Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 6/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 3. gr. 5. og 9. tl. — 84. gr.  

Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Takmörkuð skattskylda — Heimilisfesti — Lögheimili — Íbúðarhúsnæði — Notkun húsnæðis — Eignarskattsskylda — Eignarskattsstofn — Fasteign — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Útleiga — Húsaleigutekjur — Eignarskattur — Brottför úr landi — Brottflutningur

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 4. desember 1989, kemur fram um kæruatriði:

„Kærður er úrskurður skattstjóra dags. 17.11.89 vegna álagningar gjalda 1989.

Umbj. okkar fluttu lögheimili til Danmerkur 1988 og dvöldu þar til 1989. Þau leigðu ekki út íbúðarhús sitt og höfðu ekki af því neinar tekjur meðan á fjarveru þeirra stóð.

Með hliðsjón af þessu, sbr. ákvæði 5. og 9. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, telja umbj. okkar að þau séu ekki skattskyld til eignarskatts af þeim eignum sem fram koma á framtali þeirra 1989.

Krafa þeirra er því sú að álagður eignarskattur, kr. 29.502 og sérstakur eignarskattur, kr. 6.146 hjá hvoru þeirra, verði felldur niður.“

Af hálfu ríkisskattstjóra var með bréfi, dags. 20. nóvember 1990, lögð fram svohljóðandi kröfugerð í málinu:

„Í málinu liggur fyrir að ekki var um leigutekjur að ræða hjá kærendum á árinu 1988. Með vísan til þessa og sbr. 5. og 9. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981 þykir bera að fallast á kröfur kærenda.“

Fallist er á kröfu kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja