Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1017/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 106. gr. 1. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Álag — Álag á áætlaða skattstofna — Vítaleysisástæður — Skattframtal, höfnun — Skattframtal, tortryggilegt — Skattframtal, vefenging — Meðalálagning — Vörubirgðir — Vörunotkun — Vörusala — Umboðslaun — Umboðssala — Umboðsstarfsemi

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda, sem rak söluturn, var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með kæru, dags 5. ágúst 1988, sendi umboðsmaður kæranda skattframtal hans árið 1988 til skattstjóra og fór fram á, að það yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1988 án álags vegna síðbúinna framtalsskila, þar sem skil framtalsins hefðu dregist vegna anna á skrifstofu hans, umboðsmannsins, og væri því ekki við kæranda um drátt þennan að sakast.

Með kæruúrskurði, dags. 5. júní 1989, hafnaði skattstjóri framtalinu sem lögmætum grundvelli álagningar. Forsendur skattstjóra eru svohljóðandi:

„Við uppgjör á vörubirgðum í árslok hefur kærandi bakreiknað frá útsöluverði, sbr. skýringar með ársreikningi, þ.e. frá útsöluverði tóbaks er dregin 12% álagning, en frá söluskattsskyldum vörum er dregið 10% sölugjald, 25% söluskattur og 30% álagning. Ætla verður að stuðst sé við sömu álagningarprósentur og beitt var vegna seldra vara á árinu. Sé hins vegar litið til meðalálagningar svo sem hún kemur fram á rekstrarreikningi ber nokkuð annað við en þar reiknast meðalálagning einungis liðlega 13%, eða rúmlega álagningarprósenta tóbaks. Það að tóbakssala sé nálægt því að vera uppistaðan í vörusölu upp á kr. 17.438.369 fær vart staðist, enda er, sbr. samanburðarblað söluskatts „Sala skattskyldrar vöru og þjónustu 9.369.352“, þ.e. 48% af heildarsölu.

Meðalálagning rekstrarárið 1985 var 23,08% en rekstrarárið 1986 21,10%. Svo mikil frávik í meðalálagningu hlýtur að kalla á skýringar umfram það, er fram kemur í ársreikningi, þar eð slík frávik álagningar á vörubirgðum virðast vart fá staðist.“

Skattstjóri taldi hins vegar efni til að lækka áætlun skattstofna nokkuð.

Með kæru, dags. 3. júlí 1989, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst þess, að innsent framtal árið 1988 verði lagt til grundvallar álagningu gjaldárið 1988.

Í kærunni segir svo um meðalálagningu kæranda rekstrarárið 1987:

„Fulltrúi skattstjóra telur tekjur vantaldar skv. rekstrarreikning 1987 og áætlar tekjur kr. 1.000.000,-, þar sem álagning er of lág, að hans mati.

Á árinu 1987 hófst sala á svokölluðum skafmiðum í söluturninum. Hefur sú sala breytt miklu varðandi álagningu söluturna, þar sem um leið dró úr sölu sælgætis að sögn afgreiðslufólks.

Í bókum X eru kaup skafmiða færð sem vörukaup, þar sem sala þeirra er færð með annarri sölu, en eins og sjá má á rekstrarreikningi eru tekjur af miðunum einnig færðar sem umboðslaun.

Umboðslaun þessi eru færð við kaup miðanna, þannig að kaup miðanna eru færð á fullu söluverði á vörukaupareikninginn og sölulaun færð til tekna á sér reikningi. Þessar færslur mynda því álagningarlausa veltu og virðast upphæðir þessar vera kr. 2.137.000,-.

Skiljanlega lækkar meðalálagning við þessar færslur. Ef bæði vörukaup og sala eru lækkuð um þessa álagningarlausu veltu verður meðalálagning um 15%.“

Með bréfi, dags. 31. október 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Á það þykir verða að fallast með skattstjóra, að meðalálagning á seldum vörum í verslun kæranda á árinu 1987 samkvæmt rekstrarreikningi þess árs sé óeðlilega lág. Af hálfu kæranda þykja eigi fram komnar fullnægjandi skýringar á því, af hverju hin lága meðalálagning stafar. Ekki þykir tækt að byggja á framkomnum skýringum í kæru varðandi hina afbrigðilegu álagningu. Að þessu virtu og málavöxtum að öðru leyti þykir verða að synja kröfu kæranda. Með því að áætlun skattstjóra þykir eigi hærri en málsgögn gefa tilefni til, verður eigi við henni haggað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja