Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 27/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 34. gr. — 41. gr. — 45. gr. — 92. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml.
Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Rekstrarkostnaður — Fæðiskostnaður — Kaffikostnaður — Fæðishlunnindi — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda launagreiðanda — Ólögmætt þvingunarúrræði — Bifreiðakostnaður — Bifreið — Rekstraryfirlit fólksbifreiðar — Einkanot — Einkanot bifreiðar — Fyrning — Fyrnanleg eign — Fyrning, almenn — Almenn fyrning — Lausafé — Fyrnanlegt lausafé — Ófyrnanlegt lausafé — Atvinnurekstrareign — Gjaldfærsla kostnaðarverðs eigna og eignasamstæðna á kaupári án tillits til endingartíma — Niðurlagsverð — Eftirstöðvar fyrningarverðs — Gjaldfærsla eftirstöðva fyrningarverðs — Fyrnanleg eign, ónothæf — Ónothæf fyrnanleg eign — Fyrningarverð — Lok fyrningar — Fyrningartími — Gjaldfærsla kostnaðarverðs einstakra eigna og eignasamstæðna á kaupári, hámarksfjárhæð — Myndverk — Myndlistarskóli — Skólarekstur — Málsmeðferð áfátt — Sjónarmið, sem stjórnvaldsákvörðun er byggð á — Ólögmæt sjónarmið — Rannsóknarregla — Forsendur ákvörðunar skattstjóra — Rangar forsendur skattstjóra
Kærandi rekur myndlistarskóla og lét ársreikning vegna þeirrar starfsemi fylgja skattframtali sínu árið 1989. Skattframtalið barst skattstjóra hinn 24. maí 1989 eða að liðnum framtalsfresti. Var það tekið sem kæra af hálfu skattstjóra og lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 í stað áætlunar með kæruúrskurði skattstjóra, dags. 1. september 1989, án álags vegna síðbúinna framtalsskila. Skattstjóri gerði nokkrar breytingar á framtalinu og eru þær ágreiningsefnin í máli þessu svo sem hér segir:
1. Kaffikostnaður:
Í rekstrarreikningi myndlistarskólans gjaldfærði kærandi kostnað vegna kaffistofu 71.091 kr. Þennan kostnað felldi skattstjóri niður á þeim forsendum, að engin færðishlunnindi hefðu komið fram á launamiðum. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 28. september 1989, gerir umboðsmaður kæranda grein fyrir því, að umræddur gjaldaliður feli í sér allan kostnað vegna reksturs kaffistofu fyrir skólann í heild, þ.e. fyrir kennara, nemendur og ekki síst gesti skólans. Þar sé mikill gestagangur svo sem títt sé í skólum; móttaka opinberra gesta; komur fyrirlesara o.fl. Áætla mætti, að um helmingur kostnaðar væri vegna kennara. Ekki hafi tíðkast hingað til, að óverulegur kostnaður væri færður starfsmönnum til hlunninda, enda ógjörningur að henda reiður á hlunnindum hvers og eins.
2. Myndverkakaup:
Skattstjóri felldi niður gjaldfærð myndverkakaup 115.080 kr. og færði til eignar með þeirri athugasemd, að listmunir væru ekki fyrnanleg eign, enda rýrnuðu þeir að jafnaði ekki í verði. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 28. september 1989, mótmælir umboðsmaður kæranda niðurfellingu þessa gjaldaliðar með svofelldum rökum: „Myndverk þau er skólinn kaupir eru að jafnaði eftir yngri listamenn og keypt í þeim tilgangi að nemendur fái notið framsækinnar myndlistar. — Fjárfestingargildi slíkra kaupa er umdeilanlegt og kaupin ekki gerð með framtíðarhagnaðarsjónarmið í huga. Að mati kæranda teljast myndverkakaupin þáttur í almennu myndlistaruppeldi og falla því undir almennan rekstrarkostnað þar sem myndlistarkennsla er megintilgangur skólans. – Um fleiri en eitt óskyld myndverkakaup er að ræða í fyrrgreindum kostnaðarlið og falla fyrrgreind kaup því ekki undir afskriftarreglur sbr. 41. gr. skattalaga.“
3. Bifreiðakostnaður:
Skattstjóri lækkaði gjaldfærðan rekstrarkostnað bifreiða úr 150.870 kr. í 75.000 kr., enda þætti fara saman óeðlilega lítill einkaakstur og óeðlilega mikill akstur vegna atvinnurekstar. Skv. rekstraryfirliti fólksbifreiðar RSK 4.03 nam heildarbifreiðakostnaður 218.658 kr. og heildarakstur 15.500 km. Akstur í þágu atvinnurekstrar var talinn 10.700 km og samsvarandi hluti kostnaðar. Í kæru, dags. 28. september 1989, er skilmerkileg grein gerð fyrir akstri og akstursþörfum vegna reksturs myndlistarskólans og þess getið jafnframt, að keypt hefði verið önnur bifreið 28. september 1988 og hún eingöngu notuð til einkaþarfa. Eknir kílómetrar til áramóta þeirrar bifreiðar hefðu verið 4.000. Samtals hefði akstur í einkaþágu því numið 8.800 km.
4. Fyrning áhalda og húsgagna:
Skattstjóri lækkaði fyrningu eigna þessara um 40.498 kr. og hækkaði eignfærslu að sama skapi, enda væri óheimilt að fyrna eignir niður fyrir 10% stofnverðs. Í kæru, dags. 28. september 1989, er gerð grein fyrir því, að um hefði verið að ræða gjaldfærslu úrelts búnaðar.
Með bréfi, dags. 24. október 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu:
„Um 1. Að kröfu kæranda verði hafnað. Kaffikostnaður starfsmanna er ekki frádráttarbær kostnaður skv. 31. gr. laga nr. 75/1981.
Um 2. Þar sem kærandi hefur ekki gert grein fyrir kaupverði einstakra myndverka er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.
Um 3. Þrátt fyrir skýringar í kæru þykir bifreiðakostnaður hæfilega metinn hjá skattstjóra sé miðað við starfsemi þá sem um er að ræða, og er þá tillit tekið til þess að gjaldfærður ferðakostnaður nemur 75.212 kr.
Um 4. Með hliðsjón af 34. gr. laga nr. 75/1981 og að virtum skýringum í kæru er fallist á gjaldfærslu.“
Um 1. tl.
Forsendur skattstjóra fá ekki staðist varðandi breytingu þessa, enda eru lögfest sérstök úrræði til að knýja fram greindar upplýsingar. Að þessu virtu og þar sem breytingin er engum öðrum rökum studd þykir verða að ómerkja hana.
Um 2. tl.
Með hliðsjón af starfsemi kæranda og skýringum hans þykir ekki liggja fyrir að honum sé hin umdeilda gjaldfærsla óheimil. Er fallist á kröfu kæranda um þetta atriði.
Um 3. tl.
Að virtum öllum málavöxtum og skýringum kæranda þykir mega taka kröfu hans til greina um þetta kæruefni.
Um 4. tl.
Með vísan til þess, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda um þetta kæruatriði.