Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 2/1991

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 14. gr. — 16. gr.  

Söluhagnaður — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Íbúðarhúsnæði — Sumarbústaður — Skattfrelsi — Skattfrelsi söluhagnaðar — Söluhagnaður, skattfrjáls — Skattfrelsi söluhagnaðar íbúðarhúsnæðis — Söluhagnaður, útreikningur — Útreikningur söluhagnaðar — Uppgjörsaðferð söluhagnaðar — Söluhagnaður, uppgjörsaðferð — Söluverð — Söluverð, helmingur þess í stað söluhagnaðar — Fasteignamat ríkisins — Fasteign — Notkun húsnæðis — Fasteignaskráning

Kærð er endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1988. Er kæran til ríkisskattanefndar svohljóðandi:

„Kærður er úrskurður skattstjóra um að hagnaður af sölu fasteignar A árið 1987 sé skattskyldur. Umrætt hús er skráð sem sumarhús hjá Fasteignamati ríkisins. Fasteignin hefur verið í eigu B og eiginmanns hennar frá árinu 1940, og hefur verið notuð allan þann tíma sem íbúðarhúsnæði. Á vorin var flutt þangað og búið þar til hausts, eða í um 4 mánuði á ári. Einnig var mjög oft farið þangað um helgar og jafnvel til lengri tíma á veturna. Að auki var á tímabili búið í húsinu allt árið.

Við viljum benda á hliðstætt dæmi um fólk úti á landi sem á íbúð í Reykjavík. Hagnaður af sölu slíkra íbúða skattlegðist skv. 16. gr. laga nr. 75/1981. Við sjáum ekki eðlismun hvort fólk úti á landi á íbúð í Reykjavík, eða fólk í Reykjavík á húsnæði úti á landi sem er íbúðarhæft allt árið, ef hvorir tveggja nota þessi hús á sama hátt. Okkur finnst því rétt að eðli máls ráði skattlagningu söluhagnaðar, en ekki gömul opinber skráning húsnæðis sem láðst hefur að fá breytt.

Umrætt sumarhús var sem áður sagði keypt árið 1940 og síðan þá hefur það verið endurbætt og stækkað og lóðin ræktuð upp. Þrátt fyrir mikla leit hefur ekki tekist að hafa upp á öllum kostnaði við endurbætur, stækkun og uppræktun á lóð.

Í heildar söluverði kr. 2.900.000, var söluverð innbús og áhalda kr. 300.000. Þessu til staðfestingar fylgir hér með ljósrit af bréfi frá kaupanda, stjórn S.Í.B.S. Söluverð fasteignar og lóðar var því kr. 2.600.000.

Krafa okkar er að umræddur söluhagnaður verði skattlagður samkvæmt 16. gr. laga nr. 75/1981. Til vara förum við fram á að söluhagnaður verði kr. 1.300.000 eða helmingur af söluverði fasteignar og lóðar skv. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981.“

Með bréfi, dags. 14. nóvember 1990, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að aðalkröfu kæranda verði hafnað, enda fellur sala á sumarhúsi undir 14. gr. laga nr. 75/1981.

Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á varakröfu.“

Aðalkröfu kæranda er hafnað en fallist er á varakröfu hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja