Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 879/1990

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 2. mgr. — 31. gr. 7. tl. — 101. gr. 3. mgr. — 106. gr. 2. mgr.  

Rekstrartap — Rekstrartap, yfirfæranlegt — Yfirfæranlegt rekstrartap — Rekstraraðili — Rekstraraðild — Sameignarfélag — Stofnun sameignarfélags — Sjálfstæður skattaðili — Félagsslit — Lögaðili — Skattaleg meðferð tekna og eigna sameignarfélags, sem ekki er sjálfstæður skattaðili — Endurákvörðun — Endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra — Endurákvörðun ríkisskattstjóra — Skatterindi — Álag — Álag vegna vantalins skattstofns — Áætlun — Áætlun skattstofna — Einkafirma — Einstaklingsfyrirtæki

Málavextir eru þeir, að samkvæmt beiðni kæranda, B, endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld hans gjaldárin 1986 og 1987 hinn 10. apríl 1989. Kærandi hafði verið aðili að rekstri X sf. að helmingi tímabilið 1. september 1984 til 31. október 1985, er reksturinn var seldur. Sameignarfélag þetta var ekki sjálfstæður skattaðili. Skattstjóri hafði áætlað skattstofna gjaldárin 1986 og 1987 vegna vantandi upplýsinga um rekstur X sf. Ríkisskattstjóri endurákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 1986 í samræmi við gögn um rekstur X sf. að viðbættu 25% álagi. Rekstrarhagnaður nam 1.381.286 kr. eða 690.643 kr. að hlut kæranda. Frá dróst helmingur rekstrartaps 1984, er nam framreiknað að hlut kæranda 346.767 kr. Mismunur 343.876 kr. var færður sem hreinar tekjur í reit 62 í framtali. Bætt var 25% álagi á þessa fjárhæð sem vantalinn skattstofn eða 85.969 kr. Laun og reiknað endurgjald námu samkvæmt framtali 440.000 kr. Að teknu tilliti til fasts frádráttar nam tekjuskattsstofn 825.845 kr. Áætlun skattstjóra 375.000 kr. vegna tekna X sf. var felld niður. Gjaldárið 1987 var áætlun skattstjóra vegna vantandi upplýsinga um rekstur X sf. felld niður með því að fyrir lá, að firmað hætti rekstri á árinu 1985.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessari endurákvörðun ríkisskattstjóra mótmælt í kæru, dags. 9. maí 1989. Er kæran svohljóðandi:

„Í framhaldi af úrskurðum dags. 10/04/89 nr. ... og ... vil ég árétta eftirfarandi atriði.

Söluhagnaður sá, sem tekjufærður er skv. nefndum úrskurðum er löngu útgenginn þar sem tap af rekstri fyrri ára er langt umfram söluhagnað þennan.

Góðfúslega fellið niður álagningu þá sem skapast vegna hagnaðar þessa, á ofangreindum forsendum.

Verði þess krafist munu framteljendur reyna að leggja fram gögn þessu til staðfestu.

Þess ber og einnig að geta að A á mikið uppsafnað tap frá fyrri árum, sem óskast tekið tillit til í þessu sambandi. Jafnframt óskast tekið tillit til þess við úrskurð B að þó tapið vegna fyrri rekstrarára X hafi færst á A, þar sem rekstur var fram talinn á hans nafni þá tilheyrði helmingur rekstrar nefndum B.

Við úrskurð A þá hefur ekki verið felld niður áætlun vegna reksturs X á árunum 1986 og seinna.

Í von um að mál þetta verði meðhöndlað af skilningi og fái farsæla úrlausn.“

Ríkisskattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 10. júlí 1989. Felldi ríkisskattstjóri niður álag á vantalinn skattstofn gjaldárið 1986 en synjaði kröfu kæranda um frádrátt vegna umrædds taps á svofelldum forsendum:

„Kæran varðar úrskurð ríkisskattstjóra dagsettan 10. apríl 1989, mál nr. ... . Samkvæmt beiðni umboðsmanns kæranda var álagning opinberra gjalda gjaldárið 1986 tekin til endurskoðunar. Í úrskurðinum var miðað við að kærandi hafi einungis verið aðili að rekstri umræddrar verslunar frá 1. september 1984 til 31. október 1985 eða þann tíma sem hún var rekin af X sf.

Kærunni fylgir svohljóðandi yfirlýsing dags. 26. apríl 1989 og undirrituð af A:

„Ég undirritaður A, lýsi því hér með yfir að B, tók að sér til helminga greiðslu taps þess er varð á rekstri verzlunar er við rákum sameiginlega en á mínu nafni, frá 01/11/81 til 01/09/84.

Um það var að ræða að ganga til samninga við heildsala ýmist til greiðslu skuldbindinga þessara, eða semja um frekari gjaldfresti.“

Einnig fylgir með ljósrit af samningi, dagsettur 27. október 1985, er kærandi og A gerðu með sér við slit á rekstri X sf. og yfirtöku og kaup X hf. á rekstrinum.

Í kærunni kemur fram að rekstur verslunarinnar var fram talinn á nafni A fram að stofnun sameignarfélagsins og ekki liggur annað fyrir en að hann hafi einn verið skráður eigandi firmans.

Þótt samið sé eftir á um greiðslur á skuldum sem urðu til á þeim tíma, er annar aðili stóð einn að rekstrinum, getur það ekki skapað nein skattaleg réttindi til tapsfrádráttar hjá þeim er tekur að sér að greiða skuldina.

Kærandi telst því ekki eiga rétt á frádrætti samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 fyrr en við stofnun sameignarfélagsins 1. september 1984. Kröfu umboðsmanns kæranda er því að þessu leyti hafnað.“

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. ágúst 1989, og ítrekar kröfur sínar um frádrátt vegna umrædds taps af rekstri X, áður en til stofnunar sameignarfélags kom um rekstur þennan.

Með bréfi, dags. 24. september 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærandi krefst þess, að til frádráttar tekjum hans af umræddum verslunarrekstri komi eftirstöðvar rekstrartapa frá fyrri árum umfram tap það, sem varð 1. september 1984 til 31. desember 1984 og ríkisskattstjóri hefur þegar heimilað til frádráttar. Samkvæmt gögnum málsins, þar á meðal skattframtölum kæranda árin 1984 og 1985, er liggja fyrir í málinu, verður ekki séð, að kærandi hafi haft umræddan rekstur að neinu leyti með höndum á því tímabili, sem margnefnt tap myndaðist, þannig að honum beri frádráttur skv. 7. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna taps þessa. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta kæruúrskurð ríkisskattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja