Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 5/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 68. gr. A-liður Lög nr. 49/1985 — 1. gr. — 2. gr. — 5. gr. Reglugerð nr. 24/1989 — 3. gr. — 9. gr.
Skattafsláttur — Skattafsláttur vegna húsnæðissparnaðar — Húsnæðissparnaður — Húsnæðissparnaðarreikningur — Innborgun á húsnæðissparnaðarreikning — Bundinn reikningur — Lágmarksfjárhæð húsnæðissparnaðar — Húsnæðissparnaður, lágmarksfjárhæð — Innborgunarfrestur — Innborgunarfrestur á húsnæðissparnaðarreikning — Lögskýring
Málavextir eru þeir, að skattstjóri synjaði kærendum um skattafslátt vegna húsnæðissparnaðar gjaldárið 1989, sbr. lög nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 24/1989, um húsnæðissparnaðarreikninga. Byggði skattstjóri synjun sína á því að ekki hefði verið fullnægt skilyrði um lágmarksfjárhæð innleggs, er hefði verið 24.571 kr. umrætt gjaldár.
Kærendur hafa skotið kæruúrskurði skattstjóra, sem dagsettur er 6. nóvember 1989, til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 13. nóvember 1989. Í kærunni segir svo:
„Meðfylgjandi er kæra okkar til skattstjórans í Reykjavík dags. 11. ágúst sl. og úrskurður skattstjórans dags. 6. nóvember sl. Við förum fram á að kr. 19.500.- af innleggi okkar á húsnæðissparnaðarreikning 1988 skapi rétt til skattafsláttar, og skattafsláttur verði ákveðinn í samræmi við það, en skattstofan telur að sá réttur sé ekki til staðar.
Kæra okkar byggist á ákvæðum 1. gr., 2. gr. og 5. gr. laga nr. 49/1985 um húsnæðissparnaðarreikninga eins og hér skal útskýrt, sbr. og efni bréfs okkar til skattstjórans dagsettu 11. ágúst 1989.
Innlegg á húsnæðissparnaðarreikninga skapa rétt til skattafsláttar skv. 1. gr. laganna séu þau innan tiltekinna marka sem lýst er í 2. gr. og 5. gr. Skattstjórinn segir í úrskurði sínum: „Á árinu 1988 var lágmarksfjárhæð sem skapaði rétt til skattafsláttar kr. 24.571,- en þ.s. af heildarinnleggi kæranda eru einungis kr. 19.500,- er skapa rétt til skattafsláttar þá er kröfu kærenda hafnað.“
Við gerum tvær athugasemdir við þessa setningu. Í fyrsta lagi er einkennilegt að viðurkenna í setningunni að kr. 19.500.- skapi rétt til skattafsláttar en hafna svo kröfunni um skattafslátt. Líklega eru það þó mannleg mistök að skrifa setninguna svona óskýrt. Mestu máli skiptir að kröfunni er hafnað þar sem lágmarksfjárhæð sem skapaði rétt til skattafsláttar var á árinu 1988 kr. 24.571.- að dómi skattstjórans. Á þetta verður ekki fallist enda ekki hægt að skilja lögin á þennan hátt.
Í lögunum segir (2. gr.): „Í samningnum skal kveðið á um reglubundinn sparnað...“ og ennfremur: „Á hverju heilu tekjuári skal lágmarksfjárhæð vera 12.000 kr. ...“ Vegna vísitölubreytinga mun sú fjárhæð hafa verið kr. 24.571.- árið 1988. Þetta þýðir ekki að lágmarksfjárhæð sem skapar rétt til skattafsláttar sé kr. 24.571.-, heldur að lágmarkssparnaður ársins skuli vera kr. 24.571.-. Undirrituð náðu því lágmarki því sparnaður ársins nam kr. 26.000.- hjá þeim, sbr. meðfylgjandi reikningsyfirlit.
Í 5. gr. laganna segir: „Dragist innborgun umsamins innleggs eða hluta þess fram yfir lok þess ársfjórðungs er það skyldi lagt inn skv. samningi við banka eða sparisjóð skv. 2. gr. skapar sá hluti innleggs, sem dregst fram yfir lok ársfjórðungs, ekki rétt til skattafsláttar.“ Af þessu má álykta að þau innlegg sem ekki dragast fram yfir tímamörkin skapi rétt til afsláttar. Þau námu samtals kr. 19.500.- hjá undirrituðum og er því farið fram á að sú fjárhæð skapi rétt til skattafsláttar og að skattafsláttur verði ákveðinn í samræmi við það.“
Með bréfi, dags. 24. október 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Ríkisskattstjóri telur að fallast beri á kröfu kæranda, enda verður eigi litið svo á að lög nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga, verði skýrð eða skilin svo að þau girði fyrir hinn umkrafða skattafslátt.“
Mál þetta varðar rétt kæranda, A, til skattafsláttar, er nemur fjórðungi tilfærðs innleggs 19.500 kr. á húsnæðissparnaðarreikning, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 24, 17. janúar 1989, um húsnæðissparnaðarreikninga. Kærandi hefur sýnt fram á, að lágmarksfjárhæð samkvæmt lögum, sem er skilyrði fyrir afslætti þessum, hafi verið náð. Samkvæmt framlögðu reikningsyfirliti hefur skilyrði um ársfjórðungslegt innlegg aðeins verið uppfyllt að því er varðar tvö tímabil ársins 1988 af fjórum, þ.e. 1. og 4. tímabil eða 13.000 kr. samtals. Að þessu athuguðu og með vísan til þess, sem fram kemur í kæru og kröfugerð ríkisskattstjóra að öðru leyti er krafa kæranda tekin til greina með 13.000 kr. innleggi til útreiknings skattafsláttar.