Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 11/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 23/1956   Lög nr. 73/1980 — 35. gr.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður — 21. gr. 1. mgr. 3. ml. — 31. gr. 1. tl. — 116. gr.   Reglugerð nr. 245/1963 — 17. gr. B-liður 3. tl. — 27. gr. I-liður  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsgreinargerð — Aðstöðugjaldsstofn — Bústofnsskerðing — Rekstrarkostnaður — Niðurskurður sauðfjár — Sauðfjárveikivarnir — Bætur vegna niðurskurðar sauðfjár — Búrekstur — Landbúnaður — Skattmat ríkisskattstjóra — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat búfjár — Söluhagnaður — Lausafé — Söluhagnaður lausafjár — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Söluhagnaður af búfé — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Söluhagnaður, frestun skattlagningar — Söluhagnaður, útreikningur — Útreikningur söluhagnaðar — Eignarnám — Eignarnámsbætur

Málavextir eru þeir, að fé var skorið niður vegna riðuveiki og fengu kærendur förgunarbætur af þeim sökum 713.835 kr. sem tekjufærðar voru á landbúnaðarskýrslu. Jafnframt var gjaldfærð bústofnsskerðing 718.855 kr. Ágreiningsefni í máli þessu er skattaleg meðferð förgunarbóta þessara og aðstöðugjaldsskylda vegna eignabreytingar (bústofnsskerðingar) af þessum sökum svo sem hér segir:

1. Skattaleg meðferð förgunarbóta. Í gagni, er fylgdi skattframtali kærenda árið 1989, var tekið fram, að öllu sauðfé hefði verið fargað samkvæmt reglum um fjárskipti og kæmi því veruleg tekjuaukning fram í rekstri búsins, þar sem áburðarkaup og annar kostnaður vegna heyskapar yrði minni. Mætti því kalla þessa tekjuaukningu óbeinan söluhagnað, er hrykki þó skammt á móti auknum útgjöldum, þegar og ef fjárbúskapur hæfist á ný. Var vísað til 3. ml. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, varðandi frestun söluhagnaðar vegna altjóns- eða eignarnámsbóta ófyrnanlegra eigna um 3 ár og færslu hans til lækkunar á stofnverði sams konar eigna, er aflað væri í staðinn. Fóru kærendur fram á, að mega leggja í endurnýjunarsjóð „jafnvirði 37 kg líflambs + hálfs fóðurkostnaðar að frádregnum förgunarbótum x fjöldi fullorðinna kinda, sem við áttum um áramót 87/88.“ Fjárhæð skv. reikniaðferð þessari nam 378.672 kr. Kærendur færðu meðal veltufjármuna ógreiddar förgunarbætur að frádreginni nefndri fjárhæð 378.672 kr., er færð var meðal eigin fjár sem endurnýjunarsjóður. Jafnframt var fjárhæðin gjaldfærð í uppgjöri hreinna tekna af búrekstri í framhaldi landbúnaðarskýrslu.

Með bréfi, dags. 20. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kærendum um ýmsar leiðréttingar og breytingar á skattframtali þeirra árið 1989 og þar á meðal hafnaði hann fyrrgreindri skattalegri meðferð förgunarbóta. Af hálfu kærenda var þess krafist í kæru, dags. 22. ágúst 1989, að heimilað yrði frestun á skattlagningu hluta förgunarbóta. Í greinargerð með kæru um þetta atriði kom fram, að með því að ríkisskattstjóri mæti fóðurbirgðir og fóðrun 50% af skattmati búfjár mætti álykta, að 50% væru eignamat búpeningsins í hendi seljanda og mismunur þess og söluverðs væri þar af leiðandi söluhagnaður. Með því að ekki væru til í skattalögum sérstök ákvæði um sölu á búpeningi yrði að telja, að sala og söluígildi búfjár mættu fara eftir almennum reglum um söluhagnað ófyrnanlegra eigna í atvinnurekstri. Álykta mætti, að skattaleg meðferð förgunarbóta vegna riðuniðurskurðar mætti vera þannig, að frá bótunum væru 50% skattmats bústofnsins dregin og mismunurinn væri söluhagnaður sem fresta mætti skv. 3. ml. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 75/1981, en önnur 50% teldust birgðalækkun, sem gjaldfærðist.

Með kæruúrskurði, dags. 3. nóvember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kærenda á svofelldum forsendum:

„Tekjur af sölu búfjár á fæti sem og innlagðar afurðir hjá afurðastöðvum falla undir tekjuskilgreiningu B-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Skerðingu bústofnseignar er heimilt að gjaldfæra skv. 31. gr. laganna eftir eignamati ríkisskattstjóra, sbr. 116. gr. - Framtalsskil bænda á landbúnaðarskýrslu eru samkvæmt þessum ákvæðum skattalaga.“

Með kæru, dags. 25. nóvember 1989, hafa kærendur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og ítreka kröfur sínar um skattmeðferð förgunarbótanna með svofelldum rökum:

„Bústofn er hluti af fastafjármunum búsins (fyrirtækisins) þ.e. stofnbúnaður. Þegar bóndi er skikkaður til þess að endurnýja þennan stofnbúnað, að opinberum fyrirmælum, verður ekki á annað fallist en honum sé heimilt að geyma þá peningaupphæð sem sannanlega er eða verður endurstofnverð þessa stofnbúnaðar búsins þ.e. að segja að koma upp jafn mörgum ám og var fargað. Fóðurkostnað lambsins reikna ég aðeins að hálfu, þar sem ég tel að veturgömul ær sé verðmætari en meðalverð ánna sem var fargað.“

2. Aðstöðugjaldsstofn. Í greinargerð sinni um aðstöðugjaldsstofn drógu kærendur bústofnsskerðingu vegna fjárskipta út úr stofninum. Ekki féllst skattstjóri á þetta, sbr. bréf hans, dags. 20. júlí 1989. Í kæru, dags. 22. ágúst 1989, héldu kærendur því fram, að eignabreyting (bústofnsskerðing) á búfé gæti ekki frekar en birgðabreytingar myndað aðstöðugjaldsstofn. Hafnaði skattstjóri þessu í kæruúrskurði, dags. 3. nóvember 1989. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 25. nóvember 1989, ítreka kærendur kröfu sína um niðurfellingu bústofnsskerðingar úr aðstöðugjaldsstofni.

Með bréfi, dags. 21. maí 1990, hefur ríkisskattstjóri krafist þess, að kæruúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans um bæði kæruefnin.

Um 1. tl. Sauðfé kærenda var skorið niður skv. lögum nr. 23/1956, um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra. Bætur skv. lögum þessum tekjufærðu kærendur í landbúnaðarskýrslu sinni fyrir rekstrarárið 1988. Jafnframt gjaldfærðu kærendur bústofnsskerðingu, sem stafaði af niðurskurði þessum. Með vísan til þessa og þar sem ekki verður séð, að fyrir hendi sé lagaheimild fyrir hinni umkröfðu meðferð förgunarbóta er kröfu kærenda hafnað.

Um 2. tl. Bústofnsskerðing skv. 3. tl. B-liðs 17. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, telst til rekstrarkostnaðar skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Telst bústofnsskerðingin því aðstöðugjaldsskyld. Er kröfu kærenda um þetta kæruatriði því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja