Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 33/1991

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 53. gr. 4. mgr.   Lög nr. 97/1988 — 5. gr. — 21. gr.  

Hlutafélag — Verðbreytingarfærsla — Stofn til verðbreytingarfærslu — Verðbreytingarfærslustofn — Gjaldfærsla vegna verðbreytingar — Eignir við útreikning verðbreytingarfærslu — Skuldir við útreikning verðbreytingarfærslu — Útistandandi skuldir — Útistandandi viðskiptaskuldir — Skuldir hluthafa við hlutafélag — Inneignir hluthafa hjá hlutafélagi — Hluthafi — Hluthafalán — Arður — Arður, útistandandi — Gildistaka skattalaga

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1988. Er kæra umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar, dags. 22. september 1989, svohljóðandi:

„Málavextir eru þeir, að skattstjóri fellir niður úr stofni til gjaldfærslu vegna verðlagsbreytinga skammtímakröfur að fjárhæð kr. 1.112.370 á þeirri forsendu að þær tengist ekki tekjuöflun félagsins.

Ofangreindar skammtímakröfur greinast þannig:

Inneign hjá hluthöfum og tengdum aðilum 792.649

Viðskiptakrafa, X h.f. 316.800

Óinnheimtur arður 2.921

1.112.370

Sú forsenda sem skattstjóri byggir á ákvörðun sína á ekki við hvað varðar viðskiptakröfur og óinnheimtan arð. Er hér um misskilning að ræða hjá skattstjóra.

Í 3. og 4. mgr. 53. gr. skattalaganna, eins og þær hljóðuðu, áður en breyting var gerð skv. 5. gr. l. 97/1988, eru tilteknar þær eignir og skuldir sem mynda stofn til verðbreytingarfærslu. Var inneign hjá hluthöfum og tengdum aðilum ekki undanskilin í stofni til verðbreytingarfærslu, eins og 53. gr. hljóðaði áður en breyting skv. 5. gr. l. 97/1988 var gerð. Með 5. gr. laga nr. 97/1988 var hins vegar gerð eftirfarandi breyting á 4. mgr. 53. gr.

„Skuldir og inneignir stjórnarmanna og framkvæmdarstjóra félaga, sbr. 1., 2. og 4. tölulið 2. gr., svo og skuldir og inneignir hluthafa í hlutafélögum og ógreidd hlutafjárloforð, teljast ekki til eigna eða skulda við útreikning þennan nema því aðeins að skuldir þessar og inneignir séu vaxtareiknaðar með sambærilegum kjörum og gilda í innlánsstofnunum á hverjum tíma. Skuldir og inneignir eignaraðila sameignarfélaga, sbr. 3. tölul. 2. gr., teljast ekki til eigna eða skulda við útreikning þennan“.

Þessi breyting á hins vegar eingöngu við gjaldárið 1989 og síðar. Af ofangreindu verður ekki annað séð en inneign félagsins hjá ofangreindum aðilum myndi stofn til verðbreytingarfærslu gjaldárið 1988. Ef álit skattstjóra er á rökum reist hefði löggjafarvaldið ekki talið sig þurfa að gera ofangreinda breytingu á skattalögunum.

Með vísan til framanritaðs er gerð sú krafa að breyting skattstjóra á innsendu framtali 1988 verði felld niður og tilgreint yfirfæranlegt tap á skattframtal 1989 verði látið standa óbreytt.“

Með bréfi, dags. 24. september 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Fallist er á kröfu varðandi viðskiptakröfur og óinnheimtan arð.

Hinsvegar er þess krafist að synjað verði kröfu kæranda varðandi lán til hluthafa. Kærandi hefur ekki gert neina grein fyrir þessu kæruatriði, þ.e. hverjir skuldarar séu, fjárhæð hverrar skuldar og lánakjör að öðru leyti.“

Með vísan til þess sem fram kemur í kröfugerð umboðsmanns kæranda í kærunni til ríkisskattanefndar er fallist á kröfur hans í málinu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja