Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1009/1990

Gjaldár 1986-1988

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 3. tl. og 2. mgr. — 53. gr. 4. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 97. gr. 2. mgr.  

Sameignarfélag — Lögaðili — Skattskylda — Skattskylda sameignarfélags — Sjálfstæður skattaðili — Lögaðili, skattaleg meðferð tekna og eigna lögaðila sem ekki er sjálfstæður skattaðili — Rekstraraðild — Félagsaðilar í sameignarfélagi — Sjálfstæð skattskylda sameignarfélags — Verðbreytingarfærsla — Stofn til verðbreytingarfærslu — Verðbreytingarfærslustofn — Eignir við útreikning verðbreytingarfærslu — Skuldir við útreikning verðbreytingarfærslu — Verðbreytingarfærsla, samræmi — Framtalsháttur — Eignaraðili að sameignarfélagi — Inneignir eignaraðila að sameignarfélagi — Útistandandi skuldir — Útleiga — Útleiga atvinnuhúsnæðis — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Tímamörk endurákvörðunar

Málavextir eru þeir, að kærandi hafði ásamt fleirum með höndum útleigu atvinnuhúsnæðis að X. Skattframtölum hans umrædd ár fylgdu ársreikningar vegna útleigustarfsemi þessarar. Sem eign til ákvörðunar á stofni til verðbreytingarfærslu færði kærandi útistandandi skuld hjá A sf. en sameignarfélag þetta er sjálfstæður skattaðili.

Við frumálagningu opinberra gjalda kæranda umrædd gjaldár var byggt á verðbreytingarskýrslum hans óbreyttum.

Með bréfi, dags. 17. febrúar 1989, boðaði skattstjóri kæranda svofelldar breytingar á skattframtölum hans gjaldárin 1986 - 1988:

„Skv. 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981 skal við útreikning verðbreytingafærslu ekki telja með skuldir eigenda einkafyrirtækja hjá atvinnurekstrinum. Í ársreikningum atvinnurekstrar yðar vegna X eru færðar upp skuldir A sf. Það félag er með ótakmarkaðri ábyrgð í eigu sömu aðila og þeirra er standa að atvinnurekstri vegna X. Eignir og skuldir þessara rekstrareininga gagnvart hvort öðru teljast þar af leiðandi vera inneignir og skuldir eigenda og ber að fara með þær sem slíkar í verðbreytingaskýrslu þ.e. þær skulu dragast frá í B lið, hafi þær áður verið tilgreindar í A lið.

Á það skal bent að á verðbreytingaskýrslu sem fskj. með framtali A sf. hefur verið farið með skuldir þess félags gagnvart X sem um skuldir eigenda væri að ræða, er því ekki samræmi í framtalsgerð þessara tveggja rekstrareininga hvað þetta varðar.

Skv. framangreindu er fyrirhugað að gera eftirtaldar breytingar á verðbreytingaskýrslum og ársreikningum með framtölum ofangreindra ára.

Framtal 1986.

Peningaverðseignir á verðbreytingaskýrslu lækka um kr. 1.846.924 og verða kr. 0. Stofn til gjaldfærslu verður enginn en stofn til tekjufærslu verður kr. 27.670. Gjaldfærsla kr. 521.762 fellur niður á rekstrarreikningi en til tekna vegna verðbreytinga færist kr. 7.936. Af þessu leiðir að rekstrarhagnaður ársins verður kr. 793.466 sem skiptist á framtöl eigenda.

Framtal 1987.

Peningaverðseignir á verðbreytingaskýrslu lækka um kr. 3.279.640 og stofn til gjaldfærslu sömuleiðis. Gjaldfærsla á rekstrarreikningi lækkar um kr. 932.401 og verður kr. 390.856. Af þessu leiðir að rekstrarhagnaður ársins verður kr. 1.022.892 sem skiptist á framtöl eigenda.

Framtal 1988.

Peningaverðseignir á verðbreytingaskýrslu lækka um kr. 4.787.574 og verða kr. 0. Stofn til gjaldfærslu verður enginn en stofn til tekjufærslu verður kr. 38.190. Gjaldfærsla á rekstrarreikningi kr. 852.514 fellur niður en til tekna færist kr. 6.855.

Af þessu leiðir að rekstrarhagnaður ársins verður kr. 1.503.054 sem skiptist á framtöl eigenda.“

Ekki verður séð, að bréfi þessu hafi verið svarað af hálfu kæranda. Með bréfi, dags. 28. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinna boðuðu breytinga og endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárin 1986, 1987 og 1988.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingunum mótmælt í kæru, dags. 25. ágúst 1989. Rökstuðningur umboðsmannsins er svohljóðandi í kærunni:

„Samkvæmt 53. gr. laga nr. 75/1981 ber ekki að draga úr stofni til verðbreytingafærslu skuldir eða inneignir sameignafélaga sem eru sjálfstæðir skattaðilar eins og þér haldið fram að eigi að gera í bréfinu.

Ekki hefur verið gætt ákvæða 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 í úrskurði yðar.“

Með kæruúrskurði, dags. 15. september 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda, enda kæmi ekkert fram í kæru, er ekki hefði legið fyrir við hina kærðu endurákvörðun. Skv. 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, teldust skuldir og inneignir eigenda sameignarfélaga ekki til eigna og skulda við útreikning verðbreytingarfærslu. Ekki skipti máli í því sambandi, hvort um væri að ræða framtal einstaklingsins eða lögaðilans.

Með kæru, dags. 20. september 1989, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er kæran svohljóðandi:

„Kæri ég úrskurð skattstjórans í Reykjanesumdæmi dags. 15. september 1989 til ríkisskattanefndar og fer fram á að breyting skattstjóra á verðbreytingafærslum í framtali umbjóðanda míns gjaldárin 1986, 1987 og 1988 verði úr gildi felld. Málinu til stuðnings vísa ég í bréf mín til skattstjóra varðandi þetta ágreiningsefni.

Ágreiningur þessa máls stendur um hvort K, sem er einstaklingur með rekstur, skuli telja með í stofni til verðbreytingafærslu, viðskiptaskuld sameignarfélags sem er sjálfstæður skattaðili, (eins og gert er í framtölum hennar) eða hvort taka skuli út úr stofninum viðskiptaskuldina á þeirri forsendu að hún er einn af eigendum sameignarfélagsins, (sem er túlkun skattstjóra á 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981).

Ég kem ekki auga á stuðning við sjónarmið skattstjóra í tilvitnaðri lagagrein og álít að viðskiptareikningar sameignarfélaga, (skuldir og inneignir) sem eru sjálfstæðir skattaðilar skuli telja með til útreiknings á verðbreytingarfærslu einstaklinga með rekstur, rétt eins og viðskiptaskuldir hlutafélaga, og breytir engu í því sambandi hvort viðkomandi einstaklingur er einn af eigendum félagsins.“

Með bréfi, dags. 31. október 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærandi færði útistandandi skuldir hjá A sf. sem eignir á verðbreytingarskýrslum sínum umrædd ár athugasemdalaust og án nokkurra skýringa. Að því virtu og málsatvikum að öðru leyti verður eigi talið, að ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hafi bundið hendur skattstjóra varðandi hinar umdeildu endurákvarðanir. Í 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981 er mælt svo fyrir um, að skuldir og inneignir eignaraðila sameignarfélaga, sbr. 3. tl. 2. gr., teljist ekki til eigna eða skulda við útreikning verðbreytingarfærslu. Með skírskotun til þessa ótvíræða ákvæðis er kröfu kæranda synjað en óumdeilt er, að kærandi sé aðili að A sf.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja