Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 47/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 96. gr. 1. og 3. mgr. — 116. gr.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.  

Skattskyldar tekjur — Vantaldar tekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Frádráttarheimild — Akstursdagbók — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Kílómetragjald — Sérstakt gjald vegna aksturs í þágu vinnuveitanda — Ökutækjakostnaður, hámarksfjárhæð pr. ekinn kílómetra — Ökutækjakostnaður, sérstakt gjald — Frávísun — Frávísun vegna tilefnislausrar kæru — Endurupptaka úrskurðar skattstjóra — Endurupptaka máls — Kæra, tilefnislaus — Tilefnislaus kæra

Kærandi, sem er starfsmaður stofnunarinnar X, fékk greiddan ökutækjastyrk 149.820 kr. frá stofnuninni á árinu 1988. Ekki tekjufærði kærandi styrk þennan en færði fjárhæðina hins vegar til frádráttar tekjum í reit 32 í skattframtali árið 1989. Með bréfi, dags. 23. maí 1989, krafði skattstjóri kæranda um sundurliðaða greinargerð um heildarnotkun viðkomandi ökutækis og heildarrekstrarkostnað svo og um greinargerð frá launagreiðanda um ástæður fyrir greiðslu ökutækjastyrksins og hvernig hann hefði verið ákvarðaður. Gefinn var 10 daga svarfrestur. Ekki barst svar frá kæranda og með bréfi, dags. 20. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að móttekinn ökutækjastyrkur 149.820 kr. hefði verið færður til tekna í reit 22 og sama upphæð jafnframt felld niður úr reit 32.

Af hálfu kæranda voru þessar breytingar kærðar með kæru, dags. 9. ágúst 1989. Kvaðst kærandi aldrei hafa fengið greiddan ökutækjastyrk heldur kílómetragjald samkvæmt akstursdagbók. Fylgdi kærunni yfirlit yfir greiðslur til kæranda svo og ljósrit akstursdagbókar. Með kæruúrskurði, dags. 6. október 1989, ákvarðaði skattstjóri kæranda frádrátt á móti ökutækjastyrk í reit 32 136.298 kr. á svofelldum forsendum: „Skv. akstursdagbók fær kærandi greitt fyrir 8.321 km akstur. Hámark frádráttar takmarkast við kr. 16,38 á ekinn kílómetra skv. matsreglum ríkisskattstjóra.“

Með kæru, dags. 16. október 1989, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Kærandi mótmælir viðmiðun skattstjóra við 16,38 kr. pr. ekinn kílómetra, er sé almennt gjald. Hann fái svonefnt sérstakt gjald svo sem staðfest sé af fjármálastjóra X, sbr. yfirlýsingu, dags. 19. október 1989. Þá vísar kærandi til þess, að samkvæmt upplýsingum embættis ríkisskattstjóra sé akstur skv. akstursdagbók ekki skattskyldur, enda ekið samkvæmt taxta, sem ríkið sjálft hafi gefið út um kostnað við akstur pr. kílómetra, er breytist eftir því, hversu mikið sé ekið. Kærandi kveður gjald það, sem hann hafi fengið greitt, koma fram í ljósritum af gögnum, er hann hafi sent skattstjóra. Krefst kærandi þess, að skattlagning vegna ökutækjastyrks verði með öllu felld niður.

Með bréfi, dags. 24. október 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Með kæruúrskurði, dags. 20. október 1989, hefur skattstjóri tekið kröfu kæranda til greina. Er kæran til ríkisskattanefndar því tilefnislaus og vísað frá af þeim sökum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja