Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1027/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. og 2. mgr. og C-liður 2. tl. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. — 106. gr. 1. mgr.   Lög nr. 45/1987 — 5. gr.   Lög nr. 46/1987 — 2. gr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, tortryggilegt — Skattframtal, höfnun — Framfærslueyrir — Vantaldar tekjur — Húsaleigutekjur — Útleiga — Útleiga atvinnuhúsnæðis — Atvinnuhúsnæði — Launatekjur — Reiknað endurgjald — Vinnuframlag við eigin atvinnurekstur — Tekjudreifing — Kaupsamningur — Afhendingardagur eignar — Vantaldar skuldir — Skuldir vantaldar — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Laun í staðgreiðslu — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Niðurfellingarhlutfall

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 og sættu því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum. Álagningin var kærð til skattstjóra með kæru, dags. 27. ágúst 1988. Fylgdi kærunni skattframtal kærenda árið 1988 og var farið fram á að það yrði lagt óbreytt til grundvallar nýrri álagningu gjalda. Jafnframt var þess óskað að álagi yrði ekki bætt á gjaldstofna vegna hinna síðbúnu framtalsskila, þar eð framtalsgerðin hefði dregist vegna veikinda kæranda, eiginmanns. Með úrskurði, dags. 19. janúar 1989, hafnaði skattstjóri þessum kröfum kærenda. Getur skattstjóri þess í úrskurðinum, að það væri tortryggilegt að um engar leigutekjur hefði verið að ræða á árinu 1987 af fasteign kærenda að X, sem seld hefði verið 15. desember það ár. Þá segir í úrskurði skattstjóra, að samkvæmt læknisvottorði hefði kærandi, eiginmaður, verið sjúklingur í mörg ár og vinnugeta hans því augljóslega skert. Væri það því tortryggilegt, að launatekjur hans frá A hf., sem kærendur væru aðaleigendur að, bæru ekki með sér, að um skerta starfsorku væri að ræða. Loks getur skattstjóri þess „að skv. framtali kærenda hafa þau hjón haft til framfærslu á árinu 1987 kr. 2.553.775 minna en ekki neitt og fær það ekki staðist“.

Af hálfu kærenda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 17. febrúar 1989, og fylgdi henni kröfugerð í bréfi, dags. 6. mars 1989. Er þess krafist, að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi og framtal kærenda lagt til grundvallar nýrri álagningu með þeirri breytingu, að til skuldar verði færð lán í Útvegsbankanum í Hafnarfirði og Landsbankanum, svo sem nánar er gerð grein fyrir í kærunni. Væri það til skýringa á þeim lífeyri, er skattstjóri hafði reiknað. Þá er þess getið, að umrætt húsnæði kærenda hefði ekki verið í því ástandi, að unnt hefði verið að leigja það út á almennum markaði, þar sem „eini raunhæfi kaupandi þess, þ.e. A hf., hafði hafið breytingar á því til að nota til veitingareksturs. Við verðákvörðun var tekið tillit til þessarar staðreyndar, enda var húsnæðið afhent A hf. 1.1.1987, þó að ekki hafi verið gengið frá formlegum kaupsamningi fyrr en 15. desember 1987“.

Þá er því mótmælt, að launatekjur kæranda, eiginmanns, hafi verið tortryggilega háar, þar sem hann hafi þrátt fyrir mikil veikindi sín reynt að stjórna sínu fyrirtæki með aðstoð eiginkonu sinnar, enda hafi ekki verið ráðinn nýr forstjóri í hans stað.

Með bréfi, dags. 24. október 1990, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærendur hafa eigi gert viðhlítandi grein fyrir þeim atriðum er skattstjóri taldi baga framtal þeirra. Má í því sambandi m.a. benda á að víxillán sem kærandi, B, er sagður hafa tekið 24.11.1987 (sbr. fyrirliggjandi gögn) virðist vera lán til A hf. og er óskýrt hvernig það lagar lífeyri kæranda.“

Eigi þykja fram komin þau gögn og skýringar af kærenda hálfu, að unnt sé að byggja álagningu á framtali þeirra. Áætlaðir stofnar til tekjuskatts og útsvars þykja eigi um skör fram. Að því virtu, sem fram kemur í skattframtalinu og framtalsgögnum um laun kærenda, sbr. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, þykir eftir öllum atvikum rétt að skipta hinum áætluðu stofnum til tekjuskatts og útsvars hlutfallslega með tilliti til ákvæða 2. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þannig að niðurfellingarhlutfall verður 69,61% hjá kæranda, B, en 100% hjá kæranda, C.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja