Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 965/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 54. gr. — 99. gr. 1. mgr. 3. ml. — 106. gr. 2. og 3. mgr.  

Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Fjárfestingarsjóðsreikningur — Bundinn reikningur — Innlánsreikningur — Binditími — Innborgun á fjárfestingarsjóðsreikning — Innborgunarfrestur — Fjárfestingarsjóðsreikningur, lögmæltir reikningsskilmálar — Fjárfestingarsjóðsreikningur, binditími innborgana — Fjárfestingarsjóðsreikningur, verðtrygging — Verðtryggður innlánsreikningur — Lánskjaravísitala — Álag — Álag vegna vantalins skattstofns — Vítaleysisástæður — HRD 1948:179 — Úrskurðarfrestur skattstjóra — Ógildingarástæða — Dómur — Verklagsreglur — Brot á verklagsreglu — Stjórnvaldsábyrgð — Málshraði — Stjórnvaldsákvörðun, gildi hennar vegna brota stjórnvalda á reglum um úrskurðarfresti

Málavextir eru þeir, að kærandi tilfærði til frádráttar tekjum 30% tillag í fjárfestingarsjóð 4.017.559 kr. í skattframtali sínu árið 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 var byggt á frádráttarlið þessum.

Með bréfi, dags. 9. janúar 1989, óskaði skattstjóri eftir, að kærandi legði fram ljósrit af stofnskírteini fjárfestingarsjóðsreiknings, kvittun fyrir innleggi á þann reikning og stöðuyfirlit hans um mánaðarmótin maí/júní 1988, þar sem ekki lægi fyrir reikningsyfirlit frá innlánsstofnun um innlögn á slíkan reikning á nafni kæranda. Vísaði skattstjóri í þessu sambandi til ákvæða 1. mgr. 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. ákvæði 10. gr. laga nr. 8/1984, um breyting á þeim. Jafnframt boðaði skattstjóri endurákvörðun opinberra gjalda vegna breytinga, er leitt gætu af efni fyrirspurnar, bærist ekki svar eða svar teldist ófullnægjandi og vísaði til heimildar skattstjóra til álagsbeitingar, 25%, samkvæmt ákvæðum 106. gr. nefndra laga vegna vantalins skattstofns.

Í svarbréfi, dags. 17. janúar 1989, greindi kærandi svo frá, að á aðalfundi félagsins þ. 16. apríl 1988 hafði verið ákveðið að leggja í fjárfestingarsjóð 30% af skattskyldum tekjum ársins 1987. Af vangá hefði misfarist millifærsla af X-bók á fjárfestingarsjóðsreikning. Við reglubundna heimsókn endurskoðanda fyrirtækisins í desember 1988 var þessu veitt athygli og umrædd millifærsla þá framkvæmd án tafar þ. 14. desember 1988. Meðfylgjandi svari voru lögð fram tvö ljósrit af X-reikningi nr. ..., vegna áranna 1987 og 1988 í A-banka, ásamt ljósriti af kvittun fyrir innborgun 2.010.000 kr. á fjárfestingarsjóðsreikning nr. ... Bent var á í svari, að lægsta innstæða á X-bók á umræddu tímabili var 2.338.886,48 kr. Þá var í niðurlagi bréfs tekið undir réttmæti athugasemdar skattstjóra að því leyti, að umrædd millifærsla fórst fyrir fram í desember s.l. en lögð áhersla á, að viðkomandi fjármunir lágu í þess stað á X-bók í sömu innlánsstofnun.

Með úrskurði skattstjóra, dags. 31. janúar 1989, var frádráttur vegna fjárfestingarsjóðstillags felldur niður með því að ekki hefði verið lagt inn á bundinn reikning í innlánsstofnun 50% fjárfestingarsjóðstillagsins fyrir 1. júní 1988. Bætti skattstjóri jafnframt álagi, 25%, á hækkun tekjuskattsstofns, sem af þessari breytingu leiddi.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var endurákvörðun kærð til skattstjóra með kæru, dags. 23. febrúar 1989. Meðfylgjandi kæru var ljósrit af X-reikningi nr. ... vegna ársins 1988. Í kæru var vísað til þess, að jafnan hefði jafnhá og hærri upphæð, en sem nam 50% fjárfestingarsjóðstillags, verið inni á nefndum reikningi sem væri verðtryggður reikningur í innlánsstofnun. Hlyti það að vera formsatriði eitt á hvaða reikningi þessi upphæð væri. Þó ekki hefði verið fylgt að fullu formsatriðum, þá hefði ríkissjóður ekki tapað neinu á því og umbjóðandi sinn ekki hagnast á því. Í kæru var þess krafist, að skattahækkun yrði felld niður, en til vara að viðurlögum yrði ekki beitt.

Með kæruúrskurði, dags. 22. janúar 1990, synjaði skattstjóri kröfum kæranda. Varðandi aðalkröfu ítrekaði skattstjóri forsendur kærðrar breytingar og tók fram í tilefni rökstuðnings í kæru, að X-reikningur væri ekki bundinn bankareikningur og uppfyllti því ekki nefnt skilyrði áður tilvitnaðs lagaákvæðis. Synjun varakröfu byggði skattstjóri á því, að kærandi hefði ekki fært fram rök fyrir því, að honum yrði ekki kennt um annmarka á framtali eða að óviðráðanleg atvik hafi hamlað úrbótum, og vísaði í því sambandi til ákvæða 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 19. febrúar 1990. Er í kæru ítrekaður rökstuðningur í kæru til skattstjóra og áréttað í tilefni kæruúrskurðar skattstjóra, að hvað sem líði reglum A-bankans um X-bækur, þá hafi gagnvart umbjóðanda sínum verið bundin innstæða á X-reikningi, sem nam hærri upphæð tímabilið 1. júní til 14. desember 1988 en áskilin fjárhæð vegna fjárfestingarsjóðstillags, sem lögð var inn á fjárfestingarsjóðsreikning 14. desember 1988. Þá vísar umboðsmaður til síðbúins kæruúrskurðar skattstjóra vegna kæru sinnar með tilvísun til 3. málsliðs 99. gr. laga nr. 75/1981, þ.e. að innan tveggja mánaða frá lokum kærufrests skuli skattstjóri hafa úrskurðað kærur. Gerir umboðsmaður þá kröfu, að breyting skattstjóra verði felld niður á grundvelli kæru sinnar til skattstjóra og framanritaðs.

Með bréfi, dags. 17. ágúst 1990, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kröfu um niðurfellingu breytinga skattstjóra vegna síðbúinnar kæruafgreiðslu skattstjóra er hafnað. Í því sambandi skal tekið fram, að nefnt ákvæði skoðast sem verklagsregla og leiðir brot á henni ekki til ónýti kæruúrskurðar.

Staðfesta ber niðurstöðu skattstjóra varðandi aðalkröfu um synjun frádráttar vegna tillags í fjárfestingarsjóð, þar sem skilyrðum tilvitnaðs lagaákvæðis um stofnun og binditíma reiknings hefur ekki verið fullnægt. Eftir atvikum þykja eigi hafa verið efni til álagsbeitingar og er hún felld niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja