Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 28/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 7. gr. A-liður 1. tl. — 60. gr. 2. mgr. — 90. gr. 2. mgr. — 95. gr. 2. mgr.  

Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Skattskylda einstaklings á dánarári — Sköttun einstaklings — Sköttun einstaklings á dánarári — Dánarár — Lok skattskyldu — Lok skattskyldu einstaklings — Dánarbú — Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Lífeyrir — Lífeyrisgreiðslur — Lífeyrissjóður — Lífeyrir frá lífeyrissjóði — Lífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins — Tryggingastofnun ríkisins — Almannatryggingar — Vasapeningar frá Tryggingastofnun ríkisins — Tekjutímabil — Dreifing tekna á tekjutímabil til skattlagningar — Eftirágreiðsla lífeyris — Kröfustofnunarregla

Málavextir eru þeir, að A andaðist 1988 og var dánarbúi hans skipt 20. júní 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda var áætluð álagning á A vegna tekna hans í lifanda lífi og tekjuskatts- og útsvarsstofnar ákveðnir 278.000 kr. Lagt var fram skattframtal í kærufresti eða hinn 23. ágúst 1989. Í framtalinu voru tilgreindar lífeyrisgreiðslur annars vegar frá Lífeyrissjóði Dagsbrúnar og Framsóknar 103.817 kr. og hins vegar frá Lífeyrissjóði Hlífar og Framtíðarinnar 151.373 kr. Þá var um að ræða greiðslu vasapeninga 22.467 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins. Alls námu því tekjuskatts- og útsvarsstofnar 277.657 kr. Með kæruúrskurði, dags. 27. nóvember 1989, féllst skattstjóri á að byggja álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 á framtalinu og breytti álögðum gjöldum til samræmis við það. Ekki var álagi bætt við skattstofna.

Af hálfu dánarbúsins hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 27. desember 1989. Fylgdu kærunni bréf nefndra lífeyrissjóða, þar sem kom fram að umræddar lífeyrisgreiðslur, sem inntar voru af hendi á árinu 1988, voru vegna áranna 1984–1988 og var gerð sundurliðuð grein fyrir því af hálfu lífeyrissjóðanna, hvaða fjárhæð tilheyrði hverju ári. Í kærunni var gerð grein fyrir því, hvað varð þess valdandi, að greiðslur drógust til kæranda og því haldið fram, að hefðu greiðslur þessar verið inntar af hendi á réttum tíma, hefði hver greiðsla verið langt undir skattleysismörkum. Væri því ekki rétt að skattleggja þær nú.

Með bréfi, dags. 20. nóvember 1990, fellst ríkisskattstjóri á kröfu kæranda með hliðsjón af fram komnum skýringum og aðstæðum að öðru leyti.

Að því virtu, sem upplýst er um nefndar lífeyrisgreiðslur og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja