Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 24/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 92. gr. — 96. gr. 1. og 3. mgr.  

Rekstrarkostnaður — Hráefniskostnaður — Fiskvinnsla — Hákarlsverkun — Ólögmætt þvingunarúrræði — Upplýsingaskylda — Afurðamiði — Sjávarafurðamiði — Upplýsingaskylda hráefniskaupanda — Skattframtal, vefenging — Sönnun — Sjómaður — Afli — Afli í eigu sjómanna — Sjómaður, afli í eigu sjómanna — Málsmeðferð áfátt — Sjónarmið, sem stjórnvaldsákvörðun er byggð á — Ólögmæt sjónarmið — Rannsóknarregla — Forsendur ákvörðunar skattstjóra — Rangar forsendur skattstjóra

Kærandi hafði fiskverkun með höndum. Á rekstrarreikningi fyrir starfsemina árið 1988 gjaldfærði hann keypt hráefni 1.722.322 kr. Þar af var eigin afli 184.800 kr. Kærandi skilaði sjávarafurðamiðum fyrir fiskkaup að fjárhæð 755.782 kr. Með bréfi, dags. 8. maí 1989, krafði skattstjóri kæranda um skil á afurðakaupamiðum fyrir kaup á hráefni að fjárhæð 781.740 kr., þ.e.a.s. fyrir framangreindum mismun, ella ætti hann ekki rétt á frádrætti þessa gjaldaliðs frá tekjum. Svar skyldi berast fyrir 17. maí 1989. Ekki barst svar innan svarfrestsins og með bréfi, dags. 14. júlí 1989, lækkaði skattstjóri gjaldfærð hráefniskaup um 200.000 kr. og hækkaði hreinar tekjur af atvinnurekstri m.a. um þá fjárhæð.

Í bréfi, dags. 28. júlí 1989, mótmælti kærandi þessari breytingu skattstjóra. Vísaði kærandi til greinargerðar, dags. 14. mars 1989, er hefði fylgt skattframtali hans árið 1989, varðandi mismun á fjárhæð sendra sjávarafurðamiða og gjaldfærðs hráefnis, en mismunur þessi næmi 966.540 kr. þar kæmi fram, að þessi mismunur væri greiðsla fyrir keyptan hákarl. Hákarlinn hefði verið keyptur af áhöfnum skipa en ekki af útgerðum þeirra og skiptust kaupin á marga aðila, þ.e.a.s. áhafnir 15 togara og 8 rækjuveiðiskipa. Væru þetta smáar upphæðir í hlut hvers og eins. Áhafnir söfnuðu þessum krónum í sjóð og gerðu sér dagamun á sjómannadaginn, þannig að ríkisvaldið fengi þessar krónur í öðru formi en tekjuskatti. Í bréfi kæranda, dags. 28. júlí 1989, kom fram, að hákarlinn væri aukaafli, sem ekki hefði verið nýttur þar vestra í 70–80 ár. Kvað kærandi gersamlega útilokað að senda afurðamiða á hvern lögskráðan sjómann á skipin hverju sinni og vafamál að bæjarfógetar og sýslumenn gæfu þær upplýsingar. Kom fram, að um gæti verið að ræða 345 manns á togurum og 56 rækjuveiðisjómenn. Kærandi tók fram, að fengi hann kostnaðinn ekki dreginn frá tekjum, yrði hann að hætta framleiðslunni og sjómennirnir myndu henda þessum afla eins og þeir hefðu gert, þar til hann hefði farið að kaupa hákarlinn af þeim. Lagði kærandi áherslu á þá sérstöðu málsins, að það væru sjómennirnir, sem ættu þennan afla, en ekki útgerðirnar, enda myndi hann senda sjávarafurðamiða, ef svo væri.

Bréfið tók skattstjóri sem kæru með kæruúrskurði, dags. 25. september 1989, og synjaði kröfu kæranda á þeim forsendum, að kæranda bæri að skila sjávarafurðamiðum vegna nefndra hráefniskaupa skv. 92. gr. laga nr. 75/1981 svo sem hann hefði verið krafinn um, en ekki gert.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 23. október 1989. Kærandi viðurkennir skyldu sína til að skila sjávarafurðamiðum vegna hákarlskaupanna en bendir á örðugleika við það svo sem hann hefur reifað við meðferð málsins hjá skattstjóra. Hann hafi hins vegar borið umræddan kostnað og sé hákarlinn veginn á hafnarvog X-hafnar þannig að ekki fari á milli mála, hvert magnið sé. Kveðst kærandi vera eini aðilinn á landinu, sem verki hákarl í einhverju magni. Starfseminni verði hann að hætta verði andvirði framleiðslunnar talið hreinn hagnaður.

Með bréfi, dags. 2. ágúst 1990, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið, er gæfu tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Skattstjóri hefur byggt lækkun sína á nefndum gjaldalið, þ.e. hákarlskaupum kæranda, eingöngu á því, að sjávarafurðamiðum hafi ekki verið skilað sbr. 4. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981. Efnislega hefur skattstjóri ekki vefengt gjaldalið þennan. Að virtum þessum forsendum skattstjóra og með því, að lögfest eru sérstök úrræði til þess að knýja fram nefndar upplýsingar eða aðrar leiðir til þess að fá þær fram, þykir rétt að taka kröfu kæranda til greina, enda þykja eigi efni til vefengingar á þessum kostnaði kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja