Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1053/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 3. gr. 5. og 9. tl. — 7. gr. C-liður 2. tl. 2. mgr. — 30. gr. 3. mgr. — 71. gr. 3. tl. — 84. gr. — 100. gr. — 116. gr.   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I  

Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Dvalartími — Brottför úr landi — Ótakmörkuð skattskylda — Takmörkuð skattskylda — Úrskurðarvald ríkisskattstjóra — Heimilisfesti — Skattaleg heimilisfesti — Nám — Nám erlendis — Heimilisfesti hluta úr ári — Íbúðarhúsnæði — Húsaleigutekjur — Reiknaðar húsaleigutekjur — Húsaleigutekjur, reiknaðar — Eigin notkun — Notkun húsnæðis — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Sifjalið — Reiknaðar húsaleigutekjur (brúttó) — Beinn kostnaður — Beinn kostnaður á móti reiknuðum húsaleigutekjum — Frádráttarheimild — Eignarskattsskylda — Eignarskattsstofn — Vanreifun — Frávísun — Frávísun vegna vanreifunar — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Vaxtaafsláttur — Vaxtagjöld — Vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtaafsláttar — Vaxtagjöld, skipting innan ársins — Áætlun — Áætlun vaxtagjalda — Áætlun ríkisskattanefndar — Endurupptaka úrskurðar ríkisskattanefndar — Endurupptaka máls

Málavextir eru þeir, að skattstjóri reiknaði kærendum húsaleigutekjur 30.604 kr. skv. 2. mgr. 2. tl. C-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, sbr. bréf hans, dags. 25. júlí 1988. Í kæru, dags. 3. ágúst 1988, kröfðust kærendur þess, að álagning yrði með hefðbundnum hætti og vaxtaafsláttur heimilaður. Kærendur viku að því, að þau væru skráð með búsetu erlendis 1. desember 1987 en hefðu dvalist á Íslandi fram í ágúst 1987 og haft allar sínar tekjur á Íslandi. Hefðu þau farið til Danmerkur vegna skólanáms kæranda, A. Íbúð þeirra að X hefði farið í útleigu 1. september 1987 og gleymst hefði að telja fram húsaleigutekjur fyrir 4 mánuði. Ekki gerðu kærendur grein fyrir húsaleigutekjum þessum. Í kæruúrskurði, dags. 16. desember 1988, synjaði skattstjóri kröfum kærenda. Tók hann fram, að til 31. júlí 1987 hefðu kærendur borið ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. gr. laga nr. 75/1981. Eftir brottför úr landi væru kærendur skattskyld vegna fasteignar skv. 5. og 9. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981, sbr. og 3. tl. 71. gr. og 84. gr. sömu laga. Stofn til skatts ákvarðaði skattstjóri nefndar reiknaðar húsaleigutekjur 30.604 kr. og eignarskattsstofn 965.399 kr.

Kærendur skutu kæruúrskurði þessum til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. janúar 1989. Vísuðu kærendur til þess, að ríkisskattstjóri hefði úrskurðað þeim skattalega heimilisfesti hér á landi með úrskurði, dags. 2. janúar 1989, og fóru fram á skattlagningu í samræmi við það. Með úrskurði nr. 335, 10. maí 1989, vísaði ríkisskattanefnd kærunni frá varðandi breytingu á álögðum tekjuskatti og útsvari til innheimtu gjaldárið 1988 með því að kærendur hefðu ekki gert grein fyrir leigutekjum og beinum kostnaði vegna þeirra og því væri kæran vanreifuð að því er tæki til leiguteknanna. Hins vegar taldi ríkisskattanefnd bera að fella niður álagðan eignarskatt og sérstakan eignarskatt á grundvelli framtals árið 1988 og úrskurðar ríkisskattstjóra um skattalega heimilisfesti.

Með bréfi, dags. 25. júlí 1989, hafa kærendur farið fram á endurupptöku fyrrnefnds úrskurðar ríkisskattanefndar. Segir svo í beiðni þessari:

„Taldar fram húsaleigutekjur vegna úrskurðar 335 dags. 10. maí 1989 og farið fram á að þau njóti vaxtaafsláttar.

Eiginlegar húsaleigutekjur var ekki um að ræða því ættingjar voru í íbúðinni. Því teljum við fram húsaleigutekjur samkv. lögum um tekju- og eignarskatt.

1. ágúst 1987 til 31. desember 1987 kr. 25.504

fasteignagjöld (6.234)

brunatryggingar (1.250)

húseigendatrygging (2.100)

15.920,-“

Með bréfi, dags. 31. október 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar athugasemdir í tilefni af framkominni endurupptökubeiðni:

„Í nefndum úrskurði var kæru ofangreinds aðila vísað frá ríkisskattanefnd vegna vanreifunar af hálfu kæranda.

Með bréfi sem barst nefndinni þann 25. júlí 1989 fer umboðsmaður kæranda fram á að hann njóti vaxtaafsláttar og gerð er grein fyrir húsaleigutekjum og gjöldum vegna húsnæðis.

Gerð er krafa um frávísun endurupptökubeiðninnar vegna vanreifunar af hálfu kæranda.“

Að virtum framkomnum upplýsingum þykir eftir atvikum mega endurupptaka úrskurð nr. 335/1989. Það, sem máli skiptir varðandi skattálagningu kærenda gjaldárið 1988 og eftir stendur óleyst eru fyrrnefndar húsaleigutekjur annars vegar og ákvörðun vaxtaafsláttar hins vegar. Að því er fyrra atriðið varðar þá liggur ekki fyrir af hendi kærenda, hvaða sifjalið var í íbúðinni. Að svo vöxnu og að öðru leyti með vísan til kröfugerðar þykir rétt að byggja á því að kærendum beri að reikna sér lágmarksbrúttóleigu af nefndri íbúð, sbr. 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Þykir sú fjárhæð réttilega ákvörðuð í bréfi kæranda og þykja eigi efni til annars en að byggja á því rekstraryfirliti, sem þar er að finna. Verða hreinar tekjur af húsaleigu því 15.920 kr. Að því er varðar vaxtaafslátt þá hafa kærendur ekki sýnt skiptingu vaxtagjalda miðað við 1/8 1987. Eins og mál þetta liggur fyrir þykir þó mega byggja á áætlaðri skiptingu í þessum efnum, þ.e. hlutfalla miðað við tímalengd. Vaxtagjöld til útreiknings vaxtaafsláttar verða því 154.016 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja