Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1008/1990
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 68. gr. B-liður — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 100. gr. 1. mgr. — Reglugerð nr. 245/1963 — 93. gr. 2. mgr. Reglugerð nr. 79/1988 — II. kafli
Sjómaður — Sjómannaafsláttur — Sjómannsstörf — Sjómennskudagar— Dagar við sjómannsstörf — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Leiðrétting — Leiðréttingarskylda skattstjóra — Kærufrestur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Vítaleysisástæður — Kæranleg skattákvörðun — Kæranleiki skattákvörðunar til skattstjóra — Kæranleiki — Kæruheimild — Framsending — Framsending ríkisskattanefndar til skattstjóra — Frávísun — Frávísun, engin kæranleg skattákvörðun — Kæruúrskurður
Málavextir eru þeir, að við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 féll niður að ákvarða kæranda sjómannaafslátt, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Hinn 6. október 1989 beiddist kærandi leiðréttingar á þessu.
Hinn 15. janúar 1990 endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1989 vegna framkominnar beiðni, sbr. og 2. mgr. 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, og ákvað kæranda sjómannaafslátt miðað við 155 daga fyrra tímabil tekjuársins 1988 en 184 daga síðara tímabilið.
Með kæru, dags. 19. febrúar 1990, skaut kærandi ákvörðun skattstjóra til ríkisskattanefndar og fer fram á, að honum verði ákvarðaðir sjómennskudagar fyrir allt árið 1988 svo sem hann gerir nánari grein fyrir. Fram hefur komið af hálfu kæranda, að hann hafi ekki getað kært í tæka tíð vegna fjarveru á sjó.
Með bréfi, dags. 20. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd sem of seint framkominni, þar sem kærufrestur til ríkisskattanefndar hafi runnið út miðvikudaginn 14. febrúar 1990, en kæran, sem dagsett sé 19. febrúar 1990, hafi borist þann dag eða að frestinum liðnum. Hafi kærandi ekki sýnt fram á, að honum hafi ekki verið unnt að kæra innan frestsins.
Hinn 15. janúar 1990 leiðrétti skattstjóri áður gerða álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1989 á grundvelli 2. mgr. 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, í tilefni af beiðni frá kæranda. Ekki tók skattstjóri með þessu skattákvörðun, er kæranleg væri til ríkisskattanefndar, er hann endurákvarðaði áður álögð gjöld kæranda gjaldárið 1989. Ber því að vísa kærunni frá ríkisskattanefnd og framsenda hana skattstjóra til meðferðar.