Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1055/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr., B-liður og C-liður 1. tl. — 92. gr.   Lög nr. 45/1987 — 5. gr.   Lög nr. 46/1987 — 2. gr.  

Reiknað endurgjald — Afurðatekjur — Atvinnurekstrartekjur — Sjálfstæð starfsemi — Atvinnurekstur — Eignatekjur — Afurðamiði — Launamiði — Launatekjur — Vinnuframlag við atvinnurekstur foreldris — Framtalsháttur — Fyrri skattframkvæmd — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Niðurfelling innheimtu skatta vegna upptöku staðgreiðslu

Málavextir eru þeir, að skattstjóri sendi kæranda bréf, dags. 6. desember 1988, þar sem hann tilkynnti að hann hefði í hyggju að endurákvarða opinber gjöld kæranda 1988 skv. 96. gr. laga nr. 75/1981. Í því bréfi segir m.a.:

„Í reit 24 á skattframtali eru færð reiknuð laun kr. 40.554.

Skv. fyrirliggjandi gögnum er um að ræða afurðatekjur, sem teljast til tekna skv. 1. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Tekjur þessar ber því að færa í reit 77 á skattframtali, skv. leiðbeiningum ríkisskattstjóra við útfyllingu skattframtals 1988, bls. 15.

Með vísan til framanritaðs og hliðsjón af því að þér hafið ekki með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er fyrirhugað að fella niður tekjur í reit 24 og færa þær í reit 77 á skattframtali.

Rétt þykir að taka fram að eignatekjur eru ekki meðal þeirra tekna sem innheimta álagðs tekjuskatts og útsvars fellur niður af gjaldárið 1988, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1987.“

Kæranda var gefin 10 daga frestur til andmæla eða gefa skýringar, áður en ákvörðun um fyrirhugaðar breytingar yrði tekin. Svar barst ekki frá kæranda.

Með bréfi, dags. 7. febrúar 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrrnefndar breytingar kæmu til framkvæmda.

Breytingar skattstjóra voru kærðar til hans með kæru, dags. 19. febrúar 1989. Þar segir:

„Í bréfi skattstofunnar dags. 7. feb. s.l. er boðuð skattlagning svonefndra eignatekna K. Eignatekjur hljóta að skapast af eign, sem myndar tekjurnar. Í þessu tilfelli er ekki um neina slíka eign að ræða. Þær tekjur sem málið snýst um kr. 40.554 er ekki annað en laun frá foreldrum K vegna vinnuframlags hennar við búið. Ekki var talin ástæða að gefa út launamiða. Afurðamiðinn látin gilda þess í stað, sem staðfesting á tekjum. Undirritaður mótmælir þessum hártogunum og kerfisþrugli skattstofu.“

Með úrskurði uppkveðnum 17. mars 1989 synjaði skattstjóri kærunni, þar sem í henni kæmu ekki fram nein þau rök, sem leiddu til breytinga á fyrri ákvörðun.

Af hálfu kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. apríl 1989, þar sem álagningunni er mótmælt en vísað í fyrri bréf varðandi skýringar.

Með bréfi, dags. 25. september 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Skv. fyrirliggjandi gögnum er um að ræða afurðatekjur, sem teljast til tekna skv. 1. tölul. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Þar sem kærandi hefur ekki með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, ber að telja umræddar tekjur í reit 77 í skattframtali 1988.“

Mál þetta þykir fyrst og fremst varða það, hvort niðurfellingarákvæði 2. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, taki til þeirra tekna, sem í málinu greinir. Að virtum öllum atvikum, þar á meðal því, að skattstjóri sýnist hvorki áður né síðar hafa gert athugasemdir við framtalshátt kæranda, þykir rétt að fella niður skattlagningu gjaldárið 1988 á tekjur þessar samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði. Með þessum hætti er fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja