Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1082/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 52. gr. 4. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. og 4. ml. — 106. gr. 1. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Rekstrarkostnaður — Bifreiðakostnaður — Fyrnanleg eign — Fyrnanlegt lausafé — Lausafé — Bifreið — Rekstraryfirlit fólksbifreiðar — Fylgigögn skattframtals — Einkanot — Einkanot bifreiðar — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Fyrri skattframkvæmd — Eignarleiga — Kaupleiga — Eignarleigugreiðslur — Kaupleigugreiðslur — Breytingarheimild skattstjóra — Meðalhófsreglan

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1989 og sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattframtal kæranda árið 1989, sem dagsett er 26. maí 1989, hafði borist skattstjóra hinn 29. maí 1989 samkvæmt áritun hans á það um móttökuna. Skattstjóri tók framtalið sem kæru samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kvað upp kæruúrskurð hinn 8. september 1989, þar sem hann féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1989 með nokkrum breytingum, sem tilgreindar eru í úrskurðinum. Sú breyting, sem ágreiningur er um, er niðurfelling gjaldaliðsins rekstur bifreiða 979.996 kr. með öllu. Forsendur skattstjóra fyrir niðurfellingunni eru þær, að engar skýringar hafi verið gefnar á þessum kostnaðarlið og ekkert kæmi fram um vegna hvaða bifreiða rekstrarkostnaður væri greiddur. Væri því kostnaðarlið þessum hafnað að svo stöddu.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 14. september 1989. Er kæran svohljóðandi:

„Á rekstrarárinu 1987 voru rekstrargjöld bifreiða skipt í hlutföllunum 30% einkaafnot og 70% gjaldfært sem rekstur bifreiða, þetta er áætluð skipting m.v. á meðaltali keyrði hann þrisvar í viku til apóteksins í A og oft til B vegna rekstursins.

Á rekstrarárinu 1988 hafði K afnot af tveim bifreiðum. Hann átti Volvo Lapplander árgerð 1980 og greiddi í kaupleigu fyrir Mercedes Benz station árgerð 1988. Rekstur bifreiða kr. 979.996 skiptist í þessum hlutföllum.

Kaupleiga kr. 455.455,-

Önnur rekstrargjöld kr. 524.541,-

Samtals kr. 979.996,-

Farið er fram á að leyft verði að gjaldfæra kaupleiguna á rekstur þar sem meira en helmingur kostnaðar vegna bifreiða var vegna atvinnureksturs. Með öðrum orðum að kaupleigan sé jafngild því að K mætti eignfæra bifreiðina og fyrna skv. 32. gr. 1. málsgrein, ef bifreiðin hefði verið keypt en ekki greidd í kaupleigu. Önnur rekstrargjöld verði skipt í hlutföllunum 30% einkaafnot og 70% gjaldfært á rekstur.

Skipting reksturs bifreiða verður þá þannig:

Rekstur Einka

bifreiða afnot

Kaupleiga 455.455 0

Önnur rekstrargjöld 524.541 157.362

Samtals kr. 822.634 157.362

Samtals kr. 979.996,-

Þess er óskað að ofangreindar skýringar verði teknar gildar og álagning verði endurskoðuð í samræmi við þær.“

Með bréfi, dags. 31. október 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið, sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Gjaldfærður bifreiðakostnaður á rekstrarreikningi kæranda árið 1987 nam 234.310 kr., sbr. skattframtal árið 1988, er liggur fyrir í málinu. Gjaldfærður bifreiðakostnaður á rekstrarreikningi árið 1988, 979.996 kr., var með þvílíkum ólíkindum að rétt var af skattstjóra að kanna það atriði sérstaklega. Hins vegar fékk það ekki staðist að fella þennan gjaldalið niður með öllu eins og skattstjóri gerði, enda ljóst og áður viðurkennt, að starfsemi kæranda fylgdi slíkur kostnaður. Verður því að telja, að skattstjóri hafi farið offari við breytingu þessa og hún því ekki fyllilega á nægum rökum reist. Af hálfu kæranda hefur nokkur grein verið gerð fyrir umræddum gjaldalið í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 14. september 1989. Hefur kærandi upplýst, að af umræddri fjárhæð hafi 455.455 kr. verið kaupleigugreiðslur vegna bifreiðar af gerðinni Mercedes Benz, árg. 1988. Kærandi hefur ekki gert tilskilda grein fyrir rekstrarkostnaði og rekstrarnotum bifreiða, sbr. rekstraryfirlit fólksbifreiða (RSK 4.03). Hann hefur einungis upplýst, að rekstrarkostnaður bifreiðanna hafi numið 524.541 kr. og þar af metið einkanot 157.362 kr. eða 30%. Hann krefst því þess, að gjaldfærðar verði 367.179 kr. af þessum kostnaði. Þrátt fyrir það, að skýringum kæranda á þessum gjaldalið sé ábótavant, þykir m.t.t. málsmeðferðar skattstjóra og ákvarðana um frádráttarbæran bifreiðakostnað fyrri ár rétt að taka kröfu kæranda til greina. Að því er varðar gjaldfærslu kaupleigugreiðslna 455.455 kr. vegna Mercedes Benz bifreiðar þá þykir bera að synja kröfu kæranda með öllu með skírskotun til þess m.a., sem fram kemur í úrskurði ríkisskattanefndar nr. 318, 30. apríl 1987 varðandi bifreiðaeign og bifreiðakostnað kæranda gjaldárið 1985, sem ætlast má til, að kærandi og umboðsmaður hans hafi lesið og kynnt sér.

Athugasemd.

Með úrskurði nr. 318/1987 staðfesti ríkisskattanefnd þá ákvörðun skattstjóra að fella niður eignfærslu „Galant“ sendibifreiðar af efnahagsreikningi kæranda árið 1984 og færa hana á upphaflegu kaupverði á persónuframtal árið 1985 til eignar. Forsendur skattstjóra voru þær, að bifreið þessi teldist ekki fyrnanleg eign samkvæmt 32. gr. laga nr. 75/1981. Gerði skattstjóri þær breytingar á gjaldfærðum fyrningum, sem af þessu leiddi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja