattstjóri á kæranda aðstöðugjald v/bifreiðaviðskipta og ákvarðaði stofn 6.500.680 kr., þ.e. 6.290.680 kr. skv. yfirliti kæranda um bifreiðaviðskiptin, 160.000 kr. kaupverð E og áætlað kaupverð Lada-bifreiðar 50.000 kr.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var endurákvörðun skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 14. desember 1988. Mótmælt var færslu bifreiðarinnar B af efnahagsreikningi Bílasölunnar X á framtal kæranda og því m.a. borið við, að ekki væri löglegt né gerlegt að skrá bifreiðina á bílasöluna, þar sem fyrirtækið væri ekki sjálfstæður skattaðili, hefði ekki nafnnúmer eða kennitölu og ekki samningur um hana sem sameignarfélag. Þá var mótmælt söluhagnaði 100.000 kr. vegna Lada-bifreiðar. Bifreið þessi væri á framlögðu yfirliti en ranglega sögð þar vera Mazda Vax en ætti að vera Lada VAZ. Þá var farið fram á lækkun aðstöðugjaldsstofns um 100.000 kr. af þessum sökum. Með kæruúrskurði, dags. 23. desember 1988, synjaði skattstjóri kröfum kæranda varðandi margumrædda bifreið, hækkun reiknaðs endurgjalds og lækkun söluhagnaðar um 100.000 kr. Varðandi síðastnefnt atriði segir svo í kæruúrskurði skattstjóra: „Samkvæmt fylgiskjali með framtali yðar keyptuð þér aðeins þrjár bifreiðar á árinu 1987. Sá fjöldi er nú orðinn 24 bifreiðar, enda þótt þér hafið sleppt annarri þeirra bifreiða, sem talin var keypt og seld á upphaflegu fylgiskjali með framtali. Í bréfi yðar 13.10 sl. var engin tilraun gerð til leiðréttingar á upphaflegum upplýsingum. Með tilliti til þessa og ágalla á skráningu þá er kröfum yðar um lækkun söluhagnaðar hafnað. Kröfu yðar um lækkun aðstöðugjalds er á sama hátt hafnað, enda er hún tvöföld sú fjárhæð, sem áætluð hækkun gjaldstofnsins nam.“

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 27. desember 1988. Kröfugerðin er svohljóðandi í kærunni:

„1. Mótmælt er algerlega rökstuðningi skattstjóra sem hann beitir varðandi bifreiðina B, enda ekki tilgreind lagagrein því til stuðnings að tveim aðilum sem saman stunda rekstur sé skylt að hafa um reksturinn sameignarfélag. Þessi staðhæfing er með öllu tilhæfulaus og auk þess ámælisverð í meira lagi úr þeirri átt sem hún kemur.

Fullyrðing skattstjóra um vanrækslu kæranda um öflun kennitölu fyrir reksturinn er fáranleg og vísast í því sambandi til 2. gr. l. nr. 75/1981, 3. mgr. Þar sem segir um skattskyldu lögaðila „ ... enda sé félagið skráð í firmaskrá hér á landi, þess óskað við skráningu að félagið sé sjálfstæður skattaðili og við skráningu afhentur félagssamningur þar sem getið sé eignahlutfalls eigenda, innborgaðs stofnfjár svo og hvernig félagsslitum skuli háttað. Senda skal skattstjóra vottorð um skráningu og staðfest eftirrit af félagssamningi með fyrsta skattframtali þessara félaga. ...“

Bílasalan X er sameign tveggja bræðra sem ekki hafa kosið að mynda sérstakt sameignarfélag um reksturinn. Verður hvergi séð af lögum að sú ákvörðun sé þeim óheimil. Þess er því enn sem fyrr krafist að fyrning hinar umræddu bifreiðar verði heimiluð eins og hún er tilgreind í ársreikningi en til vara a.m.k. 10%.

2. Þess er krafist að verði um hækkun hreinna tekna að ræða af rekstrinum vegna lækkunar fyrningarhundraðshluta og eða annarra breytinga, verði heimilað að færa þær til hækkunar á reiknuðu endurgjaldi hjá eigendunum báðum, enda reiknuð laun þeirra undir viðmiðunarmörkum. Um þá fullyrðingu skattstjóra að ekki hafi borist ósk um þetta efni frá meðeiganda, vísast til næst-síðustu málsgreinar í bréfi voru dags. 24. nóv. s.l.

3. Þeirri ákvörðun skattstjóra að hafna rökum varðandi skráningarskekkju (vélritunarvillu) og halda fast við fyrri ákvörðun um kr. 100.000 áætlaðan vantalinn söluhagnað er harðlega mótmælt. Verður ekki fallist á að í þessum úrskurði skattstjóra sé gætt ákvæða 99. gr. l. nr. 75/1981 um rökstuðning.

Verður ekki annað séð en beiting 25% viðurlaga rúmi fyllilega þá sekt sem skattstjóri vill meina að brot framteljanda verðskuldi.

4. Að öðru leyti vísast til meðfylgjandi ljósrita sem hafa að geyma rök og gagnrök er mál þetta varða.“

Með bréfi, dags. 12. janúar 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Svo sem fram hefur komið rekur kærandi bílasölu í félagi við bróður sinn og er aðild þeirra að rekstri þessum jöfn samkvæmt málsgögnum. Ársreikningur vegna þessarar starfsemi fyrir árið 1987 liggur fyrir í málinu. Fram kemur í málinu, að þeir bræður hafi keypt fyrirtæki þetta í ársbyrjun 1987 fyrir 800.000 kr. og eina eign þess hafi verið húsnæði. Jafnframt rekstri þessarar bílasölu hafði kærandi með höndum umfangsmikil viðskipti með bifreiðar svo sem í málinu greinir. Óverulegur hluti þessara viðskipta kom fram í skattframtali kæranda, en við aðgerðir skattstjóra hefur umfang þeirra smám saman komið í ljós. Að virtum rekstri kæranda á bílasölu þeirri, sem í málinu greinir, svo og umfangi og eðli þeirra bifreiðaviðskipta, er hann hafði einn með höndum, þá þykir ótvírætt bera að skoða þau viðskipti sem þátt í sjálfstæðri starfsemi kæranda. Bar honum að miða skattskil sín við það. Það gerði hann ekki og liggja enn eigi fyrir viðhlítandi skattskil af hans hendi varðandi þetta. Þá verður eigi annað séð en skattstjóri hafi litið svo á, að þannig bæri að líta á bifreiðaviðskipti þessi, þótt nokkuð skorti á um samkvæmni af hans hálfu við meðferð málsins. Að því virtu, sem hér hefur verið rakið, og eins og málið liggur fyrir þykja eigi efni til að hagga skattstofnum frá því sem skattstjóri ákvað í tilefni af kæru kæranda. Varðandi einstök atriði þá þykir rétt, að fram komi, að eigi hefur kærandi sýnt fram á og lagt fram gögn um ráðstöfun umræddrar bifreiðar til Bílasölunnar X eða lagt fram efnisleg rök um hækkun reiknaðs endurgjalds. Rétt þykir að vísa kæru þessari frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja