Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 887/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 54. gr. — 106. gr. 2. mgr.  

Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Fjárfestingarsjóðsreikningur — Bundinn reikningur — Innlánsreikningur — Fjárfestingarsjóðsreikningur, lögmæltir reikningsskilmálar — Innborgun á fjárfestingarsjóðsreikning — Fjárfestingarsjóðsreikningur, binditími innborgana — Binditími — Fjárfestingarsjóðsreikningur, verðtrygging — Verðtryggður innlánsreikningur — Lánskjaravísitala — Álag — Álag vegna vantalins skattstofns

Málavextir eru þeir, að með endurákvörðun, dags. 7. febrúar 1989, að undangenginni fyrirspurn og að mótteknu svari, dags. 5. janúar 1989, felldi skattstjóri niður frádrátt vegna 30% tillags í fjárfestingarsjóð 432.570 kr. og hækkaði tekjuskattsstofn um þá fjárhæð að viðbættu álagi, 25%, samkvæmt ákvæðum 106. gr. laga nr. 75/1981, 108.142 kr. eða um alls 540.712 kr., þar sem 50% tillags hefði ekki verið lagt inn á bundinn reikning í innlánsstofnun fyrir 1. júní 1988. Meðfylgjandi svari, dags. 5. janúar 1989, voru ljósrit af stofnskírteini X-reiknings A-banka nr. ... útgefið 1988, af reglum bankans um X-reikning og af tveimur reikningsyfirlitum, dags. 27.05 og 30.06.1988.

Með kæru, dags. 28. febrúar 1989, var endurákvörðun skattstjóra kærð til niðurfellingar. Í rökstuðningi fyrir kæru taldi kærandi sig hafa fullnægt ákvæðum 3.–5. ml. 1. mgr. 54. gr. tilvitnaðra laga með eftirgreindum hætti: Hann hefði lagt 50% fjárfestingarsjóðstillagsins inn á bundinn 6 mánaða reikning 27. maí 1988 og hefði innstæðan verið óhreyfð 31. desember 1988, sbr. reikningsyfirlit, dags. 31.12.1988. Reikningurinn væri verðtryggður. Meðfylgjandi kæru voru fimm ljósrit, af kvittun fyrir innleggi, af stofnskírteinum X-reiknings nr. ... og af þremur reikningsyfirlitum, dags. 30.06, 07.07 og 31.12.1988.

Þann 16. febrúar 1989 móttók skattstjóri og skráði sem kæru bréf frá A-banka, dags. 14. febrúar 1989, samkvæmt áritun hans þar um. Meðfylgjandi bréfi bankans voru fjögur ljósrit, af stofnskírteini X-reiknings nr. ..., af spjaldi úr númeraspjaldskrá vegna þessa reiknings með upplýsingum um reikningseiganda og rithandarsýnishorni hans, og af tveimur reikningsyfirlitum, dags. 30.06 og 31.12.1988. Er í kæru vísað til þessa bréfs bankans með þeim hætti, að kærandi sé meðal nefndra viðskiptaaðila bankans, sem lagt hafi inn á bundna reikninga vegna fjárfestingarsjóðstillags fyrir 1. júní 1988. Í bréfi bankans greindi frá því að vegna mistaka í bókum væru yfirlit einungis skráð sem 6 mánaða bundinn reikningur í stað „Fjárfestingarsjóðsreikningur“. Var þess í niðurlagi bréfs óskað, að kærandi yrði ekki fyrir neinum skakkaföllum vegna mistaka bankans.

Með kæruúrskurði, dags. 23. október 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á svofelldum forsendum:

„Samkvæmt ljósriti af stofnskírteini sem fylgdi svarbréfi kæranda dags. 5. janúar 1989 er X-reikningur óverðtryggður og ber vexti skv. vaxtaákvörðun bankans hverju sinni. Ljóst er að vextir leggjast við höfuðstól.

Skv. 10. gr. laga nr. 8/1984 skulu innstæður á hinum bundnu reikningum (fjárfestingarsjóðsreikningum) vera verðtryggðir samkvæmt lánskjaravísitölu, en um vexti af þeim fer eftir reglum sem á hverjum tíma gilda um slíka innstæðureikninga sem bundnir eru í a.m.k. sex mánuði.

Ennfremur segir í nefndri 10. grein að verðbætur skulu bundnar með sama hætti og höfuðstóll, en vextir eru lausir og skulu þeir ekki leggjast við hina bundnu fjárhæð.

Bréf frá A-banka þykir einungis staðfesta að kærandi hafi stofnað X-reikning þann 27. maí 1989.

Af ofangreindu má ljóst vera að kærandi hefur ekki uppfyllt skilyrði 10. gr. laga nr. 8/1984 og er kröfu kæranda því hafnað.“

Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 20. nóvember 1989. Aðalkrafa er, að hin kærða breyting verði felld niður. Varakrafa er, að fallið verði frá álagsbeitingu vegna endurákvörðunar. Með kæru er lagt fram ljósrit af kvittun fyrir innleggi til viðbótar áður framlögðum gögnum. Rökstuðningur fyrir aðalkröfu er sá, að ákvæðum nefndra laga hafi verið fullnægt með innlögn 225.000 kr. inn á bundinn reikning hinn 27. maí 1988 og innstæðan staðið óhreyfð í árslok 1988. Að reikningurinn beri hæstu vexti eða verðtryggingu, hvort sem hagstæðara er, og samkvæmt því er ljóst, að reikningurinn er verðtryggður hið minnsta. Það, að vextir leggjast við höfuðstól, er meiri binding en tilgreind er í 10. gr. laga nr. 8/1984. Varakrafa er rökstudd þannig, að kærandi hafi gert sitt ítrasta til að verða við öllum lagalegum kröfum. Kærandi hafi tekið á sig meiri skuldbindingar en áskilið væri í nefndum lagaákvæðum m.t.t. verðtryggingar og með innlánsbindingu vaxta en á þessum tveimur atriðum byggðist úrskurður skattstjóra. Að beita refsiákvæðum þegar framteljandi skuldbindi sig meira en krafist er að lögum, geti ekki undir nokkrum kringumstæðum verið eðlilegt og réttlætanlegt.

Með bréfi, dags. 8. maí 1990, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Í ljósriti af reglum bankans um X-reikning lögðu fram með ljósriti af stofnskírteini X-reiknings nr. ... segir orðrétt í upphafi 1. tl.: „X-reikningur er bundinn til 6 mánaða en heimilt er að taka tvisvar út á því tímabili. Hann er óverðtryggður reikningur og ber vexti skv. ákvörðun bankans á hverjum tíma. Á sex mánaða fresti er borin saman verðtryggð og óverðtryggð ávöxtun og gildir sú sem hærri er. Vaxtaviðlagning er tvisvar á ári, í júnílok og desemberlok. ...“ Eins og fram kemur í þessum reglum, er heimilt að taka út af greindum reikningi tvisvar á hverju sex mánaða tímabili og tekið er sérstaklega fram, að reikningurinn sé óverðtryggður. Er því ljóst, að greindur reikningur fullnægir ekki ákvæðum tilvitnaðrar lagagreinar, hvorki um innlánsbindingu í fulla sex mánuði né skilyrði um verðtryggingu samkvæmt lánskjaravísitölu. Er aðalkröfu kæranda synjað. Fallist er á varakröfu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja