Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 35/1991

Gjaldár 1988

Lög nr. 73/1980 — 24. gr. — 36. gr. — 37. gr. 4. mgr. — 39. gr.   Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 5. tl. — 91. gr. — 96. gr. 1., 2. og 4. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsskylda — Aðstöðugjaldsgreinargerð — Verslun — Útgáfustarfsemi — Atvinnurekstur — Trúfélag — Félag — Framtalsskylda — Skattskylda — Skattskylda félags — Lögaðili — Skattfrelsi — Skattfrjáls lögaðili — Lögaðili, skattfrjáls — Almenningsheill — Endurákvörðun — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Endurákvörðun skattstjóra — Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður

Kærð er beiting álags á aðstöðugjaldsstofn til álagningar aðstöðugjalds vegna starfsemi X-forlags á árinu 1987.

Málavextir eru þeir, að skattstjóri ritaði kæranda, sem er trúfélag, bréf, dags. 8. nóvember 1988, og kvaðst hafa í hyggju að endurákvarða opinber gjöld hans 1988 skv. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt úrskurði ríkisskattanefndar nr. 540/1988 væri kærandi aðstöðugjaldsskyldur vegna atvinnurekstrar síns. Skattframtal 1988 hefði ekki borist skattstjóra. Hann hefði því í hyggju að áætla kæranda stofn til aðstöðugjalds gjaldárið 1988 vegna rekstrar á árinu 1987. Á áætlaðan gjaldstofn yrði lagt 25% álag skv. ákvæðum 106. gr. fyrrnefndra laga. Var kæranda gefinn 10 daga frestur til að koma að andmælum vegna fyrirhugaðra breytinga eða gefa skýringar.

Með bréfi, dags. 6. desember 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að hann hefði ákveðið í framhaldi af bréfi sínu, dags. 8. nóvember 1988, að áætla kæranda stofn til aðstöðugjalds 12.000.000 kr. að viðbættu 25% álagi eða alls 15.000.000 kr., enda hefðu mótmæli eigi komið fram af kæranda hálfu. Kæranda var því gert að greiða aðstöðugjald gjaldárið 1988 að fjárhæð 195.000 kr.

Af hálfu kæranda var þann 9. desember 1988 lagður fram ársreikningur 1987 fyrir X-forlag sem kæra vegna álagningu aðstöðugjalds á grundvelli áætlaðs stofns til aðstöðugjalds.

Þann 9. október 1989 kvað skattstjóri upp kæruúrskurð í máli þessu. Féllst skattstjóri á að leggja ársreikning X-forlags árið 1987 til grundvallar álagningu aðstöðugjaldsins. Hins vegar kvaðst skattstjóri í úrskurðinum hafa ákveðið að nýta sér heimild sína skv. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 til beitingar 25% álags á gjaldstofna. Ekki hefði verið sýnt fram á, að þær ástæður hefðu legið fyrir er leiða ættu til þess að fella bæri niður álag skv. 3. mgr. greinarinnar. Samkvæmt þessu yrði stofn til aðstöðugjalds ákvarðaður 11.277.502 kr.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af kæranda hálfu verið skotið til ríkisskattanefndar með bréfi umboðsmanns hans, dags. 1. nóvember 1989. Í því segir m.a.:

„Með bréfi dagsettu 9. október s.l. leggur Skattstofan í Reykjavík á X í Reykjavík, aðstöðugjald vegna starfsemi sinnar á árinu 1987, á grundvelli úrskurðar Ríkisskattanefndar nr. 540/1988 um aðstöðugjaldsskyldu X-forlags. Álagning er byggð á innsendum ársreikningi 1987 í kjölfar úrskurðar Ríkisskattanefndar. Skattstjóri nýtir sér heimild til álagsbeitingar á gjaldstofna. Úrskurður skattstjóra er hér með kærður f.h. þessa umbjóðanda okkar og farið fram á að álag verði niður fellt, enda hefur hér verið um deilu að ræða við skattyfirvöld varðandi aðstöðugjaldsskyldu, og fyrsta gjaldárið sem aðstöðugjald er á […] lagt.“

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 5. desember 1990, fyrir gjaldkrefjenda hönd gert svofellda kröfu í máli þessu: „Eftir atvikum er fallist á kröfu kæranda.“

Fallist er á kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags á aðstöðugjaldsstofn vegna reksturs X-forlags.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja