Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 7/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 51/1968 — 12. gr.   Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 92. gr. — 93. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 96. gr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. — 106. gr. 1. og 2. mgr. — 118. gr.   Bréf ríkisskattstjóra, dags. 26. apríl 1989, varðandi framlengingu framtalsfresta framtalsárið 1989.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Álag vegna vantalins skattstofns — Framtalsfrestur — Viðbótarframtalsfrestur — Heimild fjármálaráðherra til að breyta tímaákvörðunum og frestum — Launamiði — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda launagreiðenda — Rekstrarkostnaður — Stöðvargjöld — Vöruflutningar — Vörubifreiðaakstur — Fæðiskostnaður — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Fæði atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Frádráttarheimild — Eigin atvinnurekstur — Bókhald — Bókhaldsfylgiskjöl — Færslugögn bókhalds — Bókhald, kröfur til fylgiskjala — Málsmeðferð áfátt — Álagningarmeðferð skattstjóra — Kærumeðferð skattstjóra

Kærandi hafði með höndum vöruflutninga með vörubifreið. Hann taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1989 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi skv. heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattframtal kæranda barst skattstjóra hinn 22. maí 1989. Með bréfi, dags. 6. júlí 1989, krafði skattstjóri kæranda um reikninga yfir gjaldaliðinn stöðvargjald o.þ.h. að fjárhæð 1.113.735 kr. á rekstrarreikningi fyrir árið 1988 svo og um framlagningu launamiða 66.315 kr. vegna fæðiskostnaðar launþega kæranda á árinu 1988. Tók skattstjóri fram, að skattframtalið biði afgreiðslu sem skattkæra, en yrði afgreitt er fullnægjandi svör hefðu borist við bréfinu. Í bréfi, dags. 13. júlí 1989, gerði umboðsmaður kæranda grein fyrir hinum umspurðu atriðum og lagði fram gögn. Kom fram, að umræddur liður væri stöðvargjöld hjá A hf. 780.376 kr., er hefði verið offærður um 6.239 kr. og stöðvargjöld hjá B sf. 327.120 kr. eða samtals 1.107.496 kr. Lagði umboðsmaðurinn fram ljósrit kvittana um þetta. Þá væri fæðiskostnaður kostnaður kæranda sjálfs á ferðum hans milli Akureyrar og Reykjavíkur. Umboðsmaðurinn tók fram, að kærandi hefði framlengdan frest frá ríkisskattstjóra til 22. maí 1989.

Með kæruúrskurði, dags. 29. september 1989, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kæranda árið 1989 til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 með breytingum að því er varðar gjaldfærð stöðvargjöld og fæðiskostnað. Í kæruúrskurðinum segir svo:

„1. Fæðiskostnaður kr. 66.315 er felldur af rekstrarreikningi, en ekki er heimild til frádráttar eigin fæðis.

2. Afgreiðslugjöld eru lækkuð um kr. 333.359, þ.e. kr. 6.239 skv. bréfi yðar 13.07. og kr. 327.120 „stöðvargjöld til B“, en bleðill sá, sem þér sendið með bréfi yðar 13.07. í ljósriti er svo langt frá því að uppfylla skilyrði bókhaldslaga, að ekki er unnt að samþykkja hann sem reikning vegna söluskattsskylds kostnaðar.

Krafa kæranda er því tekin til greina.

Ekki þykir ástæða til að beita heimild í 106. gr. skattalaga um álag vegna of seint framkomins skattframtals, að þessu sinni miðað við ástæður. Þó er lagt 25% álag skv. heimild í sömu grein á vantalda gjaldstofna. Vegna framkomins misskilnings skal tekið fram, að framtalsfrestur var til 08.05., þar sem umboðsmaður yðar uppfyllti ekki skilyrði framlengds frests.“

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. október 1989. Þess er krafist, að kostnaður vegna vöruafgreiðslu B sf. 327.454 kr. verði tekinn til greina og fylgdi ársreikningur B kærunni, er sýnir nánar, hvernig kostnaður þessi er tilkominn. Þá er þess krafist, að fæðiskostnaður 66.315 kr. verði tekinn til greina. Þessi liður er skýrður svo, að kærandi sé búsettur á Akureyri og hafi það að atvinnu að aka vörum milli Akureyrar og Reykjavíkur. Hver ferð taki u.þ.b. þrjá daga og ljóst sé, að á þessum langa tíma þurfi kærandi að kaupa sér fæði. Sé það einvörðungu fæðiskostnaður á þessum ferðum, sem farið sé fram á, að verði viðurkenndur frádráttarbær kostnaður.

Með bréfi, dags. 5. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt bréfi ríkisskattstjóra, dags. 26. apríl 1989, var lokaskilafrestur skattframtala einstaklinga með atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi ákveðinn til 8. maí 1989, en að uppfylltum þargreindum skilyrðum til 22. maí 1989. Þann dag barst skattframtal kæranda árið 1989. Skattstjóri taldi það of seint framkomið, með því að hin sérstöku skilyrði fyrir framlengdum fresti hefðu ekki verið uppfyllt. Því hefur ekki verið mótmælt af hálfu kæranda og umboðsmanns hans. Verður því við það miðað, að framtalið hafi borist að framtalsfresti liðnum. Bar skattstjóra því að taka framtalið sem kæru skv. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er hann og kveðst gera. Öðrum þræði fór þó skattstjóri í reynd með framtalið eins og það hefði borist innan tilskilins framtalsfrests, með því að hann krafði kæranda upplýsinga á grundvelli 1. mgr. 96. gr. nefndra laga um tiltekin atriði framtalsins með bréfi sínu, dags. 6. júlí 1989, og tók jafnframt fram, að framtalið biði afgreiðslu sem skattkæra. Mismunandi reglur um meðferð framtals eftir því, hvort það berst innan tilskilins framtalsfrests eða ekki, hafa því blandast saman, og brenglast í höndum skattstjóra. Þessi málsmeðferð fékk því eigi staðist. Út af fyrir sig þykir ekki ástæða til þess að ómerkja breytingar skattstjóra eins og mál þetta liggur fyrir. Í efnissök þykir bera að taka kröfu kæranda til greina varðandi gjaldfærða greiðslu 327.454 kr. til B sf. með vísan til fyrirliggjandi gagna. Hins vegar þykir bera að synja kröfu kæranda varðandi gjaldfærðan fæðiskostnað, enda liggur fyrir, að um var að ræða kostnað kæranda sjálfs.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja