Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 969/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 60/1972 — 59. gr.   Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Íbúðarhúsnæði, öflun — Öflun íbúðarhúsnæðis — Hjón — Skilnaður — Lögskilnaður — Búskipti — Búskipti hjóna — Fjármál hjóna — Fjárskipti hjóna — Útlagning til maka á búseignum eftir virðingu — Búshluti — Hjúskapareign — Útlausnarréttur

I.

Málavextir eru þeir, að kærendur færðu sem frádráttarbær vaxtagjöld í reit 87 í skattframtali sínu árið 1988 376.359 kr. Við ákvörðun vaxtaafsláttar gjaldárið 1988 var fjárhæð þessi lögð til grundvallar, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 49/1987, sbr. lög nr. 92/1987. Vaxtaafsláttur til hvors kærenda um sig var ákveðinn 48.336 kr. Með framtalinu fylgdi skuldalisti, þar sem skuldir og vaxtagjöld af þeim voru sundurliðaðar.

Með bréfi, dags. 3. janúar 1989, tilkynnti skattstjóri kærendum, að hann hygðist lækka frádráttarfjárhæð vaxtagjalda í framtali 1988 úr 376.360 kr. í 56.661 kr. með vísan til breytinga, er hann hefði gert undanfarin ár varðandi frádráttarbær vaxtagjöld. Skattstjóri tilgreindi þau lán, sem vaxtagjöld til frádráttar reiknuðust af, þ.e.a.s. lán frá Veðdeild Landsbanka Íslands og lán frá Lífeyrissjóði verslunarmanna. Í gögnum máls þessa er að finna upplýsingar um þær forsendur, sem skattstjóri byggði á synjun sína um frádráttarbærni vaxtagjalda af öðrum skuldum, sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 16. september 1988, varðandi gjaldárið 1986, er liggur fyrir í málinu. Kemur þar fram, að kærandi, A, hafi skilið að lögum 1. janúar 1984, en núverandi íbúðarhús hafi hann keypt 31. október 1977. Húseignina hafi hann því keypt, meðan á fyrra hjónabandi hans stóð. Þegar til skilnaðar kom og bréfaskipta í því sambandi, hafi húseignin komið í hlut kæranda, A, og hefði hann hlotið að bæta fyrrverandi eiginkonu sinni það í búskiptunum með öðrum verðmætum. Þar af hafi sprottið lántökur og auknar skuldir hans. Tilvik sem þetta hafi, svo skattstjóra sé kunnugt, aldrei verið talið jafnast á við kaup íbúðarhúsnæðis til eigin nota í skilningi 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, því að um hafi verið að ræða húsnæði, sem hafi verið í eigu þess, sem leysti það til sín. Jafnframt sé þess að gæta, að þegar búskiptin fóru fram, hafi verið liðinn sá frestur frá kaupum húsnæðisins, er um sé getið í nefndri lagagrein. Eftir hafi aðeins staðið frádráttarheimild vegna vaxta af fasteignaveðlánum til 2 ára eða lengri tíma.

Með bréfi, dags. 5. janúar 1989, mótmælti umboðsmaður kærenda hinni boðuðu breytingu með vísan til bréfs síns, dags. 7. júlí 1988, varðandi sömu álitaefni gjaldárin 1986 og 1987. Í því bréfi, sem liggur fyrir í málinu, kemur fram, að kærandi hafi keypt eignarhluta fyrrverandi eiginkonu á 1.600.000 kr., sbr. yfirlýsingu, dags. 9. desember 1987. Um þessi kaup hafi verið gerður munnlegur samningur þeirra á milli og fenginn óháður aðili til þess að meta fasteignina. Sé þess því krafist, að skattstjóri fari með kaupin á helmingi eignarinnar X skv. lögum nr. 75/1981 og færi vaxtagjöld til frádráttar.

Með bréfi, dags. 9. janúar 1989, boðaði skattstjóri kærendum fyrrnefnda breytingu og hratt henni í framkvæmd með bréfi, dags. 20. janúar 1989. Kært var af hálfu umboðsmanns kærenda hinn 2. febrúar 1989 og sömu rök fram færð. Með kæruúrskurði, dags. 17. febrúar 1989, synjaði skattstjóri kröfu kærenda með vísan til röksemda varðandi sama ágreining fyrri gjaldár.

II.

Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 16. mars 1989. Kæran er svohljóðandi:

„Forsaga málsins er sú að 18.12.1983 var gengið frá skilnaði A við B. Við skilnaðinn keypti hann eignarhluta B í húsinu X, sem þau upphaflega keyptu saman árið 1978. Reynt hafði verið að selja húseignina í nokkurn tíma, en ekki fundist kaupandi og skv. mati manna kunnugum á fasteignamarkaði á þeim tíma ekki fyrirsjáanlegt að hann fyndist í náinni framtíð.

Þessi nettóhluti húseignarinnar var metinn á kr. 1.000.000 sem reiknast þannig.

Mat óháðs aðila á húsnæðinu 18/12 1983 kr. 3.200.000

Hluti A kr. (1.600.000)

1/2 áhvílandi skulda skv. framtali 1984 kr. (600.000)

kr. 1.000.000

Greiðslur til B fóru fram í tvennu lagi þ.e. kr. 500.000 í janúar 1984 og kr. 500.000 í febrúar 1984.

Kæra þessi er byggð á þeim rökum að kaup A á eignarhluta B hafi farið fram þegar hann greiðir fyrri greiðsluna í janúar 1984 og að hann hafi þar með skapað sér rétt skv. a lið 1. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. l. nr. 75/1981 m. síðari breytingum til þess að njóta vaxtafrádráttar og síðar vaxtaafsláttar.

A giftist síðan núverandi konu sinni, D, 1984. D seldi 50% í þeirri húseign sem hún átti í Reykjavík 7. júlí 1984. Sjá meðfylgjandi kaupsamning. Á árinu 1984 tóku þau ýmis skammtíma bankalán auk veðlána frá Lífeyrissjóði Verslunarmanna og Byggingarsjóðs ríkisins. Á framtali 1985 töldu þau fram ýmis skammtíma bankalán og vaxtagjöld af þeim, sem tekin voru til þess að greiða hlut fyrrverandi eiginkonu A. Þau hafa einnig gert þetta á framtölum sínum árin 1986, 1987 og 1988.

Skattstjóri hefur fellt niður vaxtafrádrátt á framtölum 1985, 1986, 1987 og 1988 með þeim rökum að kaup eiginmanns af fyrrverandi eiginkonu falli ekki undir skilning skattalaga um formleg kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota.

Kærð er sú niðurfelling skattstjórans í X-umdæmi vegna vaxtaafsláttar á framtali 1988 með þeim rökum að kaup annars aðila við hjónaskilnað af hinum veiti rétt til vaxtafrádráttar og í þessu tilfelli vaxtaafsláttar, samkvæmt áður tilvitnaðrar lagagreinar.

Til vara er þess krafist að gifting D og A á árinu 1984 skapi D rétt til þess að nýta sér vaxtaafslátt skv. heimild skattalaga, vegna sölu á eigin húsnæði og kaupa á húsnæði með A.“

III.

Með bréfi, dags. 24. október 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verið staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Í máli þessu liggja eigi fyrir gögn um fjárskipti vegna skilnaðar kæranda, A, og fyrrverandi eiginkonu hans, en samkvæmt því sem upplýst er í málinu varð lögskilnaður þeirra í millum 1. janúar 1984. Mál þetta er þannig lagt fyrir af kærenda hálfu, að við skiptin hafi umrædd fasteign verið lögð kæranda, A, út eftir virðingu þannig að meiru næmi en búshluta hans, sbr. 59. gr. laga nr. 60/1972, um stofnun og slit hjúskapar. Hafi kærandi, A, vegna þessarar útlagningar þurft að greiða fyrrverandi eiginkonu þá fjárhæð, sem var fram yfir rétta tiltölu. Sú fjárhæð hafi numið 1.000.000 kr., er greidd hafi verið í tvennu lagi 500.000 kr. í janúar 1984 og 500.000 kr. í febrúar 1984. Stofnað hafi verið til skulda til að inna greiðslur þessar af höndum og af þeim skuldum stafi hin umþrættu vaxtagjöld. Ekki er út af fyrir sig neinn ágreiningur um þetta, en hins vegar um það deilt, hvort vaxtagjöld af skuldum þessum uppfylli það skilyrði 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 að vera vegna öflunar íbúðarhúsnæðis. Þegar fyrrgreind tilurð öflunar íbúðarhúsnæðisins er virt, þykir mega fallast á það sjónarmið kærenda, að umrædd vaxtagöld uppfylli skilyrði nefndrar lagagreinar fyrir frádráttarbærni þeirra. Ber því að fallast á kröfur kærenda, enda skjóta ákvæði a-liðs 2. mgr. 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 eigi loku fyrir frádráttarbærni gjaldárið 1988.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja